02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Ég varð nokkuð hissa í dag, þegar ég heyrði hv. 11. þm. Reykv., frsm. meiri hl. hv. fjhn., tala um ágæti söluskattsins. Það mun hafa verið á þá leið, að hv. þm. hafi sagt, að almennt væru menn sammála um ágæti söluskattsins. Ég varð hissa á þessu, því að þetta hef ég aldrei heyrt fyrr sagt um söluskattinn. Ég hef aldrei heyrt þennan skatt lofaðan, en oft heyrt hann lastaðan. Raunar tók hv. þm. sig nokkuð á litlu síðar, er hann viðurkenndi, að auðvitað hefði þessi skattur sína ágalla eins og aðrir tekjustofnar ríkisins. Hefði hann að síðustu bætt því við eða orðað það þannig, að söluskatturinn hefði flesta galla allra tekjustofna ríkisins, þá hefðum við fyrst orðið sammála.

Við 1. umr. þessa máls ræddi ég örlítið um söluskattinn, sem ég vil telja ekki ágætan, heldur illræmdan. Hann er einn liðurinn í frumvarpsbandormi þeim, sem hæstv. ríkisstj. ungaði út að kvöldi hins 30. nóv. og liggur hér nú fyrir.

Þessi skattur var upprunalega samþ. og á lagður í þeim tilgangi að vinna gegn afleiðingum dýrtíðar og tryggja rekstur atvinnutækja. Mun mörgum manninum koma þessi upphaflegi tilgangur spánskt fyrir sjónir nú og telja hið gagnstæða sönnu nær, að söluskatturinn auki á dýrtíð og torveldi rekstur atvinnutækja. Síðan þessi skattur var fyrst á lagður, 1948, hefur á ýmsu oltið í efnahagsmálunum og alls konar ráðstafanir verið gerðar, þ. á m. tvær gengislækkanir. En þrátt fyrir allar þær umbyltingar hefur söluskatturinn staðið og verið framlengdur frá ári til árs, þótt hann hafi alltaf verið og sé öðrum sköttum fremur óvinsæll með þjóðinni. Þó hefur undanfarandi ríkisstjórnum þótt vænt um hann og ekki mátt til þess hugsa að missa hann, ekki einu sinni hluta af honum. Í fjárlagafrv. næsta árs er söluskatturinn áætláður 148 millj. kr. og verður í reynd mun hærri, ef að vanda lætur, líklega um 180 millj. kr. Þessi fjárfúlga er kreist undan nöglum almennings og gerir sitt til að auka á dýrtíðina. Raunar er fúlgan mun hærri, sem af almenningi er tekin, en eitthvað verður eftir hjá milliliðunum og kemst aldrei til skila í ríkissjóð. Er vitundin um það ein af ástæðunum til þess, að þetta form skattpíningar er öðrum fremur illa þokkað meðal fólks.

Ég gat þess hér í hv. d. fyrir nokkrum dögum, að fram hafi komið á liðnum árum till. um, að hluti af söluskattinum yrði afhentur sveitarfélögum sem sérstakur tekjustofn þeirra. Sumir flm. slíkra till. hafa ætlazt til, að helmingur söluskattsins rynni þannig til sveitarfélaganna, aðrir hafa gert ráð fyrir þriðjungi og enn aðrir fyrir fjórðungi skattsins í þessar þarfir. Samband íslenzkra sveitarfélaga og einstakar sveitarstjórnir hafa hvað eftir annað og árum saman bent á brýna þörf sveitarfélaganna fyrir nýja tekjustofna. Þessir aðilar hafa einnig þrásinnis látið í ljós ósk um það sérstaklega, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskattinum til sinna þarfa. Hér á hinu háa Alþingi hefur það mál átt vísa stuðningsmenn í öllum flokkum, að ég held. Þeir hafa barizt fyrir því hér, en jafnan beðið lægri hlut fyrir þeim mönnum, sem hafa talið það skyldu sína fyrst og fremst að líta á hag ríkissjóðs.

Einn þeirra manna, sem borið hafa þetta hagsmunamál sveitarfélaga fyrir brjósti innan þings og utan, er hæstv. fjmrh., enda ekki óeðlilegt, þar sem hann hefur í mörg ár verið forsjármaður stærsta sveitarfélags landsins. Þessi hæstv. ráðh. hefur nokkrum sinnum flutt frv. þess efnis, að fjórðungur söluskattsins yrði látinn renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en þeirri upphæð síðan skipt milli allra sveitarfélaga í landinu eftir íbúatölu.

Hingað til hefur alltaf verið brugðið fæti fyrir þessa viðleitni fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík, sem og sams konar viðleitni annarra þm. Frv. um þetta efni hafa átt erfitt uppdráttar og að jafnaði verið stöðvuð á miðri leið. Eitt sinn virtist þó sem till. um, að hluti söluskattsins gengi til sveitarfélaganna, ætti að fá jákvæða afgreiðslu á þingi. Það var árið 1951. Till. flutti núverandi hæstv. fjmrh. sem brtt. við frv, til laga um framlengingu á gildi III. kafla laga um dýrtíðarráðstafanir. Brtt. var við 2. umr. í Nd. samþ. með 16 atkv. gegn 14, og þannig breytt fór frv. til Ed. En þar var ákvæðinu um, að fjórðungur söluskattsins skyldi renna til sveitarfélaga, kippt burt úr því. Þáverandi ríkisstj. hafði krafizt þessa, flokksmenn flm. till. snerust gegn honum samkvæmt valdboði ríkisstj., og málið var drepið. Man ég það vel, að mikið var þá talað um þessa illu meðferð á borgarstjóranum, hvernig flokksmenn hans á þingi svínbeygðu hann í þessu máli og keyrðu niður.

En nú er þessi illa leikni Sjálfstfl.-maður sjálfur orðinn fjmrh. Nú getur hann áreiðanlega komið þessu hagsmunamáli sveitarfélaganna fram, ef hann vill. Þegar hann var beygður forðum, var það gert vegna þess, að fjmrh. þá hótaði ella að segja af sér. Ef í hart fer, getur hæstv. fjmrh. nú notað sömu aðferð, hótað að segja af sér, ef fjórðungur söluskattsins verði ekki fenginn sveitarfélögunum í hendur. Ég efast ekki um, að nú er málinu borgið, ef hæstv. ráðh. er sama sinnis og hann hefur verið.

Það vakti mér raunar nokkra furðu, að hæstv. ráðh. skyldi ekki minnast á brýnar þarfir sveitarfélaganna í framsöguræðu sinni fyrir þessu bandormsfrv., sem hér liggur fyrir. Fyrr meir taldi hann ástæðu til að minnast á sveitarfélögin, þegar framlenging söluskattsins var á dagskrá. Ég vona þó, að þessi breyt. á háttum boði ekki sveitarfélögunum neitt illt, heldur sé hæstv. ráðh. aðeins að sækja í sig veðrið. Hafi ég tekið rétt eftir, var hæstv. fjmrh. falin til umsjár sem sérstakur málaflokkur fjáröflun sveitarfélaga, og er sjálfsagt engin tilviljun, sem réð því. Sveitarfélögin munu vænta sér góðs af þessum hæstv. ráðh. og ætlast til mikils af honum. Ég vona, að áhugi hans sé enn vakandi, og mér þótti fyrir því, að hann skyldi ekki, að gefnu tilefni, fást til að minnast einu orði á sveitarfélögin við 1. umr. söluskattsfrv. Hann þagði, en hefur vafalaust hugsað því dýpra um þetta væntanlega fjárhagsmál sveitarfélaga.

Nú er mér forvitni á að vita, hvort hæstv. ráðh. lætur frá sér heyra í dag. Áhugi sveitarstjórna er sýnilega vaknáður á ný. A næsta fundi í bæjarstjórn Reykjavíkur verður þetta mál á dagskrá, en sá fundur verður haldinn á morgun. Verður þar til umræðu till., sem svo hljóðar, sem leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn ítrekar fyrri samþykktir sínar um nauðsyn þess, að sveitarfélögunum verði aflað nýrra tekjustofna. Felur bæjarstjórn bæjarráði að hefja viðræður við fjmrh. um þetta mál, þar á meðal um, að sveitarfélögin fái hluta af söluskatti.”

Þetta dagskrármál bæjarstjórnar Reykjavíkur bendir til þess, sem raunar er vitað, að áhugi sveitarstjórna á þessu máli er enn vakandi.

Söluskatturinn er óvinsælastur allra skatta, og er ég meðal þeirra mörgu, sem honum eru andvígir. Hann er löngu orðinn nátttröll í íslenzkri löggjöf, stendur einn eftir sem leifar af lagabálki, sem einu sinni var. Hlutverki hans hefur verið snúið alveg við. Áður var hann ráðstöfun gegn dýrtíð, nú er hann ráðstöfun til dýrtíðar. Áður rann hann í sérstakan dýrtíðarsjóð, nú er hann eyðslueyrir ríkisvaldsins. Hann er óneitanlega leiður draugur frá fyrri tímum.

En þótt ég aðhyllist þetta álit á söluskattinum, treysti ég mér þó ekki til að greiða afdráttarlaust atkv. gegn framlengingu hans nú. Það er ekki unnt að fella hann niður, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar samhliða, svo sem aukinn sparnaður í ríkisrekstri eða eitthvað annað. En það mundi mjög bæta um fyrir þessum leiða skatti, að hluti hans rynni til sveitarfélaganna og að hann þannig yrði til þess að létta ögn á þeirra könnu. Því vil ég gera það að till. minni nú, að fjórðungur söluskattsins, meðan hann er á lagður, skuli ganga til sveitarfélaganna. Ég leyfi mér að flytja brtt. við frv. á þskj. 40. Þessi brtt., sem er á þskj. 48, er gamall kunningi og raunar sú sama og ég nú aðallega hef gert að umtalsefni. Till. er sem sé orðrétt eins og fyrri till. hæstv. fjmrh. um sama efni voru. Ég leyfi mér að taka hana upp orðrétta og vona, að hæstv. ráðherra hafi ekkert við það að athuga.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um till. sérstaklega. Um þörf sveitarfélaganna fyrir þennan tekjustofn getur enginn hv. þdm. efazt, svo oft og svo mikið hefur verið um hana rætt. Hitt kann að vera álitamál, hvort ríkissjóður geti séð af fjórða hluta söluskattsins. Eins og ég sagði áðan, er áætlað, að hann nemi allur 148 millj. kr. á næsta ári, en sennilega verður hann mun hærri. Árið 1954 fór söluskatturinn 23% fram úr áætlun, og árið 1955 varð hann 18.5% hærri en áætlað var. Samkvæmt þeirri reynslu er ef til vill óhætt að bæta nú 20% við áætlaða upphæð hans fyrir 1960. Mun þá láta nærri, að söluskatturinn allur nemi næsta ár um 180 millj. kr. Sé varlega í farið, má því gera ráð fyrir, að sveitarfélögin fengju í sinn hluta um 40 millj. kr. á næsta ári, ef till. mín yrði samþ. Það er auðvitað ekki mikið til skiptanna milli allra sveitarfélaga landsins, en nokkur hjálp væri það þó. Ég held, að ríkissjóð muni lítið um þessa upphæð, þótt hún yrði 40 millj. Áætlaðar tekjur hans nema, ef ég man rétt, um 1000 millj. kr. á næsta ári, svo að einhver leið ætti að vera til að sjá af þessu litla framlagi til sveitarfélaganna, ef viljinn er góður, og þá með auknum sparnaði, ef ekki er annað fyrir hendi.

Ég vænti þess að lokum, að þessi till. fái góðar undirtektir hv. þdm., og sérstaklega vænti ég eindregins stuðnings hæstv. fjmrh., sem sæti á í þessari hv. deild.