04.04.1960
Efri deild: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (1287)

49. mál, eignarnámsheimild fyrir Húsavíkurkaupstað á Preststúni

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég tel það mjög eðlilega rás viðburða, að Húsavíkurbær fái til eignar og umráða prestsseturstúnið á Húsavík. Presturinn þar nytjar það ekki lengur sjálfur, en leigir það til kúabeitar og slægna, sem að vísu kemur sér vel fyrir þá, sem fá það þannig til nytja. En hér er ekki heldur um það að ræða að eyðileggja land, heldur hitt að taka það smátt og smátt til annarra nota í þágu skipulags bæjarins, sem fer að þarfnast þess undir nýja vegi og byggingar. Enn fremur er, eins og hv. frsm. meiri hl. n. sagði áðan, áformað af bæjaryfirvöldum og í samráði við íþróttafulltrúa ríkisins að koma þar upp íþróttavelli fyrir bæinn. Að vísu er til íþróttavöllur á öðrum stað, en það er talið, að þar sé ekki nægilegt rými fyrir þann völl, sem þorpið þarfnist, þegar fólki fjölgar þar og verður fleira en nú er.

Húsavíkurhreppur keypti jörðina Húsavík árið 1913, að undanskildum húsum prestssetursins og umræddu túni. Ég man ekki, hvað kaupverðið var. Þá átti ég ekki heldur heima á Húsavík, en það hefur vafalaust verið í samræmi við verð það, sem þá gilti, þær stóru krónur, sem menn höfðu þá í skiptum milli sín. Kirkjan í Húsavík var talin eiga þessar eignir, en andvirði þeirra gekk ekki til hennar þá, sem eðlilegt hefði þó mátt kalla, heldur til ríkisins, og um það skal að sjálfsögðu ekkert sakast nú. Það er mál löngu liðins tíma. En nú, þegar selja skal þann skika af þessari jarðeign, sem eftir var skilinn 1913, þá finnst mér eðlilegt og sanngjarnt, að söfnuðurinn í Húsavík fái að njóta andvirðisins, og hef ég þess vegna leyft mér að flytja tillögu þá, sem hér liggur fyrir á þskj. 105. Mér þykir vænt um að heyra það, að biskupinn yfir Íslandi hefur mælt með þessari till. og raunar sett það sem skilyrði fyrir meðmælum sínum með málinu, að till. nái fram að ganga. Enn fremur er ég þakklátur fyrir þær fréttir, sem hv. frsm. n. flutti, að a.m.k. ýmsir nm. muni vera till. fylgjandi.

Í Húsavík er timburkirkja, sem byggð var fyrir rúmum 50 árum af eigin rammleik safnaðarins. Þessi kirkja er mjög veglegt hús og stílfagurt, eins og aðrar kirkjur, sem byggingarmeistarinn og teikningameistarinn Rögnvaldur Ólafsson gerði uppdrætti að. Mér finnst hún ein allra stílhreinasta kirkja í landinu. Hún verður fegurðar sinnar vegna lengi látin standa. En það kostar mikið að halda henni sómasamlega við, þar sem hún er timburkirkja, og það gerir söfnuðurinn auðvitað upp á eigin spýtur. Á næstu áratugum mun hann alls ekki kalla til ríkisins eftir styrk eða láni til kirkjubyggingar hjá sér, og mér finnst því mjög sanngjarnt frá öllum sjónarmiðum, að söfnuðinum verði ánafnað andvirði þessa umrædda túnskika, sem eftir er óseldur af jarðeign kirkjunnar í Húsavík. Þessi túnblettur mun vera um 20 dagsláttur, svo að hér er ekki um stórkostlega upphæð að ræða. Það er um smámuni að ræða fyrir ríkið, en fjárhæð, sem getur þó dregið söfnuðinum ofur lítið.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þd. fallist á að samþykkja þessa till., og ég mæli með frv. að tillögunni samþykktri.