23.05.1960
Efri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

151. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Sjútvn. hefur nú athugað þá brtt., sem hæstv. fjmrh. flutti hér við 3. umr. málsins s.l. föstudag. Það var ákveðið hjá n. að senda þá till. til umsagnar stjórnar fiskveiðasjóðs, en umsögn hefur engin borizt, að ég ætla vegna þess, að tími hafi verið nokkuð skammur um helgina fyrir bankastjóra til þess að koma saman í þessu skyni, — einn þeirra mun vera veikur, — og hefur því ekkert svar borizt frá sjóðsstjórninni um þessa till. En till. felur tvennt í sér: annars vegar, að fellt skuli niður ákvæðið um ríkisábyrgð fyrir þessum lánum, og hitt er, sem af þessu leiðir, að lánin verða ekki bundin við hámark þeirra ríkisábyrgða, sem fjárlög greina, þ.e. 10 millj. kr.

Eins og kunnugt er, þá er það hlutverk fiskveiðasjóðs fyrst og fremst að annast stofnlán til fiskiskipa í landinu. Með þessu frv. er nokkuð rýmkað þetta hlutverk sjóðsins með því að lána til skipasmíðastöðva, sem m.a. annast viðhald skipanna jafnframt nýbyggingum. Ef sjóðsstjórnin getur annað þessu hvoru tveggja, svo að ekki komi til neinnar hindrunar á lánveitingum til fiskiskipa, þá hef ég síður en svo neitt á móti því, að slík breyting sé samþ., og tel þar að auki mjög æskilegt, að greitt verði fyrir skipasmíðastöðvum um lán. Hins vegar held ég, að þessi brtt. hafi ekki mikla þýðingu, vegna þess að sjóðsstjórnin hlýtur að heimta nægjanlegar tryggingar fyrir þessum bráðabirgðalánum og getur eftir sem áður heimtað ríkisábyrgð, ef hún treystir sér ekki til að lána út á aðrar þær tryggingar, sem skipasmíðastöðvar kunna að hafa lausar, svo að það er ekki víst, að þetta breyti eiginlega neinu í framkvæmd. Hugsanlegt er, ef lánin kynnu að fara samtals yfir 10 millj. kr., þá sé það rýmra, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru víst litlar líkur til þess, að unnt verði að lána 10 millj., auk heldur meira, í þessu skyni.

Þá virðist mér hafa komið fram í umr. um þetta mál, að hér sé ekki um meiri fjárþörf fyrir sjóðinn að ræða, þó að þessu sé bætt við, af því að þetta séu bráðabirgðalán, sem greidd verði með hinum væntanlegu lánum til skipanna, þetta standi kannske 6–12 mánuði. Það er rétt, að lánin standa skamman tíma. En það er ekki hægt að neita því, að um leið og ein skipasmiðastöð hefur greitt þannig bráðabirgðalán, þá sækir hún um annað til þess að halda áfram starfseminni, og þannig verða þessar lánveitingar ótvírætt að mínum dómi hrein viðbót við lánveitingar sjóðsins, því að eigi þær að halda áfram, eins og tilgangurinn hlýtur að vera, þá verða þetta áframhaldandi lán. Þau verða stutt, en endurtaka sig sífellt, svo að það er hrein viðbót í lánastarfsemi sjóðsins. Samt skal ég alls ekki hafa á móti þessu, vegna þess að þetta er nauðsynjamál, að greiða fyrir skipasmíðunum. En hitt verður þó eftir sem áður aðalhlutverk fiskveiðasjóðs, að lána stofnlán til fiskiskipa, og ég treysti því fyllilega, að sjóðsstjórnin gæti þess að láta ekki bráðabirgðalán hindra nein önnur stofnlán til útgerðarinnar.

Ekki sýnast mér horfur á, að það verði greiðara fyrir skipasmíðastöðvarnar að sækja um lán til sjóðsstjórnarinnar án ríkisábyrgðar. Sjóðurinn hefur lánað yfirleitt gegn 1. veðrétti í skipum eða ríkisábyrgð og ekki gegn öðrum veðum. Það er því ákaflega hætt við, að þessar skipasmíðastöðvar verði að leita til ríkisstj. um ábyrgð, enda hefur ríkisstj. til þess heimild í gildandi fjárlögum.

Það eina, sem kynni að mega óttast í þessu sambandi að mínum dómi, er það, að sjóðinn skorti fé og hann geti því ekki fullnægt óskum þessara skipasmíðastöðva, því að það hefur auðvitað þyngzt mjög fyrir fiskveiðasjóð að fullnægja lánsbeiðnum nú með þeim verðhækkunum, sem orðið hafa á skipum, jafnvel svo, að ef ætti að lána út á jafnmörg skip með svipuðu verði og var áður, þá hefur gengisbreytingin það í för með sér, að lánsfjárþörfin kann að aukast allt að 50% vegna verðhækkana á skipunum, ef sjóðurinn heldur áfram að lána 2/3 hluta af andvirði skipanna. Mér sýnist því ekki horfur á, að sjóðurinn geti gengið langt í þessum lánveitingum, og mér sýnast ekki heldur horfur á, að skipasmíðastöðvarnar geti komizt hjá því að þurfa undir ýmsum atvikum að leita til ríkisstj. um ábyrgð.

Ég mun því ekki setja mig neitt á móti þessari brtt. hæstv. ráðh. Mér sýnist, að hún geri hvorki til né frá í framkvæmdinni. En í trausti þess, að sjóðsstjórnin gæti fyrst og fremst aðalhlutverks fiskveiðasjóðs, að lána stofnlán til útgerðarinnar, sé ég enga hættu á ferðinni, þó að brtt.samþ.