12.05.1960
Neðri deild: 80. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3197 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Jón Pálmason:

Herra forseti. Á því Alþ., sem nú situr og búið er að standa síðan 20. nóv. í vetur, hafa margvíslegir hlutir gerzt, bæði geðfelldir og ógeðfelldir. Yrði það nokkuð löng saga, ef út í það væri farið, en það skal ég ekki að þessu sinni gera. Þó get ég ekki látið hjá líða að minnast þess, að það er nokkuð ógeðfellt, sem maður verður var við nærri daglega, að nokkrir af þeim mönnum, sem mest hafa komið nálægt óstjórninni á undanförnum árum, eru hér sítalandi og hafa allt á hornum sér, þegar stjórnendur landsins eru að basla við með alls konar neyðarúrræðum að bjarga því þrotabúi, sem þeir hafa eftir skilið.

En hvað sem þessu líður, þá verð ég að segja það, að þrátt fyrir allt finnst mér þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 399, einna ógeðþekkasti atburðurinn, að það skuli geta átt sér stað, að heil þingnefnd, hv. sjútvn., geti orðið sammála um að leggja hér inn í þingið slíkt frv. um dragnótaveiði í landhelgi eftir allt það, sem gerzt hefur á undanförnum árum.

Af því að hér eru nokkuð margir menn á hv. Alþ. nú, sem eru mér lítið kunnugir og vita það eitt, að ég er bóndi norðan úr landi, þá get ég búizt við, að einhverjum detti í hug að spyrja: Hefur þú nokkurt vit á sjávarútvegsmálum eða dragnótaveiði? Ég nefni þessa spurningu vegna þess, að ég ætla að svara henni strax. Því er ekki að leyna, að þegar ég kom hér á Alþing fyrir 27 árum, hafði ég sáralitla þekkingu á þeim málum, sem varða sjávarútveg, eins því, sem snertir veiðiaðferðir og annað slíkt. En á árunum 1933–37 hygg ég, að ekkert mál hafi legið fyrir Alþ., sem olli eins miklum deilum og dragnótaveiði í landhelgi. Um það voru umr. þing eftir þing og á hverju þingi, oft dag eftir dag og nótt eftir nótt. Ég hygg, að meðmælendur og andstæðingar þess máls á þeirri tíð hafi dregið fram öll þau rök, sem þeir höfðu yfir að ráða. Á þessum tíma fór ég varlega og tók ekki neinn þátt í þessum umr. En ég hlustaði á þær allar, og ég mætti vera heimskari maður en ég er, ef ég hefði ekki fengið við þessar umr. þekkingu á því máli, sem þarna er um að ræða, og um leið skoðun á því, hvað réttast væri, enda er það svo, að það vill nokkuð oft til hér á Alþ., að ný þekking, nýjar skoðanir, ný reynsla, ný sannfæring flýgur upp í fangið á manni, án þess að maður þurfi mikið fyrir að hafa. Og eins og kunnugt er, endaði þessi deila á þessum árum, sem ég nefndi, á þann veg, að meiri hl. Alþ. setti þau lög um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi, sem eru frá árinu 1937.

En það mætti nú spyrja: Hvað er það, sem er svo sérstaklega skaðlegt fyrir framtíð landsins, fyrir sjávarútveginn við landið í heild, við það að leyfa dragnótaveiði í landhelgi? Um það fékk ég á þessum árum fasta sannfæringu, sannfæringu um það, að þetta væri eitt hið mesta skaðræði, sem mögulegt væri að framkvæma. Og sú sannfæring hefur ekki breytzt síðan. Hún hefur styrkzt við ýmislegt, sem gerzt hefur á þeim árum, sem síðan eru liðin.

Undirstaða baráttunnar um landhelgi okkar er tvenns konar, og baráttan um landhelgismál okkar hefur að kalla má verið höfuðmál okkar Íslendinga nú um nokkurra ára skeið og raunar oft áður. Sú barátta er engan veginn úti, og má segja, að við séum í algerri óvissu um það, hvernig hún endar, en undirstaðan undir þeirri baráttu er tvenns konar: Í fyrsta lagi það að sanna, að íslenzku þjóðinni sé það lífsskilyrði að fá að njóta sem mestra réttinda við strendur landsins, vegna þess að sjávarútvegurinn sé undirstaða alls okkar útflutnings. Í öðru lagi, og þó er það kannske enn sterkara atriði, sem þessi barátta hvílir á, að við getum sýnt umheiminum það, að við viljum sjálfir stuðla að því að friða okkar landhelgi og fara heiðarlega með þau verðmæti, sem í henni felast. En ég vil segja, að ef það á aftur að fara að taka upp dragnótaveiðar í landhelgi, þá er þarna alveg brotið blað, brotið gegn grundvelli, sem við höfum byggt landhelgisbaráttu okkar á á undanförnum árum, því að eftir lýsingum þeirra manna, sem hafa sterka reynslu og eru fyrirhyggjumenn og vilja miða við framtíðarhag, en ekki stundarhagsmuni, þá er dragnótaveiði í landhelgi miklu hættulegri fyrir fiskistofn okkar en togveiðarnar sjálfar. Og þetta byggist á ýmsum hlutum. Það byggist m.a. á því, að botnvarpan, trollið, það er að kunnugra manna dómi ekki eins hættulegt botninum og dragnótin, og það er vegna þess m.a., að það er undir trollvörpunni hjól eða eins konar varnartæki, sem gerir það að verkum, að hún rífur ekki alveg upp botninn eins og dragnótin gerir, og þess vegna geta fiskaseiðin og smáfiskar farið undir þá vörpu, að ég nú ekki tali um, ef sú veiðiaðferð verður útbreidd miklu meira en verið hefur, sem er tiltölulega nýupptekin, sem er flotvarpan og er þannig útbúin, að hún þarf ekki að koma neitt nærri botninum. Þetta er þó engan veginn aðalatriðið í þessu máli. Hitt er miklu meira aðalatriði, að togararnir eru stór skip, og jafnvel þótt þeir hefðu leyfi til að veiða um alla okkar landhelgi, eru þeir svo stór skip, að þeir komast ekki neins staðar svo nærri landi, að þeir geti rótað í fiskistofninum alveg uppi undir landsteinum, eins og ætlazt er til og hefur verið með dragnótabátana, sem voru að skarka alveg uppi í landsteinum inn um hverja vík og hvern vog og upp í árósa. Þetta er þess vegna í rauninni stærsta atriðið hvað þetta snertir, og það kemur fram í þessu frv., að það á ekki að leyfa dragnótaveiði nema smábátum upp í 35 eða 45 tonn. Er það eru einmitt skip, sem eru þar fyrir neðan, sem geta komizt alveg upp í landsteina og með sínu veiðarfæri, dragnótinni, skafið botninn af öllum lifandi dýrum.

Nú er það kunnugt, að á meðan dragnótaveiðin var við lýði, sem var á löngu tímabili fram til 1937, hafði hún miklar verkanir á allan okkar fiskistofn, og það eru margir menn, sem hafa sterka reynslu í þessum efnum, sem halda því fram, að það sé rétt á takmörkum, að við séum búnir að ná okkur eftir þann skaða, sem þá var gerður.

Ég skal nú lesa upp tvö erindi, sem ég hef í höndum, og það þriðja er einhvers staðar hér til innan veggja þingsins. Fyrst er bréf frá gömlum og þrautreyndum skipstjóra norður á Sauðárkróki, sem hann í vetur sendi hv. 2. þm. Norðurl. v. (GunnG), sem ég er varamaður fyrir, en hann hefur afhent mér, enda mér fullkunnugt, að hann er nákvæmlega á sömu skoðun í þessu stórmáli og ég og fleiri menn. Í þessu bréfi segir svo:

„Við höfum heyrt, að nú vildu menn fá dragnótaveiðidrátt leyfðan á Alþingi innan 12 mílna landhelgi og þá náttúrlega inn í fjarðarbotna eða m.ö.o. alveg að landi, og er þá búið að eyðileggja allan smábátaútveg og allt fiskirí fyrir þeim, sem þá veiði stunda við sjávarsíðuna með kolanet, þorskanet, línu og færi, og þar með svipta þúsundir manna bjargræðisútvegum sinum og sinna og reyndar alls héraðsins á löngu tímabili, því að það þekkjum við frá snurpivoðartímabilinu, sem var hér fyrir nokkrum árum. En nú er loks að birta yfir aftur, nú tvö síðustu ár, og mun fara batnandi, ef allt fær að vera í friði fyrir rányrkju dráttar- og trollveiði. Við kjósendur sendum ykkur lista frá smábátaútgerðinni vestan og austan fjarðarins með dreginni marklínu, sem kemur til ykkar og er máske kominn nú.“

Ég skal taka það fram varðandi þennan lista, að ég hef verið að leita að honum hér í lestrarsal og hjá öðrum mönnum, og ég hygg, að hann muni vera í vörzlum hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ), og getur komið til athugunar fyrir þá n., sem málið fær. — „Inn fyrir þá línu má aldrei botnsköfudragnót fara, ef Skagfirðingar eiga að geta haft sæmilegt líf. Þessi lína er dregin úr Hrollaugsstaðahöfða í norðurenda Málmeyjar og svo þaðan vestur í Ásnef á Skaga. Þá er flatfiskveiði að miklu leyti borgið í okkar firði og svo annarra nytjafiska ásamt uppvaxandi kynslóðum á hrygningarsvæðinu. Ef þetta fæst ekki, verður alger auðn í atvinnulífinu. Smábátaeigendur eru búnir að leggja stórfé í þessa mikilvægu veiði og veiðarfæri, sem óhætt er að fleygja frá sér sem ónothæfum hlutum. Við erum að reyna að færa út fiskveiðisvæðatakmörkin gegn öðrum þjóðum, sem okkur er lífsspursmál, en á sama tíma sjálfir að fara í landsteina með okkar rányrkju. Heldur þjóðin, að það muni mælast vel fyrir? Þvílíkur barnaskapur er heimska. Ég þekki þessa veiði frá gamalli tíð, hvernig farið er með ungviðið úr hverjum drætti rányrkjunnar, þótt langt sé síðan ég var á svoleiðis veiðum.“

Þetta segir þessi þrautreyndi skipstjóri á Sauðárkróki, og ég bið afsökunar á því, að ég hef ekki þennan undirskriftalista, sem er undirskrifaður af milli 30 og 40 smábátasjómönnum og útgerðarmönnum í Skagafirði.

Þá hef ég hér í höndum annað bréf, sem lá hér og var lagt fram fyrir löngu nokkuð á lestrarsal Alþingis, og það er frá stjórn bátafélagsins Bjargar í Reykjavík. Þetta bréf er á þessa leið:

„Vegna fram komins frv. á Alþingi, er varðar heimild til dragnótaveiða innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar, samþykkti aðalfundur bátafélagsins Bjargar eftirfarandi till.:

Fundurinn mótmælir eindregið fram komnu frv. á Alþingi Íslendinga þess efnis, að dragnótaveiði sé leyfð innan 12 mílna fiskveiðilögsögu hér við land.

Greinargerð: Það er kunnara en frá þurfi að segja, að á þeim árum, er dragnótaveiðar voru leyfðar á Faxaflóa, minnkaði fiskveiði stórlega hjá þeim bátum, sem stunduðu línu- og handfæraveiðar, þrátt fyrir bætt veiðarfæri og aðstöðu á ýmsan hátt. Augljósar eru orsakir þessa: takmarkalítil, óhófleg veiði á miðum hrygninga og uppeldis fisksins olli minnkandi afla. Staðfesting þessarar staðreyndar fékkst, er fiskveiðilögsagan var rýmkuð úr 3 í 4 mílur, og enn þegar lögsagan var færð út í 12 mílur, þá jókst fiskur á grunnmiðum.

Dragnótaveiði í skjóli flatfisksveiða eða humarveiða lítur fundurinn á sem tilraun til áframhaldandi rányrkju, sem allt of lengi hefur verið rekin hér við land. Auk þess lítur fundurinn svo á, að vart geti verið um óheppilegri tíma að ræða um tilslakanir en einmitt nú, og óþarft að tilgreina nánar. Þess má geta, að félagar í bátafélaginu Björg eru nú 170 og fer fjölgandi.“

Á þessum bréfum sjá hv. alþm., hvert er álit þessara manna, sem hafa talsverða reynslu í þessum efnum, á þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að stofna til af hv. sjútvn. og kannske fleiri hv. þm. standa að baki.

Allt, sem ég hef hér um þetta sagt, er miðað við aðalatriði þessa máls, sem er það að stofna til dragnótaveiða í landhelgi. En ég vil hér fara nokkrum orðum að öðru leyti um frv. sjálft, og ég vil segja það, að þetta frv. kemur mér fyrir sjónir sem eins konar dragnót. Í þá dragnót er ekki ætlazt til að fiska fullorðna fiska, ekki seiði, ekki hálfvaxna fiska, heldur alþm., þá alþm., sem hafa enga sannfæringu í þessu stóra máli eða hafa ekkert kynnt sér það eða hugsað um það, hvaða skaðræðismál er hér á ferðinni. Hv. frsm. sjútvn. tók fram í framsögu sinni hér í fyrradag, að ætlazt væri til, að það yrði vísindalegt eftirlit með öllum veiðunum. Ég þykist nú vita, að þessi ungi og drengilegi þm. sé ákaflega ótortrygginn maður, eins og ég og fleiri vorum á hans aldri. En mér sýnist, að í þessu efni sé hann og sjútvn. jafnvel öll stödd í svipuðum sporum og maður, sem er úti í blindþoku og sér ekki neitt frá sér og er í algerri óvissu um það, hvort hann muni ná áfangastað í þessari eða hinni áttinni, því að þegar verið er að tala um vísindi og eftirlit o.s.frv. í þessu sambandi og í þessu frv., er auðséð, að menn hafa ekki athugað, hvað þeir eru að fara. Ég skal ekkert gera lítið úr atvinnudeild háskólans og ýmsum þeim vísindamönnum, sem við höfum hér í okkar landi, því að margt er sjálfsagt gott, sem þeir hafa lært og haft með að gera. En við þekkjum líka nokkuð mörg mistök, sem komið hafa fram í nafni vísindanna. Ef ég man rétt, var því einu sinni haldið fram, að mæðiveikin væri upp sprottin hjá einhverjum sniglum í landinu í Deildartungu, og einu sinni var því haldið fram, að þessi hroðalega veiki væri engin ný pest, þetta væri gamall sjúkdómur í íslenzku fé og svo hefði lengi verið. Hvoru tveggja var haldið fram í nafni vísindanna. En reynslan hefur sannað, að þetta var hreinasta bábilja og hafði ekki við nein rök að styðjast. Og sannleikurinn er sá, að þótt ýmsir skólagengnir menn læri mikið og lesi bækur o.s.frv. og kalli sig vísindamenn, þá er ég þannig sinnaður, að ég gef ákaflega lítið fyrir öll þau vísindi, sem styðjast ekki við reynsluna, því að reynslan er grundvöllurinn fyrir öllu okkar starfslífi og á mörgum sviðum okkar fjárhag.

Þá er það nú eftirlitið, þetta vísindalega — eða hvað það nú er — eftirlit, sem er verið að tala um í þessu sambandi og eigi að hafa með öllum dragnótaveiðunum hingað og þangað umhverfis landið. Ég vildi helzt óska eftir því, að hv. Alþ. færi ekki að gera sig að allsherjar athlægi með því að leggja mikið upp úr þessu, vegna þess að við höfum því miður of mikla reynslu, Íslendingar, af þýðingu eftirlitsins, og ég get í því sambandi minnt á nokkur dæmi.

Þegar var verið að flytja inn minkana hingað til lands, átti svo sem ekki að vanta, að það væri vísindalegt og opinbert eftirlit með öllum minkabúrunum, það yrði séð um, að ekki eitt einasta kvikindi úr þessum búrum gæti sloppið. En hvernig hefur það farið? Minkarnir hafa sloppið unnvörpum og breiðzt út um allt land, og villiminkurinn er orðinn einhver mesta landplága, sem til er í mörgum héruðum. Lítur út fyrir í mörgum sveitum, að hann verði til að eyðileggja allt fuglalíf, og við getum alveg búizt við, að silungsveiðin og laxveiðin fari sömu leiðina, ef ekki er unnt að útrýma betur en orðið er þessari landplágu. Og þó er það svo, að ríkissjóður verður nú orðið að kasta stórfé í þá viðleitni að útrýma þessum kvikindum, sem flutt voru inn í skjóli þess, að það ætti að vera vísindalegt eftirlit með því, að ekki eitt einasta dýr slyppi.

Það er kannske ekki síður óhætt að minna á mæðiveikina. Það átti upphaflega, þegar karakúlféð var flutt inn, svo sem að vera eftirlit með því, að það breiddist ekki út, að það væri ekki breitt út alveg í óvissu, og síðan veikin kom upp, hefur alltaf verið sívaxandi eftirlit, og okkar ríkissjóður er búinn að eyða í kostnað við mæðiveikina mikið á annað hundrað millj. kr. Og hvernig er svo ástandið? Við fengum góða lýsingu á ástandinu í ýtarlegri grein, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir fáum dögum, eftir Guðmund Gíslason lækni, sem er einn höfuðpaurinn í varnarráðstöfunum gegn mæðiveiki. Og sú lýsing, sem læknirinn gefur, er hörmuleg og ískyggileg, ekki einasta fyrir alla bændastétt landsins, heldur alla þjóðina, Hann lýsir því, læknirinn, hvernig ástatt er orðið í strjálbýlasta hluta landsins, Vestfjarðakjálkanum, sem hefur orðið þó fram að þessu til þess að bjarga sauðfjárræktinni í landinu, af því að mæðiveikin barst ekki þangað til að byrja með. Nú er svo komið eftir lýsingu þessa manns, að það er allt í óvissu, jafnvel um allar sveitir á Vestfjörðum, hvort það er nokkurs staðar tryggt, að það sé ekki smitað fé. Þetta er nákvæmt dæmi um eftirlitíð í okkar landi, — eftirlitið, sem átti að vera með öllum vörnum, öllum girðingum o.s.frv.

Við getum talað um margt fleira, sem stendur nær okkur hér á Alþ., og þó stendur þetta allt saman nærri okkur. Við getum talað um það, að á hverju þingi fer í það einna mestur tími að afgr. fjárl., og það er til þess ætlazt samkvæmt stjórnarskrá okkar og samkvæmt allri starfsemi Alþingis til þess ætlazt, að hver og ein ríkisstj. hafi eftirlit með því, að það sé farið eftir fjárl. En hver hefur reynslan verið? Hún hefur verið sú fjöldamörg undanfarin ár, að það er undantekning, ef greiðslurnar umfram fjárlög fara ekki yfir 100 millj. kr. á ári, og við, sem höfum það verk með höndum að yfirfara reikninga, sjáum það og vitum, að á hverju ári eru margir forstjórar ríkisstofnana og starfsgreina, sem virðast haga sér í meðferð fjármuna alveg á þann veg eins og engin fjárlög séu til og enginn fjmrh. til. Þarna er eftirlitið í sinni réttu mynd.

Það er líka ætlazt til þess, að allir skattar og gjöld, sem lagðir eru á hér á Alþ., samkvæmt lögum, sé innheimt á hverju ári. En hvernig er því farið? Hver er reynslan? Hún er alltaf síversnandi, og í árslok 1958 var svo komið, — ég hef ekki lagt það alveg nákvæmlega saman, en ég hygg, að það láti nærri, ef lagt er saman hjá öllum stofnunum ríkisins og hjá embættismönnum, að þá sé óinnheimt við þau áramót eitthvað nálægt 150 millj. kr., og ég býst við, að það detti engum í hug, að þetta innheimtist allt. Þarna er eftirlitið í sinni réttu mynd. En þetta eftirlit: að hafa eftirlit með nokkrum tugum minkabúra, hafa eftirlit með mæðiveikigirðingum víðs vegar um land, hafa eftirlit með því, að fjárl. séu haldin, og hafa eftirlit með því, að skattar og tollar séu innheimtir, það er í mínum augum smámunir hjá hinni vitleysunni, að það sé ætlazt til þess, að nokkur geti haft eftirlit með veiðum kannske mörg hundruð dragnótabáta víðs vegar í kringum land, sem hafa leyfi til að skarka inn í fjarðarbotna og hverja vík inn að ósum og geta verið að því alveg jafnt nætur sem daga. Að ætlast til þess, að þetta eftirlit verði annað en nafnið eitt og kák, sem enga þýðingu hefur, það dettur mér ekki í hug. En þetta er einn aðalmöskvinn í þessu dragnótafrv., þeim hluta þess, sem á að veiða hrekklausa þm., sem hafa enga sannfæringu í málinu og hafa ekki athugað, hvað mikinn voða er hér verið að vaða út í.

Þá er það sjútvmrh. Það á að setja hann í þann vanda að skera úr um það, hverjir megi fá veiðileyfi og hverjir ekki. Ef þetta kæmist í lög, mundi sjútvmrh., hver sem hann er, vera umsetinn maður, því að ef einhverjir fá leyfi, vilja menn kannske fá það í öllum byggðarlögum, og þá verður sjútvmrh. í þeim vanda, að hann hefur hvergi frið, rétt eins og ráðherrarnir hér á fyrri árum höfðu, þegar þeir tóku það að sér sjálfir að úthluta bílum, sem allir vilja fá, — þeir höfðu hvergi frið, ekki heima hjá sér, ekki á skrifstofunni, ekki á götunum o.s.frv.

Svo er eitt atriði í þessu, annað en með aðstöðu sjútvmrh., — en ég vil segja það, að ég vil engan hlut að því eiga að setja vin minn, núv. sjútvmrh., eða neina aðra í þá gildru, sem hér er stofnað til, ef þetta frv. verður samþ., — það er, að það á að bera undir sveitarstjórnir víðs vegar um land, hvort leyfa megi dragnótaveiði á þessum stað eða hinum. Jú, það er nú heldur gott það ákvæði! Með því er til þess stofnað að koma á hörðum deilum í hverju einasta þorpi og kaupstað í kringum land um það, hvort skuli fara út í þessi leyfi eða ekki. Ég veit, að þeir, sem berjast harðast fyrir því að koma þessu á, treysta því, að þeir, sem eru gráðugastir í stundarhagsmunina, verði alltaf ofan á og geti brotið hina niður, sem hafa framtíðarsjónarmið fyrir augum og vilja byggja á fyrirhyggju í þessum efnum, því að það get ég sagt ykkur, að allan þann tíma, sem deilt var um dragnótaveiði hér á Alþ., var sú deila fyrst og fremst á milli þeirra manna, sem eru fyrirhyggjumenn í eðli sínu og vilja sjá framtíðinni borgið með því að ganga ekki of langt á þessu sviði, og hinna, sem vilja eingöngu hugsa um stundarhagsmunina og hvað þeir geta fengið í sinn hlut og sinna kjósenda með þessari dragnótaveiði á stuttum tíma.

Í þeim bréfum, sem ég las hér upp, hafið þið heyrt, hvert álit þeirra reyndu manna, sem þar láta til sín heyra, er á afleiðingunum. Þess vegna væri það ekki alveg þýðingarlaust, að hv. þm., sem sjálfsagt margir hverjir hafa ekki mikla þekkingu á þessu máli eða hafa lítið um það hugsað, kynntu sér fleiri hliðar á því en þeir hafa hingað til gert.

Þá kem ég að þeim þætti þessa máls, sem snýr að bændastéttinni, ég vil segja hlutfallinu eða samanburðinum, eiginlega öllu heldur hlutdrægninni milli bænda og sjómanna. Þegar ég tala um bændur í þessu efni, á ég eingöngu við þá bændur, sem eiga veiðirétt að vötnum og ám og sjó hér á landi, og þeir eru nokkuð margir. Nú er búið að fara þannig með þessa menn með löggjöf, að réttindi þeirra eru á allan hátt takmörkuð og það miklu meira en þörf er á. Auðvitað er þetta gert í því skjóli, að hér sé verið að vernda lax og silung í framtíðinni, og sumt af því er sjálfsagt nauðsynlegt. Það er t.d. algerlega bannað fyrir menn, sem eiga land að sjó, að kasta þar neti, ef það gæti verið hugsanlegt, að það slæddist í það einhver laxbranda, — það er algerlega bannað. Og svo á á eftir, þegar búið er að fara svona með eigendurna, að fara að leyfa mönnum, þó að þeir komi úr öðrum landsfjórðungum eða öðrum héruðum, hvaðan sem er, að skarka með dragnætur inni í landsteinum, inn í fjarðarbotna, inn í víkur og inn í ósa til þess að ná þar hverju lifandi kvikindi, sem fáanlegt er í vörpuna.

Nú er ekki nóg með þetta, að bændum er algerlega bannað að eiga vörpu, silungsvörpu eða laxavörpu, til að draga á í stórum vötnum, að ég nú ekki tali um ár. Og svo mikið er þrengt að netjaveiðinni til lax- og silungsveiði, að bændur, sem hlut eiga að máli, mega ekki láta liggja silunganet nema þrjár nætur í viku. Hvað haldið þið, að svona menn hugsi, er þeir fá að heyra það héðan frá Alþ., að ofan á þessi lög eigi svo að skella því, að það megi leyfa dragnótaveiðar hingað og þangað kringum landið og það sé ekki neitt á að treysta annað en eftirlit, sem allir vita að er einskis virði, alveg einskis virði? Þetta vildi ég biðja menn að hugsa um, því að þetta er ekki alveg einskisverður hlutur, að ætla sér með einu frv. hér á Alþ. að gerbreyta alveg réttindum manna eftir því, hvar þeir búa. Og þegar búið er að taka réttindin jafnhroðalega af eigendum landsins og þeim, sem eiga vötnin og eiga fjöruborðið við sjóinn, þar sem land þeirra er, — þegar búið er jafngífurlega að taka af þeim réttindin, á svo að fara að veita þau öðrum á allt öðrum og víðtækari grundvelli og jafngífurlega og ætla má að verði, þegar búið er að samþ. þetta dragnótafrv., sem hér liggur fyrir, ef svo fer, sem til er ætlazt, að hv. sjútvn. geti veitt nógu marga alþm. í sína dragnót til þess að greiða atkv. með þessu hroðalega frv.

Ég vildi segja þessi orð til aðvörunar nú þegar við 1. umr. þessa máls, því að menn verða að gera sér grein fyrir, að á því eru margar hliðar, og það er ekki eins einfalt og þeir menn halda, sem hér hafa flutt það og telja sér trú um, að það, sem þeir hafa sett hér sem varnarráðstafanir, sé einhvers virði.

Ég skal að sinni láta hér staðar numið, en verið getur, ef þetta frv. kemur til 2. umr. og 3., að ég segi eitthvað fleira í því sambandi, og þá vona ég, að ég verði búinn að fá listann, sem komið hefur frá Skagfirðingum til mótmæla gegn þessum aðferðum.