19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3222 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég var nú að doka við eftir því, að einhver frsm. kæmi fram frá hv. sjútvn., þar sem þetta er 2. umr. um þetta stórmál. En úr því að það varð ekki, þykir mér ástæða til eftir þær umr., sem urðu við 1. umr., að segja hér fáein orð til viðbótar, og ætlaði raunar að gera það við 1. umr., en einhverjir af fylgismönnum málsins höfðu fallið frá orðinu, sem voru búnir að biðja um það, og gerir það náttúrlega ekkert til, þó að það drægist til þessarar umr.

Í þeirri ræðu, sem ég flutti hér við 1. umr. s.l. fimmtudag, gerði ég nokkurn veginn grein fyrir minni afstöðu til þessa máls og á þá leið, að ég er því gersamlega andvígur. Ég gekk ekki gruflandi að því, að einhverjir af dragnótaberserkjum hv. d. mundu hér rísa upp til andmæla, og mér kom það engan veginn á óvart, blátt áfram ætlaðist ég til þess, að svo yrði, til þess að hv. þm. gætu séð, hvað sterk rök þessir menn hafa fyrir sínu máli og til að byggja á.

Hv. frsm„ hv. 5. þm. Vestf. (BF), talaði mjög hógværlega um þetta mál, eins og honum er lagið, og sömuleiðis hv. 3. þm. Sunnl. (GuðlG), en þeir virtust báðir byggja helzt á því, að það væri álit hinna og þessara fræðimanna, að það væri algerlega óhætt að stofna til dragnótaveiða í landhelgi aftur nú þegar, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv.

Í ræðu sinni sagði hv. 3. þm. Sunnl., að þetta væri hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Ég held nú, að þetta sé hreint öfugmæli, því að það kann að vera stundarhagsmunamál fyrir einstaka landshluta eða þá, sem ætla sér að leggja út í það að fara að stofna til dragnótaveiða, og það mundi verða mikið af því, ef þetta yrði á annað borð leyft. En það er áreiðanlegt, að það væri algerlega á kostnað framtíðarinnar í fiskveiðimálum lands okkar og sannarlega ekki til hagsbóta, þegar fram í sækti.

Hv. frsm., 5. þm. Vestf., vék að því varðandi eftirlitið, sem ég tel og lýsti að ég teldi mundu verða lítils virði, — hann gat um það, þessi hv. þm., að ef ég ætti að vera samkvæmur sjálfum mér varðandi t.d. eftirlitið með mæðiveikivörnunum, ætti ég að leggja til, að það væri lagt niður. Þetta er alveg fullkominn misskilningur hjá þessum hv. þm., því að þótt þetta eftirlit hafi mjög misheppnazt, er ekki hægt eins og sakir standa og eins og komið er með sauðfjárrækt í landinu að leggja þetta eftirlit niður, og þarf miklu frekar að herða á því. En vissulega hefði það verið mikið fagnaðarefni og hagsmunamál, ekki einasta fyrir bændastétt landsins, heldur og allan landslýð, ef það hefði aldrei þurft að hefja þetta eftirlit, ef aldrei hefði verið flanað út í það að flytja inn karakúlféð og þar með þær voðalegu pestir, sem þjakað hafa landið allar götur síðan.

Og eins er það með þetta dragnótamál, að þótt eftirlit sé erfitt með girðingum og fjárpestum, mundi það verða enn þá þýðingarminna og fara enn þá meira út um þúfur, ef til þess er stofnað að fara að leyfa dragnótaveiðar hingað og þangað kringum land, því að það má nærri geta, hvernig færi með eftirlit með hundruðum dragnótabáta, sem geta verið að verki jafnt að nóttu sem degi. Þess vegna er þessi aths. frá hv. frsm. alveg út í bláinn.

Þá kom hér fram hv. 12. þm. Reykv. (PS) og talaði af miklum móði og með ljótu orðbragði, sem er nú kannske ekki alveg venjulegt, en það getur alveg dugað gagnvart mér, vegna þess að ég er skapgóður maður og mjög góðviljaður við unglinga. En þó að þetta orðbragð geti vel gengið á dragnótabátum, eins og þessi drengur hafði í frammi, þá vil ég vara hann við því að nota það jafnmikið hér á Alþingi og hann gerði í þessari ræðu.

Þessi hv. þm. hneykslaðist á því ákaflega, að ég skyldi nefna það, að svo að segja öll mín þekking á sjávarútvegsmálum og sérstaklega dragnótaveiði væri fengin hér á Alþ. Þessum hv. þm. fannst ákaflega hjákátlegt að nefna slíkt. En ég vil segja honum og öðrum hv. þm. það, að það er margoft hér í sölum Alþ., að þekkingin flýgur upp í fangið á hv. þm., oft fyrirhafnarlítið og mjög greinilega, og ég vil segja, að þeir menn, sem vilja ekki nota sér þá þekkingu, sem hægt er að fá af umr. í Alþ. og með þeim skjölum, sem hér liggja frammi, hafa hingað lítið erindi. Ég held, að það sé jafnvel ekki nokkurt mál, sem hefur verið jafnmikið til umr. og þjarkað jafnmikið um á Alþingi, síðan ég kom hingað fyrir 27 árum, og dragnótaveiði í landhelgi, því að það var um það mikið rætt, oft dag eftir dag og nótt eftir nótt, og það mættu vera undarlegir menn, sem við þær umr. allar hefðu ekki getað fengið einhverja þekkingu á þessu vandamáli. Sannleikurinn er sá, að aðstaðan í þeim efnum er sízt breytt til bóta frá því, sem áður var. Og sannleikurinn er sá, að þegar langar umr. eru um mál og hart sótt og varizt og allir flokkar klofna, eins og venjulega hefur verið um dragnótaveiðar, þá er jafnvel hægt að fá allra bezta þekkingu á þeim málum, sem um er að ræða.

Nú er það svo, að allar þær upplýsingar eða getgátur, sem fram hafa komið hjá þeim hv. þm., sem mælt hafa með þessu máli, eru ákaflega órökstuddar. Hv. 12. þm. Reykv. var með getgátur um það, að ef dragnótaveiði yrði leyfð, gæti það aukið útflutningsverðmæti þjóðarinnar um allt að 150 millj. kr. Fyrir þessu er ekki hægt að færa nein rök, sem hægt er að taka mark á, og liggja til þess ýmsar orsakir. Ég man ekki betur en það væri í Alþýðublaðinu frá því skýrt í s.l. janúarmánuði, að það lægju hér í landi 1300–1500 tonn af flatfiski, sem mjög liti illa út með að selja. Ég hef ekki leitað mér upplýsinga um það, hvort þennan fisk er búið að selja nú. En svo er ekki þar með búið, því að þótt ekki væri leyfð nein dragnótaveiði, er hægt að veiða þennan fisk eins og aðra fiska bæði í net og á lóðir, og mér er sagt, að Skagfirðingar hafi mokað upp flatfiski nú í vetur í net, og svo mundi víðar vera hægt.

Nú skal ég geta þess, að mér barst hér á dögunum bréf frá manni, sem ég þekki ekki neitt, en ég skal víkja hér að, án þess að tilgreina nafnið á manninum. Það er skrifað í Kópavogi 13. þ.m., og aðalatriði þess eru svo hljóðandi:

„Ég er yður mjög þakklátur fyrir mótstöðu yðar gegn frv. um dragnótaveiðar í landhelgi, sem samkvæmt dýrkeyptri reynslu er til alþjóðar skaða og skammar.“

Þessi maður bætir svo við nokkrum harðyrðum um hv. flm., sem ég ætla ekki að koma hér með, því að það er málinu í sjálfu sér óviðkomandi. En aðalatriði bréfsins fer þó hér á eftir:

„Mig langar til að gefa yður eftirfarandi upplýsingar: Nú er Faxaflói að verða fullur af smálúðu, ýsu og rauðsprettu, og á ca. 20 lóðir hafa fengizt að undanförnu 600–1200 kg af áðurnefndum fisktegundum. Allar fiskbúðir í Reykjavík og nágrenni eru fullar og vilja ekki kaupa nema mjög takmarkað, því að mjög mikið verður ónýtt, og íshúsin neita að kaupa. Í Reykjavík og nágrenni eru hundruð smábáta, og væri hægt að flytja þar í land tugi tonna daglega, þegar gefur á sjó, ef sölumöguleikar væru fyrir hendi. Þá mætti minna á, að fyrsta skilyrðið til að veiða þessar fisktegundir á línu er, að nógu góð beita sé til, en svo er ekki, og hefur ekki verið um að ræða nema 1–2 ára Faxasíldargrotta. Þótt fullt væri af síld um allt Vestur- og Norðurland í fyrrasumar, var alls ekki að ræða um að fá til beitu nema skemmda síld. Svona er búið að hinum ríkisstyrkjalausa útvegi, og svona er nú áhuginn mikill til að nytja þann góðfisk, sem hér fer sívaxandi og gæti veitt hundruðum, ef ekki þúsundum manna atvinnu án allra styrkja og án þess að stunda smánarlega rányrkju á uppeldisfiski og til eyðingar hrygningarstöðva.“

Maðurinn setur svo undir nafn sitt: „óflokksbundinn kommúnisti með fullri sjón“.

Ég þykist sjá, að þetta sé sjómaður, sem þekkir nokkuð til þessara mála, ekkert síður en skipstjórinn á Sauðárkróki, sem ég las bréfið frá um daginn, og stjórnin í bátafélaginu Björg, sem ég las upp bréfið frá eða samþykktina hér um daginn líka. Allir þessir menn eru því mjög andvígir, að farið sé að ganga inn á þá stórhættulegu leið að leyfa dragnótaveiði í landhelgi aftur.

Ég vil enn fremur víkja dálítið nánar að því hér, sem ég drap á aðeins um daginn í ræðu minni, að það kemur ákaflega öfugt við, þegar Íslendingar eru búnir árum saman að standa í baráttu til þess að fá útfærða landhelgi sína, og við vitum ekkert, hvernig það mál fer, ef svo ætti að fara að stórspilla fyrir því máli nú á hættulegasta tíma með því, að þjóð okkar færi að leyfa, að hér yrði tekin upp hættulegasta veiðiaðferð, sem þekkt er, því að það er áreiðanlegt, eins og fjöldi útgerðarmanna og sjómanna hefur tekið fram fyrr og síðar, að það er ekkert sambærilegt að veiða með botnvörpunni, sem togararnir nota, eða dragnót, sem sópar botninn til eyðileggingar fyrir gróður og allan uppvaxandi fisk. Þótt þetta sé stórmál í þessu efni varðandi mismun á dragnótabátaaðferðum og veiði togara, þá er stærsta málið það, að botnvörpungarnir eru, eins og kunnugt er, stór skip, sem komast ekki neitt nærri landi á borð við smábáta, jafnvel þótt þeir vildu brjóta landhelgislögin alveg takmarkalaust. Dragnótabátarnir, meðan þeir voru hér notaðir og þessi aðferð viðhöfð, gengu svo langt, að þeir fóru inn í árósa, þar sem eigendunum er bannað að leggja net, að ég nú ekki tali um að kasta vörpu, og til dæmis um það skal ég geta þess, að fyrir nokkuð mörgum árum, á meðan dragnótaveiðin var hér í fullum gangi, var ég einu sinni vakinn upp um hánótt norður á Akri. Þar voru komnir nokkrir menn, sem reyndust vera skipverjar á dragnótabát, og þeir voru búnir að stranda honum inni í Húnaós í blæjalogni og það á þeim tíma, sem úti var allur laxveiðitími. Ég náttúrlega brást vel við því að bjarga mönnunum frá því, að þeir þyrftu að skilja bátinn þarna eftir. En þetta er dæmi um það, hversu ósvífið það hefur verið, hvernig þessir menn hafa hagað sér gagnvart veiðimálum þjóðarinnar, og það fer, eins og ég vék að um daginn, að verða nokkuð hart fyrir þá menn, sem eiga land að sjó eða ám og vötnum og eru undir margvíslegum bönnum vegna þess, að það er verið að forðast það að eyða laxi og silungi og gengið í því miklu lengra en um nokkrar aðrar lifandi skepnur, að ég vil halda, að svo skyldi það eiga að vera samþ. hér á Alþ., að óviðkomandi mönnum úr öðrum héruðum eða öðrum landsfjórðungum væri leyft að fara með dragnætur inn í sanda og inn að landi og inn í hvern vog og vík og hvern fjarðarbotn, auk þess sem ætla má, að þeir vaði inn í árósa, þar sem hættulegast er að dorga með dragnótinni, hættulegast fyrir þann nytjafisk, sem upp í árnar gengur.

Af því að ég þykist vita, að það séu a.m.k. flestir alþm. þeirrar skoðunar, að okkur beri að halda fast á okkar landhelgismáli og að það sé það mikið hagsmunamál fyrir íslenzku þjóðina að gera ekki þar nein spjöll, sem gætu orðið til eyðileggingar í því stórmáli, vildi ég mega vona, að það komi ekki til greina, að þessu óþurftarmáli, sem hér er til umr., verði hleypt í gegnum Alþingi.