02.06.1960
Efri deild: 92. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3269 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

153. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. minni hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Allar þjóðir, sem einhvers eru megnugar, kappkosta að efla rannsóknir og hagnýta vísindastarfsemi í sem flestum atvinnugreinum. Þær telja, að þeim peningum, sem til þessa er varið, sé vel varið og fátt borgi sig betur. Sjálfsagt er talið að notfæra sér árangur þeirra vísindastarfa og rannsókna, sem gerðar eru, eins fljótt og auðið er. Við Íslendingar verjum nú orðið nokkrum milljónum árlega til slíkra starfa, þó sennilega hlutfallslega minni hluta þjóðartekna okkar en flestar þær þjóðir, sem hafa svipuð lífskjör og við. Margir telja, að betur borgaði sig fyrir okkur að verja meira fé í þessu skyni. Við höfum samt mjög góða reynslu af því að styðja vísinda- og rannsóknarstörf á ýmsum sviðum. Á sviði læknisfræði má t.d. nefna, að við vörðum miklu fé á okkar mælikvarða til vísinda- og rannsóknarstarfa í sambandi við berklaveikina í landinu. Við fórum þar alveg að ráðum þeirra vísindamanna, sem við fólum þar forustu. Árangurinn varð svo góður, að við erum stoltir af honum, og við megum vera það. Við erum á góðri leið með að sigra þann vágest. Enginn vafi er, að fátt hefur borgað sig betur fjárhagslega fyrir þjóðina.

Við höfum hafið hér stóriðju og framleiðum nú sjálfir sement fyrir okkur og mikinn hluta þess áburðar, sem við notum, við virkjum fallvötn okkar og hitaorkuna í iðrum jarðar, allt að undangengnum rannsóknum og ráði þeirra vísindamanna, sem við treystum bezt, hverjum á sínu sviði. Við höfum líka haft af þessu stóran ávinning, og þetta er ein af sterkustu stoðunum undir batnandi lífskjörum okkar. Við höfum einnig haft mikið gagn af starfi fiskifræðinga okkar og vísinda- og fræðimanna á sviði skógræktar og landbúnaðar, sem oft hafa þó starfað við frumstæðari og erfiðari skilyrði en æskilegt hefði verið.

Ég skal ekki hafa þennan inngang lengri, en ég vildi ekki láta hjá líða að minna á þetta, vegna þess að oft verður vart sinnu- og skilningsleysis á þessum þjóðnytjastörfum og jafnvel talið eftir það fé, sem til þeirra fer. En sannleikurinn er, að við höfum ekki efni á öðru en að styðja slíka starfsemi eftir föngum.

Það mál, sem hér liggur fyrir, frv. til laga um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti, er komið frá Nd., var samþ. þar með miklum meiri hl. atkv. Um þetta mál hafa annars löngum verið skiptar skoðanir. Dragnótaveiðar voru stundaðar í allstórum stíl á árunum 1930–1948. Síðan hafa þær verið bannaðar algerlega innan fiskveiðilandhelgi. Á þessum árum gekk flatfiskur til þurrðar eins og annar fiskur við landið vegna ofveiði, ekki aðeins vegna dragnótaveiði, heldur mega menn ekki gleyma, að togveiði var leyfð og stunduð inn að þriggja mílna línu og inn á firði og flóa, bæði af innlendum og erlendum skipum.

Samkvæmt rannsóknum íslenzkra fiskifræðinga og aflaskýrslum erlendra skipa var flatfiskveiði fljót að aukast, eftir að friðunin kom, og hefur síðan aðallega komið erlendum fiskiskipum að góðu. Þau hafa sótzt eftir þessum verðmæta fiski til sölu á mörkuðum erlendis, en íslenzkir togarar hafa undanfarið aðallega lagt afla á land hér heima til vinnslu og þá sótzt meira eftir öðrum fisktegundum.

Nú er vitað, að flatfiskmagn er orðið mikið víða við landið, og þykir því ýmsum eðlilegt og sjálfsagt að nytja þá auðlind, og er þá vart um annað veiðarfæri að ræða en dragnót eða botnvörpu til þess að veiða það magn, sem hér er um að ræða. Vegna fyrri reynslu þykir sjálfsagt að fara varlega af stað og sérstaklega að láta vísindamenn á þessu sviði fylgjast með, og er beinlínis gert skylt að fara að ráðum þeirra, ef þeir eru sammála um, að nauðsyn beri til að kippa að sér hendinni um leyfisveitingar. Einnig eru í frv. ákvæði, sem veita sveitarstjórnum og samtökum útvegsmanna, sjómanna og verkamanna aðstöðu til að hafa áhrif á, hvort dragnótaveiði skuli leyfð á tilteknum veiðisvæðum, einkum ef talið væri, að aðrar nytjar veiðisvæðanna biðu hnekki við dragnótaveiði.

Á meðan þetta frv. var til umr. í hv. Nd., var það sent til umsagnar ýmissa aðila. Með leyfi hæstv. forseta, skal ég lesa hér úr grg. á þskj. 399, þar sem þessir aðilar eru taldir og stuttlega greint frá svörum þeirra.

Fiskifélag Íslands mælir með takmörkuðu leyfi undir vísindalegu eftirliti. Samband fiskideilda á Snæfellsnesi mælir með takmörkuðu leyfi. Samband fiskideilda Sunnlendingafjórðungs óskar ýtarlegri rannsóknar, áður en ákvörðun yrði tekin um takmörkuð leyfi. Landssamband íslenzkra útvegsmanna óskar, að rannsakað sé, hvort tímabært sé að veita takmörkuð leyfi undir eftirliti. Fiskideildir Austfirðingafjórðungs mæla með takmörkuðu leyfi. Fiskideild Vestmannaeyja mælir með leyfum samkv. frv. á þskj. 5, vill leyfa stærri bátum en 35 rúmlesta dragnótaveiðar. Samband fiskideilda á Norðurlandi hefur ekki svarað sérstaklega, en vísar til meðferðar fiskiþings í málinu. Alþýðusamband Íslands hefur ekki svarað vegna ólíkra skoðana innbyrðis. Sumir framangreindir aðilar, t.d. Landssamband íslenzkra útvegsmanna, svöruðu með því að vísa til svara sinna frá s.l. ári í sama máli.

Þá hefur einnig, eftir að umr. um málið lauk í Nd., borizt umsögn frá stjórn Smáútvegsbændafélags Vestmannaeyja, þar sem skorað er á Alþ. samþ. fram komið frv. til laga um dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi.

Ég skal ekki orðlengja þetta að sinni, en eins og fram kemur í nál. mínu og hv. 4. þm. Vestf. (SE), sem myndum minni hl. sjútvn., leggjum við til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 573.

Frsm. meiri hl. hv. sjútvn. sagði, að erfiðleikar við eftirlitið væru miklir, ef veiði yrði aðeins leyfð á takmörkuðum svæðum. Út af því vil ég segja þetta: Það vill svo til, að um áratugaskeið hafa verið veitt leyfi til rækjuveiða á takmörkuðu svæði. Þetta hefur ekki, svo að ég viti til, valdið neinum vandkvæðum í framkvæmd. Mönnum er svo, sárt um þessi leyfi, að þeir gerast ekki viljandi brotlegir. En við veiðar svo nærri landi er tiltölulega auðvelt að fylgjast með bátunum.

Við getum ekki fallizt á rök meiri hl. hv. sjútvn. Málið hefur einmitt verið vandlega athugað af n., sem skipuð var af sjútvmrh. 1959, og borið undir þá aðila, sem unnið hafa að rannsóknum á þessum málum á undanförnum árum, eins og ég hef lýst hér áður.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. meiri hl. sagði um það, að ýsan væri farin að stækka mikið, þá þótti mér vænt um að heyra það. Mér þykir ýsa góð, en ég þekki ekki þá útgerðarmenn eða sjómenn, sem vilja ekki heldur selja tonn af flatfiski fyrir 12 eða 14 þús. kr. en tonn af þorski eða ýsu fyrir í kringum 3 þús. kr.

Við hv. 4. þm. Vestf. (SE) teljum, að í þessu máli eigi hagsmunir þjóðarheildarinnar að gilda og sjónarmið vísindanna, en taka eigi þó tillit til sérhagsmuna, þar sem það kemur greinilega og ótvírætt fram. Réttlátari og sanngjarnari lausn á þessu máli verður tæpast fundin.