30.05.1960
Sameinað þing: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3336 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég mun á þeim mínútum, sem ég hef til umráða, freista að draga í örfáum meginlínum upp þá mynd þjóðmálanna, sem nú er harðast um deilt.

Þau efnahagslegu vandamál, sem núv. hæstv. ríkisstj. tók við og hefur reynt að finna lausn á á þessu þingi, eiga rætur sínar að rekja í tvær áttir. Sumpart eru þau arfur 15 ára misvægis í þjóðarbúskapnum, og að hluta eru þau vanskilavíxill frá tímum vinstri stjórnarinnar. Jafnvægisskorturinn hefur að vísu verið á misháu stigi þennan hálfan annan áratug, en sömu sjúkdómseinkennin hafa alltaf verið fyrir hendi. Þau hafa lýst sér í, að við höfum í stað stöðugs verðlags búið við stöðuga verðbólgu. Þessu hefur verið samfara varanlegur greiðsluhalli við útlönd, meiru hefur verið eytt en aflað var og þjóðarskútunni fleytt áfram með sífelldum erlendum lántökum, sem á síðustu árum voru í æ ríkari mæli bein eyðslulán.

Vanskilavíxill vinstri stjórnarinnar reyndist við nánari athugun heill vanskilareikningur. Á þeim reikningi mátti sjá, að á 5 missirum jukust skattbyrðar borgaranna um 1200 millj. kr., greiðsluhallinn við útlönd var orðinn 200 millj. kr. á ári og á einu ári hækkaði vísitalan um 34 stig.

Með „jólagjöfinni“ 1956 og „bjargráðunum“ 1958 var framkvæmd dulbúin gengisfelling og gengi krónunnar fellt um 30%. Og á seinni hluta ársins 1958 var svo komið, að yfir vofði hrein og bein óðaverðbólga. Svo óhugnanlegur var vanskilavíxill vinstri stjórnarinnar orðinn, að forseti Alþýðusambandsins vildi ekki lengur vera ábekingur á honum og komst við það tækifæri svo að orði í Vinnugreininni frægu, með leyfi hæstv. forseta: „Nú er flestum orðið ljóst, að þetta er leiðin til glötunar. Þessa braut má ekki renna á enda, hún liggur fram af hengiflugi.“ Það var sem sé enginn annar en hv. þm. Hannibal Valdimarsson, sem gaf stefnu vinstri stjórnarinnar, styrkja-, uppbóta- og haftakerfinu með verðbólguvængjunum, nafnið „leiðin til glötunar“, og það nafn mun seint gleymast.

Hermann Jónasson sá, hvað fara gerði. Hann hafði í Tímanum 11. jan. 1959 lýst því, hvað fyrir honum vakti, þegar hann stikaði út af fundi Alþýðusambandsins og snaraði sér úr stjórnarsessinum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ég sakna samstarfs vinstri flokkanna, en tel þó langtum betur farið, að því væri slitíð á þessu stigi, þegar með réttu er hægt að benda á góðan viðskilnað, en að setið væri áfram og endað með strandi að ári liðnu.“

Hv. þm. Hermann Jónasson sá nefnilega fram á strandið. Þess vegna hljóp hann frá hinu helsjúka atvinnulífi, sem hann svo nefndi, og kvaddi með sínum fleygu orðum: „Ný verðbólguskriða er skollin yfir.“

Hannibal hélt, að þjóðarbúskapurinn væri að steypast fyrir björg, Hermann, að verið væri að sigla honum í strand. Það var sem sagt öllum ljóst, að í hreint óefni var komið í efnahagsmálum þjóðarinnar og að hafta- og styrkjakerfið hafði sungið sitt síðasta.

Það var verkefni minnihlutastjórnar Alþfl. með stuðningi sjálfstæðismanna að stýra hjá boðanum og stöðva óðaverðbólguna. Það tókst, en var gert með bráðabirgðaúrræðum, sem var ekki ætlað að leysa vandann varanlega. Það flókna vandamál beið stjórnar Ólafs Thors. Uppbótakerfinu varð ekki lengur haldið við, því að það hlaut að kalla yfir þjóðina gífurlega kjaraskerðingu og að lokum atvinnuleysi. En hver voru þá úrræði stjórnmálaflokkanna? Það er skemmst frá að segja, að stjórnarandstaðan hafði í raun og veru engin úrræði fram að færa. Sósíalistarnir flögguðu að vísu með einhverjum áætlunarbúskap, en þar var jafnvel allur ferskur blær sannfæringar horfinn úr rödd Einars Olgeirssonar, enda er allt þetta kvak um áætlunarbúskap tómar tillærðar kennisetningar, sem aldrei geta skotið rótum í gegnum malbikið og því dæmdar til þess að visna og deyja. Áætlunarbúskapurinn gerir ekkert annað en skipuleggja fátæktina og leiðir áður en varir til stjórnarfarslegs einræðis.

Framsóknarmennirnir stóðu uppi algerlega stefnulausir í málinu. Tíminn sagði líka, að það skipti ekki höfuðmáli, hvaða leiðir væru farnar í efnahagsmálunum.

Stjórnarflokkarnir gengu hins vegar til kosninganna með ákveðna stefnuskrá í efnahagsmálum. Þeir hafa staðið við sín kosningaloforð og markað stefnuna í vetur á Alþ. með þeirri löggjöf, sem hér hefur verið samþykkt. Þessi stefna mótast ekki af neinni óskhyggju. Hún er raunsæ, bjartsýn og miðast við langan tíma. Kjarni hennar er að vinna að því, að velmegun manna verði almenn í þessu landi og reist á varanlegri grundvelli en verið hefur. Þau lög, sem hafa að geyma efnahagsmálastefnu núv. ríkisstj., eru: lögin um efnahagsmál, lög um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, lög um almannatryggingar og fern lög um skattamál. Þessi löggjöf í heild myndar efnahagsmálastefnu ríkisstj., heilsteypta stefnu og þá einu og aleinu leið, sem ríkisstj. að grandskoðuðu máli taldi færa.

Höfuðþættir efnahagsmálalaganna sjálfra voru þessir: Gengi krónunnar var fellt, vísitölukerfið var afnumið, vextir hækkaðir og ný stefna tekin upp í útlánum bankanna. Stefnt skyldi að því að mynda gjaldeyrisvarasjóð. Fjárfestingarhöft voru afnumin. Lagðar voru niður eftirtaldar nefndir og stofnanir: innflutningsskrifstofan, útflutningsnefnd og jeppanefnd.

Stjórnarandstaðan veittist að stjórninni fyrir hina nýju gengisskráningu, þegar hún var tekin upp. Í dag veit ég ekki um nema einn mann á Íslandi, sem mundi ekki a.m.k. í hjarta sínu viðurkenna, að ný skráning krónunnar hefði verið nauðsynleg. Þessi eini maður er Einar Olgeirsson, en hann hefur hvað eftir annað sagt hér á Alþingi: „Það er engin ástæða til þess að skrá rétt gengi.“ Aðrir sósíalistar eru á annarri skoðun um þetta. T.d. hefur Haraldur Jóhannsson hagfræðingur ítrekað lýst því yfir, að krónan hafi verið ofmetin, en sá ágæti sósíalisti hefur líka sagt þessi raunsæju orð um flokksbræður sína, með leyfi forseta:

„En á sama hátt og strúturinn getur ekki forðazt hætturnar með því að stinga höfðinu í sandinn, geta vinstri menn ekki unnið bug á efnahagslegum erfiðleikum með því að virða þá að vettugi.“

Nei, gengisskráningin nýja var ill nauðsyn, því að gengi krónunnar var löngu fallið, féll m.a. hvað mest í tíð vinstri stjórnarinnar. Alþ. gerði ekkert annað en viðurkenna þessa gengisfellingu með því að lögbjóða hina nýju skráningu.

Þá er það afnám vísitölukerfisins. Þetta kerfi átti að tryggja tvennt: afkomu launþeganna og vinnufrið í landinu. Hvort tveggja mistókst. Vinnudeilur voru sízt færri en áður, og varðandi afkomu launþeganna reyndist vísitölukerfið einmitt snar þáttur í svikamyllu verðbólgunnar, sem þyngstum búsifjum hefur valdið verkamönnum á liðnum árum, enda man ég ekki betur en að forseti Alþýðusambandsins hafi hér við einar eldhúsdagsumræður varið drjúgum tíma í að sýna fram á óhagræði þessa kerfis og haldið því fram, að það væru fyrst og fremst hálaunamennirnir, sem högnuðust á vísitölukerfinu. Þá geri ég ráð fyrir, að sumir útvarpshlustendur séu þess enn minnugir, er Hermann Jónasson 2. marz 1958 í eldhúsdagsumræðunum upplýsti, að stjórn hans hefði látið „taka vísitöluskrúfuna úr sambandi til hausts“, eins og hann orðaði það, og taldi þessa vísitöluskrúfu beint orsök allra erfiðleika. Það situr því illa á þessum mönnum og flokksbræðrum þeirra að fjargviðrast yfir því, að vísitölukerfið hefur nú verið afnumið með lögum.

Varðandi nýju bankavaxtapólitíkina vil ég segja þetta: Hvorki mun tilætlunin, að vaxtahækkunin né útlánatakmörkunin verði varanlegt fyrirkomulag, heldur fyrst og fremst stundaraðgerðir til þess að tryggja, að gengisbreytingin verði ekki eyðilögð með nýrri verðbólgu. Gagnrýni stjórnarandstæðinga, a.m.k. framsóknarmanna, á henni er næsta kátbrosleg, einkum þegar maður hefur skjallegar yfirlýsingar hv. þm. Eysteins Jónssonar um þetta efni í álitsgerð hans um gjaldeyrismál frá 1941, en þar segir Eysteinn: „Bankarnir geta með útlánastarfsemi sinni og vaxtastefnu haft veruleg áhrif á verðlag og kostnaðarlag í landinu og þar með utanríkisverzlun og gjaldeyrisástand.“ Og það ráð gefur Eysteinn Jónsson, „að bankarnir séu varkárir í útlánastarfsemi sinni og verði útlánin á venjulegum tímum ekki aukin nema því, sem talið er svara raunverulegum sparnaði landsmanna.“

Afnám fjárfestingarhaftanna og andlát hinna þriggja nefnda geri ég ráð fyrir að sé engum hryggðarefni nema sósíalistum, því að eins og mönnum er kunnugt, hefur Einar Olgeirsson mjög haldið því til streitu hér á Alþ., að það sé hreint óbærileg tilhugsun, að innflutningsnefnd verði lögð niður. Þjóðfélagið verði „með harðri hendi að stjórna fjárfestingunni,“ svo að höfð séu hans eigin orð, og gallinn hafi bara verið, „að höftin voru ekki nógu alger.“ T.d. var honum mikil eftirsjá í, að hætt var að skammta brauð, sykur og fleiri nauðsynjar.

Þetta er skoðun sósíalistanna á þeim málum.

Lög um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála eru hluti efnahagsmálalöggjafar ríkisstj. Sósíalistar hafa þau eins og aðrar efnahagsaðgerðir stj. mjög á hornum sér. Mænandi augum í háaustur hefur Einar Olgeirsson sagt: „Fríverzlunin er hættulegasta málið, sem ríkisstj. hefur flutt,“ og svo bætti hann við: „Frjáls verzlun er verri en herinn.“ Þá vita menn það. Sannleikurinn í málinu er hins vegar sá, að ef vel tekst til, getur verzlunarfrelsið orðið öllum almenningi í landinu kjarabót. Frjáls verzlun er nefnilega fyrst og fremst hagsmunamál launþeganna í landinu, sem byggja afkomu sína á að fá sem beztar vörur við sem lægstu verði. Fríverzlunin er því í raun og veru alþýðutryggingar út á við.

Að lokum er það svo hin merka löggjöf um almannatryggingar, sem samþ. var á þessu þingi og færir styrkhöfum verulegar kjarabætur, og er hún ljós vottur um vilja ríkisstj. til þess að vefa nýja félagshyggju inn í uppistöðu frjálslynds efnahagskerfis.

Góðir Íslendingar. Við stöndum nú á tímamótum mikilla erfiðleika og mikilla möguleika. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert þá alvarlegustu og ábyrgustu tilraun, sem fram til þessa hefur verið gerð hér á landi til þess að koma búskap þjóðarinnar á heilbrigðan, traustan grundvöll. Stjórn og þing hafa verið athafnasöm, og enn nokkurn tíma þarf til þess, að tilætlaðra áhrifa efnahagsaðgerðanna gæti í atvinnulífinu. Og þó vottar þegar fyrir fyrsta árangri, því að gjaldeyrisaðstaðan gagnvart útlöndum hefur á tveimur mánuðum, frá febrúarlokum til aprílloka, batnað um 202 millj. kr. Sama er að segja um sparifjármyndunina. Sparifé bankanna jókst í aprílmánuði einum um 43.6 millj. og veltuinnlán viðskiptabankanna um 33 millj. kr. En það eru viss öfl í þjóðfélaginu, sem vilja ekki, að þessi tilraun takist, og tala um að kollvarpa þessu efnahagskerfi á næstu mánuðum. Áður en menn ljá slíku tali eyru, ættu þeir fyrst að hugleiða eftirfarandi staðreyndir:

1) Vissulega hefur kjaraskerðing fylgt efnahagsaðgerðunum, en það er gert ráð fyrir, að sú kjaraskerðing verði aðeins tímabundin. Ef hins vegar ekkert hefði verið að gert, hefði óhjákvæmilega komið til kjaraskerðingar og hennar miklu meiri, þar sem henni hefði fylgt atvinnuleysi, og sú kjaraskerðing hefði ekki verið tímabundin, heldur varanleg skerðing á lífskjörum landsmanna.

2) Ef núv. tilraun mistekst, verður aftur horfið að enn þá harðhentari haftabúskap en áður hefur þekkzt hér á landi, sem mun hafa í för með sér ný fjárfestingarhöft, ný innflutningshöft, áframhaldandi verðbólgu, vaxandi gjaldeyrisskort, atvinnuleysi, skömmtun, biðraðir og svartan markað. Ef menn vilja ekki kjósa þessi ósköp yfir sig og sína, ættu þeir að sýna efnahagsmálaaðgerðum stjórnarinnar góðvilja og hafa nokkra þolinmæði til þess að bíða þess að sjá, hverju þessar aðgerðir fá áorkað til hagsbóta fyrir þjóðina alla.

Góðir Íslendingar. Gefið stjórn landsins heiðarlegt tækifæri og dæmið hana síðan af verkum hennar. Það eru drengileg vinnubrögð og Íslendingum samboðin. — Góða nótt.