28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3437 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh, telur, að það sé ekkert samband á milli þingfrestunar og þeirra frumvarpa, sem hér liggja fyrir til umr. Ég get ekki alveg fallizt á þessa röksemd. Fyrir þessari hv. d. liggja nú fjögur tekjuöflunarfrv., og það eru frv., sem fjalla ekki um neitt smáræði, það eru frv., sem fjalla um milljónatekjur í ríkissjóð. Ég verð að telja það óeðlileg vinnubrögð, og ég verð að álíta, að það séu mjög óvenjuleg vinnubrögð, sem ekki hafi tíðkazt hér áður, að það sé farið að samþykkja slík tekjuöflunarfrv. sem þessi áður en farin er a.m.k. fram 1. umr. um fjárlagafrv. og gerð hefur verið grein fyrir afkomu ríkissjóðs. Ég verð að telja það mjög óviðkunnanlegt, að farið sé fram á það við alþm. að taka afstöðu til slíkra mála sem þessara, án þess að sú grg. liggi fyrir af hálfu ríkisstj. En það er alveg bersýnilegt, að ef á að fresta þingi nú næsta mánudag, þá er gert ráð fyrir því, að það fari alls ekki fram 1. umr. fjárlaga, áður en þingfrestun á sér stað. Ég get þess vegna alls ekki litið svo á, eins og hæstv. fjmrh., að það sé ekkert samband á milli þessa. Ég verð þvert á móti að líta svo á, að það sé ákaflega eðlilegt, að við viljum fá að vita það, þeir þingmenn, sem hér sitjum, áður en við tökum þátt í því að afgreiða þessi mál, hvort meiningin er að fresta þingi, áður en fram fer 1. umr. um fjárlög.