05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var til 1. umr. hér í þessari hv. deild. Þá skeði það, sem er mjög óvanalegt hér á Alþ.,hæstv. forseti lét ganga til atkv. um till., sem í var ákveðið, að umræður skyldu niður skornar. Ég ætla ekki að fara að ræða um þessa nýju aðferð, en ég vildi mega mælast til þess við hæstv. forseta, að slíkir atburðir, sem þar gerðust, endurtækju sig ekki. Ég vil enn fremur benda hæstv. forseta á, að það er mjög óþægileg aðstaða fyrir hann að þurfa að stjórna fundum hér í Alþ. á móti jafnsterkum minni hluta og hér er, og það er tvímælalaust skylda hæstv. forseta í öllum tilfellum að reyna að ná sem beztu samkomulagi um afgreiðslu mála og hafa sem bezt samkomulag við alla þm. um afgreiðslu þeirra. Læt ég svo útrætt um það atriði.

Það er mjög eðlilegt, að fram hafi komið till. eða krafa um það til hæstv. forseta, að bráðabirgðalögin um landbúnaðarverð verði rædd og afgreidd nú á þessu Alþingi. Ég vil hér með leyfa mér að taka undir þessa kröfu og óska þess víð hæstv. forseta, að hann verði við henni.

Hæstv. fjmrh. og yfirleitt þeir ráðherrar, sem hér hafa talað um þessi mál, telja þeim tíma Alþ. illa varið, sem færi til þess að ræða og afgreiða frv. og þáltill., sem fram hafa komið frá hinum ýmsu alþm. Þessi skoðun hæstv. ráðh. er vægast sagt mjög einkennileg. Minnist ég þess ekki að hafa heyrt slíku haldíð fram hér á Alþ. fyrr. Það má segja, að með nýjum herrum komi nýir siðir, og verð ég að segja það, að þetta lofar ekki góðu um það, sem koma skal.

Á undanförnum þingum hefur það verið viðtekin regla, að lögð hafa verið fram á Alþingi frv. til laga um framlenging á þar tilteknum lögum um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld til ríkissjóðs með viðauka. Allt er þetta orðið allflókið mál og ekki svo auðveit í fljótu bragði að átta sig á því, hvernig þessum málum er fyrir komið. Fyrir hinn almenna borgara, sem er ekki því betur inni í tollakerfi landsins, eru þessir viðaukar á viðauka ofan hreint völundarhús, sem krefst heils hers af starfsfólki, — vitanlega upp og ofan, eins og gengur og gerist, kannske ekki ætíð valið eftir hæfni, heldur eftir öðrum fjarskyldari sjónarmiðum. Það hlýtur að vekja almenna athygli, hve mjög er sótzt eftir að komast í slík störf hjá ríkinu. Ekki mun almennt vera fylgt þeirri reglu að auglýsa eftir fólki í störfin, heldur eru það hinir ýmsu aðalskrifstofustjórar og aðstoðarskrifstofustjórar, forstjórar og aðstoðarforstjórar, sem ráða starfsfólkið. Ekki hef ég leitað mér upplýsinga um, hve margt starfsfólkið er, sem vinnur hjá því opinbera. Sú skýrsla, sem um það er gefin í fjárlagafrv., er langt frá því að vera tæmandi. En ekki mun þó fráleitt að áætla, að það skipti mörgum þúsundum. Nú hefur það verið viðtekin regla hjá flestum ríkisstjórnum að hafa sem eitt af stefnuskráratriðum sínum að koma á sparnaði í ríkisrekstri, en efndirnar hafa engar orðið, heldur jafnvel þveröfugt. Allir stjórnmálaflokkar landsins hafa við allar kosningar, sem ég man eftir, talið sig vilja koma á sparnaði og betra skipulagi á rekstri ríkisins og ríkisstofnana. En þegar til kastanna hefur komið, hefur lítið sem ekkert orðið af framkvæmdum.

Hæstv. núverandi ríkisstj. vill að sjálfsögðu koma á opinberum sparnaði í ríkisrekstri, afgreiða tekjuhallalaus fjárlög o.s.frv. En ekki er nú kálið sopið, þótt í ausuna sé komið. Fyrsta verk þessarar ríkisstj. var að fjölga ráðherrunum úr 6 í 7, miðað við það, sem áður hafði verið. Í tíð fyrrverandi ríkisstj., þar sem Alþfl. fór með völd með stuðningi Sjálfstfl., voru þó ekki nema 4 ráðherrar, og virðist það ekkert hafa torveldað störf hennar.

Núverandi hæstv. ríkisstj. hefur gert meira en fjölga ráðherrum. Hún hefur stofnað nýtt ráðuneyti, efnahagsmálaráðuneyti, að sjálfsögðu með viðunandi starfsliði, þegar fram í sækir. Þá er sagt, að nú sé á vegum ríkisstj. heill hópur af svokölluðum sérfræðingum, sem vinni dag og nótt að úrlausnum hinna margvíslegu vandamála þjóðfélagsins. Ekkert hefur verið látíð uppi um það, hvaða menn þetta eru eða hve margir þeir eru. Þessir sérfræðingar virðast vera nokkurs konar æðsta ráð ríkisstjórnarinnar. Eitt er staðreynd, og það er það, að hæstv. ríkisstj. telur sig þess ekki umkomna að flytja eitt einasta mál eða benda á eina einustu leið til úrbóta á núverandi ástandi. Hún bíður eftir hinum vísu mönnum og þeirra tillögum í ofvæni og með mikilli eftirvæntingu. Hæstv. ríkisstj. telur sig vera upp úr því vaxna að ræða vandamálin við þingheim, alþm. skulu sendir heim, hver á sína sveit, og bíða þar þangað til stjórnarherrunum þóknast allra mildilegast að kalla þá hingað suður á þorranum til að leggja blessun sína og samþykki sitt yfir till. sérfræðinganna.

Þau einu mál, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram á Alþingi, eru frv. til fjárlaga fyrir árið 1960 ásamt nokkrum lögum um bráðabirgðagreiðslur til ríkissjóðs og framlengingu nokkurra laga. Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að frv. hefur ekki verið tekið fyrir til 1. umr., hvað sem því veldur. Er hér um að ræða algerlega nýjar og áður óþekktar starfsaðferðir. Verður því að álykta, að hæstv. fjmrh. telji frv. svo langt frá raunveruleikanum, að ekki sé frambærilegt að taka það til 1. umr.

Önnur þau mál, sem lögð hafa verið fram af hæstv. ríkisstj., eru nokkur frv. um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga um tekjuviðauka til ríkissjóðs. Ég gat þess áðan, að tollalöggjöf landsins væri orðin mjög flókin og ekki á allra meðfæri að finna út alla þá tolla og viðauka, sem í gildi eru. Ég fór því fram á það við skrifstofu Alþingis að fá t.d. tollskrána, sem ég í einfeldni minni taldi að skrifstofan mundi hafa sérprentaða hér. Nei, mér var tjáð, að tollskráin væri þar ekki til. Ég bað þá fulltrúa skrifstofustjóra að hringja upp í fjmrn. og spyrjast þar fyrir um, hvort þar væri ekki hægt að fá skrána. Nei, hún var þar ekki til. En maðurinn, sem svaraði í símann frá ráðuneytinu, upplýsti, að tollskrá væri til sölu í Bókaverzlun Ísafoldar.

Það var út af fyrir sig ágætt. Þar gat maður fengið hana keypta. En fulltrúi skrifstofustjóra benti mér á það í mestu vinsemd, sem ég reyndar vissi áður, að ég gæti fengið að vita þetta allt saman í Stjórnartíðindunum, sem tollskráin væri í, og sömuleiðis í lagasafninu. Ég bendi bara á þetta sem dæmi þess, hve stundum getur reynzt erfitt að fá víðunandi gögn til að vinna úr. Sérstaklega getur þetta verið slæmt fyrir okkur, sem dveljum hér um stundarsakir og höfum ekki ástæðu til að hafa með okkur nema að litlu leyti nauðsynleg gögn.

Í upphafi þessa þings flutti hæstv. ríkisstj. allmörg frv. til framlengingar nokkurra laga um áframhaldandi heimild fyrir ríkisstj. að innheimta á árinu 1960 með viðauka gjöld til ríkissjóðs, um framlenging á þessum frv. svo og um fyrirhugaða þingfrestun. Um þessi frv. hafa orðið allmiklar umræður. Hæstv. ríkisstj. mun hafa talið, að umr. um öll þessi frv. gætu dregizt allverulega. og þar sem það virðist vera aðaláhugamál ríkisstj. að reka þingmennina heim, voru frv. dregin til baka og samið nýtt frv., sem hefur að innihalda þau ákvæði og efni, sem voru í fyrri frumvörpunum. Manna á milli er þetta kallað „bandormurinn“ eftir líku frv., sem flutt var á Alþingi, að ég tel, 1939. Með þessum vinnubrögðum hyggst ríkisstj. geta komið í veg fyrir óþarfatafir og málin komist fyrr í gegn en ella. Hæstv. ríkisstj. telur sig nú heldur en ekki hafa snúið á stjórnarandstöðuna og hyggst nú hafa öll ráð í sínum höndum. Sýnist, að þessi framkoma hæstv. ríkisstj. beri keim af lágkúrulegum hugsunarhætti og bendi til slæmrar samvizku.

Það er alveg furðulegt, að hæstv. ríkisstj. skyldi ekki reyna að ná samkomulagi við stjórnarandstöðuflokkana um þessi mál og þá um leið um þingfrestunina. Það spáir engu góðu um samstarf á milli ríkisstj. og stjórnarandstöðunnar til lausnar aðkallandi vandamálum. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstjórn áliti sig þess umkomna að leysa aðkallandi vandamál í krafti þess þingmeirihluta, sem á bak við hana stendur, og þar af leiðandi þurfi hún ekki og vilji ekki taka til greina álit og óskir minni hlutans. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. En hvort það fær staðizt, á reynslan eftir að skera úr um.

Ég hafði látið mér detta það í hug, að það hefði verið vænlegra til úrlausnar aðkallandi vandamála, að gerð hefði verið tilraun til að samræma sjónarmið sem allra flestra aðila, og ég fullyrði, að það er það, sem fólkið í landinu krefst að verði gert. En hæstv. ríkisstjórn er á allt annarri skoðun. Hún hefur kastað hanzkanum. Hún virðist staðráðin í því að beita minni hlutann óheyrilegu gerræði. En engar frambærilegar varnir hafa verið fram bornar af hendi hennar, engin viðunandi svör fengizt við fyrirspurnum, og engin frambærileg rök af hendi ríkisstj. hafa verið færð fyrir því gerræði að senda hið nýkjörna Alþ. heim frá óleystum störfum, og þannig mætti lengi telja.

Ég hef lítils háttar rætt um tolla og viðaukagjöld, sem lögð hafa verið á, og ýmis gjöld til ríkissjóðs, sem nú er lagt til að öll verði framlengd fyrir árið 1960. Full ástæða hefði verið til að lesa upp frv., sem hér liggur fyrir, gefa þar með áheyrendum kost á að heyra, hvernig þessi lög lita út, en til þess að lengja ekki tímann, þá mun ég ekki gera það. Í frv. er vísað til á milli 10 og 20 laga og enn fleiri lagagreina. Mér hefur ekki unnizt tími til að bera saman ákvæði þessa frv. við gildandi lög, en ganga verður þó út frá, að rétt sé frá skýrt í grg., en þar er sagt, að frv. þetta feli í sér framlenging fyrir árið 1960 á ákvæðum þeim, sem nú sé að finna í eftirtöldum lögum.

Ég held, að engum geti dulizt, að full þörf sé að taka í gegn allt tollakerfið í heild og gera það einfaldara og aðgengilegra en það er nú. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að með því að samræma hin ýmsu lög, væri hægt að koma við miklum sparnaði í mannahaldi og skrifstofuhaldi, auk þess sem hin mörgu lög og viðaukar við lögin verða til þess, að almenningur veit ekki, hvað eru lög og hvað ekki, og því síður vita menn, hve mikinn toll t.d. þeir eiga að greiða af þessari eða hinni vörutegundinni, því að á hinn upprunalega toll eru máske komnir fleiri viðaukar.

Í þeim umræðum, sem fram hafa farið hér á Alþingi um þessi mál, hefur m.a. verið rætt allmikið um þá ákvörðun hæstv. ríkisstj. að fresta fundum Alþingis um tveggja mánaða skeið ag senda þingið heim. Ýmsir voru þeir, sem vildu ekki leggja trúnað á þennan orðróm. Menn töldu það óhugsandi, að slíkum aðferðum yrði beitt, að ríkisstj. leyfði sér slíkt gerræði sem það að senda þingið heim eftir tíu daga setu og án þess að eitt einasta mál til lausnar yfirstandandi vandamálum hefði verið lagt fram til umr. og afgreiðslu. Hæstv. ríkisstj. hafði ekki einu sinni látið leggja fram brbl., sem gefin voru út á milli þinga. Slíkir starfshættir verða að teljast með öllu óeðlilegir og um leið óvanalegir. Því miður er það staðreynd, að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að senda þingið heim, hvað sem tautar og raular.

Sá háttur hefur verið hafður á í tíð fyrrv. ríkisstjórna og er í fullu samræmi við þingræðis- og lýðræðishugsjón okkar, að brbl., sem gefin eru út milli þinga, séu lögð fram í þingbyrjun. Það getur verið, að brýna nauðsyn beri til þess fyrir hvaða ríkisstjórn sem er að gefa út brbl. milli þinga, enda segir svo í 28. gr. stjórnarskrár íslenzka lýðveldisins, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forseti gefið út bráðabirgðalög milli þinga. Ekki mega þau ríða í bág við stjórnarskrána. Ætíð skulu þau lögð fyrir næsta þing á eftir.“

Það hefur reyndar verið gert, þau hafa verið lögð fram, þau voru lögð fram í gær. Það mun vera ákveðið af ríkisstj. að taka þau ekki til umræðu og afgreiðslu nú, áður en þinginu verður frestað. Bráðabirgðafjárlög má ekki gefa út, ef Alþingi hefur samþ. fjárlög fyrir fjárhagstímabilið. Í þessari grein stjórnarskrárinnar eru skýlaus fyrirmæli um, að brbl., út gefin á milli þinga, skuli ætíð lögð fyrir næsta þing á eftir. Hvernig hefur nú þetta ákvæði stjórnarskrárinnar verið framkvæmt, og hvaða hefð hefur skapazt þar um, — eða er nokkur hefð í þessu máli? Það mun hafa verið nokkurn veginn algild regla hjá öllum ríkisstj. að leggja fram brbl., sem út hafa verið gefin á milli þinga, á fyrstu dögum þingsins eða fljótlega eftir að þingíð hefur lokið við kosningu forseta og kosið í nefndir og yfirleitt komið sér á laggirnar. En nú bregður svo við, að brbl. um landbúnaðarafurðir, sem út voru gefin 18. sept. 1959 í Vatnsdal af forseta Íslands og að tilhlutan þáv. landbrh. og gilda aðeins til 15. des. n.k., voru ekki lögð fram fyrr en nú í gær, og bendir allt til þess, að það sé ekki meiningin, að þau verði afgr. nú fyrir þingfrestun. Það er ekki óeðlilegt, þótt menn velti því fyrir sér, hvernig á því standi og hver sé meiningin hjá núv. hæstv. landbrh. með slíku háttalagi.

Allar líkur benda til þess, að brbl. hafi verið gefin út á móti vilja mikils meiri hl. þáv. alþingismanna. Formenn tveggja þingflokka, Framsfl, og Alþb., kröfðust þess með bréfi af hæstv. þáv, forsrh., að Alþingi yrði þá þegar kallað saman, svo að alþingismönnum gæfist kostur á því að láta í ljós á Alþingi skoðun sína á viðkvæmu deilumáli, sem upp hafði komið á milli fulltrúa neytenda og framleiðenda um söluverð landbúnaðarafurða og var forsenda fyrir útgáfu brbl. Miðstjórn Sjálfstfl. gaf út 22. sept. s.l. svo hljóðandi yfirlýsingu í sambandi við útgáfu bráðabirgðalaganna og í sambandi víð blaðaskrif, sem orðið höfðu aðallega á milli Morgunblaðsins og dagblaðsins Tímans. Þar segir svo: „Að gefnu tilefni í yfirlýsingu miðstjórnar Framsóknarflokksins, sem lesin var í útvarpinu í fyrrakvöld, ítrekar miðstjórn Sjálfstfl. það, sem fram kom í samþykkt hennar og þingflokks Sjálfstfl. hinn 18. þ. m., að Sjálfstfl. lýsti sig þegar í stað andvígan setningu bráðabirgðalaganna um ákvörðun verðlags landbúnaðarafurða og mun þess vegna ekki styðja þau á Alþingi, heldur leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir verða fyrir af þessum sökum.“

Hér er ekkert um að villast. Sjálfstfl. lýsti sig ósammála setningu brbl. Brbl. voru því sett á móti vilja mikils meiri hl. alþm. og því full ástæða til, að þing væri kallað saman til umræðu um málið og afgreiðslu þess á þinglegan hátt.

Bréfum formanna þingflokks Alþb. og þingflokks Framsfl. svaraði þáv. forsrh. með því að hafna kröfu fyrrnefndra flokka um að kalla Alþingi saman og taldi það óþarft og þýðingarlaust. Ég mun ekki nú ræða frekar um svar þáv. hæstv. forsrh. Til þess mun máske gefast tækifæri siðar. Ég vil þó benda á, að í svarinu ber á nokkuð miklu flokkslegu yfirlæti, þegar það er haft í huga, að á bak við brbl., að því er virðist, hafi ekki staðið nema þingflokkur Alþfl., sex þm.

Hæstv. landbrh. og hæstv. dómsmrh. hafa báðir í ræðum sínum hér á Alþingi lýst því yfir, að brbl. mundu verða lögð fyrir Alþingi og það sé ekki verið að fara inn á neinar nýjar leiðir, þó að þau séu ekki lögð fram fyrstu daga þingsins.

Hv. 1. þm. Austf. sagði í þingræðu næstsíðasta fimmtudag, að það hefði verið venja yfirleitt, þó máske ekki undantekningarlaus, að brbl. væru lögð fram, undireins og Alþingi kæmi saman, enda væri það vitanlega það, sem ætlazt er til. Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar ætti að vera til þess að tryggja, að það séu engin lög í gildi, eftir að Alþingi hefur komið saman, önnur en þau, sem þar eru samþykkt.

Hér er verið að deila um mál, sem ætti að vera mjög auðvelt að fá hið sanna fram í. Þingtíðindin liggja fyrir, enn fremur allar gerðabækur Alþingis, og í þeim er hægt að sjá, hvor reglan er algengari á Alþingi, að leggja brbl. strax fram í þingbyrjun eða fljótlega, eins og stjórnarandstaðan hefur farið fram á, að nú verði gert, eða þá hitt, að þau hafi ekki verið lögð fram fyrr en liðið hefur verið allmikið á þingtímann. Skrifstofa Alþingis getur að sjálfsögðu gefið alveg fullnægjandi upplýsingar hér um.

Hæstv. ríkisstj. telur sig engan eða a.m.k. lítinn starfsfrið hafa, ef Alþingi sé látið halda áfram störfum. Þessi skoðun hæstv. ríkisstj. er í hæsta máta einkennileg. Um það verður tæplega deilt, að þingmenn eru kosnir til þess að ráða fram úr og leiða til lykta vandamál, sem eru á dagskrá í það og það skiptið. Það eru engir aðrir, sem hafa umboð til slíks starfs. Þeirra verkefni eru sömuleiðis þau að semja og flytja frv. um hin ýmsu mál, sem að þeirra dómi og íbúa þeirra staða og héraða, sem þeir eru fulltrúar fyrir, eru aðkallandi og verða ekki leyst, nema til komi sérstök löggjöf og bein eða óbein aðstoð og fyrirgreiðsla hins opinbera. Með því að senda Alþingi heim um tveggja mánaða tíma er alþingismönnum fyrirmunað að geta komið á framfæri skoðunum sínum á hinum ýmsu aðkallandi málum nema að mjög takmörkuðu leyti. T.d. er nú búið að leggja fram fjölda mála, fjölda þáltill., og það mun vera ákveðið, að engin þeirra hljóti afgreiðslu nú fyrir þingfrestun.

Það er beinlínis óvirðing gagnvart Alþingi og hinum nýkjörnu alþingismönnum að senda þá heim eftir rúmrar viku þingsetu. Alþingi var kallað saman 40 dögum siðar en áður hefur verið venja. Að undanförnu hefur Alþingi verið kvatt saman 10. okt., en nú 20. nóv. Það hefði því mátt ætla, að ekki hefði veitt af tímanum til jóla til að undirbúa og ræða hin ýmsu mál, sem óhjákvæmilega hljóta að bíða úrlausnar. En í staðinn fyrir að slíkt sé gert, leggur hæstv. ríkisstj, til, að Alþingi sé frestað um allt að tveggja mánaða skeið, og ber fyrir sig, að sérfræðingum hennar hafi ekki unnizt tími til að ganga frá till. sinum í efnahagsmálum, og fleira þess háttar. Það er nú mál út af fyrir sig, þetta með sérfræðingana. Almenningur ,í landinu hefur áður fyrr fengið að sjá framan í og kynnast þeirra till. og ráðleggingum og ekki talið hag sínum betur borgið eftir en áður, nema síður sé.

Ekki hafa þessir „sérfræðingar“ innan gæsalappa verið kjörnir af þjóðinni til slíkra starfa. Aftur á móti hafa alþingismennirnir verið kjörnir til að ráða málum þjóðarinnar á Alþingi til lykta eftir venjulegum þingræðisreglum.

Í sambandi við þessi nýju bjargráð ríkisstjórnarinnar verður ekki hjá því komizt að álykta, að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ekki um neitt samið sín á milli nema um skiptingu ráðherraembættanna. Það er mál út af fyrir sig og sjálfsagt stórmál í þeirra augum, hvernig ráðherraembættunum er skipt og hverjir hljóta hnossið í það og það skiptið. En það er bara ekki einhlítt. Það þarf meira til.

Sjálfstfl. hefur talið og telur enn, að hann sé sá flokkurinn, sem hafi bezta aðstöðu og mestu og beztu möguleikana til þess að stjórna þessu landi. En meiri hl. kjósendanna í landinu, sem Sjálfstfl. verður að hlíta eins og aðrir, er á allt annarri skoðun. Þrátt fyrir hinn æðisgengna áróður, sem Sjálfstfl. hefur rekið undanfarin ár fyrir því að fá þingmeirihluta á Alþingi, er mjög fjarri því og engar minnstu líkur til þess, að þessum flokki auðmannastéttarinnar takist að ná meiri hluta á Alþingi Íslendinga. Hitt er aftur á móti staðreynd, að Sjálfstfl. hefur nú tekizt að fá Alþfl. til fylgilags við sig. Ekki verður Alþfl. öfundsverður að mínum dómi af því samstarfi, og ekki er það ótrúlegt, að sumum þeim kjósendum, sem kosið hafa Alþfl. í þeirri góðu trú, að hann væri vinstri flokkur, hafi brugðið ónotalega við, þegar þeir fréttu um hið nýja stjórnarsamstarf.

Annars virðist það hafa verið eitt af aðalbaráttumálum Alþfl. nú um mörg undanfarin ár að vera í ríkisstj. og að flokkurinn hafi ekki talið og telji ekki skipta neinu verulegu máli, með hverjum hann er í stjórn. Þetta er náttúrlega baráttumál út af fyrir sig, og verður því Alþfl. ekki um það sakaður að hafa ekki mál til að berjast fyrir. Annars má benda á það, að Alþfl. er á margan hátt verðugur þess trausts, sem Sjálfstfl, hefur sýnt honum með því að fá hann í ríkisstjórnina.

Alþfl. vann það þrekvirki á s.l. vetri, vitanlega með stuðningi Sjálfstfl. og vel að merkja með hlutleysi Framsfl., að lækka allt kaupgjald í landinu um 13.4%, auk þess að hækkaðar voru allar uppbætur til atvinnurekenda um marga tugi milljóna frá því, sem áður hafði verið, og þótti þó mörgum, að áður hefði verið fullmikið að gert í þeim málum. Það er sannarlega ekki ónýtt fyrir atvinnurekendastéttina, að til skuli vera slíkur verkalýðsflokkur í landi voru sem Alþfl. Og nú krefst þessi ágæti flokkur, Alþfl., ásamt Sjálfstfl., að Alþingi sé frestað og þingmenn reknir heim sem rakkar, svo að hæstv. ríkisstjórn þessara flokka gefist nægur tími til að athuga málin í ró og næði ásamt hínum margumtöluðu sérfræðingum sínum, eins og það er orðað.

Skrif stjórnarblaðanna um þingfrestunina eru mjög athyglisverð. Dagblaðið Vísir, annað aðalmálgagn Sjálfstfl, hér í bæ, segir næstsíðasta föstudag: „Alþingi er frestað.“ Blaðið þurfti ekki að bíða eftir, að Alþ. væri frestað.

Því var bara frestað, segir Vísir. Síðan er reyndar liðið á aðra viku: „Ákveðið mun hafa verið að fresta Alþingi fram yfir áramót. Frestun þessi mun hafa verið gerð vegna þess, að undirbúningur undir tillögur til úrbóta í efnahagsmálum þjóðarinnar mun taka nokkurn tíma. Sérfræðingar vinna nú að því að rannsaka ástandið og finna leiðir til úrbóta. Á meðan á þessum rannsóknum stendur og undirbúningi undir framkvæmdir til úrbóta, sýnist ástæðulaust, að Alþingi bíði aðgerðalaust fram yfir áramót, en það munar ríkið um 800–900 þús. kr. í útgjöldum.“ — Menn taki eftir því, að þetta stóð í blaðinu fyrir rúmri viku. — „Heimild hefur verið veitt ríkisstj. til að inna af hendi bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði fyrstu mánuði næsta árs, en það er venjan, ef afgreiðslu fjárlaga lýkur ekki fyrir áramót. Líklegt er, að tillagan um þingfrestun verði lögð fram í dag.“

Þetta sagði dagblaðið Vísir næstsíðasta föstudag.

Ýmislegt er það í þessum skrifum, sem athugavert er, og fæst af því er satt. Engin heimild hefur verið veitt ríkisstj. til að inna af hendi bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði fyrr en á þingfundi í gærkvöld. Ég efast um, að það sé búið að undirskrifa þau lög af forseta Íslands enn þá. Þá segir blaðið um sparnaðinn, að með þingfrestuninni sé hægt að spara 800—900 þús. kr. Þetta sparnaðarhjal er því miður algerlega út í loftið og getur engan veginn staðizt, nema lög verði brotin á þingmönnum, en ekki er ástæða til að ætla, að slíkt verði gert. Það, að þingið verði aðgerðalaust fram yfir áramót, er líka fjarstæða, eins og margsinnis hefur verið sýnt fram á. Fjöldi frv. og þáltill. frá einstökum þingmönnum er þegar fram kominn og bíður afgreiðslu á þingi og í þingnefndum. Sjálfsagt á þó eftir að koma fram mikið af frv. og þáltill. enn þá. Skrif allra stjórnarblaðanna um fyrirhugaða þingfrestun eru vægast sagt óviðurkvæmileg. Það er Alþingi sjálft, sem ákveður það, hvort Alþ. skuli frestað og þá hvenær, en það er ekki fólk, sem stendur utan Alþingis, sem þar á neitt um að segja og getur ekki neitt þar um ákveðið.

Eins og venja var og hefur verið, var fjárlagafrv, fyrir árið 1960 lagt fram í þingbyrjun. Samkvæmt þingsköpum skal fram fara útvarpsumræða um frv. við 1. umr., og hafa þær umr. farið fram snemma á þingunum og að þeim umr. loknum hefur frv. verið vísað til 2. umr. og fjvn. Með því að fresta fundum Alþingis um tveggja mánaða tíma án þess að ljúka 1. umr. um fjárlögin er fjvn. gerð óvirk um langan tíma. Ekki getur fjvn. farið að vinna að fjárlögum, fyrr en frv. hefur verið vísað til hennar. Það er því alger fjarstæða, sem stjórnarblaðið hefur haldið fram, að fjvn. muni fara að vinna að fjárlögum og halda því starfi áfram, eftir að Alþ, hefur verið frestað. Fjvn. er með þingfrestuninni svipt öllum möguleikum til þess að geta unnið að fjárl., af þeirri einföldu ástæðu, að engu frv. til fjárlaga hefur verið til hennar vísað, enda sagði hæstv. dómsmrh. í ræðu s.l. laugardagskvöld, að það fjárlagafrv., sem lagt hefði verið fram, væri ekki samið af núv. fjmrh., heldur af fyrrv. fjmrh., og gaf þar með fullkomlega í skyn, að á frv. þyrfti að gera allviðtækar breytingar. Þessi yfirlýsing hæstv. dómsmrh. kom víst fáum á óvart, eins og allt var í pottinn búið. Þetta hefur komið miklu skýrara fram og ákveðnara hjá hæstv. fjmrh., því að hann hefur lýst því yfir, að það sé meining hæstv. ríkisstj. að innleiða hér alveg nýtt og áður óþekkt efnahagskerfi, þá þurfi vitanlega út frá þeim forsendum að umsemja fjárlagafrv. algerlega frá því, sem það er nú. Þá veit maður það. Það, sem er einkennandi við hæstv. ríkisstj., er það, að hún hefur ekki enn sem komið er komið sér saman um eitt einasta mál. Allt er á huldu um það, hvað gera skuli.

Viðskilnaður fyrrv. ríkisstj. er slíkur, að stuðningsflokkur stjórnarinnar eða aðalstjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., stendur ráðþrota frammi fyrir örðugleikunum og setur nú allar vonir sínar á till. sérfræðinganna. Sjálf telur ríkisstj. sig þess ekki umkomna að leysa vandann. Hennar eina úrræði, svo að vitað sé, fram til þessa dags er að leggja til, að fundum Alþingis verði frestað um tveggja mánaða skeið, skjóta öllum málum á frest og senda þingmenn heim og þá máske — og ég segi máske — að stjórna landinu með brbl. að meira eða minna leyti. Með slíkum aðferðum er farið inn á áður algerlega óþekktar starfsaðferðir. Með slíku háttalagi er gengið á hinn freklegasta hátt á rétt Alþingis, sem er ekki hægt að láta óátalið og alþingismönnum ber að mótmæla. Enginn alþm. getur sóma síns vegna látið reka sig af þingi, á sama tíma og verið er að fjalla um hin afdrifaríkustu vandamál þjóðfélagsins. Alþm. geta ekki skotið sér undan vandanum. Það er þeirra og engra annarra að finna út raunhæfar leiðir til úrbóta. Til þess hafa þeir verið kosnir, og það er það, sem af þeim verður og hefur verið krafizt, að þeir geri. Að sjálfsögðu eru hinir ýmsu sérfræðingar mætir menn og þá líka þeir, sem ríkisstj. hefur nú falið að leysa allan vandann. En að alþingismenn geti nú hlaupið frá málunum í trausti þess, að aðrir leysi vandann fyrir þá, það er herfilegur misskilningur. Það er verk, sem Alþingi sjálft verður að leysa.

Í umræðum hér á Alþingi, í blöðum og manna á milli er mikið að því gert að mála efnahagsástandið með sem dekkstum lit. Hámark þessa áróðurs kom fram í ræðum flestra þeirra manna, sem ræður fluttu 1. desember. Rétt er þó að undanskilja einn af ræðumönnum sérstaklega, Jón Pálmason fyrrv. forseta Alþingis. Ég mun ekki hér gera ræður þeirra manna, sem fluttu alþjóð boðskap sinn, að sérstöku umræðuefni. Í sjálfu sér kom þar fátt nýtt fram. Flest það, sem þar var sagt, var lítið annað en endurtekning á þeim hrunsöng, sem sunginn hefur verið nú um langan tíma, að viðbættum nokkrum kröfum um, að nauðsyn bæri til að skerða lífskjörin, svo sem með gengisfellingu, stórtakmarkaðri fjárfestingu, draga úr útlánum bankanna, engar ríkisábyrgðir veittar, minnkandi húsnæðisbyggingum, minnkandi ræktun og fleiru þess háttar. Boðaðar voru auk þess aðgerðir til að koma í veg fyrir grunnkaupshækkanir. Sá boðskapur, sem hinn nýi ráðuneytisstjóri flutti þjóðinni 1. des., var lítið annað en aukin og endurbætt útgáfa af ræðu framkvæmdastjóra Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, en sá heiðursmaður sýndi þá háttvísi að hafa í hótunum við ríkisstj. og Alþ., ef ekki yrði breytt um stefnu, þannig að Íslendingar samræmdu allar aðgerðir sínar í efnahagsmálum að óskum og kröfum erlendra aðila og þá vitanlega fyrst og fremst eftir óskum Bandaríkjanna. Ýmislegt athyglisvert kom fram í boðskap hins erlenda sérfræðings. Hann taldi það t.d. merkilegt fyrirbærí, að Íslendingar skyldu vera að rækta kartöflur með ævintýralegum kostnaði. Hann gat alveg eins sagt, að það væri jafnmikil fjarstæða, að bændur landsins væru að rækta gras. Finnst nú mönnum ekki, að nauðsyn beri til að fá fleiri slíka sérfræðinga hingað til lands til þess að kenna Íslendingum fræði sín?

En þá er spursmálið þetta: Er ástandið í efnahagsmálunum eins alvarlegt og þessir hrun- og svartsýnispostular vilja vera láta? Eru allir okkar framleiðsluvegir á hvinandi hausnum? Er kaupgjald sjómanna og landverkafólks of hátt? Er of vel búið að bændastétt landsins? Og þannig mætti lengi telja. Ég held, að þessum spurningum sé að mestu leyti hægt að svara neitandi. Ekki svo að skilja, að vissir örðugleikar séu ekki fyrir hendi. Það var t.d. ófögur lýsing, sem hæstv. forsrh. gaf á Varðarfundi nú fyrir skemmstu, þar sem hann tilkynnti, að ríkissjóð og útflutningssjóð vantaði hvorki meira né minna en 250 millj. kr., til þess að hægt væri að standa víð gefnar skuldbindingar. Þetta eru út af fyrir sig slæmar fréttir, sem fáum munu þó hafa komið á óvart. En í sambandi við þetta er rétt að lesa hér upp svolitla athugasemd, sem er í fjárlagafrv. fyrir árið 1960. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að því er bezt verður séð, munu tekjur ríkissjóðs á árinu 1959 fara talsvert fram úr áætlun fjárlaga. Eru það einkum tekju- og eignarskatturinn, stimpilgjöld og tekjur ríkisstofnana, sem virðast ætla að gefa betri raun en ráð hafði verið fyrir gert. Þrátt fyrir tilraunir ríkisstj. til að draga úr umframgreiðslum, munu útgjöldin hins vegar fara nokkuð fram úr áætlun. Er því ekki hægt að búast við greiðsluafgangi hjá ríkissjóði, en aftur á móti ekki ástæða til að óttast greiðsluhalla á yfirstandandi árí.“

Að sjálfsögðu hef ég enga ástæðu til þess að gera upp á milli þess, hvor það er, hæstv. forsrh. eða hæstv. fyrrv. fjmrh., sem segir satt. Óneitanlega hefði verið eðlilegra, að hæstv. forsrh. hefði, áður en hann opinberaði Varðarfélögunum þessar staðreyndir sínar, verið búinn að skýra Alþingi frá þessum uppgötvunum, eins og hann hafði lýst yfir á fyrsta fundi þessa Alþ. að hann mundi gera.

Hvað sem því hefur valdið, hafa hæstv. forsrh. og meðráðherrar hans forðazt að skýra Alþ. öllu frá því, sem þessum málum við kemur. Í kosningunum í haust var því haldið fram af andstæðingum þáv. ríkisstjórnar, að fjármálaástandíð væri á annan veg en ríkisstj. vildi vera láta. Ráðherrar Alþfl. og málgagn Alþfl., Alþýðublaðið, lýsti því margsinnis yfir, að allt skraf andstæðinga ríkisstj. væri fleipur eitt, allt væri í bezta lagi, staðið hefði verið við allar skuldbindingar ríkisins og útflutningssjóðs og útséð væri, að allt yrði í lagi fram yfir næstu áramót. Menn tóku þessum fullyrðingum Alþfl. með varasemi, og jafnvel Morgunbl., annað aðalmálgagn fyrrv. ríkisstj., varaði við of mikilli bjartsýni í þessum málum. En Alþýðubl. og ráðherrar Alþfl, voru hinir hreyknustu yfir afreksverkum sínum og töldu allar aðfinnslur og aðvaranir beina árás á þáv. ríkisstjórn. Séu þessar upplýsingar núv. hæstv. forsrh. á rökum reistar, er fjármálaútlitið allt annað en glæsilegt. Um þetta er sjálfsagt ekkert hægt að fullyrða, fyrr en frekari upplýsingar fást, en jafnvel þótt gengið sé út frá, að upplýsingar hæstv. forsrh. séu eitthvað nálægt raunveruleikanum, er þessi halli þó ekki meiri en búast mátti við, eins og allt var í pottinn búið, og þennan vanda er hægt að leysa með sameiginlegu átaki, ef rétt og skynsamlega væri á málunum haldið.

Um framleiðsluna er það að segja, að atvinnuvegir okkar eru ekki verr á vegi staddir nú en áður, — síður en svo. Fiskiskipastóll okkar fer ört vaxandi. Öll okkar framleiðsla er seld á hagstæðu verði eða meiri hluti hennar a.m.k., jafnvel hagstæðara verði en hjá sumum öðrum þjóðum. Með aukningu fiskískipastólsins skapast stórauknir möguleikar til vaxandi framleiðslu, sem að sjálfsögðu mundi auka gjaldeyristekjur okkar að miklum mun. Byggð hafa verið í landi stór og fullkomin fiskiðjuver, sem skilað hafa margra millj. kr. tekjuafgangi. Kaupskipastóll okkar heldur áfram að vaxa. Flugvélafloti okkar eykur starfsemi sína hröðum skrefum með hinum ágætasta árangri. Nýjar og fullkomnar raforkustöðvar hafa verið reistar. Nýjar raflínur hafa verið lagðar um fjölmargar byggðir landsins. Jarðræktarframkvæmdir hafa aldrei verið meiri en nú síðustu árin. Byggingar í sveitum og bæjum eru mjög miklar. Og þannig mætti lengi telja.

Þegar þessar staðreyndir eru athugaðar, þarf engan að undra, þó að Íslendingar hafi safnað skuldum erlendis. Við slíka skuldasöfnun er ekkert að athuga, svo framarlega sem útflutningur og þar með gjaldeyristekjur vaxa í eðlilegu hlutfalli við skuldasöfnunina. Flest bendir til þess, að svo muni verða, a.m.k. í mjög náinni framtíð, ef ekkert sérstakt skeður í sambandi við fiskveiðarnar. Hrunsöngurinn í sambandi við eðlilega skuldasöfnun á því lítinn sem engan rétt á sér.

Þá er sú skoðun, að kaupgjald sjómanna og landverkafólks sé of hátt, hlutur þess af framleiðslunni sé of mikill. Ég fullyrði, að sú skoðun á enga stoð í veruleikanum. Mánaðarkaup verkamanna, sem vinna fyrir Dagsbrúnartaxta, er 4000 kr. á mánuði. Vilja menn í alvöru halda því fram, að slíkt kaupgjald sé einhver ofrausn? Vilja menn halda því fram í alvöru, að þeir menn, sem vinna fyrir slíku kaupgjaldi, búi við of góð kjör og að þetta fólk geti fórnað einhverjum hluta launa sinna? Ég held ekki. Það má vel vera, að það fyrirfinnist menn, og það fyrirfinnast sjálfsagt allmargir menn, sem telja, að allt kaupgjald verkafólks á Íslandi sé of hátt. Við vitum það, sem erum búnir að starfa í verkalýðshreyfingunni í áratugi, að auðmenn og atvinnurekendur hafa í langflestum tilfellum barizt harðvítugri baráttu á móti öllum kjarabótum til handa hinu vinnandi fólki. Íhaldið barðist á sínum tíma móti togaravökulögunum, á móti verkamannabústöðum, á móti alþýðutryggingum, orlofslögum, á móti afnámi hinna illræmdu fátækraflutninga og yfirleitt hefur afturhaldið barizt á móti öllum réttindabótum alþýðunni til handa. Það er því ekkert nýtt, sem nú kemur fram hjá mönnum og flokkum, sem telja, að rýra beri kjör hins vinnandi fólks. Þetta er sami söngurinn sem ætíð og ævinlega hefur verið sunginn við öll hugsanleg tækifæri. Kjör togarasjómanna eru nú ekki betri en það, að mjög erfiðlega gengur að fá íslenzka menn á togarana. Útgerðarmenn heimta að fá að ráða erlenda fiskimenn á skipin. En þeim dettur ekki í hug að bæta kjör hinna íslenzku togarasjómanna, þó að allir viti, að þar í liggur eina lausnin, sem er til bóta í þessum vandræðum. Ástandið, sem nú ríkir í þessum málum, að mörg hundruð erlenda fiskimenn þurfi á skipin, kostar þjóðina tugi millj. kr. í erlendum gjaldeyri árlega.

Þá er ein spurningin enn: Eru kjör bændanna á Íslandi svo góð, að hægt sé að rýra þau frá því, sem nú er? Opinberar skýrslur um hag bænda og tekjur þeirra benda ekki til þess, að slíkt sé hægt. Vitað er, að bændur leggja mjög mikið að sér við bústörfin, og mér finnst lítil sanngirni vera í því, að kjör þeirra verði rýrð frá því, sem nú er, enda engin frambærileg rök fyrir slíku. Nei, allt tal sérfræðinganna og forustumanna stjórnarflokkanna, að fólk hafi hér of há laun, er hreint og beint út í loftíð sagt og hefur ekki við nein rök að styðjast. Sízt af öllu á sú kenning við um vinnandi stéttirnar. Hins vegar er það staðreynd, að auðmenn og alls konar braskaralýður lifir í vellystingum pragtuglega á kostnað vinnandi stéttanna, og það er í lifnaðarháttum, óhófseyðslu og braski slíkra aðila ásamt arðráni banka og annarra voldugra aðila í þessu landi, sem orsakanna er að leita fyrir hinni hættulegu verðbólgu.

Sú stefna, sem núverandi stjórnarflokkar virðast ætla að taka í efnahagsmálum þjóðarinnar, er stórhættuleg, og vinnustéttirnar munu ekki sætta sig við hana. Menn ættu að hafa það í huga og þá sérstaklega þeir, sem ætla sér að beita slíkum aðferðum og koma í gegn slíkum aðgerðum í efnahagsmálunum, sem hér hefur verið tæpt á í umr. hjá hæstv. ráðherrum, að verkalýðshreyfingin mun ekki þegjandi og án baráttu láta ræna sig stórum hluta tekna sinna og þar með rýra lífskjör sín og fjölskyldna sinna stórlega frá því, sem nú er. Menn skulu minnast þess, að verkalýðshreyfingin hefur unnið sína mörgu og glæsilegu sigra í hörðum átökum við auðvald og atvinnurekendavald þessa lands. Hún er þess albúin að verja réttindi sín og sækja fram til nýrra sigra, vitandi það, að öll velmegun þjóðfélagsins hvílir á hennar herðum og að ekkert nútímaþjóðfélag getur staðið stundinni lengur án starfs hins vinnandi manns til sjávar og sveita. Þetta væri mjög hollt fyrir hæstv. ríkisstjórn að leggja sér á minni og haga störfum sínum og stefnu þar eftir.