02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3520 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Eysteinn Jónsson:

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt, hefur það verið alveg ófrávíkjanlegur síður á Alþingi, að 1. umr. fjárlaganna hefur farið fram í þingbyrjun og fjárlagaræðan hefur verið haldin, og þær upplýsingar hafa þá komið fram, sem fjármálaráðherrar hafa haft að gefa þingheimi. Ég hygg, að frá þessu hafi aldrei verið vikið. Stundum hefur það að vísu komið fyrir, að mál hafa legið þannig, að fjmrh. hafa ekki getað lýst því yfir í fjárlagaræðunni, hverjar yrðu endanlegar till. þeirra eða ríkisstjórnanna um afgreiðslu fjárlaganna eða efnahagsmálin yfir höfuð. En þótt þannig hafi staðið á, hefur það þótt sjálfsögð skylda eigi að síður að halda fjárlagaræðuna og gefa þær upplýsingar um efnahagsmálin, sem hægt hefur verið að gefa.

Nú höfum við orðið vitni að því, undanfarið, að hæstv. forsrh. t.d. hefur á fundi hjá pólitísku félagi hér í bænum gefið upp ákveðnar tölur varðandi það, hvað fram undan væri í íslenzku efnahagslífi. Hann hefur lýst því yfir á fundi í pólitísku félagi, að það muni á næsta ári vanta um 250 millj. kr., til þess að endar nái saman hjá ríkissjóði og útflutningssjóði. Og þegar hæstv. forsrh. segir þetta, þá hlýtur hann að byggja þetta á einhverjum skýrslum, einhverri vitneskju, sem hann hefur fengið frá mönnum, sem hann telur hæfa til að gefa slíkar upplýsingar, því að ekki mega menn ætla forsrh. landsins það, að hann nefni tölu eins og þessa út í bláinn.

Þá vil ég einnig benda á, að nú skeði það í gær, að einn höfuðtrúnaðarmaður ríkisstj. ræddi efnahagsmálin, líka utan þings, og flutti þar margvíslegar fullyrðingar, sem hljóta að byggjast á upplýsingum, sem fyrir liggja væntanlega um þessi efni, fyrir utan bendingar og tillögur, sem fram komu hjá þessum ræðumanni. Út af þessu öllu saman vil ég spyrja hæstv. fjmrh. og vona, að hann svari því hreinskilnislega og afdráttarlaust: Kemur það til mála, að Alþingi verði frestað, án þess að fjárlagaræðan verði haldin?