05.12.1959
Neðri deild: 14. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það voru nokkur orð út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði við 2. umr. þessa máls. Ég hafði ásamt 1. þm. Norðurl. v. flutt brtt., við höfðum sameiginlega útbúið nál., hann hafði þá framsögu fyrir því, og ég hef þar engu við að bæta. En hæstv. fjmrh. vildi sérstaklega telja það óþarft, að við hefðum deilt á það sem óviðeigandi, hvernig þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefði verið útbúið. Og hann benti á fyrirmynd, sem hann hefði haft að þessu og ég hafði raunar í alllangri og ýtarlegri ræðu, sem hann því miður hlustaði ekki á, einmitt nefnt þessa fyrirmynd. Fyrirmyndin var sem sagt bandormurinn frá árinu 1939—1940, sem framlengdur var svo síðan. Og ég benti einmitt sérstaklega á, að það væri ills viti, þegar þessi hæstv. ríkisstj. byrjaði með því að taka upp slíka hætti, sem ég taldi að aðeins hefðu verið framdir tvisvar sinnum áður, 1939 með bandorminum og svo aftur 1948 með höggorminum, þannig að það væri ekki skemmtilegt að fara að taka upp aftur þessa ormasýki hér á Alþingi, enda hefði þetta alltaf verið sá ills viti, að það hefði verið inngangur að afturhaldstímabili, sem þá hefði verið að byrja. Ég held sem sé, að það sé ákaflega óheppilegt fyrir hæstv. fjmrh., nýjan í sinni stöðu, að vitna nú einmitt í það, sem verst var og afturhaldssamast í gömlu þjóðstjórninni, sér til fyrirmyndar. Það lofar engu góðu um, hvernig framhaldið verði, þegar svona er byrjað. Ill var þín fyrsta ganga, var einu sinni sagt, og hann má athuga það alvarlega. Það er ekki seinna vænna að gá nú að, fyrst honum varð á að fara sérstaklega að vitna í þetta.

Svo var hann að tala um hitt, að það væri eiginlega ekki nema sjálfsagt að flækja þessu öllu saman. En mér finnst það ekki rétt af gömlum lagaprófessor að leggja sig sérstaklega fram um það að reyna að flækja lögin fyrir almenningi. Slíkir menn eiga heldur að hjálpa til að gera þau sem skýrust og aðgengilegust. Slæmar voru framlengingarnar, eins og þær voru, eins og ég benti sérstaklega á viðvíkjandi 4. gr. þessara laga, söluskattinum, þar sem var verið að framlengja III. kafla í lögum, sem annars hefðu fallið úr gildi, og raunar var verið að framlengja bara ákvæðið um tekjuöflun í þeim kafla, þannig að það hefði einmitt verið rétt að fara að gera þessi lög skýrari, en ekki að reyna að flækja þau meira fyrir almenningi en þegar er, því að full þörf er á, að lagasmiði Alþingis sé þannig, að alþýða manna eigi sem auðveldast með að skilja hana, en þurfi ekki sprenglærða og oft og tíðum dýra lögfræðinga til þess að klóra sig fram úr, hvað sé lög og réttur í landinu.

Ég veit ekki, hvort hæstv. landbrh. hefur flutt hæstv. fjmrh. það, sem ég ætlaðist alveg sérstaklega til þess að hann fengi að vita úr ræðu minni kvöldið góða, þegar hann var fjarverandi, en það var nokkuð mikið um söluskattinn og sérstaklega um þann þátt, sem kom okkur báðum við, hæstv. fjmrh, og mér, sem stjórnendum í Sogsvirkjuninni. Ég held, að ég verði örstutt að minna hæstv. fjmrh. á, fyrst hann er nú kominn í nýja stöðu og er ekki bara formaður Sogsvirkjunarinnar lengur, að nú hefur hann aðstöðu til þess að laga þá hringavitleysu, sem verið hefur undanfarið með þessi mál. Eins og hann veit, hefur það opinbera fyrirtæki, Sogsvirkjunin, eins og raunar áburðarverksmiðjan áður og Sogsvirkjunin raunar einu sinni fyrr, orðið að greiða núna, einmitt sú Sogsvirkjun, sem nú er að klárast, upp undir 30 millj. kr. í söluskatt og aðra slíka skatta til ríkisins og orðið að fá lán hjá ríkisbankanum, hjá Seðlabankanum, til þess að geta greitt þetta. Og nú þessa dagana stöndum við einmitt í því, hann sem formaður Sogsvirkjunarinnar og ég sem einn af meðlimum þar, að undirskrifa skuldabréfin fyrir þetta, og víð höfum það þess vegna alveg svart á hvítu, hvað þetta kostar okkur. Við verðum sem sagt að undirskrifa skuldabréf upp á 36 millj. kr. Það þýðir, að við verðum að borga, Sogsvirkjunin, 6 millj. kr. fyrir að fá að láni 30 millj. kr. hjá ríkisbanka til að borga ríkissjóði söluskatt, sem enginn þessara aðila hefur neitt gagn af. Ríkið og Reykjavíkurbær borga, og ríkið fær það, og það eina, sem gerist svo, er, að við verðum að borga 6 millj. fyrir einn hluta ríkisins, borga öðrum hluta 6 millj. kr. fyrir að framkvæma þessa hringavitleysu. Og það, sem hefst svo upp úr því, er, að rafmagnið verður dýrara, að vísitölubréf eru gefin út, og á þennan hátt er svo verið að hlaða þarna ofan á e.t.v. Þegar á að fara að borga þessi bréf, þá eru það ekki 36 millj., þá eru það kannske 37, 38, — við vitum ekki hvað, — það fer eftir því, hve mikla gengislækkun m.a. hæstv, fjmrh. leggur í og hve mikla rafmagnshækkun bæjarstjórnin í Reykjavík samþykkir. En svona ráðstöfun, hvað er hún? Hún er ekkert annað en verðbólguráðstöfun, ekki nokkur skapaður hlutur annar. Ég hef gagnrýnt þetta, frá því að þetta var fyrst gert í sambandi við Sogsvirkjunina, þegar Sjálfstfl. og Framsfl. stóðu saman um það. Ég gagnrýndi þetta í sambandi við áburðarverksmiðjuna. Og ég vil alvarlega skjóta því til hæstv. fjmrh. að láta nú ekki þessa hluti endurtaka sig lengur, að það sé lagður söluskattur á fyrirtæki, sem ríkið er að koma upp, vélarnar til Sogsvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar. Það nær ekki nokkurri átt. Það er hægt að reyna að verja svona hluti, ef um er að ræða, að ríkið sé að koma upp fyrirtækjum, sem eru til þess að keppa víð einstaklinga, vilji maður segja: Við skulum ekki gera ríkisfyrirtækjunum hærra undir höfði en einstaklingum, ef verið er að reisa t.d. járnsmiðju eða eitthvað svoleiðis. En það er óverjandi, þegar verið er að koma upp fyrirtækjum, sem eru einsdæmi í sinni röð, þegar ríkið svo að segja hefur einokunina, sem ekkert annað fyrirtæki í landinu leggur út í, eins og áburðarverksmiðju eða Sogsvirkjun, fyrirtæki, sem eru þjónustufyrirtæki í landinu, fyrirtæki, sem mundu, ef svona skattur er lagður á þau, bara velta honum yfir á almenning lögum samkvæmt. Allt, sem heitir söluskattur á áburðarverksmiðjuna, þýðir dýrari áburð í landinu. Allt, sem heitir söluskattur á Sogsvirkjunina, þýðir bara dýrara rafmagn í landinu, dýrara rafmagn fyrir allan iðnaðinn, fyrir neytendurna. Þetta er ein hringavitleysa. Þó að Sjálfstfl. og Framsfl. hafi á sínum tíma þótt gott að taka þetta upp, þá er það hrein hringavitleysa, og því á að hætta. Það er kannske hægt að reyna að verja þetta með einu einasta atriði, þó að það hafi aldrei verið notað, sem sé því, að Reykjavíkurbær hefur átt helminginn af Sogsvirkjuninni. Þá gat kannske ríkið náð sér ofur lítið niðrí á Reykjavíkurbæ með þessu. Og mér hefði fundizt, að hæstv. fjmrh., sem þá var þm. Reykv., eins og hann er enn þá, eins og ég, meira að segja borgarstjóri í Reykjavík, hann hefði átt að standa með mér þá í slagnum á móti þessu, sem hann aldrei því miður hefur gert. Nú aftur á móti veit ég, þegar farið er að hugsa til næstu virkjunar í þessum efnum, — e.t.v. verður það ríkið eitt, sem framkvæmir hana, en jafnvel þó að Reykjavíkurbær taki þar þátt í því, sem ég álit að mörgu leyti heppilegt, — þá fær a.m.k. vitleysan að komast í algleyming, ef ríkið færi eitt að ráðast í stórvirkjun, kannske 100 þús. hestafla virkjun eða 100 þús. kw. virkjun, og það ætti að leggja skatt á allar vélarnar, sem ríkið þyrfti í þetta, og það ætti, ef það væri kannske 100 þús. kw. virkjun, að taka af ríkinu yfir 100 millj. kr. söluskatt af vélunum til slíkrar stórvirkjunar og gera erfiðara fyrir um að afla lánsfjár í sambandi við það og dýrara á eftir. Þá sér hver maður, hvílík hringavitleysa slíkt er orðið. Og ég vildi nú, af því að ég ætla ekki að fara að lengja neitt umræður um þessi mál hér, vonast til þess, að annaðhvort lesi hæstv. fjmrh. mína löngu og ýtarlegu ræðu frá því um nóttina, sem hann hefði gott af að stúdera dálítið, en hann missti af þá, eða þá hæstv. landbrh. segi honum gullkornin úr henni. Ætla ég ekki að fara að rekja þetta hér frekar, en aðeins að benda honum á þetta til þess að sýna fram á, hve nauðsynlegt það sé fyrir hæstv. ríkisstjórn að hlusta á þá gagnrýni, sem stjórnarandstaðan á hverjum tíma flytur, — þær ábendingar, sem til góðs mega verða. Það var hægt að spara þarna 6–7 millj., og jafnvei minna hefur þótt sparnaður, þannig að þessa hluti hefði sannarlega átt að athuga betur, áður en þetta var lagt fram.

Ég ætla ekki að fara hér inn á að endurtaka það, sem ég sagði viðvíkjandi þeim hættum, sem yfir vofðu í sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem verið væri að undirbúa að gera, en vildi aðeins skjóta því enn einu sinni til hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. að athuga sinn hlut alvarlega, ráðgast ekki aðeins við sitt lið, heldur einnig við stjórnarandstöðuna, áður en gripið yrði til þeirra óafturkallanlegu óyndisúrræða að fara að fella gengið, valda þar með stórkostlegri dýrtíð hjá almenningi, eyðileggja traust manna á efnahag ríkisins og landsins, lækka stórkostlega launin hjá almenningi í landinu, valda þannig harðvítugum átökum í þjóðfélaginu og með öllu þessu stofna í hættu því ástandi, sem skapað hefur verið, að menn hefðu sæmilega örugga atvinnu við að búa og gætu lifað við lífskjör, sem meira að segja ráðherrar þessarar ríkisstj. hafa verið stoltir af. Ég vil alvarlega skjóta því til hæstv. ríkisstj., áður en hún grípur til ráða, sem ekki er hægt að bæta úr síðar, að ræða við stjórnarandstöðuna ekki síður en sína eigin þingmenn og ræða við hana áður en hún er búin að taka sínar endanlegu ákvarðanir, því að það veit maður, að jafnvel þó að hún taki vitlausar ákvarðanir, ef hún einu sinni er búin að gera það, þá verður erfitt í þeim dellum, sem fram fara á Alþingi, að koma vitinu fyrir hana á eftir. Þá er það metnaðurinn, sem hindrar hana í því. En meðan hún er ekki búin að móta sína stefnu endanlega, hefur hún möguleika til að gera þarna gott verk í staðinn fyrir illt.