22.02.1960
Neðri deild: 34. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3573 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) spurði um það þegar í sinni fyrstu ræðu, hver þau bréf væru, hvernig þau hljóðuðu, sem farið hefðu milli ríkisstj. og Seðlabankans varðandi þá vaxtahækkun, sem nýlega hefur verið samþ.

Nú veit ég, að hv. þm. gerir sér þess ljósa grein, að ég geng ekki með skjalasafn viðskmrn. eða einhvern hluta af því í töskunni hjá mér, og þurfti því að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla bréfanna. En það hef ég nú gert og skal með ánægju verða við þeirri ósk hv. þm. að lesa það bréf, sem viðskmrn. sendi Landsbanka Íslands, Seðlabankanum, og svar bankans, en þau hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Með tilvísun til 32. gr. laga um efnahagsmál fer ríkisstj. þess hér með á leit, að stjórn Seðlabankans láti henni í té álit sitt á vaxtakjörum og lánstíma eftirtalinna fjárfestingarlánastofnana: húsnæðismálastjórnar, byggingarsjóðs sveitabæja, byggingarsjóðs verkamanna, ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs. Ríkisstj. telur, að í sambandi við þá almennu hækkun innláns- og útlánsvaxta, sem nú er ráðgerð, sé óhjákvæmilegt að hækka vexti þessara stofnana nokkuð. Þar við bætist, að útlánsvextir þessara stofnana, að húsnæðismálastjórn undanskilinni, hafa verið miklu lægri en þeir vextir, sem stofnanirnar hafa orðið að greiða af því fé, sem þær hafa haft til útlána. Með hækkun vaxta mundi fjárhagur stofnananna komast í heilbrigðara horf og nýir möguleikar skapast til fjáröflunar fyrir þessar stofnanir. Þá telur ríkisstj. einnig, að eðlilegt sé, að lánstími fiskveiðasjóðs og ræktunarsjóðs lækki úr 20 árum í 15 ár. Mundi slík lækkun hafa veruleg áhrif til þess að auka lánagetu sjóðanna, þegar frá liði.

Tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á vaxta- og lánskjörum þessara stofnana fylgja hér með.“

En þær eru þannig: Húsnæðismál: A-lán, íbúðalán, lánstími 25 ár, vextir 9%. B-lán, vísitölulán, óbreytt. Lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, lánstími 42 ár, vextir 6%. Byggingarsjóður sveitabæja, lánstími 42 ár, vextir 6%. Byggingarsjóður verkamanna, lánstími 42 ár, vextir 6%. Ræktunarsjóður, lánstími 15 ár, vextir 6½%. Fiskveiðasjóður, skipalán, lánstími 15 ár, vextir 6½%.

Svarbréf Landsbanka Íslands, Seðlabankans, hljóðar þannig:

„Vér höfum móttekið bréf hins háa ráðuneytis, dagsett í dag, þar sem það leitar álits stjórnar Seðlabankans um vaxtakjör og lánstíma fjárfestingarlánastofnana samkvæmt 32. gr. laga nr. 4 1960. Hér með tilkynnist yður, að stjórn Seðlabankans hefur á fundi í dag gert svo hljóðandi ályktun út af ofangreindu bréfi hins háa ráðuneytis:

Þar sem ekki hefur unnizt tími til nægilegrar athugunar og ekki eru fyrirliggjandi á þessum fundi nauðsynlegar upplýsingar þessu máli viðkomandi, er bankastjórnin ekki við því búin að gera till. um breyt. á till. ríkisstj. á vaxtakjörum og tímalengd fjárfestingarlána.

Ólafur Jóhannesson bankastjórnarmaður gerir svo hljóðandi aths. við ályktunina, sem Ingi R. Helgason bankastjórnarmaður tók undir:

Út af bréfi ríkisstj. um breyt. vaxta á lánum þar til greindra fjárfestingarsjóða, tekur Ólafur Jóhannesson fram, að hann mæli gegn fyrirhuguðum vaxtahækkunum.“

Ég skal fúslega játa, að það hefði verið æskilegt, að meiri tími hefði verið til þess fyrir stjórn Seðlabankans að ræða þessi mikilvægu mál ýtarlegar en hægt er að gera á fundum yfir eina helgi. Það hefði líka verið æskilegt, að ríkisstj. hefði haft tækifæri til þess að ræða þessi mál lengur við stjórn Seðlabankans en tóm gafst til og veita allar þær upplýsingar, sem bankaráðið í heild eða einstakir bankaráðsmenn kynnu að óska eftir. En það vona ég að allir hv. alþm. geri sér ljóst, að hér varð að taka ákvarðanir af miklum hraða. Það hafði frá upphafi verið ráð fyrir því gert, að sú breyt. sem yrði á vöxtum, yrði samtímis eða a.m.k. skeði eins nálægt gengisbreytingunni og frekast væri framkvæmanlegt, og þegar svo átti sér stað, að Alþ. afgr. frv. á föstudag — síðdegis á föstudag, þá þótti á þeim degi einsýnt, að æskilegt væri að keppa að því, að þessar breyt., sem frv. beinlínis gerði ráð fyrir eða áttu að sigla í kjölfar þess, kæmu allar til framkvæmdar samtímis á mánudagsmorgni. En úr því að svo var, þá var ekki um annað að gera en hefjast handa þegar á föstudagskvöld og undirbúa þessa fundi yfir helgina og miða við það, að hin nýja skipan gæti gengið í gildi á mánudagsmorgni.

Ég er þakklátur stjórn Seðlabankans fyrir það að hafa gefið sér tíma til þessara fundarhalda yfir helgina og hafa tekið umbeðna afstöðu til málsins, því að um það er engum blöðum að fletta, að hér hefur verið farið algerlega að lögum í því, með hvaða hætti álits seðlabankastjórnarinnar er leitað, og ályktun hennar er svar við fsp. ríkisstj. í samræmi við ákvæði 32. gr. l. um efnahagsmál.

Þá eru aðeins örfá orð vegna þess, að tveir hv. þm. hafa vikið að því, sem ég sagði í orðum mínum áðan um það, að gert væri ráð fyrir, að þessi hækkun vaxta væri um skeið. Ég vil aðeins endurtaka þetta og undirstrika, að það hefur aldrei verið tilætlun ríkisstj. og er ekki, að þessi vaxtahækkun sé til frambúðar, að það sé meiningin, að þessir vextir, sem nú hafa verið ákveðnir, séu taldir eðlilegir frambúðarvextir á Íslandi. Það er ekki meiningin. Þessi vaxtahækkun er ákveðin til bráðabirgða til þess að tryggja framgang þeirra ráðstafana, sem felast í frv. um efnahagsmál. Það er hins vegar ekki hægt að segja neitt til um það, ekki hægt að spá neinu um það, hversu lengi muni vera þörf á þeim háu vöxtum, sem hér er um að ræða. Úr því verður reynslan að skera. Ýmis atriði kunna að fara öðruvísi en til var ætlazt. Hér er um svo viðtækar ráðstafanir að ræða, að ekki er hægt með neinni vissu að segja fyrir um það, hver framkvæmdin muni verða, hver reynslan muni verða í einstökum atriðum. En það eitt er víst, að það er fyrirætlun ríkisstj., það er ásetningur hennar að fylgjast nákvæmlega með þróuninni, sem verður í efnahagslífinu í heild og á einstökum sviðum þess, og taka síðan tillit til þeirrar þróunar við ákvörðun vaxtanna og breyta vöxtunum aftur, þegar ríkisstj. telur ástand efnahagsmálanna í heild og á einstökum sviðum gera það fært, að vaxtalækkun komi á ný til framkvæmda.

Ég rökstyð það ekki að þessu sinni, hvers vegna slík vaxtahækkun er nauðsynleg, er æskileg og beinlínis nauðsynleg. Til þess er ekki tími í þessum umr. Ég skal þó aðeins ljúka þessu máli mínu með því að segja, að það má öllum hv. þdm. vera kunnugt, að höfuðvandamál íslenzku þjóðarinnar í efnahagsmálum allar götur síðan í stríðsbyrjun hefur verið verðbólgan, sem hefur hækkað verðlag og kaupgjald s.l. 15–20 ár á víxl um um það bil að meðaltali 10% á hverju ári. Þetta er meiri verðbólga en átt hefur sér stað í nokkru nágrannalandanna á sama tíma, að Finnlandi einu undanskildu. Þessi mikla verðbólga hefur haft tvær höfuðafleiðingar: annars vegar algerlega óheilbrigða eftirspurn eftir lánsfé til fjárfestingar í því skyni að hagnast á verðbólgunni. Og hins vegar hefur verðbólgan haft það í för með sér, að sparnaður með þjóðinni hefur verið óeðlilega lítill og miklu minni en svarar til þeirra fyrirætlana um fjárfestingu, sem uppi voru með þjóðinni á sama tíma. En þegar slíkt á sér stað, að sparnaður er miklu minni en samtímafyrirætlun um fjárfestingu, þá magnar það verðbólguna enn. Og það eru einmitt þessi tvö öfl, sem bæði eiga rót sína að rekja til verðbólgunnar, sem togað hafa sitt í hvora áttina: annars vegar þessi mikla og óheilbrigða eftirspurn eftir lánsfé og svo hins vegar hinn of litli sparnaður, sem verið hafa alvarleg efnahagsmein í íslenzku þjóðfélagi nú undanfarna allt að tvo áratugi. Og það er einmitt gegn þessu, sem vaxtahækkunin á að hafa sin áhrif. Annars vegar á hún að draga úr óheilbrigðri eftirspurn eftir lánsfé til fjárfestingar, og hins vegar á hún að hvetja til aukins sparnaðar. Vaxtahækkunin verkar á báða þessa liði samtímis og í sama mæli og stuðlar þess vegna að því að koma á nauðsynlegu samræmi milli fyrirætlana um fjárfestingu og sparnaðarmyndunar í landinu. Þeim mun fyrr sem vaxtahækkuninni og öðrum ráðstöfunum verður beitt, þeim mun fyrr sem vaxtahækkuninni og öðrum ráðstöfunum tekst að koma hér á samræmi á milli, tekst að draga úr óheilbrigðri eftirspurn eftir lánsfé og auka sparnaðinn, þeim mun fyrr verður hægt að breyta vöxtunum aftur.

Í sambandi við þetta stendur það, sem er öllum kunnugt, að það hefur verið svo hér allar götur síðan á stríðsárunum, að það hefur verið vís gróðavegur að fá að nota lánsfé bankanna, lánsfé útlánastofnananna, að fá að nota sparifé þjóðarinnar, en það hefur verið vís tapvegur að stuðla að aukningu þessa sparifjár. Og það er sannarlega kominn tími til þess, að það hætti, að það sé öruggur gróðavegur að taka lán, að vera skuldugur, en það sé öruggur tapsvegur að spara og hjálpa til þess, að þjóðin með eðlilegum hætti geti byggt upp atvinnutæki í landinu og komið upp yfir sig sómasamlegu húsnæði. Og það er einmitt að þessu, sem þessi vaxtahækkunarráðstöfun miðar. Hún miðar að því að binda endi á það óheilbrigða, þjóðfélagslega séð stórkostlega rangláta ástand, að það sé öruggasti gróðavegurinn í þjóðfélaginu að vera skuldugur, en það sé allt að því refsivert að spara og leggja þjóðinni til fjármagn, sem myndað er með heilbrigðum hætti.