06.02.1960
Neðri deild: 24. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

48. mál, efnahagsmál

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að minnast hér nokkrum orðum á eitt atriði úr ræðu hæstv. viðskmrh. í gær. Hann sagði, að leiðin, sem við framsóknarmenn vildum fara nú, væri sú leið, sem hér hefði ríkt síðustu áratugina, leið uppbóta og alls konar vandræða. Ég vil minna þennan hæstv. ráðh. á það, að einmitt nú tvo síðustu áratugina og sérstaklega þann, sem var að líða, er mesta uppbyggingartímabil í sögu þessarar þjóðar, og það er rétt hjá ráðh., að það er stefna Framsfl., að framhald skuli verða á þeirri braut. Það hefur aldrei í sögu íslenzku þjóðarinnar verið meiri velfarnaður, aldrei meiri uppbygging, og þjóðin hafði sannarlega þörf fyrir það. Það er sú stefna, sem við viljum að ríki áfram, en ekki kyrrstöðustefna.

Eins og venja er til, flutti hæstv. forsrh. nýársboðskap á gamlárskvöld. Í ávarpinu komst hann að þeirri niðurstöðu, að þjóðin hefði lifað um efni fram og þyrfti nú að breyta um síði. Þetta var nýtt frá hendi þessa hæstv. ráðh., og þótti mörgum kynlegt að heyra. Hann talaði í þessari ræðu um, að þjóðin yrði að sætta sig við 5–6% kjaraskerðingu. Á nýársdag var ég á gangi í minni heimabyggð og hitti þar að máli nokkra verkamenn og bílstjóra í kauptúninu. Talið barst að þessari ræðu hæstv. forsrh. Þar varð einum gömlum manni að orði, þegar við vorum að ræða um ræðuna: „Mér sýndist ráðh. hafa villzt af brautinni til betri lífskjara.“ Þessi kjósandi hafði fengið bæklinginn frá þeim sjálfstæðismönnum fyrir kosningar, um leiðina til bættra lífskjara. Ég held, að ef hann hefði hlustað á hæstv. ráðh. í gær, þá hefði hann séð, að hann sá rétt, að ráðh. hafi ekki tekizt að finna leiðina til bættra lífskjara til handa almenningi í landinu.

Þegar að því er komið, að við stöndum frammi fyrir þeim staðreyndum, að hér er komið frv. til laga um efnahagsmál, eins og það er kallað, og hefur inni að halda nýja stefnu í efnahagsmálum, ber okkur fyrst að gera okkur grein fyrir því, hvers vegna nú er svo stórra aðgerða þörf. Ég get ekki stillt mig um það að líta aðeins aftur í tímann, því að það er enn þá í fullu gildi, sem einn merkur stjórnmálaforingi hafði að orðtaki, þegar hann sagði, að sagan endurtæki sig. Það er nauðsynlegt að fá samhengi í þá sögu, sem hér er nú að gerast. En ég ætla að fara mjög skammt aftur í tímann, svo að ég lengi ekki mál mitt um of.

Þar kem ég að, þegar vinstri stjórnin fór frá völdum. Hv. sjálfstæðismenn fóru þá að athuga efnahagsmálin í landinu og gera sér grein fyrir því, hvað þyrfti til, svo að þeir gætu tekið við völdunum og farið með mál þjóðarinnar, eins og þeim líkaði. Þá komust þeir að þeirri niðurstöðu, að nauðsyn bæri til, að almennt kaupgjald í landinu lækkaði um 6%, þegar því væri lokið, væri hægt að stýra málefnum þjóðarinnar án frekari aðgerða. Þær aðgerðir, sem gera þurfti um leið, væri hægt að gera innan þess ramma, sem þá væri til orðinn. Viðskilnaður vinstri stjórnarinnar var ekki verri en þetta að dómi höfuðandstæðinganna. Ofan á það bættist, að síðar meir kom í ljós, að vinstri stjórnin hafði skilíð eftir handa eftirmönnum sínum tekjuafgang, sem nam nokkrum tugum millj. kr. Hún hafði skilið eftir líka tugi millj. kr., sem voru Sogstollarnir, sem líka var afgangur handa þeim, sem á eftir komu. Gjaldeyrisbirgðir voru miklar í landinu. Þessi þáttur í viðskilnaði vinstri stjórnarinnar var ekki tekinn með í dæmið, þegar þeir sjálfstæðismenn gerðu það upp og álitu samt, að ekki þyrfti frekari aðgerðir en 6% kauplækkun.

Hvað hefur svo gerzt, síðan þessi yfirlýsing var gefin í Morgunblaðinu 19. des. 1958? Þeir, sem hafa farið með völdin í landinu síðan, eru Alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn. Þegar á að rekja orsakirnar til þess, sem nú á að gera, verður að leita þeirra þar. Þegar Alþfl.- stjórnin kom til valda á jólum 1958, hverju lýsti hún yfir sem sínu höfuðhlutverki? Það var stöðvunarstefnan, sem hún ætlaði að beita sér fyrir. Hún ætlaði að koma hér á stöðvun dýrtíðar og verðbólgu í landinu. Það var hennar höfuðtakmark, og það ætlaði hún að gera án þess að leggja á nokkra almenna skatta. Þessu var margyfirlýst, og í hvert sinn, sem við á þinginu í fyrravetur gerðum tilraun til þess að koma hér áfram einhverju máli, sem kostaði fjárveitingu, þá var alltaf þessu borið við, að nú skyldi verða stöðvun og við yrðum þá að sjá fyrir tekjunum vegna útgjaldanna.

Hvernig hefur svo stöðvunarstefnan reynzt í framkvæmd hjá Alþfl.- og íhaldsstjórninni? Það, sem gert var af þeirra hendi, var að lækka kaupgjaldið í landinu álíka og íhaldið sagði fyrir. Bein kauplækkun var 5,4%, en kjararýrnunin varð auðvitað meiri vegna óbeinna aðgerða. Þó að sjálfstæðismönnum sýndist svo, að útgerðin eða útvegsmennirnir gætu búíð við þann starfsgrundvöll, sem ríkti um áramótin 1958, þá varð önnur raunin á hjá þeim Alþfl.-mönnum. Þeir hækkuðu verulega framlag til útgerðarinnar í landinu. Það hefur verið deilt um það, hvort þetta hefur verið af nauðsyn gert, en vafalaust hefur það að einhverju leyti verið. Og þeir hækkuðu niðurgreiðslurnar stórkostlega, svo sem kunnugt er. Og hvernig fóru þeir að því, Alþfl.- og íhaldsstjórnin, að mæta þessum útgjöldum? Þeir gerðu það með því að skera niður verklegar framkvæmdir og með því að eyða sjóðunum, sem ég nefndi hér áðan. Þeir gerðu það með því að áætla tekjur og gjöld að okkar dómi ekki raunhæft. Þeir gerðu það með því að reikna með miklum hátollavörum. Þegar þessi mál voru hér til umræðu á hv. Alþ., þá var það að dómi okkar framsóknarmanna, að afgreiðsla fjárlaga væri ekki raunhæf, hún væri glannaleg. Hverju var, þá haldið fram? Því var haldið fram þá, að þetta væri óskhyggja af okkar hendi, og þessu var haldið fram í kosningabaráttunni, bæði í vor og s.l. haust. Það var ekki verið að halda því fram þá, að það væru nein vandræði með fjárhag ríkissjóðs. Nei, það var óskhyggja framsóknarmanna, sem vildu, að svo væri, en raunin væri allt önnur. Nú er víst komið annað hljóð í strokkinn. Nú heyrist mér, að afkoma ríkissjóðs hafi ekki reynzt eins vel og vonazt var til. Það skyldi þó ekki vera, að ýmislegt af því, sem framsóknarmenn bentu á, hafi verið rétt ?

Annar þáttur efnahagsmálanna og hann ekki síðri er útflutningssjóður. Því var líka haldið fram, að þar væri byggt á því, sem mundi reynast rétt. Það var kveðið mjög fast að orði í kosningabaráttunni í haust, að enginn þyrfti að kvíða vandræðum útflutningssjóðs, því að fyrir honum væri séð. Þegar ég leyfði mér að halda því fram, að það mundi verða verulegur halli á útflutningssjóði, í kosningabaráttunni í haust, þá er því bara svarað til: Þú veizt þetta ekki, góði. Ég veit þetta betur, sagði frambjóðandi Alþfl. Ég á nefnilega innangengt í stjórnarráðið. — En hvað er nú upp á teningnum? Eru borðin hrein, sem voru kölluð hrein í kosningabaráttunni í haust? Nei, þau eru það ekki.

Því var líka haldið fram af okkur framsóknarmönnum í fyrravetur, að það væri gert of mikið að því að byggja á innflutningi á hátollavöru. Við töldum, að þetta væri glannaskapur og það ætti að mæta þessu á annan veg en gert var. Það var ekki talið rétt sjónarmið þá. Stöðvunarstefnan þoldi nefnilega ekki það sjónarmið, að útgjöldum væri mætt á annan veg en þeir Alþfl.-menn og sjálfstæðismenn ályktuðu þá. Hverju er haldið fram nú? Því er haldið fram nú, að það séu hreinir glæfrar að byggja á slíkri stefnu, og það er meira að segja sýnt fram á það núna, að það var ekki hægt að halda við þá innflutningsáætlun, sem gerð var í fyrra og hæstv. viðskmrh. lýsti yfir hér á hv. Alþ. að skyldi vera fylgt. Nú hefur það sýnt sig, að þeir gátu ekki fylgt innflutningsáætluninni; sem þeir sögðust fylgja fast eftir, en við töldum þá, að hér væri spilað of djarft og það yrði að taka á málunum á annan veg.

Nei, það var alger stöðvunarstefna í landinu og ekkert mátti hækka. Þess vegna mátti ekki hlusta á okkar rök. Til þess að sýna, að svo væri, var ekki hikað við að ganga á rétt bændastéttarinnar með útgáfu brbl. Þau áttu að vera sönnun þess, að ríkisstj., sem þá sæti í landinu, vildi ekki una neinum hækkunum og mundi ekki una. Eftir að þau lög voru gefin út, hvað var þá gert? Það var tekinn hver á fætur öðrum af foringjum Alþfl. og látinn vitna í Alþýðublaðinu. Ég man eftir því, að hv. þm. Eggert Þorsteinsson var einn af þessum vitnum, og ég man ekki betur en hv. þm. Sigurður Ingimundarson væri líka einn af þeim, sem vitnuðu um gildi stöðvunarstefnunnar, sem mætti ekki hverfa frá. Það var á allra vitorði, að Alþfl. hélt því fram, að honum hefði tekizt að stöðva verðlagið í landinu og nú væru engin vandræði.

Er þetta nú samhljóða því, sem við heyrum í dag? Er þetta það, sem þetta frv. boðar? Er þetta það, sem kemur fram í ræðum hæstv. ríkisstj. ? Nei, það er allt annað. Því var lýst yfir frá hendi stjórnarsinna, eins og ég tók fram hér áðan, að borðin yrðu hrein, sem hæstv. ríkisstj. Alþfl. skilaði, það þyrfti enginn að kvíða neinum óreiðuvíxlum. Hvað segja nú þessir hæstv, ráðherrar sjálfir? Eru engir óreiðuvíxlar? Er ekkert, sem þarf að taka á sig núna frá fyrri tíma? Jú. Það skýtur nokkuð skökku við það, sem haldið var fram í kosningabaráttunni í haust, enda á nú ekki að fara að kjósa.

Hæstv. menntmrh. sagði hér í gær, að það hefði aldrei verið álit þeirra Alþfl.-manna, að verðbólgan væri stöðvuð nema í bili, þetta hefðu aðeins verið bráðabirgðaaðgerðir, sem ríkisstj. hæstv. fyrrv. forsrh., Emils Jónssonar, hefði gert. Ég vil leiða fram í þessu máli eitt vitni, og þetta vitni er hæstv. núv. og fyrrv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslason. Í aprílmánuði s.l. seint héldu þeir Alþfl.-menn fund í félögum sínum hér í Reykjavík. Þessi hæstv. ráðh. mætti á þeim fundi og hélt þar ræðu. Hans blað sagði svo frá þessum fundi. Frásögnin af þessum fundi þótti svo merkileg, að vinablaðið, Morgunblaðið, tók upp frásögnina og birti 1. maí s.l., en þar komst hæstv. ráðh. svo að orði, samkv. frásögn blaðsins, með leyfi hæstv. forseta:

„Drap hann,“ segir blaðíð, „á meginverkefnin þrjú, sem núverandi ríkisstjórn tókst á hendur að leysa, efnahagsmálið, kjördæmamálið og fjárlögin. Kvað ráðh, þetta engin smáverkefni á 4–5 mánaða tímabili og alls ekki ofmælt, að engin ríkisstj. hefði leyst jafnmörg stórmál á jafnskömmum tíma. Sagði hann, að í dag væri ánægjulegt til þess að vita, að séð væri fyrir endann á þeim öllum.“

Þegar Morgunblaðið hafði endurprentað þetta, þá, sögðu þeir: Já, miklir menn erum við, Hrólfur minn.

Ég segi: þetta er yfirlýsing um það, að verðbólguvandamálið hafi verið leyst, ekki til bráðabirgða, heldur að verðbólguvandamálið hafi verið leyst, og það voru ekki litlir karlar, sem leystu þessi þrjú mál á 4–5 mánuðum. Það var ekki ofmælt, að engin ríkisstj. hefði klárað sig betur.

En hvað svo? Var verið að segja það í gær, að þessi verkefni væru leyst? Nei, það var verið að segja, að þau væru óleyst og þau væru erfiðari viðfangs nú en nokkru sinni fyrr? Er þetta að vera sjálfum sér samkvæmur? Nei, þetta er að tala fyrir og eftir kosningar. Ef vandamálin eru svo mikil sem þeir í hæstv. ríkisstj. lýsa nú, þá er það ekki vegna þess, að vinstri stjórnin hafi haldið illa á málum. Sjálfstæðismenn gáfu henni sitt vottorð, og það verður ekki vefengt, að það hefur verið dregið vinstri stjórninni í vil.

Það, sem hefur skeð á þessu tímabili, er það, að verðbólgan hefur ekki verið stöðvuð. Alþfl. hefur ekki tekizt að leysa það verkefni, sem hann taldi sig hafa leyst. Það hefur og skeð, að þær aðvaranir, sem við framsóknarmenn komum hér fram með í fyrravetur, reyndust réttar. Og meira en það: fullyrðingar hæstv. ríkisstj. og stjórnarliða í Alþfl. og Sjálfstfl. hafa ekki staðizt. Þetta er deginum ljósara og þýðir ekki á móti að mæla, og get ég þar vitnað í þeirra eigin orð.

Í framhaldi af þessu er rétt að minna á það, að núv. forsrh. sagði, þegar hann tók við völdunum, að verkefnið, sem hans biði, væri að leysa hnút, sem væri upp á 250 millj. kr. En hvað kemur svo hér fram? Eru það 250 millj.? Nei, það eru álögur á annan milljarð. Er þetta ávöxturinn af stöðvunarstefnu Alþfl. og Sjálfstfl.? Hvernig haldið þið þá, hv. þm., að verði ástatt, þegar stjórnarliðar viðurkenna, að nú sé ekki um stöðvun að ræða, fyrst þetta er ávöxtur stöðvunarstefnunnar?

Þegar þessir sömu flokkar sameinuðust um það að breyta kjördæmaskipuninni á s.l. þingi, héldu þeir því fram, að það væri réttlætið, sem þeim væri fyrir mestu. Því var hins vegar haldið fram af okkur framsóknarmönnum, að það væri ekki það, sem verið væri að sækjast eftir, þessum mönnum væri réttlæti ekki svo mikils virði, nema það væri þeim í hag. Það voru leidd rök að því þá, hvenær þeir hefðu fengið fjörkipp til þess að breyta kjördæmaskipun landsins. Það var þegar stóð illa í bælið þeirra. En við bentum hins vegar á, að það væri höfuðatriði í kjördæmamálinu, að stefnt væri að því að draga úr uppbyggingunni í þjóðfélaginu, það væri stefnt að samdráttarstefnu, og sérstaklega væri stefnt að því að draga úr uppbyggingunni úti um landsbyggðina. Þetta voru ekki talin góð rök frá þeirra hendi. Og ég man ekki betur en ég yrði var við það, að því væri haldið fram í kosningunum í haust, að nú fyrst yrði hægt að hefja uppbyggingarstefnu. Við héldum öðru fram. Við héldum því líka fram, að það, sem nú ætti að gera í sambandi við efnahagsmálin, væri að leggja byrðarnar á hinn almenna borgara í þessu landi. Á bök þeirra ætti að leggja byrðarnar, þegar farið væri að fást við efnahagsmálin, þess vegna þyrfti að vera búið að draga úr valdi kjósandans, sem hann hafði, eins og kjördæmaskipunin áður var. Það þurfti að fjarlægja þm. frá kjósendunum. Og hvað hefur svo skeð? Hver er stefnan, sem síðasta ríkisstj. fór, og hver er stefnan, sem þessi hæstv. ríkisstj. ætlar að fara? Strax í fyrravetur var dregið úr framlögum til verklegra framkvæmda, eins og ég nefndi hér áðan. Og hvert stefna svo aðgerðir ríkisstj. nú? Þær stefna fyrst og fremst að því að stöðva uppbygginguna í landinu. Fjárlögin eru stórkostlega hækkuð, þau verða um hálfan annan milljarð, þegar þau fara út úr þinginu. En framlögum til verklegra framkvæmda er ætlað að standa óbreyttum.

Það hefði einhvern tíma þótt góð latína hjá þeim sjálfstæðismönnum að geta núið Framsfl. um nasir, ef slíkt hefði skeð hjá honum. Þetta er ávöxturinn af kjördæmabreytingunni, og að þessu var stefnt, þegar breytt var. Það á að taka erlend lán núna, þrátt fyrir þær aðvaranir og þær yfirlýsingar, sem þeir hafa gefið. En nú á ekki að taka þau til þess að byggja upp í landinu. Það á að taka þau til þess að geta eytt þeim til þess að kaupa vörur fyrir, en ekki til að byggja upp. Þetta er líka nýr og veigamikill þáttur. Menn segja nú kannske sem svo: Það er ekki þörf á meiri uppbyggingu. — Ég minnist þess að hafa heyrt hér á hv. Alþingi, að því hefur verið haldið fram, að það væri orðin offramleiðsla í landbúnaðinum og það þyrfti að draga þar úr uppbyggingu. Hvað er að ske nú? Er það offramleiðsla, að það er að verða smjörlaust í landinu og við ætlum að fara að flytja inn smjör? Og mjólkin er af skornum skammti. Það er alltaf hörgull á vöru, ef aldrei kemur það tímabil, að eitthvað sé um of. Þannig gerðist það líka, að það var of mikil mjólkurframleiðsla, þegar sérstakt góðæri var. En staðreyndirnar eru, að nú er þetta öfugt. Það er því fullkomin ástæða til að halda áfram við uppbygginguna í landinu og um landið allt, en hætta ekki.

Og stefna stjórnarinnar í efnahagsmálum, eins og hún birtist í þessu frv., hver er hún? Hún er að skipta þjóðinni í tvo hópa, þá, sem eiga, og þá, sem eiga ekki. Hér er um tvö meginatriði í þessu frv. að ræða. Þeir, sem eru búnir að byggja upp, eiga atvinnutæki og eru búnir að koma sér vel fyrir í lífinu, það eru þeir, sem njóta ávaxtanna af þessu frv. En það eru hinir, sem eru í miðjum klíðum við uppbygginguna, þeir sem eru að mynda sér heimili og eru að hefja lífsbaráttuna, það eru þeir, sem eiga hér að bera byrðarnar. Þetta er einmitt það, sem við sögðum, að það ætti að dreifa byrðunum á hina almennu borgara í landinu og það yrði betri aðstaða til þess eftir kjördæmabreytinguna. Ávöxturinn segir til sín.

Svo koma hv. stjórnarliðar og segja: Ég ætla nú að bæta ykkur þetta allt upp aftur. Ég ætla nefnilega að láta ykkur hafa 150 millj. í tryggingum, og það nægir til þess að bæta upp álögur á annan milljarð.

En hvað sagði hæstv. núv. forsrh. í fyrra? Það kom frásögn í Vísi, þar sem stóð með stórum stöfum og blaðsölustrákar kölluðu á götunum: „Ólafur Thors segir þjóðinni satt.“ Það þótti mikil frétt. Hvað sagði hann þá? Þá sagði hann: Niðurgreiðslurnar — (Forsrh.: Þarna fór hann alveg fram úr Hermanni Jónassyni.) Hæstv. forsrh. hefur aldrei farið fram úr Hermanni Jónassyni, nema í því að segja ekki satt. En það, sem þessi hæstv. forsrh. sagði þá, var þetta: Niðurgreiðslurnar, sem nú er verið að gylla fyrir ykkur, þær verðið þið að borga aftur í auknum sköttum eða í stöðvuðum framkvæmdum. — Haldið þið, hv. alþingismenn, að þjóðin verði ekki líka að greiða aftur framlagið, sem tryggingarnar veita til þess að reyna að gera hæstv. ríkisstj. góða? Þjóðin verður að borga þetta framlag með nýjum sköttum eða draga úr framkvæmdum. Það er nákvæmlega jafnsatt þetta og var hjá hæstv. forsrh. á Sjálfstæðisfundinum í fyrra. Og niðurgreiðslurnar, sem nú eru orðnar yfir 300 millj., það er sama um þær að segja. Svo á að koma og segja þjóðinni, að hér sé ekki verið að fara illa að, það sé aðeins 3% kjaraskerðing, og það geti allir þolað. Það, sem við sögðum í fyrravetur, er nú þegar komið fram. Það hefði þó enginn búizt við því, að það mundi ekki taka eitthvað lengri tíma, að það rættist.

Þá komum við að því: var ekki nauðsynin svo mikil að breyta um efnahagskerfi, að þess vegna áttum við, eins og hæstv. forsrh. sagði, ekki nema eins kostar völ? Gott og vel. Það er nú svo með uppbótakerfið, sem nú er bölsungið mikið, að þar hafa fleiri komið við sögu en þeir, sem nú eiga að valda því. Ég man ekki betur en hæstv. núv. forsrh, sæti í þessum sama stól, að vísu var stjórn hans þá búin að biðjast lausnar, ef ég man rétt, þegar ríkið tók ábyrgð á útvegi landsmanna 1946. Ég man ekki betur en það væri atvmrh. þáv.,

Áki Jakobsson, í ráðuneyti hæstv. ráðh. Ólafs Thors, sem beitti sér fyrir því. Það var upphafið að þessu kerfi. Og ég man ekki betur en þeir sjálfstæðísmenn sætu í ríkisstj., og þá mun hæstv. núv. forsrh. hafa verið atvmrh., þegar bátauppbótakerfið var upp tekið 1951. Nei, ég held, að þeir hafi komið þar við sögu, sjálfstæðismenn, svo að þeir þurfa ekki mikið að blása þess vegna. Þetta kerfi hefur sína kosti og sína galla. Kostir þess liggja m.a. í því, að það er hægt að jafna hlut þeirra, sem verr eru settir, með því, sem gert var í stórum stíl með sérbótum, og ég er ekki búinn að sjá það, að hæstv. ríkisstj. komist alveg fram hjá því máli, þó að nú eigi að vera fyrir öllu séð. Þessi þáttur í uppbótakerfinu var m.a. sterkur þáttur í því að byggja upp atvinnulíf víða um landið, þar sem menn máttu sín miður. Þetta er stór og veigamikill þáttur í uppbótakerfinu. Með því er hægt að byggja upp landið allt. Það er hægt að dreifa fjármagninu betur með þessu kerfi en í gegnum það fjárhagskerfi, sem nú á að fara að taka upp. Það þýðir nefnilega það, að þeir, sem betur mega sín, njóta sín ekki eins vel í gegnum uppbótakerfið, en hinum er aftur rétt hjálparhönd. Hins vegar skal það fúslega viðurkennt og hefur alltaf verið viðurkennt af okkur framsóknarmönnum, að kerfið er ekki gallalaust. Það er síður en svo, og m.a. eru höfuðgallar þess, þegar það fer að verða stórt og umfangsmikið, að þá fer að myndast mikið ósamræmi milli einstakra vörutegunda innanlands og erlendra, og það getur skapað mörg vandræði. Þess vegna getur þetta kerfi aldrei verið nema takmarkað og svo er um fleiri. Ef byggt er of mikið á hátollavöruinnflutningi, eins og gert var hjá hæstv. síðustu ríkisstj., þá er fjárhagur þessa kerfis í mikilli hættu. Víð höfum líka, framsóknarmenn, bent á þessa galla. Það kom skýrt fram í því, sem hæstv. viðskmrh. las hér, þegar hann las till. okkar, sem við lögðum fram í vinstri stjórninni.

Ég vil þakka þessum hæstv. ráðh. fyrir að lesa þessar tillögur og vil segja honum það, að við höfum engu gleymt í þeim, enda hefur það sýnt sig. Við bentum á það þá, að það væru gallar á þessu uppbótakerfi, sem þyrfti að laga, þess vegna yrði að leggja almennt gjald á vöru flutta til landsins, og við það höfum við staðið. Við sögðum, að það væri nauðsyn að leita eftir meira jafnvægi í efnahagsmálum og það væri eðlilegt að ná því í áföngum. Við vildum halda áfram uppbyggingunni í landinu. Við vildum ekki ganga inn á þá leið, sem gerði ráð fyrir kyrrstöðu og samdrætti í uppbyggingunni. Þess vegna var það okkar meginatriði, að uppbyggingarstefnunni yrði fylgt, en ekki frá henni horfið, og við vildum hafa samráð við stéttarfélögin í landinu um aðgerðir í efnahagsmálum. Þetta var það, sem fólst í till. þeim, sem ráðherrann las hér í gær, og hann hefði sannarlega mátt lesa þær fyrr, því að þær voru ekki okkur í óhag, heldur var það meginið af þessum till., sem fólst í bjargráðunum 1958. Við höfum alltaf kannazt við þau mál sem okkar mál og viljað standa með þeim. Við sýndum það í þeirri ríkisstj., að við fylgdum því eftir og stóðum með því, sem átti að gera þá, og ríkisstj., sem Framsfl. hafði forsæti fyrir, fór frá völdum vegna þess, að málinu var ekki fylgt eftir.

Þetta segi ég, að sé að vinna heiðarlega í pólitík. Ef það er ekki, þá þarf ég að læra meira, og ég veit ekki, hvort ég kæri mig um þann lærdóm.

En hæstv. ráðh, hafði gleymt einu. Ég veit, að hv. þm. hafa tekið eftir því, þegar hann byrjaði að lesa tillögur Alþýðuflokksins, þá byrjuðu þær mjög svipað og okkar. Ég man, að tillögur okkar voru lánaðar þeim Alþfl.-þingmönnunum. Eftir það sagði Alþýðubl. frá því, að þeir hefðu fundið þriðju leiðina. En hæstv. ráðh. var ekki að hæla þriðju leiðinni í gær. Hún kom fram, eftir að þeir höfðu séð okkar tillögur.

Það er áreiðanlegt, að það er gott að muna það, sem skeð hefur, og það er stundum nauðsynlegt að lesa það upp, og ég labbaði að gamni mínu eftir þessa ræðu í gær og fékk mér Alþingistíðindi frá 1950. Það vildi svo til, að bókin opnaðist á ræðu, sem hæstv. núverandi viðskmrh, flutti um gengisfallið þá. Og þar lenti ég á því, að hann var að vefengja sérfræðinga og tala um, að ríkisstj. væri að skjóta sér bak við þá. Ég veit ekki nema þessi hæstv. ráðh. hefði nú gott af því að lesa eitthvað upp af þessu, og mér hefur stundum fundizt, að minni hans væri ekki eins gott og ég hafði ætlað. En það er ekkert við því að segja, þó að menn sjái nýja fleti á máli, það getur verið eðlilegt. Ég er ekkert að segja, að það sé neitt óeðlilegt við það, þó að hæstv. viðskmrh. líti öðrum augum á gengisfall núna en 1950, og er heldur ekki að segja það, að gengisfall út af fyrir sig sé neitt voðalegur atburður, og kem betur að því síðar.

En hvert var höfuðatriðið í bjargráðunum 1958? Það var yfirfærslugjaldið. En hverjir hafa verið andstæðingar bjargráðanna 1958? Hverjir hafa talað mest gegn þeim og einmitt þeim þættinum, yfirfærslugjaldinu? Það hafa verið sjálfstæðismenn. Og ég man ekki betur en þau bæri nokkrum sinnum á góma í kosningabaráttunni í haust, og það var einmitt yfirfærslugjaldið, og mig minnir, að hv. núv. samþingismaður minn, 2. þm. Vestf., hafi haldið því fram þá, að það sé einmitt yfirfærslugjaldið, sem hafi verið megingallinn á bjargráðunum 1958, að þau legðust þyngra á landbúnaðinn en nokkurn annan atvinnuveg. Hvað ætli sé nú uppi um þá hluti? Og svo lenti ég á því að lesa útvarpsræðu, sem hæstv. núv. landbrh. flutti 1958. Hvað sagði hann um bjargráðin, sá hæstv. ráðh.? Með leyfi hæstv. forseta, þá komst hann svo að orði:

„Landbúnaðurinn, sem engan málsvara virðist hafa átt, þegar verðbólgufrv. var samið, verður fyrir hvað mestum skakkaföllum vegna þessara ráðstafana. Allar rekstrarvörur landbúnaðarins eru stórhækkaðar og 55% yfirfærslugjaldið lagt á brýnustu nauðsynjavörur landbúnaðarins. Landbrh., Hermann Jónasson, sagði í gær, að 55% yfirfærslugjaldið væri ekki lagt á brýnustu nauðsynjavörur. Eftir því telur ráðherrann fóðurbætí, áburð, benzín, byggingarefni, vélar og varahluti, sem þarf til rekstrar landbúnaðarins, ekki nauðsynjavörur. Hygg ég, að bændur hafi ekki búizt við slíku skilningsleysi hjá ráðherranum.“

Svo mörg eru þau orð. Ætli núna verði ekki hækkun á rekstrarvörum landbúnaðarins? Hvað ætli dráttarvélarnar komi til með að hækka? Mér sýnist að lauslega athuguðu máli, að það geti orðið upp undir 50%. Það væri gaman, ef ráðherrann vildi gera svo vei að upplýsa það. Varahlutir hækka eitthvað álíka. Mér sýnist, að hjólbarðar á bifreiðar gætu hækkað um 44% eða eitthvað þar um kring. Og fóðurbætirinn, hann skyldi nú ekki hækka núna? Mér er nú sagt, að maísinn geti hækkað um 43% eða eitthvað þar um og áburðurinn 50–60%, erlendur áburður. En um leið vil ég nota tækifærið til að spyrja hæstv. ráðherra: Er meiningin að halda því áfram að greiða hann niður, eins og gert var í fyrra? Þá var hann greiddur niður, svo að hann hækkaði ekki meira en innlendur áburður. Er það meining núv. hæstv. ríkisstj. að fylgja þeirri stefnu áfram? Ef það er, þá skýrist þetta nokkuð. Mér sýnist, að byggingarefni gæti hækkað eitthvað yfir 40% og rúgmjölið yfir 60%. Gaman væri að fá upplýsingar um þetta, því að þetta mál er svo óljóst enn þá, að það er allt á reiki um það. Og nú vil ég spyrja: Átti landbúnaður engan málsvara í hæstv. ríkisstjórn, þegar var verið að kokka þessi mál? Þegar var verið að reyna að koma okkur heim fyrir jólin í vetur og hæstv. ríkisstj. kvartaði undan því, að hún hefði ekki frið, þá bar það til a.m.k. seinni hluta dags, að þá var hæstv. landbrh, látinn sitja hér einn niðri í Alþingi. Þá vorum við að stinga saman nefjum um það, hvort nú væri verið að ráða málum, sem hann mætti ekki fylgjast með. Kannske þetta atriði hafi þá verið afgert? Og ég spyr áfram: Skorti þennan hæstv. landbrh. skilning á hag og nauðsyn bændastéttarinnar? Ég nota bara hans eigin orð. Og ég held áfram að nota hans eigin orð og segi: Eða keypti hann valdastólinn svo dýrt, að hann fórnaði hagsmunum bændastéttarinnar? Nei, ég sé ekki, að bændastéttin sé hér sett á sérstakan bekk, annan og betri en aðrar stéttir í þessu þjóðfélagi. Það hafa ekki verið talin nein rök af hendi okkar framsóknarmanna hingað til í sambandi við bjargráðin, þó að við höfum bent á það, að Stéttarsamband bænda hafi lýst því yfir, að það væri séð eins fyrir hag bændastéttarinnar og annarra stétta í landinu. Það hafa ekki verið talin gild rök af hendi þeirra sjálfstæðismanna. Mér er ekki ljóst, að í þessu frv. sé gert ráð fyrir, að bændastéttin búi við neitt annað gengi en almenningur í þessu landi. Þess vegna endurtek ég spurningarnar, sem þessi hæstv. núv. ráðh. bar fram 1958.

Það var annar þáttur í sambandi við yfirfærslugjaldið og þá leið, sem farin var 1958, sem ég vildi gera hér dálítið að umræðuefni.

Þegar uppbótakerfi er orðið jafnstórt og það er orðíð hjá okkur, er einn hlutur nauðsynlegur, og hann er sá, að það sé ekki breytt um kerfi nema í áföngum. Það er enginn vafi á því, að það, sem er þjóðinni hættulegast í þessu efni, eru þær eilífu sveiflur, sem hér hafa á orðið. Og ef menn skoða 20 ára tímabilið frá 1940, þá verður það ljóst. Við höfum annan daginn gefið frjálst, hinn daginn skömmtun, og þar fram eftir götunum. Þessi leið, áfangaleiðin, er þeim mun nauðsynlegri vegna þeirrar uppbyggingar, sem átt hefur sér stað í landinu síðustu árin. Ég man nú ekki betur en þeir sjálfstæðismenn hafi viljað eigna sér sinn hlut af þeirri uppbyggingu, sem átt hefur sér stað í íbúðum manna síðan 1953. Þá var talið, að þar hefði verið gefið frjálst, og það var mikið í kringum það. En hafa menn gert sér grein fyrir því, hvernig það fólk er á vegi statt, sem hefur verið að byggja síðan 1953? Hefur hæstv. ríkisstj. gert sér grein fyrir því, hvernig hún kemur við það, sú vaxtahækkun, sem nú er boðuð? Hæstv. ríkisstjórn mun kannske halda því fram, að vaxtahækkunin komi ekki við það, vegna þess að lánin séu þegar afgreidd. En heldur hæstv. ríkisstj., að þetta fólk sé búið að koma öllum sínum peningalánum í föst lán? Og það er líka annar þáttur í þessu sambandi. Ég þekki vel til þess, að í mínu byggðarlagi er stofnun, sem heitir Sparisjóður Mýrasýslu. Þessi stofnun hefur gert mjög að því að reyna að hjálpa héraðsbúum til að byggja upp. Hvernig fer nú fyrir þessari stofnun, ef innlánsvextir verða hærri en útlánsvextir? Það kemur ekki við neina aðra en fólkið í þessu héraði. Þetta er líka mál út af fyrir sig. Hæstv. ríkisstj. leyfir sér að halda því fram, að það sé auðvelt að fást við vextina, vegna þess að þeir séu svo hreyfanlegir. En hvað gerist í peningamálum þjóðarinnar, ef vextir verða svo óstöðugir, að það sé búizt við, að þeim sé stórkostlega breytt frá ári til árs? Það, sem gerist, er ekkert annað en það, að það verða ekki önnur viðskipti í bönkum landsins en víxilviðskipti. Það eru þau viðskipti, sem almenningur kærir sig ekki um. Og ég segi það af fullum rökum og fullri þekkingu, að með þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. er nú að taka upp í sambandi við þetta fólk, er heilum byggðarlögum jafnvel stefnt í voða. Atvinnu- og uppbyggingarstefnan er þannig á veg komin í ýmsu, að hér er um nýgræðing að ræða, sem hefur ekki fest þær rætur, að það væri ástæða til að beita þeim fautaskap, sem hér á að beita. Þeir menn, sem halda því fram, að þeir hafi verið einhverjir sérstakir boðberar stefnu frá 1953 um, að almenningur í landinu gæti byggt yfir sig, þeir koma nú svona aftan að fólkinu, þegar það er í miðjum klíðum með sínar framkvæmdir. Og ég segi ykkur það satt, að það eru mörg kauptún á þessu landi, sem hafa verið að byggjast upp á þessum síðasta áratug, sem eru, sem ég vil segja, í stórkostlegri hættu vegna þeirra aðgerða, sem nú á að gera.

Eins og ég drap á áðan, þá er það um gengisfall að segja út af fyrir sig, að undir vissum kringumstæðum getur það átt rétt á sér. Og með þeirri leið, sem farin var með yfirfærslugjaldinu 1958, ef sú leið hefði fengið að þróast, hefði gengisfall ekki orðið neitt átak fyrir þjóðina, vegna þess að þá var hægt að umskrá þann mun, sem á var lagður. Það hefði ekki verið neitt átak fyrir þjóðina, þó að genginu hefði verið breytt þar. Ég vil líka í þessu sambandi minna á baráttu þeirra sjálfstæðismanna og Alþýðuflokksmanna fyrir kauphækkuninni í sambandi við lögin 1958. Mennirnir, sem nú koma til þjóðarinnar og segja: Þið eigið að taka þessu með skilningi, þið eigið að gefa þessu tíma til þess að sýna sig, — það voru þeir, sem gengu út vorið 1958, það voru þeir, sem voru að auglýsa verðhækkanirnar til þess að fá kauphækkunarkröfuna fram. Og svo koma þeir nú til þjóðarinnar og segja: Þið eigið að sýna skilning og velvilja og lofa þessu að þróast, því að þá getur það orðið þjóðinni til gagns. — Var þetta stefnan 1958? Og ég vil segja hæstv. viðskmrh. það, að ef þið Alþýðuflokksmenn hefðuð staðið að því máli eins og við framsóknarmenn gerðum, þá væri betur komið hag þjóðarinnar en nú er og þá þyrftu þessir hæstv. ráðh. ekki ár eftir ár að vera að rýra kjör fólksins í landinu, eins og þeir gera nú.

Nei, mergur málsins í sambandi við gengisfallið er, hvernig það er gert og að hverju það stefnir, hvort það er stefnt að því að auka framleiðsluna í landinu, auka atvinnulífið og uppbyggingarstefnuna. Þetta er meginmálið, því að með því móti er hægt að bæta fólkinu upp þá kjaraskerðingu, sem kynni að verða, og ef þetta á sér stað eins og eðlileg þróun, þá þarf þetta ekki að vera tilfinnanlegt. Það er þetta, sem er þverbrotið nú, því að jafnhliða því, að gerð er stórkostleg gengislækkun, eru lagðar á gífurlegar nýjar álögur. Hver skyldi hafa trúað því, þegar útflutningssjóður væri lagður niður og gengisfallið látið mæta útflutningsuppbótunum, að þá væru tekjurnar, sem útflutningssjóður hafði, teknar' í ríkissjóð og nýjum álögum bætt þar ofan á? Nei, ég skal segja ykkur það, að ef ég hefði sagt það í haust í kosningabaráttunni á Miðvesturlandi, hvað haldið þið, að þið, góðir andstæðingar mínir, hefðuð þá sagt? Hvílíkar öfgar, þvílík óforskömmugheit að halda slíku fram. — Ég skal segja ykkur það, að mér hefði ekki dottið slíkt í hug, mér hefði aldrei komið það til hugar, að jafnhliða stórkostlegu gengisfalli yrði öllum álögum til útflutningssjóðs haldið og bætt við nýjum. Þess vegna á það sama ekki nema að nafninu til við um gengisfall. Aðalatriðið er, að hverju það stefnir.

Það, sem líka er nauðsynlegt í sambandi við aðgerðir í efnahagsmálum og var gerð heiðarleg tilraun til hjá vinstri stjórninni, það var að reyna að fá samstöðu og skilning fólksins í landinu á því, sem þörf var að gera og gera átti. Það getur engum manni dulizt, að til þess að slíkar aðgerðir megi heppnast, þarf það að gerast. Því miður tókst það ekki. En það var vegna þess, að það var haldið uppi látlausum áróðri frá hendi stjórnarandstöðunnar og þeirra manna, er hún náði til fylgis við sig.

Hvað er gert nú? Það er ekki verið að leita eftir samstöðu. Alþingi var hafið hér í haust með þvílíkum fautaskap, að stjórnarandstöðunni var næstum því vísað út úr dyrunum strax og þm. voru komnir inn fyrir. Það var sagt frá því í blöðum stjórnarliða, að það ætti að senda Alþ. heim, áður en till. væru sýndar hér á hv. Alþ. Svona var farið með þá, sem voru kosnir samkvæmt vilja þjóðarinnar að dómi þessarar hæstv. ríkisstj. og stjórnarliða. Og svo segir hæstv. ríkisstj. í sambandi við sína eigin menn: Það var reynt að hafa samráð við þá, sem náðist til. — Ég sýndi fram á það hér í haust; að með því að senda Alþ. heim væri verið að mismuna þeim, sem hér búa, og okkur, sem búum úti á landsbyggðinni. Það var verið að gefa þeim, sem hér eru í bænum búsettir; tækifæri til þess að fylgjast með og hafa áhrif á aðgerðir í efnahagsmálum; sem hinir gátu ekki haft. Það þarf enginn mér að segja, að hvorki túlkar maður sína skoðun né hefur áhrif á gang mála, þó að hringt sé til hans og sagt, hvernig þau standi:

Nei, hér var nefnilega enn einn þátturinn til þess að ]áta landsbyggðina hafa sem minnst áhrif á landsmálin. Það, sem hér ér nú að gerast, er það, að hér er farið á yztu nöf. Hér er svo mikil spenna, að ef þetta brestur, þá er ekki huggulegt fram undan. Það er ekki reynt að ná neinu samkomulagi, og þar er mælirinn tekinn eins fullur og frekast er hægt að hugsa sér.

Ég hef sýnt fram á það hér að framan, að heilum byggðarlögum er stefnt í voða með þessum aðgerðum og þjóðinni allri um leið. Og ég vil svo í framhaldi af þessu segja það: Er þetta ávöxturinn af eins árs stjórn Alþfl. og sjálfstæðismanna? Er þetta annar áfanginn af stöðvunarstefnunni? Já, það er mikill árangur. Og svo koma þeir og segja: Ef ekki hefði verið hér stöðvunarstefna, þá væri nú erfitt. — Við héldum því fram t.d. í fyrra, framsóknarmenn, að það hefði verið eðlilegra að gera einhverja breytingu þá á yfirfærslugjaldinu heldur en að fara þá leið, sem þeir fóru. Ég hélt því t.d. fram í ræðu í sambandi við húsnæðismálin, að það væri óeðlilegt fyrir ríkisvaldið að eyða tekjuafganginum, það yrði til þess, að álögurnar yrðu enn þá meiri næsta ár. Þetta mátti ekki heyrast á þeim bæ þá. En kemur það vel út fyrir þjóðina núna, þegar hún hefur trúað því, að það væri komin á stöðvun, þegar hún hefur kosið þessa neinn, vegna þess að hún hélt, að þeir væru búnir að stöðva dýrtíðina í landinu, að fá nú á sig meiri álögur en nokkru sinni fyrr, að nú skuli þessir herrar standa fyrir óðaverðbólgu?

Ég vil nú með nokkrum orðum ræða einstaka þætti þessa frv., þó að það verði lítið eitt tímans vegna. Það, sem er meginmálið í öllu þessu, er að draga úr uppbyggingu, fyrst og fremst úti um landið. Þar um vitnar svo margt, eins og það að taka fjármagn innlánsdeilda kaupfélaganna og draga hingað til Reykjavíkur. Hún þarf ekki að halda það, þessi hæstv. ríkisstj., þó að hún hafi gaman af því, eins og t.d. annað stjórnarblaðið auglýstí beinlínis, að Samband ísl. samvinnufélaga mundi tapa 3–4 millj. kr. í vöxtum vegna vaxtahækkunarinnar, þegar það auglýsti það á forsíðu, — þeir þurfa ekki að halda það, að þeir eigi ekki eftir að finna fyrir því, að þessum samtökum fólksins í landinu verður ekki boðið allt og það verður ekki gert án þess, að fólkið rísi upp til varnar og víti, að það er verið að ráðast á það sjálft. Þetta er í beinu framhaldi af því að leggja byggðastefnuna niður.

Þá eru hér tvær greinar frv., sem ég vildi fá frekari skýringar á, og svo auðvitað um verðlagið, sem ég spurði um áðan. Það er 16. gr. frv., en hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. er heimilt að innheimta sérstakt gjald af innfluttum bifreiðum og bifhjólum, og má það nema allt að 135% af fob-verði hverrar bifreiðar og bifhjóls.“

Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. viðskmrh.: Er hér átt við allan bifreiðainnflutning til landsins? Er hér átt við vörubifreiðar auk fólksbifreiða? Þessu þarf ég að fá skýringar á og vona, að hæstv. ráðh. gefi þær. Það er talað um það í grg. frv., að ríkisstj. geti ákveðið, hvað skuli verða mikið af þessu, sem falli á bifreiðar, er atvinnubifreiðastjórar flytja inn. Í lögum er þetta ákveðið nú: Af hverju er þessi breyt.? Er það eðlilegt, að ríkisstj. á hverjum tíma meti það, eða auglýsir. hún þær reglur, sem farið verður eftir um það? Þetta vildi ég gjarnan fá upplýst.

Svo er hér ein lítil grein, sem er 32. gr. Það fer mjög lítið fyrir henni. En hún er ekki eins meinlaus og maður skyldi ætla eftir fyrirferðinni. Hæstv. ríkisstj. tók upp það óskaráð í haust eða fann þá leið, sem henni fannst heppileg til þess að komast fram hjá þinginu, að taka nokkur lagafrv:, skella þeim saman, búa til bandorm og setja þau í eitt. Með því móti tókst henni að komast fram hjá nokkrum umr. í þinginu, sem hún gjarnan vildi losna við. Hún virðist álíta; að þessi leið sé mjög farsæl og sé að hennar skapi. Hér er t.d. ætlazt til, að með einni lagagrein í þessu frv. sé breytt lögum um fiskveiðasjóð, stofnlánadeild sjávarútvegsins, byggingarsjóð sveitanna, ræktunarsjóð, byggingarsjóð ríkisins, byggingarsjóð verkamanna, raforkusjóð. Og hvað er það svo, sem hér á að gera? Ríkisstj. á að ákveða á hverjum tíma, hverjir skuli vera vextir og hver skuli vera lánstími þessara stofnana. Og hver er grundvöllur þessara stofnana? Hver er grundvöllurinn fyrir ræktunarsjóði og byggingarsjóði sveitanna? Hann er sá, að þar eru vaxtakjör betri en annars staðar og lengri lánstími. Þetta er meginþátturinn í þessum stofnunum. Hæstv. ríkisstj. fær vald; ekki einungis þessi, heldur allar ríkisstj:, sem koma á eftir, meðan þetta er í gildi, til þess bókstaflega að afnema þessi lög um þessar stofnanir. Á því tímabili, sem ræktunarsjóður er búinn að starfa, er hann búinn að lána 10 750 lán, eða upp á 280 millj. rúmar: Þetta hefur verið meginþátturinn í uppbyggingunni um allar sveitir landsins. Og svo kemur hæstv. ríkisstj. og óskar eftir því, að lagabálkur, sem er búinn að vera í gildi hér á landi yfir 30 ár, skuli afnuminn í raun og veru í einum litlum þætti í öðrum lagabálki.

Þessar stofnanir eru búnar að þróast í þrjá áratugi og vel það, og það á með einni lítilli lagagrein í þessu frv. í raun og veru að afnema þær. Og þetta ætlar ríkisstj. sér að fá samþykkt hér á hv. Alþ. Ég segi: Það er skrýtinn vilji hv. alþm., ef þeir ganga inn á þetta. Og svo koma menn og segja: Það er ekki vist, að ríkisstj. noti þetta. — En eru menn búnir að gleyma því, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. lagði í raun og veru niður um tíma veigamesta þáttinn í framleiðsluráðslögunum, af því að það var henni í hag að hafa ástandið þannig um kosningarnar? Getur nokkur trúað því, að það hafi verið svo voðalegt í september í haust, þó að verðlag landbúnaðarafurða hækkaði um 3,18%, þegar menn horfa á það, sem nú á að gerast? Nei, því trúa menn ekki, ef þeir hugsa málið nokkurn veg. Hér er nefnilega ekki neinn smáhlutur að gerast. Og ég vil minna á annað í þessu sambandi, og það er það, að byggingarsjóður sveitanna er ekki farinn að lána sín venjulegu lán á þessu ári. Það eru fyrst og fremst viðbótarlán, sem hann hefur lánað, og eitthvað fyrri hluta ársins. Sjá menn nú, hvernig fer, ef breyting verður gerð á þessum þætti. Mörg lán eru óafgreidd í ræktunarsjóði. Ég vil líka minna á það, að við framsóknarmenn lögðum til að láta fiskveiðasjóð fá aukið fjármagn í sambandi við lánið, sem tekið var á þessu ári. Stjórnarliðið þáv. og núv. felldi það. Nú á svo að breyta lánstíma og vöxtum hjá þessum sjóðum. Það kemur við þá útgerðarmenn, sem hafa orðið að bíða eftir lánum, vegna þess að stjórnarliðið vildi ekki, að sjóðurinn fengi fjármagn. Byggingarsjóður verkamanna er búinn að lána 100 millj. kr., og hann er búinn að veita í á annað þúsund íbúðir. Á annað þúsund íbúðir hafa verið byggðar upp eða eru í byggingu á hans vegum. Þetta er einn sjóðurinn, sem á nú að fara undir hæl ríkisstj. Hún ein á að ákvarða um lánskjör og lánstíma þessa sjóðs. Þó er meginmálið í lögunum vaxtakjör og lánstími. Og ég verð að segja það, að ef Héðinn Valdimarsson væri hér og mætti mæla, þá held ég, að honum mundi finnast, að til lítils hefði verið barizt, þegar hans flokksmenn, sem eitt sinn voru, ætla raunverulega að afnema þessi lög með lítilli lagagrein í öðrum lögum.

Og ég skal segja ykkur það, þó að ég kunni ekki þau skil á lagasetningu, sem prófessorarnir, sem nú sitja í ríkisstj., kunna, að þá verður lagasetning í þessu landi ekki til fyrirmyndar, ef á að fara að taka inn í önnur lög veigamikla þætti úr sjálfstæðum lögum, og ég er sannfærður um það, að þannig hljóðar ekki kennsla þeirra vísu manna, þegar verið er að kenna þeim um meðferð laga og smiði þeirra. Og til hvers værum við þá að vera að þessu brölti að setja sérstök lög? Ætti þá ekki bara að setja upp ein lög á Alþingi um öll mál? Þetta þykir nú kannske öfgakennt, en við skulum bara gera okkur grein fyrir því, að það er meginatriði í þessum lögum, sem hér á að afnema með þessari litlu ]agagrein.

Hvernig er það svo gagnvart þeim, sem hafa verið að byggja í þessu landi? Við gerðum aftur og aftur tilraun til þess, framsóknarmenn, að fá aukið fé til húsnæðismálanna í fyrra. Nei, það fékk ekki hljómgrunn. Því máli hefur nú verið bjargað í bili með smáupphæð, sem er aðeins út á það, sem á að koma, út á tekjur sjóðsins. Hvernig er nú farið gagnvart þessu fólki, sem er með sitt hús hálfbyggt? Það á að taka á sig allar þær hækkanir, sem verða af þessum lögum, og vaxtahækkun ofan á það. Nei, hér er gengið lengra en góðu hófi gegnir. Hér er gengið lengra en má ganga.

Allt er þetta miðað við það eitt, að nú skuli ríkja kyrrstaða í landinu, og almennur borgari í þessu landi á ekki að hafa rétt til þess eða möguleika til þess að byggja yfir sig, hann á ekki að vera að vasast í því að fara til bankastjóra og biðja um lán. Að því er stefnt. Það eru þeir fáu og stóru, sem það eiga að gera, en ekki hinn almenni borgari.

Þetta mál mitt er víst orðið lengra en ég ætlaði í upphafi. En að lokum vil ég segja þetta: Það er ekki þörf aðgerða nú vegna vinstri stjórnarinnar. Að því hef ég leitt rök, sem verða ekki hrakin. Ég hef líka leitt rök að því, að stjórnarstefna fyrrv. ríkisstj. mistókst. Það er deginum ljósara, þó að hér sé hún notuð á svo herfilegan hátt. En það er saga út af fyrir sig. Verða þeir að una við það, fyrst þeir eru þar sjálfir að verki, því að þessi mistök og þessa meðferð á þeirri ríkisstj. á að nota til þess að koma á þeim gífurlegustu álögum, er á þjóðina hafa verið lagðar. Og stefnan, sem nú er tekin upp, þessi nýja stefna, það er stefnan gegn uppbyggingu í landinu, það er stefnan, sem á að skapa kyrrstöðu og samdrátt. Það á að draga fjármagnið frá landsbyggðinni til höfuðstaðarins. Heilum byggðarlögum er stefnt í voða með þeim aðgerðum, sem nú er veríð að gera, og hef ég leitt rök að því. Lofað var stöðvun fyrir kosningar og jafnvægi, en nú er sköpuð óðaverðbólga. Þjóðinni er nú verið að skipta í tvær andstæður. Það eru þeir, sem eiga, og þeir, sem ekki eiga. Og þetta mál allt, það er engin tilraun gerð til þess að ná samstarfi eða samstöðu um málið. Málið er sótt með offorsi og frekju, og það er ekkert tillit tekið til hins almenna borgara í landinu. Afkomu þjóðarheildarinnar er stefnt í voða með þeim glæfrum, sem hér eru á ferð. Það er vonandi, að gifta þjóðarinnar verði svo mikil, að betur fari en á horfist. En það er ekki þeim að þakka, sem fyrir málinu standa.