15.02.1960
Neðri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

48. mál, efnahagsmál

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Frv. það, sem hér er til umræðu, varðar meir alla alþýðu þessa lands en nokkurt annað mál svipaðs eðlis, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi um langt árabil. Í áróðursbæklingi, sem dreifa á um allar jarðir á kostnað ríkisins, hafa stjórnarflokkarnir í fullu blygðunarleysi kennt frv. við viðreisn, og hér á Alþingi hafa þeir verið margorðir um viðreisnartill. þess.

Þetta er hið mesta öfugmæli. Með frv. er þvert á móti stefnt að því að rífa niður þau lífskjör, sem íslenzkri alþýðu hefur tekizt að afla sér með mætti samtaka sinna og verkalýðshreyfingin hefur stuðlað að, þegar hún hefur getað haft áhrif á stefnu stjórnarvaldanna í atvinnu- og verðlagsmálum.

Aðalefni þessa frv. er að fella gengi íslenzku krónunnar, svo að einn dollar jafngildi 38 kr. Með þessari ráðstöfun er nýju. dýrtíðarflóði hleypt yfir landið, stærri bylgju en nokkru sinni áður. Allt verðlag hækkar stórlega, og þessar hækkanir á almenningur að taka á sig bótalaust, því að jafnframt gengisfellingunni á að banna með lögum, að launþegar fái upp borinn aukinn framfærslukostnað í hækkuðu kaupi, eins og þeir eiga rétt til samkv. samningum stéttarfélaganna og gildandi lögum. Það á að lögbanna, að kaup sé greitt samkv. vísitölu.

Hér er því ekki aðeins verið að lögbjóða mikla kauplækkun, heldur er hér einnig á ferðinni ósvífin árás á samningsfrelsi verkalýðshreyfingarinnar.

Formælendur þessa frv. hafa lítið gert að því undanfarið að nefna hlutina, réttum nöfnum, og auðvitað kalla þeir þetta atriði ekki þeim nöfnum, sem ég hef gert. Ónei, þeir eru sakleysið sjálft á svipinn og segja aðeins, að verið sé að koma í veg fyrir víxlhækkun verðlags og launa.

Í full 20 ár hafa launþegar í þessu landi búið við það fyrirkomulag að fá hækkaðan framfærslukostnað bættan í kaupi eftir vísitölu, annaðhvort með samningum við atvinnurekendur eða eftir lögum, nema hvort tveggja hafi verið. Ævinlega hefur verðlagið hækkað fyrst og kaupið síðan sem afleiðing verðhækkananna, en ekki öfugt, eins og reynt er að halda að fólki.

Þetta fyrirkomulag hefur verið sjálfsögð ráðstöfun, til þess að réttur hins vinnandi manns væri ekki fyrir borð borinn. Og hvernig halda menn, að ástandið hefði verið undanfarna tvo áratugi, ef þetta fyrirkomulag hefði ekki verið í gildi, jafnmiklar verðhækkanir og orðið hafa? Engum dettur í hug, að verkalýðshreyfingin hefði þolað þær bótalaust. Halda menn þá, að vinnufriðurinn hefði verð tryggari, framleiðslan meiri og afköstin betri, ef verkalýðshreyfingin hefði þurft að sækja hvern einasta eyri með síendurtekinni kaupgjaldsbaráttu? Auðvitað ekki. En hvað hefur þá breytzt? Þeir, sem trúa, að verkalýðshreyfingin sé í dag veikari, ættu að skoða hug sinn betur, áður en þeir hætta á að eiga allt undir því.

Þegar verkalýðshreyfingin gerir samninga við atvinnurekendur, er gengið út frá ákveðnu vöruverði. Breytist verðlagið, á kaupið einnig að breytast.

Nú á að snarhækka allt verðlag, en jafnframt er sagt við verkamanninn, sjómanninn og bóndann: Kaup þitt á ekki að hækka, eins og samningar og lög mæla fyrir. Það á að vera hið sama í krónutölu eftir sem áður. — Það jafngildir að taka frá hinum vinnandi manni hluta af því, sem hann annars hefði borið úr býtum. Ég eftirlæt mönnum að gefa slíkum verknaði nafn.

En formælendur frv. hafa reynt að afsaka sig hér með því, að stéttasamtökin hafi tekið til sín stærri sneið úr þjóðarbúinu en þau máttu. Þessi fullyrðing hefur ekki við rök að styðjast. Það er þvert á móti staðreynd, að þjóðarframleiðslan hefur farið sívaxandi á liðnum árum, en kaupmáttur launanna hefur ekki aukizt, nema síður væri, og hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum hefur farið minnkandi, en ekki stækkandi. Afraksturinn af aukinni framleiðslu hefur því farið annað en til þeirra.

Ein af afleiðingum þessa frv. hlýtur óhjákvæmilega að verða sú, að skipting þjóðarteknanna verður mun ranglátari en áður og þá ekki síður eignaskiptingin. Þar græða stóreignamenn og skuldakóngar á kostnað launafólks og sparifjáreigenda, en einmitt þetta er táknrænt fyrir alla stefnu frv., að gera aðstöðu hinna sterku sterkari á kostnað þeirra, sem minna mega sín.

Í grg. frv. er gert ráð fyrir, að vísitalan muni hækka um 13% vegna gengislækkunarinnar einnar.

Með hliðarráðstöfunum, sem eru aðallega fólgnar í auknum fjölskyldubótum og niðurgreiðslum á innfluttum vörum, er talið, að hækkun vísitölunnar muni ekki nema meira en tæpum 3 stigum.

Við höfum áður kynnzt hagfræðilegum útreikningum af þessu tagi, og þeir hafa aldrei staðizt. Er rétt að minnast útreikninga hagfræðinganna er gengislækkunin var framkvæmd árið 1950. Þá fullyrtu þeir, að vísitalan mundi ekki hækka nema um 11 stig. En reynslan var bara sú, að hún hækkaði um meira en tvöfalda þá upphæð.

Fullyrðingar hagspekinganna munu ekki heldur standast nú, og líklegt má telja, að svipuð skekkja eigi eftir að sýna sig og varð 1950.

En hve miklu teljum við þá, að kjaraskerðingin nemi? Þessu er að sjálfsögðu ekki hægt að svara nákvæmlega, og auk þess kemur skerðingin mjög misjafnlega niður. Ef reiknað er með sömu fjölskyldustærð og lögð er til grundvallar við útreikning vísitölunnar, þ.e.a.s. hjón með 2.2 börn og sömu útgjaldaupphæð, eða 60900 kr. á ári, og sömu skiptingu þessarar upphæðar í neyzluflokka og gert er í vísitölunni, má gera ráð fyrir, að útgjöld þessarar fjölskyldu hækki um nálega 13700 kr., eða sem svarar 23%.

Í sárabætur á þessi fjölskylda að fá niðurfellingu á tekjuskatti, sem nemur 1100 kr., og 5500 kr. í fjölskyldubætur, eða samtals 6600 kr. Þegar þessi upphæð er dregin frá útgjaldaaukningunni, sem nam 13700 kr., verða eftir 7100 kr., eða ca. 11% sem bein kjaraskerðing.

Rétt er að taka það fram, að þessi fjölskyldustærð verður fyrir tiltölulega minnstri skerðingu vegna þess, hve háar fjölskyldubætur hún fær sem beina aukningu. Það er hin mesta blekking, þegar því er haldið fram, að fjölskyldur með fleiri börn verði fyrir tiltölulega minni skerðingu, því að auðvitað aukast útgjöldin einnig, því fleiri sem börnin eru.

Stórir hópar verða að taka á sig alla kjaraskerðinguna, allar verðhækkanirnar, algerlega bótalaust. Á þetta einkum við um alla námsmenn, þ. á m. iðnnema, stúlkur í verksmiðjum og verzlunum og fjölda annars láglaunafólks, sem svo til engan tekjuskatt hefur borið og fær því alls engar bætur.

Um sárabætur þær, sem almenningur á að fá til að draga úr sárasta broddi kjaraskerðingarinnar, er þetta að segja: Auðvitað fagna því allir, að almannatryggingar eru endurbættar og auknar. Þess er mikil þörf og hefði þurft að gera fyrir löngu. En gallinn er bara sá, að loks þegar lagfæra á tryggingarnar, er viðbótin að mestu tekin aftur með afleiðingum gengislækkunarinnar. Tekjuskatturinn hefur aldrei verið þyngsta byrðin á láglaunafólki. Og við þetta hvort tveggja er svo því að bæta, að auk gengislækkunarinnar á að leggja nýja skatta og tolla á almenning, sem nemur hærri upphæð en samanlagðri upphæð, er til almannatrygginga á að fara, 152 millj. kr., og þeim 75 millj. kr., sem talið er að lækkun tekjuskattsins muni nema. Með sanni má því segja, að tekið sé með annarri hendinni það, sem gefið er með hinni.

Í undangengnum umræðum um þetta mál hafa verið leidd sterk rök að því, að öll stefna frv. miði að samdrætti í atvinnulífinu, og verði hún framkvæmd, mun óhjákvæmilega draga úr atvinnu og jafnvel hætta á atvinnuleysi.

Það, sem gert hefur það að verkum, að alþýða manna hefur haft bærilegar tekjur á undanförnum árum, er hin mikla atvinna, sem hér hefur verið. Minnkandi atvinna, að ég nú ekki tali um atvinnuleysi, mundi vera miklu þungbærari kjaraskerðing öllu verkafólki en hin beina kauplækkun.

Formælendur frv. hafa hver eftir annan svarið fyrir, að stefna þess gæti leitt til atvinnuleysis. Við skulum vona, að þeir hafi rétt fyrir sér. Fátt hræðilegra gæti hent alþýðuheimilin en að vofa atvinnuleysis birtist á ný.

En ótti okkar er ekki ástæðulaus. 1950 var einnig svarið fyrir, að atvinnuleysið gæti orðið afleiðing gengislækkunarinnar. En hver varð reyndin? Veturinn 1951–52 voru skráðir 2000 atvinnuleysingjar hér í Reykjavik. Við óttumst, að enn kunni svo að fara. En verði svo, þá veit fólkið, að sú ógæfa hefur vitandi vits verið leidd yfir þjóðina af valdamönnum hennar.

Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til verðhækkana hefur ávallt verið ein og hin sama, að þola þær ekki bótalaust. Þetta sjónarmið mótaði hugi fulltrúanna, er sóttu ráðstefnu þá, sem verkalýðsfélögin héldu í ágúst í sumar. Fulltrúar þessir voru víðs vegar að af landinu og með ólíkar stjórnmálaskoðanir. En þeir samþykktu allir sem einn að ráðleggja verkalýðsfélögunum að segja upp samningum sinum, vegna þess að þeir óttuðust, að í uppsiglingu væru ráðstafanir í efnahagsmálunum, sem gætu leitt til verðhækkana.

Nokkru eftir þessa ráðstefnu hafði Alþýðublaðið tal af nokkrum forustumönnum Alþýðuflokksins í verkalýðshreyfingunni um verðlagsog kaupgjaldsmál.

Einn af þeim, sem rætt var víð, var varaforseti Alþýðusambandsins, hv. 10. þm. Reykv., Eggert Þorsteinsson. Yfirskrift viðtalsins var: „Aðvörun til stjórnmálaflokkanna og þjóðarinnar á síðustu stundu.“ Og honum fórust m.a. orð á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ef dýrtíðarflóðinu verður aftur hleypt yfir þjóðina, þá erum við lausir allra mála. Við munum hefja okkar varnarráðstafanir þegar í stað. Þetta er aðvörun til stjórnmálaflokkanna, en það er um leið aðvörun til þjóðarinnar í heild.“ Þannig mælti Eggert Þorsteinsson.

Frú Jóhanna Egilsdóttir, form. verkakvennafélagsins Framsóknar, svaraði blaðamanninum á þessa leið, þegar hann spurði, hvort verkakonur vildu una hækkun á vöruverði: „Nei, það er afskorið með öllu. Ef hróflað verður við vöruverðinu til hækkunar, hvort sem það er gert með beinum verðhækkunum eða svokölluðum niðurgreiðslum, þá förum við af stað. Það er líka augljóst mál, að þá fara allar stéttir af stað, þá verða vinnudeilur, þá verða verkföll, þá verða kauphækkanir. Það getur enginn efazt um þetta.“

Þannig mælti formaður verkakvennafélagsins Framsóknar fyrir nokkrum mánuðum. En orð þessara forustumanna eru ekki í minna gildi í dag en þau voru þá.

Ýmis verkalýðsfélög hafa þegar rætt efni þessa frv. og gert sínar samþykktir. Þær eru allar á einn veg: félögin mótmæla frv. og vara við afleiðingum af samþykkt þess. Undir þessar aðvaranir vil ég eindregið taka. En verði frv. að lögum, á alþýðan í landinu, til sjávar og sveita, þann kost einan að fylkja sér einhuga til varnar gegn hinum illu afleiðingum laganna, en fyrir eflingu atvinnuveganna og réttlátari skiptingu þjóðarteknanna, sem tryggi henni batnandi lífskjör.