16.02.1960
Efri deild: 23. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

48. mál, efnahagsmál

Forsrh. ( Ólafur Thors ):

Herra forseti. Þetta mál, sem hér er nú á dagskrá til 1. umr. í hv. Ed. Alþingis, hefur verið rætt ákaflega mikið, eins og allir hv. þm. vita, undanfarna daga í hv. Nd., og raunar, að ég held, meira en títt er um mál, enda er málið efnismikið og eðlilegt, að menn greini á um ýmis atriði þess.

Umr. í Nd. lauk, eins og menn vita, með útvarpsumr. í gærkvöld. Ég teldi það að bera í bakkafullan lækinn og raunar nærri að misbjóða þolinmæði þessarar hv. deildar, ef ég færi nú að flytja hér einhverja langa framsöguræðu. Ræðurnar, bæði þær, sem ég hef flutt og aðrir, hafa líka ýmist verið prentaðar orðrétt eða efnislega skýrt frá þeim í flokksblöðum allra þingflokkanna.

Efni þessa máls er í aðalatriðum það, að það er mat ríkisstj. og þeirra alþingismanna, sem hana styðja, að með engu móti verði undan því komizt að viðurkenna það fall, sem raunverulega er orðið og lengi hefur verið á krónunni, það sem sumpart var viðurkennt af vinstri stjórninni svonefndu og sumpart ekki, en öllum hefur þó verið kunnugt um, að réði ríkjum hér á landi, og þá samtímis að afnema allt það uppbótakerfi, sem ég held nú að flestum sé ljóst að ekki er hægt að búa við lengur af rökum, sem hafa verið margframfærð í öllum umræðum um málið.

Af sjálfsögðu leiðir nokkra verðhækkun af þessari breytingu, og á einstökum vörum er hún verulega mikil. Þar á ég fyrst og fremst við þær vörur, sem áður voru að því leyti greiddar niður, að á þeim hvíldi aðeins 30% yfirfærslugjald, þegar meginreglan var sú, að yfirfærslugjaldið væri 55% og að meðaltekjur útflutningssjóðs væru 68.5% af innflutningnum.

Til þess svo að reyna til hins ýtrasta að draga úr þeim byrðum, sem af þessari breytingu leiðir fyrir almenning í landinu, — en ætlað er, að verðlagshækkunin nemi 13 vísitölustigum, — hefur verið gripið til þess ýmist að greiða niður áfram erlendar vörur, þ.e.a.s. kaffi, sykur og kornvörur, en áður voru allmiklu fleiri vörutegundir greiddar niður, en auk þess hefur verið gerð alveg grundvallarbreyting á félagsmálalöggjöfinni, eins og það hefur verið orðað af sumum, að hér sé skapað nýtt þjóðfélag með þessum hætti. Þetta er gert til þess, að þungi þessarar breytingar þurfi ekki að bitna á þeim, sem verst eru settir. Á ég þar við fjölskyldumenn, öryrkja og aldrað fólk. En talið er, að með þeirri breytingu, sem felst í væntanlegri nýrri löggjöf um félagsmálin, beri þetta fólk allt það sama úr býtum þrátt fyrir vöruverðshækkunina, og er að því er fjölskylduna áhrærir þar miðað við 60 þús. kr. árstekjur.

Allir vita, að meðlag með þriðja barni er samkvæmt núgildandi ákvæðum á fyrsta verðlagssvæði 1166 kr. Með fyrsta og öðru barni er hins vegar ekkert meðlag. Nú er hins vegar líka ætlunin að taka upp þann hátt, að niðurgreiðslur séu jafnar með fyrsta, öðru, þriðja barni og áfram. Ætlað er þannig, að meðlagið með hverju barni á ómagaframfæri verði 2600 kr., þannig að fjölskylda með þrjú börn fær þá 7800 kr. með sínum þremur börnum, en hafði áður aðeins 1166 kr.

Tilsvarandi hækkanir eru svo fyrir aldrað fólk og öryrkja.

Í sambandi við þetta hefur orðið að gera ýmiss konar breytingar á löggjöf um tekjur ríkissjóðs, sem einnig leiðir af því, að útflutningssjóður verður lagður niður, og hann tekur þá við ýmsum þeim tekjustofnum, sem áður runnu til útflutningssjóðs. Um leið tekur ríkissjóður við kvöðum, sem hvíldu á útflutningssjóði, og ég á þar auðvitað fyrst og fremst við niðurgreiðslur á innlendum vörum, en þær námu og er ætlað að nemi 265 millj. kr. á ári.

Ég ætla ekki að fara út í að rekja breytingar á skattalöggjöfinni, tollalöggjöfinni. Stórvægilegasta breytingin er sú, að til viðbótar þeim fríðindum, sem ég hef nefnt, er ákveðið, að tekjuskattur á almennum launatekjum falli niður, þannig að barnlaus hjón fái 70 þús. kr. skattfrjáls, en síðan 10 þús. kr. með hverju barni skattfrjálsar, þannig að hjón með þrjú börn fá þá 100 þús. kr. skattfrjálsar. Þetta kostar ríkissjóðinn væntanlega um 110 millj. kr. Niðurfelling á 9% söluskattsgjaldinu kostar ríkissjóð væntanlega um 114 millj. kr. Þetta eru 224 millj. Til þess að jafngilda því er svo ætlað að leggja á nýjan söluskatt, sem á að vera 3% í staðinn fyrir 9% áður, en miklu almennari, og ætlað er að gefi af sér 280 millj. kr. Það er auðvitað óviss áætlun, en af þeim tekjum eiga bæjar- og sveitarfélög að fá 20% eða 56 millj. kr., þannig að þessar þrjár tölur eða þessi þrjú afsöl, sem ríkissjóður þar með gefur, tekjuskatturinn 110 millj., 9% söluskatturinn 114 millj. og 20% af nýja söluskattinum 56 millj., jafngilda þeim 280 millj., sem ætlað er að 3% söluskatturinn gefi.

Þetta er í aðalefnum það, sem fyrir mönnum vakir. Jafnframt eru ýmsar aðrar ráðstafanir gerðar í sambandi við þetta og þá fyrst og fremst í því skyni að reyna að forðast, að krónan falli í gildi nær árlega, eins og verið hefur að undanförnu, ýmist með nýjum, stórfelldum skattaálögum, sem í raun og veru eru krónufall, eða með því að þetta krónufall sé viðurkennt, eins og ég tel að hafi verið, þegar yfirfærslugjaldið var lögleitt 1958.

Við teljum allir, sem að þessu frv. stöndum, að það sé afar þýðingarmikið að reyna að búa þannig um hnútana, að nú verði stöðvað á ógæfubrautinni, svo að ekki þurfi eilíflega að vofa yfir fólki sá mikli ótti, sem auðvitað hvílir þungt á mörgum, þegar horft er til fortíðarinnar og þessa tíða verðfalls peninganna. Sumar af þeim ráðstöfunum verða áreiðanlega ekki vinsælar í bili og þó nokkuð misjafnt kannske. Ég hef einna mest orðið var við, að menn kvíða vaxtahækkun, þeir sem skuldugir eru. En þar til jafnvægis kemur svo allur hinn mikli fjöldi sparifjáreigenda, sem þar fær bætt nokkuð sinn hlut og mjög að maklegleikum, og ég hirði ekki um að vera að rökstyðja það, af því að allir vita þau meginrök, að sparifjáreigendur hafa búið við ákaflega skarðan hlut undanfarin ár, þannig að árum saman hafa vextirnir eiginlega ekki nægt til þess að jafngilda rýrnun krónunnar, sem samtímis hefur orðið. Ég veit, eins og ég segi, að þær ráðstafanir, sem þar verður að gera, eru óvinsælar af sumum, og við því er ekkert að gera. Þeim er ætlað að standa einhvern tíma, en þeirri skipun verður létt af og vöxtum aftur breytt, þegar við teljum, að vaxtahækkunin hafi náð tilgangi sínum. Jafnframt því veit ég, að viss þrenging á útlánum bankanna verður einnig ýmsum þungbær. Það skilja allir, sem í atvinnurekstri standa. En við því er heldur ekkert að gera. Það er talið af öllum, sem til þekkja, nauðsynlegt.

Ég er nú í raun og veru farinn að láta freista mín af innri þörf, enginn hefur beðið mig um það, að segja meira um málið en ég ætlaði mér. Ég hygg þó, að ég hafi ekkert sagt í raun og veru annað en það, sem allir hv. þm. vita, og mér á að vera vorkunnarlaust að vera fámáll um málið að þessu sinni, þó að ég auðvitað vel geti skilið, að ýmsir hv. þm., sem hafa ekki átt kost á að tala um það, telji það eitt samboðið virðingu deildarinnar og sinni eigin virðingu, að þeir tali hér um málið, til þess að fyrirbyggja þann misskilning, að málið eigi ekki að ræðast alveg jafnt í Ed. og í Nd.

Ég hef auðvitað óteljandi rök fram að færa fyrir þessu málí, en eins og ég segi, ég ætla hér að láta staðar numið. Ég leyfi mér að mælast til þess, að þegar þessari umr. er lokið, verði málinu vísað til hv. fjhn., og tel að mörgu leyti vel farið, að afgreiðsla þess dragist ekki úr hófi, því að slíkt ástand sem ríkir er ekki æskilegt til langframa. Ég mælist því til þess, að hv. d. geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að flýta fyrir málinu. En sem sagt ég skil vel, að það verði nú hver að meta þann hraða, sem þar á að vera á, eftir því, hvernig hann litur á það frá sínu sjónarmiði. Annars vegar er þörfin á hraða og hins vegar mikilvægi málsins og nauðsyn þess, að það geti ræðzt hér í hv. d. eins og annars staðar eða eins og í hv. Nd.