04.02.1960
Neðri deild: 22. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

40. mál, útsvör

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umræðu, er borið fram af hæstv. ríkisstj. til staðfestingar á brbl., sem gefin voru út þann 13. f. m. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. tók frv. til athugunar og umræðna strax sama dag og því var til hennar vísað.

Þótt svo sé fyrir mælt í frv., að aðeins tvö orð skuli falla niður úr 21. gr. l. nr. 66 12. apríl 1945, um útsvör, þykir mér ástæða til þess að fara um þetta mál nokkrum orðum, þar sem hér er um að ræða alveg einstakt atvík í meðferð sveitarstjórnarmála, sem engan veginn sé rétt að lokað sé augum fyrir.

Í 21. gr. l. nr. 66 12. apríl 1945, um útsvör, eru skýr og ótvíræð ákvæði um það, að aðalniðurjöfnun útsvara skuli fara fram ár hvert á tímabilinu febrúar til maí, að báðum mánuðunum meðtöldum, eftir nánari ákvörðun sýslunefnda og bæjarstjórna. Þó getur atvmrn. heimilað hreppsnefnd eftir beiðni hennar að láta niðurjöfnun útsvara fara fram síðar á árinu, ef ríkar ástæður mæla með því, Ef frv. á þskj. því, sem hér liggur fyrir, yrði samþ. óbreytt og orðin „á árinu“ felld niður úr 21. gr. laganna, væri heimild þessi gefin almennt og ótímabundin, og það telur n. að ekki komi til mála að samþykkja. Þróun þessara mála hefur í seinni tíð orðið sú og það í mjög vaxandi mæli, að bæði hreppsnefndir og bæjarstjórnir skeyta svo að segja ekkert um fyrirmæli 21. gr. laganna, hirða ekki einu sinni um að leita heimildar rn. til þess að fresta aðalniðurjöfnun, heldur draga hana á langinn eftir eigin geðþótta og oft langt fram yfir þann tíma, sem ákveðið er í lögunum. Og þegar ljóst var, að þetta brot á l. skapaði bæjar- og sveitarsjóðunum mjög mikla fjárhagslega örðugleika, engu siður en óþægindi fyrir gjaldendur, þá er ekki gripið til þess, sem sjálfsagt var, að framkvæma niðurjöfnunina svo sem lög mæla fyrir um, heldur til hins, að fá heimild til þess að innheimta hluta af útsvari í samræmi við álagningu ársins á undan, þó að allt aðrar og lakari ástæður séu fyrir hendi hjá gjaldþegnum og jafnvel þó að gjaldþegn sé fluttur í burtu eða dauður, eins og vitað er að komið hefur fyrir í mörgum tilfellum. Um hitt er svo ekkert hugsað, að leggja á útsvar svo sem lög mæla fyrir um, og heldur ekkert verið að hugsa um þá smámuni að afla sér heimildar ráðuneytisins samkv. fyrirmælum laganna.

Nú verður ekki séð, að lögin heimili rn. að gefa bæjarstjórnum leyfi til þess undir nokkrum kringumstæðum að framkvæma aðalniðurjöfnun eftir maílok. Er þessi tillátssemi aðeins ætluð hreppsnefndum, og hefur löggjafinn sjálfsagt haft það í huga, að vegna þeirra erfiðleika, sem strjálbýlið á við að búa, kunni svo að geta staðið á, að þetta væri nauðsynlegt. En reynslan hefur sýnt, að bæjarstjórnir hafa í engu minni mæli þverbrotið þessi skýlausu ákvæði laganna.

Jafnvel þótt nú sé svo komið, að bæjarstjórnir og hreppsnefndir um land allt virði að vettugi ákvæði 21. gr. l. um niðurjöfnun á tímabilinu febrúar og maí og almenningur sé orðinn sljór fyrir þýðingu þess að halda slík lagafyrirmæli, þá er þó réttarmeðvitund almennings enn ekki svo slævð, að það að vanrækja niðurjöfnun útsvara allt árið, eins og hefur veríð gert í Ólafsvíkurhreppi árið 1959, þyki ekki fyrir neðan alla virðingu á meðferð sveitarstjórnarmála. Og hvers er að vænta af forráðamönnum héraða um afgreiðslu annarra mála, þegar svo er farið að í því máli, sem er að jafnaði undirstaða undir öllum framkvæmdum og framförum í héraðinu?

Heilbr.- og félmn. vill ekki stuðla að því að gera þá heimild, sem nú er í l., víðtækari. Henni er vel ljóst, að rn. áttí þess engan kost að bæta úr þessu annan en gefa út brbl., þar sem Ólafsvíkurhrepp yrði heimilað að framkvæma aðalniðurjöfnunina fyrir árið 1959 á árinu 1960, úr því sem komið var. En n. vill ekki leggja til, að heimildin sé gerð víðtækari en svo. Lög um útsvör eru nú til endurskoðunar hjá sérstakri mþn. Af þeim ástæðum þótti ekki ástæða til í n. að ræða, hvort í þessu frv. skyldi þrengja þá heimild, sem nú er gefin í 21. gr. l. um frest á niðurjöfnun útsvara. Það er mál, sem mþn. væntanlega athugar, eftir að vitað er um þann atburð, sem átt hefur sér stað í Ólafsvíkurhreppi, og um það, að dráttur á niðurjöfnun fer vaxandi almennt í landinu. Undir meðferð þeirra mála og hjá þeirri nefnd, þegar þar að kemur, gæti vei komið til mála að setja inn í útsvarslögin við heildarendurskoðunina þau viðurlög, að hafi bæjarstjórn eða hreppsnefnd ekki lokið aðalniðurjöfnun, svo sem fyrir er mælt í lögum, skuli hún þegar leggja niður völd og nýjar kosningar látnar fara fram.

Með tilvísun til þess, sem ég hef hér drepið á, leggur heilbr.- og félmn. einróma til, að frv. verði samþ. með eftirfarandi breytingu:

„Við 1. gr. Greinin orðist svo: Aftan við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný mgr., er orðist svo:

Þrátt fyrir ákvæði 21. gr. laganna getur ráðherra heimilað Ólafsvíkurhreppi að framkvæma fyrir febrúarlok 1960 aðalniðurjöfnun útsvara, sem fram átti að fara árið 1959.“

Væntir n. þess, að hæstv. ráðh. fallist á þessa brtt., og leggur hún til, að málið verði afgreitt þannig.