12.02.1960
Efri deild: 21. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

40. mál, útsvör

Sjútvmrh. (Emil Jónsson ):

Herra forseti. Hv. 1. þm.. Vesturl. (ÁB) bar hér fram nokkrar fsp., sem ég skal leyfa mér að leitast við að svara, eftir því sem ég get. Sumum þeirra get ég svarað, en öðrum tæpast.

Hann spurði í fyrsta lagi: Frá hverjum barst vitneskjan um þetta ástand í Ólafsvíkurhreppi? Hún barst frá minni hl. hreppsnefndarinnar, eða nánar tiltekið þeim Alexander Stefánssyni og Ottó Árnasyni, sem sendu rn. bréf um þetta og töldu ástandið í hreppsnefndinni óviðunandi að þessu leyti.

Siðan spurði hann: Hver er ástæðan fyrir því, að þetta hefur farið svona, að útsvar hefur ekki verið lagt á? Þessari spurningu treysti ég mér ekki til að svara til fulls. Það kunna að vera einhverjar ástæður, sem ég veit ekki um, en þær hafa þá ekki komið fram. Almennt sýnist eins og það sé kannske fyrst og fremst aðeins um slóðaskap að ræða, að þetta hafi ekki verið gert. (Gripið fram í.) Þessi spurning hv. 4. þm.. Vestf. (SE) er nú að ég ætla óþörf, því að hann ætti að vita, að það munu fá hreppsfélög vera á þessu landi, sem þurfa ekki að hafa einhverjar tekjur til þess að jafna útgjöld sin, enda hefur það komið greinílega fram í þeirri skýrslu, sem fulltrúi stjórnarráðsins hefur gefið um málið og liggur hjá mér. Hún ber vott um, að það mun vera allmikið af gjöldum ógreitt, sem féllu til á árinu 1959.

Þá spurði hv. þm.., hvort sótt hafi verið um leyfi til að fresta útsvarsálagningunni, þegar kom fram yfir siðara tímatakmarkið í maímánuði s.l. Þessu get ég svarað alveg neitandi. Það kom engin umsókn í þessa átt og kemur raunar afar sjaldan eða ekki, þó að útsvarsálagning dragist úr hófi, og það gerir hún víða. Hún dregst kannske víðast á landinu fram yfir þennan tíma, fram yfir maí, vegna þess að skattskýrslur eru ekki almennt tilbúnar svo snemma frá skattayfirvöldunum, að hægt sé að nota þær við útsvarsálagninguna fyrr en þessi tími er liðinn, þannig að það væri ástæða til þess að athuga að breyta þessari tímasetningu. En venjan er sú að ég ætla hjá flestum sveitarfélögum, að þó að útsvarsálagningin dragist fram yfir þetta tímabil, febrúar til maí, þá er ekki sótt um leyfi til að fresta útsvarsálagningunni, þó að ætti að gera það. En sem betur fer, mun það vera svo, að í fæstum tilfellum eða í engum tilfellum, sem ég veit um, hefur það komið fyrir nema þarna, að útsvarsálagningin hafi dregizt fram yfir áramótin.

Ég held það hafi ekki verið fleira, sem hv. þm., spurði um.