26.11.1959
Neðri deild: 3. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2109)

2. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þessu frv., sem hér liggur fyrir, fylgir nokkur grg., en ég vil samt sem áður leyfa mér að rifja upp höfuðatriði málsins.

Frv. fjallar um það að ákveða, að til þess sjóðs, sem á að standa undir kostnaði við vegalagningu milli byggðarlaga, verði veitt 11 aurum meira af benzíngjaldi en hingað til hefur verið gert, eða m.ö.o., að tekjur þessa sjóðs verði tvöfaldaðar. En þannig stendur á þessum sjóði, að það hefur orðið reynslan, þegar fjárlög hafa verið afgreidd, að þá hefur viljað sækja í það horf, að hinar meiri háttar vegagerðir á milli byggðarlaga í landinu hafa orðið nokkuð út undan. Það hefur sem sé þurft að sinna svo mörgum þörfum um einstaka byggðavegi, að þessar lengri leiðir hafa nokkuð setið á hakanum. Af langri reynslu sáu menn, að við svo búið mátti ekki standa, og var þá gripið til þess ráðs að ákveða, að nokkur hluti benzínskattsins gengi í sérstakan sjóð, sem skyldi standa undir þessum vegalagningum, og átti að tryggja með því, að þær yrðu ekki út undan framvegis og nokkur ný átök yrðu gerð. Þessi ráðstöfun hefur orðið ákaflega heilladrjúg, og hefur verið starfað miklu meira að þessum meiri háttar vegum síðan þetta var gert. Á hinn bóginn er það alveg augljóst, að þetta er ekki nóg, sem aðhafzt hefur verið í þessa stefnu. Það eru víða mjög þýðingarmikil verkefni óleyst af þessu tagi og fyrirsjáanlegt, að mjög langur dráttur verður á, að þau leysist, nema nýtt átak komi til. Ég nefni ekki um þetta dæmi. Þau eru mýmörg til og úr öllum héruðum landsins, og yrði of langt upp að telja, enda verð ég að játa, að það er ekki á mínu færi að nefna allt það, sem hér á til greina að koma. En ég ætla, að hv. þm. muni vera það ofarlega í huga, þegar þeir hugleiða þetta efni, að hér sé úrbóta þörf. Ég nefni annað dæmi um vinnubrögð af þessu tagi, sem vel hafa gefizt. Það er brúasjóðurinn. Það var líka reynsla æði lengi, að hinar stærri brýr vildu verða út undan á fjárlögum, vegna þess að það þurfti svo stórar fúlgur til að sinna byggingu þeirra, og þá var gripið til þess að setja á fót brúasjóðinn með nokkru tillagi af benzínskatti. Það reyndist ákaflega vel, og hafa mörg merk mannvirki verið byggð einmitt fyrir þetta fé brúasjóðsins.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að taka 11 aura af því benzíngjaldi, sem nú er í lögum, og leggja til þessa vegasjóðs, og mætti þá gera sér vonir um, að tekjur hans yrðu um 11 millj. kr. á ári í stað 5½, og er æði mikið hægt að gera með því fé. Þessar tekjur, sem ráðgert er í frv. að renni til vegasjóðsins, renna nú til útflutningssjóðs, og skerðast þá tekjur hans að sjálfsögðu samsvarandi. En þegar tvennt er haft í huga: annars vegar, að efnahagsmálin þurfa einhverrar endurskoðunar við í heild að þessu sinni hvort eð er, og hins vegar, hversu lítill liður þessir 11 aurar af benzínlítra eru í því stóra dæmi, sem þar kemur til meðferðar, og svo jafnframt haft í huga, hversu gífurleg áhrif þessi nýja lagasetning gæti haft til bóta á vegalagningu á milli héraða, — þegar þetta er allt haft í huga, þá vil ég vænta þess, að hv. Alþingi fallist á að samþ. þetta frv.

Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. deildarinnar.