05.05.1960
Efri deild: 70. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2136)

63. mál, meðferð drykkjumanna

Frsm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Hv. heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar þetta frv. til laga um meðferð drykkjumanna. Hún sendi það til umsagnar nokkrum aðilum, og er umsagnar landlæknis getið í nál. á þskj. 364. Frá áfengisvarnaráði barst einnig umsögn og álit, og þó að það fari mjög í sömu átt og álit landlæknis, þá vildi ég aðeins lofa hv. þdm. að heyra meginefni þess, en það er svo:

„Áfengisvarnaráð hefur kynnt sér frv. Alfreðs Gíslasonar læknis og telur ýmislegt í því stefna til bóta frá gildandi lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Má þar t.d. nefna skipun sérstaks yfirlæknis áfengisvarna. Hins vegar telur ráðið, að frv. þyrfti að vera fyllra í ýmsum greinum. Áfengisvarnaráði er kunnugt um, að lög nr. 55 frá 25. maí 1949, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra, hafa nýlega verið endurskoðuð af stjórnskipaðri nefnd. Ráðið hefur kynnt sér frv. n. og komizt að raun um, að það er miklu víðtækara en frv. það, sem nú er flutt á Alþ., og jafnframt gert ráð fyrir meiri þjónustu til handa drykkjusjúku fólki. Vafasamt mun, að hið endurskoðaða frv. verði lagt fyrir þetta þing, þar sem allmjög er nú á þingið liðið. En í trausti þess, að það verði flutt á næsta þingi í sama eða líku formi og n. leggur til, mælir ráðið eindregið með því, að frestað verði afgreiðslu frv. á þskj. 125, unz Alþ. hefur gefizt kostur á að kynna sér frv. það, sem vænta má að ríkisstj. muni leggja fyrir þetta þing eða næsta þing og hin stjórnskipaða nefnd hefur samið.“

Þannig hljóðar umsögn áfengisvarnaráðs að meginefni.

Hv. heilbr.- og félmn. mælir með því, að frv., sem nú liggur fyrir, verði afgr. með rökst. dagskrá þannig:

„Með því að stjórnskipuð nefnd hefur endurskoðað gildandi lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og afhent ríkisstj. brtt. sínar, þykir d. ekki ástæða til að taka afstöðu til frv. að sinni. Í trausti þess, að till. frv. verði teknar til sérstakrar athugunar og málið á ný verði í heild lagt fyrir næsta reglulegt Alþ., tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.“

N. er öll sammála um þessa afgreiðslu málsins. Þykir það eðlilegt, að bæði þau frv., sem til eru, verði athuguð nánar og jafnvel samræmd, þannig að það bezta fáist út úr báðum.

Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta fyrir munn hv. heilbr.- og félmn. En frá eigin brjósti og á eigin ábyrgð að sjálfsögðu langar mig til að minnast lítillega á tvö atriði í sambandi við þetta mál.

Öllum, sem til þekkja, kemur saman um, að nauðsyn beri til að breyta lögum um drykkjusjúka menn. Í rauninni hefur ríkt og ríkir enn öngþveiti á þessu sviði heilbrigðismálanna, en ofdrykkja snertir beint eða óbeint þúsundir manna í landinu, auk þess sem hún er margþætt og alvarlegt félagslegt vandamál. Allmiklu opinberu fé er árlega varið til hjálpar drykkjumönnum, en mikið af því hlýtur að fara í súginn, á meðan öngþveitið ríkir. Um nauðsyn endurbóta er nú ekki heldur deilt lengur. En þó er eins og ráðamönnum þjóðfélagsins finnist ekkert liggja á. Seinlæti þeirra í þessu brýna vandamáli er áberandi, og ber sannarlega að vita það.

Samkv. upplýsingum landlæknis hefur stjórnskipuð nefnd endurskoðað lögin um drykkjumenn. Hún lauk störfum og skilaði áliti til heilbrigðismálastjórnarinnar í janúarmánuði s.l. Þar er frv. þessarar n. látið liggja mánuðum saman. Nú er kominn maí og nálægt þingslitum, og enn bólar ekkert á þessu frv. í þingsölunum. Ekkert liggur á, segja þeir sennilega, stjórnarherrarnir. En á meðan berjast fjölskyldur hundruðum saman örvæntingarfullri baráttu við drykkjuskapinn.

Hæstv. ríkisstj. er ámælisverð fyrir seinaganginn í þessu mikilsverða heilbrigðismáli. Það er ósennilegt, að hún flytji frv. til laga um drykkjumannahjálp á þessu þingi, svo aðkallandi sem þörfin þó er, og það verður vafalaust að stugga duglega við henni, eigi hún að gera það á næsta þingi. Slíkur hefur einatt orðið gangur mikilsverðra heilbrigðismála, og er hæstv. ríkisstj. svo sem ekki ein um sökina í því efni. Hafa lengi farið sögur af seinaganginum í heilbrmrn. íslenzka.

Hitt atriðið sem ég vildi lítillega minnast á í sambandi við þetta mál, er skeytingarleysi stjórnarvalda gagnvart lausn faglegra vandamála. Það er hreinlega verið að fúska í málum, sem krefjast strangsérfræðilegrar kunnáttu. Þannig er mönnum falið að leysa mikilsverð vandamál, sem þeir lítið skynbragð bera á og enga sérkunnáttu hafa í. Sennilega er þetta víðtækt fyrirbæri í þjóðfélagi okkar og ber þá vott um vissan tæknilegan vanþroska. Þetta faglega fúsk, sem stjórnarvöldin standa að, kannast ég við í heilbrigðismálunum, og því nefni ég þetta nú, að dæmið liggur hér fyrir.

Stjórnskipaðri nefnd er fengið það hlutverk að endurskoða lög, sem fjalla um lækningu drykkjumanna. Fáir læknar nema sérfróðir um geð- og taugasjúkdóma mundu treysta sér til þess. Lækning drykkjumanna er enn eitt af erfiðustu viðfangsefnum læknisfræðinnar, og því er mjög vandasamt að setja lög, sem ákveði, hvernig slíkri læknismeðferð skuli hagað í stórum dráttum. En heilbrigðisstjórnin íslenzka er ekki að setja slíka smámuni fyrir sig. Því meiri sem vandinn er, því meiri gervimennska og því meira fúsk. Stjórnskipaða n., sem ég gat um og átti að endurbæta lög um lækningu geðsjúkra manna, hafði 3 menn innan borðs. Einn er læknir að vísu, og má það mildi kallast. Þó var þess vandlega gætt við val hans, að hann hefði enga sérþekkingu á meðferð drykkjumanna. Annar maðurinn er guðfræðingur og hefur prestsstarf að ævistarfi. En sá þriðji mun sérfróður um sveitarstjórnarmál og hefur á margt lagt gjörva hönd um dagana, en þó aldrei fengizt neitt við vísindalega læknisfræði. Þessi nefndarskipun er glöggt dæmi um það fúsk, sem stjórnarvöldin virðast hafa mikið dálæti á, einkum þegar um er að ræða vandasömustu úrlausnarefni þjóðfélagsins. Ég er ekki að kasta steini á persónur þessara manna, sem ég þekki og veit að eru hinir mætustu og nýtustu menn, hver á sínu sviði. Það er þeim ekkert til hnjóðs, þótt sagt sé, að það liggi utan við þeirra verkahring að gefa um það forskrift í lagafyrirmælum, hvað þurfi til að lækna drykkjumenn eða aðra heilsubilaða menn. Raunar má segja, að þeir ættu ekki að taka þetta að sér. En sökin liggur þó fyrst og fremst hjá stjórnarvöldunum og ráðgjöfum þeirra. Fúskið ber vott um skeytingarleysi um vandamálin og virðingarleysi fyrir faglegri kunnáttu og reynslu.

Ég skal láta útrætt um þetta mál. Ég vona, að slík og þvílík vinnubrögð hverfi smám saman í okkar þjóðfélagi og raunar sem fyrst. Ég veit, að þau eru skaðleg á sviði heilbrigðismálanna, og svo mun vera á öðrum sviðum. Þau eru leifar frá fyrri tímum, þegar öll tækni var á frumstæðu stigi, og þau hæfa hvergi í nútímaþjóðfélagi, þar sem fjölþætt verkaskipting er:óhjákvæmileg.