30.11.1959
Neðri deild: 6. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

17. mál, skemmtanaskattsviðauki

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég kynni nú betur við, ef hæstv. menntmrh. og fjmrh. væru hér viðstaddir í d., þegar þetta mál er rætt, það þyrfti að gera ráðstafanir að fá þá hingað inn. (Forseti: Menntmrh. er ekki í húsinu, fjmrh. er upptekinn í Ed.) Mér skilst nefnilega, að það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að fara að reyna að ljúka þingi allfljótt, og ég kynni betur við, að þeir ráðh., sem maður þarf að tala við, væru hér í þingsalnum þann litla tíma, sem ríkisstj. virðist ætla að gefa sér tíma til þess að tala við Alþ. Ég mundi óska þess, að hæstv. forseti frestaði fundi, þangað til annar hvor þessara ráðh. getur verið við. (Forseti: Það eru margir á mælendaskrá og líkur á, að þessar umr. verði langar. Ég vildi helzt ekki þurfa að fresta fundi, en ég skal í hléi, sem væntanlega verður von bráðar, bera fram óskir til ráðh. um það, að þeir verði viðstaddir umr.) En væri þá ekki hægt að gera það hlé nú þegar? (Forseti: Ég vil helzt nota tímann eins og hægt er.) Ég verð því miður að segja, að það þýðir náttúrlega lítið að nota þann tíma, ef maður á að bera fram fsp. núna til ráðherrastólanna og endurtaka þær svo, þegar ráðh. eru komnir í stólana. Það er ekki tímasparnaður. Ég vil eindregið óska eftir því, að þessir tveir ráðh. geti verið hérna við, annars að fundi sé frestað, svo að maður sé ekki að tefja hæstv. forseta og þm. með því að þurfa að tvítaka það, sem maður þarf að spyrja að. Það eru því tilmæli mín, fyrst nærri er komið kaffitíma, að það sé þá frestað fundi og hæstv. ráðh. látnir vita um það, að þm. vilji gjarnan tala við þá þann stutta tíma, sem ríkisstj. virðist ætla að gefa sér til þess að tala við Alþ. Ég endurtek ósk mína til hæstv. forseta. (Forseti: Það er einn ráðh. hér í hliðarherbergi. Ég vænti þess, að hann geti borið fsp. til annarra ráðh., þannig að þeim verði svarað.) Hefur sá hæstv. ráðh. lýst því yfir, að hann taki að sér að vera sendisveinn fyrir aðra ráðh.? Það hefur ekki alltaf verið öruggt, að það kæmist allt saman rétta boðleið, enda er ég hræddur um, að hæstv. ráðh., sem hæstv. forseti átti við, sé farinn út. Nei, hann er kominn aftur. Þá mætti spyrja hann, hvort hann mundi taka að sér að flytja þau skilaboð. (Gripið fram í.) Já, er það rétt skilið hjá mér?

Þá vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh. eða fjmrh. eftir því, hvor þeirra það er, sem hefur útbúið þá breyt. á þessum lögum, 1. gr., sem í þeim var, þegar þetta lagafrv. var lagt fyrir okkur í fjhn. þessarar hv. d. Þá var gerð sú breyt. á, að í staðinn fyrir að í 1. gr. hefur hingað til verið, alltaf þegar þessi lög hafa verið framlengd, ár eftir ár, að þau skuli framlengd fyrir eitt ár í senn, að nú skuli framlengingin ótímabundin. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort heldur það er fjmrh. eða menntmrh., sem hefur staðið að þessari breyt., að vilja gera þennan viðauka og heimildina til að innheimta skemmtanaskattinn með honum að föstum skattstofni héðan í frá, hvað fyrir honum hafi vakað með því. Í sama mund og þessi breyt. er gerð á þessu skemmtanaskattsfrv. frá því, sem verið hefur undanfarinn áratug a.m.k., þá gerist sá hlutur, að í fyrsta skipti, frá því a.m.k. að Ísland varð fullvalda, er lagt til, um leið og nýkjörið þing er komið saman eftir kosningar, að senda það þing heim, þegar það er búið að sitja eina viku, og um leið virðist með þessari breyt. vera farið fram á það, að ríkisstj, sé laus við að þurfa oftar að leggja svona lagafrv. fyrir Alþ.

Það hefur verið viss hemill á ríkisstj., ef Alþ. vildi það viðhafa, að þurfa að framlengja þessi frv. ár frá ári, og það hefur verið aðstaða til þess fyrir Alþ. að geta ráðið nokkru um, hvaða tækifæri það hefði til þess að ræða þessi mál með ríkisstj., hvort þetta væri þannig ákveðið. Þegar þetta gerist nú hvort tveggja í senn, að lagt er til að breyta þessum lögum á þennan hátt af ríkisstj. og ríkisstj. um leið gerir ráðstafanir til að ætla að fara að senda Alþ. heim með óvenjulegum hætti til þess, að því er virðist, að losna við að ræða við þm. um fjárlög, um tekjustofna, um efnahagsmál og önnur þau vandamál, sem fyrir þinginu liggja, þá kemur eðlilega upp sá grunur, að hér sé stefnt að því, að það þurfi ekki á næstu þingum, sem haldin verða, að leggja svona mál fyrir Alþ. Þá er búið að breyta þessu í fastan tekjustofn og ef ein ríkisstj. vill það við hafa að tala sem minnst við Alþ., senda það heim undireins, þá getur hún mjög hæglega sloppið, hún þarf ekki einu sinni að bíða eftir því, að svona lög séu afgr. Var þetta með skemmtanaskattinn einhver sérstök svona tilraun um, hvernig ein ríkisstj. gæti í framtíðinni losað sig við þau óþægindi að koma þessum málum gegnum þingið? Það hefði ekki verið neitt óeðlilegt, þó að sá hæstv. ráðh., sem með þetta hafði að gera, hefði strax sagt okkur frá þessu og gert nokkra grein fyrir þessu. Ég varð ekki var við, að það væri gert. Þó hefur það getað farið fram hjá mér.

Þegar þetta mál kom til fjhn., leizt öllum nm., jafnt stjórnarstuðningsmönnum sem öðrum, svo á, að það væri ekkert sérstakt, sem með þessu mælti. Ef hæstv. ríkisstj. hefði eitthvað svona í hyggju, þá var a.m.k. auðséð, að það átti engu fylgi að fagna hjá neinum þm., ekki einum einasta þm. í fjhn., þannig að öll nefndin, líka stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sá ástæðu til þess að breyta þessu aftur í sama form og áður hafði verið, og var enginn ágreiningur um þetta í fjhn.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh., sem með þetta hafa að gera, hafa gert sér nokkra grein fyrir því, að þessu hafi verið breytt. Ég veit ekki, hvort þeir eru búnir að líta einu sinni á þetta mál eða nál. Þeir hafa ekki látið svo mikið, hvorki hæstv. fjmrh. né menntmrh., að vera hér við, þegar þessi mál hafa verið rædd. Það má kannske segja að hæstv. fjmrh. hafi einhverja afsökun, hann er nú í Ed. En þó hann sé í Ed., þá þarf hann ekki að halda sig neinn sérstakan lávarð, sem sé upp yfir það hafinn að tala við menn hér í Nd., og sé hann upptekinn við einhver önnur mál, þá er vel hægt að stilla svo til, að frestað sé, unz hann geti gefið sér tíma til þess að hlusta á mál manna og gefa skýringar á, hvernig stendur á, að það átti að fara að breyta þessu frv. Hæstv. menntmrh., sem hins vegar á sæti hér í Nd. og þetta mál kemur líka allmikið undir vegna þess, hvernig þessum skatti er varið, hefur ekki heldur séð ástæðu til þess að vera hér við núna og ekki hægt að beina þessum fsp. til hans.

Það er annað, sem ég vildi um leið benda á. Svo framarlega sem það hefur verið ætlun hæstv. ríkisstj. að fara að gera þetta að föstum skattstofni héðan í frá, en ekki einn af þeim bráðabirgðasköttum, sem framlengdir séu frá ári til árs, þá hefðu önnur vinnubrögð verið þar miklu viðfelldnari. Nú sem stendur eru þetta lög um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta skemmtanaskatt með viðauka, 200% álagi á sumt af þessum skemmtunum, 20% álagi á aðrar. Svo framarlega sem það hefði verið meiningin að losna við að leggja þessi lög um viðauka framar fyrir Alþ. til framlengingar, þá hefðu þau vinnubrögð verið viðkunnanlegri að fella þessi lög inn í sjálf lögin um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Það er ein af þeim aðferðum, sem sérstaklega fjmrn, hefur haft um framlengingu á skattalögum á undanförnum árum og alllengi og ég hef oft vítt, jafnvel stundum í nafni fjhn., að láta þessi lög ár eftir ár vera með alls konar ákvarðanir um viðauka. Jafnvel eru til lög, þar sem ákveðið er, að ákveðin efnisatriði úr ákveðnum kafla laga, sem fallin eru annars úr gildi, skuli halda áfram að vera í gildi, en í mörg, mörg ár virðist fjmrn. ekki hafa gefið sér tíma til að fella þessi lög þannig saman, að það væri einhver sæmilegur frágangur á þessum tekjuöflunarlögum.

Mér finnst þess vegna, ef það hefði verið meiningin hjá hæstv. ríkisstj. með þeirri breyt., sem hún ætlaði að gera á þessu frv., eins og það lá fyrir við 1. umr. og liggur raunar fyrir enn, en fjhn. gerir till. um að breyta, þá finnst mér, að það hefði verið réttara af henni að fella þetta frv. alveg niður, breyta sjálfum ákvæðunum í lögunum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús og láta þau lög vera sem eina heild og láta þau standa þannig. Það virtist ekki vera neitt sérstaklega mikið verk fyrir fjmrn. að vinna. Núna er þessi lagasamsetning slík, að lögin um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, mestmegnis frá 1927 með allmiklum breyt., eru lög út af fyrir sig. Síðan er þetta sérstaka frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta skemmtanaskatt með viðauka, sem venjulega er samþ. og afgr. á hverju einstöku þingi. Þar er ákveðið allt upp í 200% álag á skemmtanaskattinn, en svo er í sjálfum lögunum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, í 3. gr. þeirra, ákveðið, að innheimta skuli skemmtanaskatt skv. 2. gr. og viðaukum við lög þessi með 10% álagi. M.ö.o.: það er þvælt á milli greinanna í þessum lögum um þjóðleikhús ákvæðum, sem líka snerta þessi viðaukalög, þannig að það er orðin ein benda úr þessu öllu saman. Þó að þetta séu að vísu ekki verstu lögin að frágangi þannig, þá eru þau gott dæmi um vinnubrögðin. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að mótmæla þeirri aðferð, sem nú virðist upp tekin í þessari hv. deild, og ég kann illa við, að það sé eitt fyrsta verk á Alþingi Íslendinga eftir þá ágætu stjórnarskrárbreytingu sem gerð var, og eftir að Alþ. hefur verið kosið þannig, að það sé rétt spegilmynd af þjóðinni, að það sé byrjað með því á Alþingi Íslendinga að traðka fótum þær venjur, sem hingað til hafa viðgengizt, þann rétt, sem þm. og þingflokkar hingað til hafa haft, því að slíkar venjur eru jafnhelgar og þingsköpin sjálf. Forseti sagði mér frá því, að hann hugsaði sér að boða fund klukkan fimm eða hálf sex. Það hefur nú í mörg, mörg ár verið siður hér á Alþingi, a.m.k. alltaf framan af þingi, að þingflokkar hafi haft 4 klukkutíma í viku af þinghaldinu sérstaklega til sinna umráða, þ.e. tímabilið milli 5 og 7 á mánudögum og miðvikudögum. Nú er traðkað á þessari venju þrátt fyrir mótmæli og fundur boðaður klukkan hálfsex. Ég verð að segja, að mér finnst undarlegt, að menn, sem eru nýkjörnir sem forsetar þessarar hv. d., skuli leggja sig fram um það að brjóta í bága við allar þær venjur, sem hingað til hafa ríkt á Alþ.

Það var svo, að á föstudagskvöld var boðaður fundur í þessari hv. d., og það átti að taka fyrir það mál, sem nú er til umr., með afbrigðum, lítið mál, sem augsjáanlega er nú verið að gera að stóru máli í þinginu með því, hvernig á að hespa það í gegn. Hæstv. forsrh., sem er búinn að vera lengi þingmaður, þekkir hér þingvenjur, varð var við, að það var óánægja á meðal stjórnarandstöðunnar með að hafa þennan hátt á. Hann bað þess vegna forustumenn stjórnarandstöðunnar að tala við sig. Ég átti ásamt hv. 1. þm. Austf. (EystJ) tal við hann, og við tjáðum honum okkar óánægju yfir þessum málum. Hæstv. forsrh. brá svo við, að hann mun hafa tjáð forsetum deildanna þann vilja sinn og þá væntanlega ríkisstj. að afboða þá fundi, sem boðaðir höfðu verið á föstudagskvöld. Hann skildi það sem þingvanur maður, að það tjáir ekki að ætla að hafa þann hátt á, ef ein ríkisstj. vill fá framgang mála á Alþingi, að ætla að beita stjórnarandstöðuna, a.m.k. ef hún er sterk, neinu ofríki. Það hafa oft verið mál, sem hafa orðið hitamál á Alþingi, og ég býst við, að flestir þeir, sem hafa verið í ríkisstj. eða verið forsetar og tilheyrt stjórnarflokkum, hafi venjulega gert sér ljóst, að til þess að láta þingstörfin fara vel fram, vernda í senn rétt þingmanna og gæta hagsmuna ríkisstjórna, þá er skynsamlegast að reyna að beita lagni og hafa samkomulag um, hvernig mál ganga. Hæstv. forsrh. lét því afboða þá fundi, sem boðaðir voru á föstudagskvöld, og lýsti því yfir við okkur formenn stjórnarandstöðunnar, að hann mundi hafa ríkisstjórnarfund daginn eftir og þá mundi okkur verða tjáð, hvert það samkomulag yrði.

Daginn eftir var hæstv. forsrh. veikur. Hvort hann hefur veikur getað mætt á þeim ríkisstjórnarfundi, sem var þá um morguninn, veit ég ekki en svo mikið er víst, að síðan lítur út eins og hæstv. ríkisstj. sé höfuðlaus her. Það var ekki hafður einu sinni sá háttur á að tilkynna stjórnarandstöðunni, hvort rætt hefði verið um þetta mál, hvort eitthvert samkomulag hefði verið um þetta mál, hvort eitthvert tilboð lægi fyrir frá hæstv. ríkisstj. eða ekki. Það var ekki talað við stjórnarandstöðuna, en byrjað að halda fundi á laugardegi, sem boðað hafði verið til daginn áður. Ég vakti athygli á því þá, og það urðu fleiri til þess, að það mundi ekki hafa komið fyrir á Alþingi í áratugi, að í fyrstu viku þings eða jafnvel í fyrstu vikum hefði verið boðað til þingfunda á laugardögum, og það fór svo, að svo undrandi voru þm. yfir þessu framferði, að á þeim laugardegi komst ekki einu sinni þetta mál að, þannig að þeir, sem málum eiga að stjórna hér á þingi, hljóta að hafa séð það strax þá, að þetta var ekki aðferð til þess að flýta fyrir málum á Alþ., — að brjóta út af öllum þeim venjum sem tíðkazt hafa. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að meginið af öllum þeim venjum, sem hér hafa skapazt á Alþingi, eru venjur, sem ekki einu sinni eru festar í þingsköpum, í lögum, en þm. ganga út frá sem sjálfsögðum hlut, og slík venja er ekki óheigari þeim þáttum þingskapa, sem í lögum eru.

Það sýndi sig þess vegna, a.m.k. á meðan ráða hæstv. forsrh. naut við, að honum þótti óskynsamlegt að boða til funda í fyrstu viku þings á föstudagskvöld, og það sýndi sig, að það var óskynsamlegt að boða til funda í þingi á laugardegi í fyrstu viku þings. Nú er svo hafður sá háttur á að brjóta þann sið, sem flestir forsetar þings hingað til hafa virt, að þingflokkarnir hafi tímann milli 5 og 7 á mánudögum og miðvikudögum til sinna umráða. Og ég fæ ekki séð, að það sé nein sérstök þörf á svona aðferðum, og fæ ekki skilið, hvers vegna svona aðferðir eru teknar upp. Mér dettur ekki í hug að ætla, að hæstv. forseti þessarar d. hafi tekið þetta upp hjá sjálfum sér. Svo vel þekkir hann reglur þings, þótt ungur þm. sé, að hann þekkir þessar reglur. Ég veit alveg, hvað hér er á bak við. Hér er á bak við það, að sú hæstv. ríkisstj., sem tók við sama dag og Alþingi var sett, sú ríkisstj. vill nú sýna Alþ. sítt vald, hún vill geta beitt Alþ. ofríki, og hún leggur að forsetum, bæði þessarar hv. d. og öðrum forsetum þings, að koma slíku ofríki fram.

Ég vil segja hæstv. ríkisstj., að það er ekki klókt að gera slíkt. Hver einasta ríkisstj., sem setið hefur að völdum allan þann tíma, sem ég hef setið á Alþingi, hefur átt það meira eða minna undir stjórnarandstöðunni, að mál væru afgr. á Alþingi, því að það er nú einu sinni svo, að það er mikið um mál, sem afgreiða þarf og ekki er sérstaklega mikill ágreiningur um, en einni ríkisstj. væri samt sem áður mjög bagalegt að ekki gengju sinn gang. Það veit hver þm., sem lengi hefur setið á þingi, að þm. eru ekki sérstaklega þaulsætnir í sætum sínum, og sérstaklega þegar þing eru orðin löng og mikið þarf að afgr. af málum, þá verða forsetar þings venjulega að treysta á, að það séu ekki síður þm. stjórnarandstöðunnar, sem sitji þingfundi og hjálpi til þess að afgr. mál, jafnvel þótt þeir séu á móti þeim, jafnvel þótt þeir hjálpi til að afgr. þau með því að vera á móti þeim, bara til þess að þingstörf geti gengið. Ég veit, að þannig hefur það meira að segja verið á þeim tímum, þegar t.d. þrír flokkar voru í ríkisstj. og máske einn af minnstu þingflokkunum í stjórnarandstöðu, og ég, sem hef þá alllengi verið formaður slíks þingflokks hér, hef hvað eftir annað orðið að benda forsetum á það, að ekki hefði nú gengið að afgr. þessi mál, nema því aðeins að þm. stjórnarandstöðunnar væru jafnvel öllu þaulsætnari en þm. ríkisstj. Það er sem sagt hvorki klókt af ríkisstj. né af forsetum að taka ekki tillit til stjórnarandstöðu, jafnvel þótt veik sé. Hitt, að taka ekki tillit til stjórnarandstöðu, sem er sterk, það er ekki aðeins óklókt, það er gersamlega þýðingarlaust að ætla að reyna slíkt.

Ég hef sjálfur verið forseti þessarar hv. d. ekki fyrir alllöngu, þegar Sjálfstfl. var einn í stjórnarandstöðu hér og þegar þrír vinstri flokkarnir svokölluðu mynduðu ríkisstjórn. Sjálfstfl. var einn flokka í stjórnarandstöðu, engu að síður sterkasti þingflokkurinn. Það var vissulega þá eins og nú oft áhugi hjá viðkomandi ríkisstj. fyrir að fá mál fljótt fram, og það var vafalaust oft af ríkisstj. lagt að bæði forseta Nd. og Ed. og Sþ. að flýta málum. Ég hafði fyrir mitt leyti ætíð þann hátt á að reyna að semja við stjórnarandstöðuna um framgang mála til þess að reyna að tryggja allt þrennt í senn: rétt þingmanna — og í þessu tilfelli sérstaklega stjórnarandstöðunnar — til þess að þeir geti komið fram með sín sjónarmið á eðlilegan hátt, virðingu þingsins og venjur þess og í þriðja lagi það áhugamál viðkomandi ríkisstj. að fá málin sem eðlilegast og tiltölulega fljótast í gegnum þingið. Og það var mín reynsla, að það væri langheilladrýgst til þess að fá allt þetta þrennt fram, að varðveita rétt þm. og ekki síður þeirra, sem í minni hl. eru, en þeirra, sem stjórninni fylgja, tryggja virðingu þingsins og koma málum stjórnarinnar á eðlilegan máta í gegnum Alþingi, — það væri langviturlegast að semja við stjórnarandstöðuna um slíkt. Og það tókst og tókst alltaf.

Nú virðist mér eiga að taka upp nýjan hátt. Hæstv. forsrh., sem á föstudaginn tók upp samninga og síðan leggst veikur og virtist raunar vera mjög fús til samninga, þegar við ræddum við hann, hefur síðan ekki getað mætt. Það var gerð ein lítil tilraun hér áðan af tveimur ráðherrum úr tveim stjórnarflokkum til að ræða við forustumenn stjórnarandstöðunnar. Mér virtist satt að segja ekki, að þeir ráðherrar væru allt of sammála. Ég er ákaflega hræddur um, að ríkisstj. sé ekki einu sinni sérstaklega samstæð í þessu efni. Ég hef frekar þá hugmynd, að ýmsum innan ríkisstj., ekki síður en innan hennar stuðningsflokka, þyki, að hér hafi verið rasað fyrir ráð fram. Ég held, að mönnum þyki sem hér sé komið í óefni, till. hafi verið fleygt inn í þingið að lítt athuguðu máli og það sé byrjað með því þess vegna að fara að riðla öllum þingstörfum og það á þeim tíma, sem hæstv. ríkisstj. er eins og höfuðlaus her, þar sem sjöunda manninn vantar, aðalmanninn, sjálfan forsrh., sem á að stjórna þessum ráðherraher, og þess vegna, að því er virðist, engum samningum enn þá hægt við að koma.

Ég skil satt að segja ekki, hvernig á þessu stendur. Mér finnst það vera alveg furðulegt af einni ríkisstj. að grípa til svona ráða. Ég verð að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á því, að jafnvel þó að hæstv. ríkisstj. væri gersamlega úrræðalaus, bæði viðvíkjandi því, hvernig hún ætti að ráða fram úr þeim efnahagsvandamálum, sem hún er að glíma við og Alþingi vill fá tækifæri til að ræða um við hana, og eins þótt hæstv. ríkisstj. væri svo ósamstæð, að hún geti ekki komið sér saman um þau mál, sem hún þarf að afgr. alveg á næstunni, þá næði vitanlega ekki nokkurri átt fyrir hæstv. ríkisstj. að beita þeirri aðferð að fara að sýna Alþingi óvirðingu þess vegna. Það er að láta sitt eigið úrræðaleysi, sitt eigið ósamkomulag bitna á virðingu Alþ. Ef hæstv. ríkisstj. getur ekki komið sér saman t.d. um brbl., þá á hæstv. ríkisstj. ekki að láta það koma niður á Alþingi Íslendinga. Ef hún getur ekki komið sér saman, þá á hún bara að segja af sér. Það er ekkert ráð við því, ef ein hv. ríkisstj. kemur sér ekki saman um að leysa aðkallandi vandamál, að fresta Alþingi, fyrst fram til janúarloka og síðan fram til febrúarloka og svo máske fram til marzloka og fresta því þannig allt árið.

Það er engum efa bundið, að þegar þessi hæstv. ríkisstj. var mynduð, þá hljóta þessir tveir flokkar, sem hana mynda og heilt ár eru búnir að búa sig undir að taka höndum saman, sem í heilt ár hafa starfað saman, að hafa verið búnir að koma sér niður á, hvaða pólitík þeir ætluðu að reka. Þeir hafa varla farið að mynda ríkisstj. bara upp á stólana. Þeir hafa áreiðanlega ætlað sér að mynda ríkisstj. til þess að ráða fram úr vandamálum þjóðarinnar, og þeir hljóta að hafa verið búnir að ræða þau mál, sem þeir vissu að þeir þurftu að leysa svo að segja strax þegar Alþ. kom saman, jafnvel þau mál, þar sem vitað var, að þeir, stjórnarflokkarnir, voru með mismunandi skoðun. Það er ómögulegt að ætla hæstv. ríkisstj. það, að hún hafi ekki verið búin að ræða slík mál áður. Það er ekki hægt að skapa sér svo lágar hugmyndir um ríkisstj. að ætla hana gersamlega stefnulausa í slíkum málum. Ef menn eiga þess vegna að trúa því, að hæstv. ríkisstj. verði að losa sig við Alþingi til þess að vita, hvort hún getur komið sér saman um mál, sem hún vissi að hún var ósammála um, áður en hún myndaði stjórnina, þá er slíkt úrræði, sem nær ekki nokkurri átt fyrir ríkisstj. að beita.

Ég álít þess vegna, að það sé ekki hægt að taka tillit til neinna slíkra afsakana af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég veit ekki, hvort það eru máske einhverjir aðrir örðugleikar, sem kunna að vera í veginum. Ég veit ekki, hvort það kunna að vera þeir örðugleikar, að hæstv. fjmrh., sem ekki er kominn í sæti sitt hér enn þá, og eru þó sjö stólar hér í Nd. fyrir ráðh., — ég veit ekki, hvort það er það, að hann treysti sér ekki til að flytja þá ræðu við 1. umr. fjárlaganna, sem honum ber að gera.

Ég hef áður beðið um það, að hæstv. fjmrh. væri hér við. Ég hef áður kvartað yfir því, þótt hann sjálfur eigi sæti í Ed., að hann skuli ekki geta sýnt Nd þá virðingu að vera hér við, þegar verið er að ræða skattamál og þegar verið er að óska eftir hans nærveru. Mér mundi þykja vænt um að heyra frá honum, hvort það sé hans meining, að 1. umr. um fjárl. fari fram, áður en þinginu væri frestað, eða ekki, og ég sé ekki, hvernig stendur á því, að hann reynir að skjóta sér undan því að svara slíku. Það hefur verið venja a.m.k. allan þann tíma, sem ég hef setið á Alþ., að fjárl. hafa lengst af, þótt þar hafi að vísu verið brugðið út af, verið fyrsta málið, sem lagt er fyrir þing, og jafnvel stundum í fyrstu viku, en alltaf þó í annarri viku þings hafi fjmrh. flutt sína útvarpsræðu um fjárl. og síðan hafi farið fram útvarpsumræða um þau, Alþ. verið gefin mynd af því ástandi, sem í þjóðarbúinu er og alveg sérstaklega hvað ríkisbúskapinn snertir, og þm. þannig haft allmikinn grundvöll til þess að mynda sér skoðanir um, hvaða vandamál lægju til úrlausnar á því þingi. Nú virðist eiga að bregða út af þessu. Nú virðist eiga helzt að fresta 1. umr. fjárl., skýrslu ráðh., útvarpsumræðu til þjóðarinnar um þetta, þangað til næsta ár.

Í stjórnarskránni er svo fyrir mælt, að reglulegt Alþingi, t.d. það Alþingi, sem nú er saman komið 1959, skuli koma saman 15. febrúar þá. Svo snemma er tilætlun stjórnarskrárinnar að fjárl., í þessu tilfelli fyrir 1960, væru til og skyldu rædd, og eins og hv. þm. vita, verður á hverju þingi að breyta þessu ákvæði með lögum, eins og heimilt er samkvæmt stjórnarskránni. Stjórnarskráin ætlast til þess, að þm. fái svona snemma yfirlit yfir það, hvernig aðstaða þjóðarbúsins sé. En nú virðist tilætlunin, að það eigi að fresta slíkri ræðu þangað til á árinu 1960, þangað til á sama ári og fjárl. eiga að gilda. Það á að ganga fram hjá þinginu, þingið á ekki að fá að heyra frá fjmrh. þá mynd, sem hann dregur upp af þjóðarbúinu, en á sama tíma gerast svo þau tíðindi, að t.d. í þessu tilfelli hæstv. forsrh. heldur ræðu á fundi í félagi úti í bæ og fer að gefa alls konar yfirlýsingar um, hvernig ástand þjóðarbúsins sé. Það er m.ö.o. ekki talað við Alþingi um, hvers konar ástand sé á þjóðarbúinu, hvort það þurfi að leggja á nýjar álögur, hvort það þurfi jafnvel að lækka gengi eða annað slíkt, en það er farið að tala við félög úti í bæ um þess háttar. Það er farið að nefna tölur, það er farið að tala um, að það þurfi kannske að leggja á álögur upp á 250 millj. kr., og það er jafnvel látið í það skína af hálfu hæstv. forsrh., að það sé nú e.t.v. öllu betra að grípa til annarra úrræða, það sé jafnvel betra að grípa til úrræða eins og gengislækkunar. Hvað á maður að halda, þegar þm. á Alþingi Íslendinga, nýkjörnir af þjóðinni samkvæmt nýrri stjórnarskrá, eru settir frammi fyrir þeirri staðreynd af nýskipaðri ríkisstj., að ríkisstj. virðist ætla að reyna að koma sér undan því að skýra Alþingi frá, hvernig ástand þjóðarbúsins sé, eins og lög og jafnvel stjórnarskrá þó mæla fyrir um og lögin um þingsköp sérstaklega fyrirskipa að skuli útvarpað til þjóðarinnar? Hvað á maður að halda, þegar svona hlutir gerast? Hvað er á ferðinni, þegar svona óvenjuhættir eru teknir upp, þegar nýskipuð ríkisstj. meinar Alþingi að fá að ræða þau mál, sem stjórnarskrá og lög ganga út frá að eigi að ræða í byrjun hvers þings? Hvað á maður að halda, þegar ein ríkisstj. hleypur út í bæ til þess þar að skýra frá þeim málum í einhverjum lokuðum félagsskap, kannske einhverra auðmanna í Reykjavík, hvað hún hyggist fyrir, en skýrir Alþingi ekki frá því? Hvað á maður að halda, ef ein ríkisstj. fer að segja helztu auðmönnum Reykjavíkur sérstaklega frá því, að henni finnist þá jafnvel heppilegt að fara að lækka gengið, en talar ekki við Alþingi um slíkt? Er verið að gefa einhverjar vísbendingar um, hvaða afleiðingar og ályktanir menn eigi að draga út af slíkri vitneskju? Ég er hræddur um, að það sé nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. geri sér það ljóst, að henni ber fyrst og fremst af öllu að skýra sjálfu Alþingi Íslendinga frá sinni skoðun á þjóðarbúinu, frá sinni skoðun á því, hvernig stjórnað hafi verið á þessu ári, frá sinni skoðun á því, hvernig samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., skipuð Alþýðuflokksráðherrum einvörðungu, hafi skilið við fjárhag ríkisins og í hvers konar ástandi þjóðarbúið sé, þegar hún hættir.

Þeir tveir flokkar, sem tóku að sér að stjórna landinu á Þorláksmessu í fyrra og bera síðan ábyrgð á stjórnarfarinu, hafa haft alla aðstöðu til þess að sjá, hvernig ástand þjóðarbúsins er, og gefa um það réttar skýrslur. Og það kann ekki góðri lukku að stýra, ef alþm. sjá það í einhverjum blöðum, að höfuð ríkisstj. hafi skýrt úti í bæ frá því, að svona og svona væri ástandið og þetfia og þetta væri bezt að gera, en sjái ekki ástæðu til að ræða slíkt við Alþingi. Þetta er því hættulegra sem á sama tíma eru farnar að ganga ýmsar kviksögur í bænum, sögur, sem eru beinlínis hættulegar efnahag þjóðarinnar, fjárhagslegu öryggi bankanna og framvindunni í efnahagsmálum Íslands. Það eru farnar að ganga þær kviksögur í bænum, sem ég fyrir mitt leyti legg ekki trúnað á, að sérfræðingur í þjónustu ríkisstj. hafi látið sér um munn fara, að það, sem ætti að gera, væri að lækka gengi íslensku krónunnar, jafnvel þannig, að dollarinn væri hækkaður upp í 38 ísl. kr. Og það hefur verið vakin athygli ríkisstj. á því, að svona slúðursögur ganga nú í bænum og eru hættulegar öryggi bankanna, og hæstv. ríkisstj. mun ekki ókunnugt um bað, að jafnvel allmikið af sparifé, óvenjumikið, hafi verið tekið út í bönkum þjóðarinnar undanfarið. Hver mundu undir svona kringumstæðum vera hin sjálfsögðu viðbrögð ábyrgrar ríkisstj.? (Gripið fram í: Ég sé, að það er sama ræðan, sem hann flutti í gær.) Nei, nei, nei, það er allt önnur ræða. Það er núna aðeins verið að vekja hér í Nd. athygli hæstv. ríkisstj, á hlut, sem hún mun ekki hafa heyrt áður, vegna þess að ég er hræddur um, að hæstv. ríkisstj. hlusti ekki rétt vel á mál manna á Alþ. nú. Og þó að hv. 1. þm. Vestf. sé einmitt til fyrirmyndar í þeim efnum, hve dyggilega hann situr þingfundi, þá held ég að væri gott, að hann reyndi að sjá til þess, af því að hann er áhrifaríkur í sínum flokki, að hans ráðh. færu að hans ágætu fyrirmynd og tækju upp þann hátt að sitja hér í stólunum og hlýða á mál manna. Auðvitað getur það alltaf komið fyrir, þegar menn eru mjög áhugasamir um að reyna að fræða ríkisstj. um ástandið í landinu og ríkisstj. hlustar illa, að það verði að segja henni oftar en einu sinni hlutina, og það er nauðsynlegt að gera það, jafnvel þótt hv. 1. þm. Vestf, hafi heyrt þá, vegna þess að það er ekki alveg víst, að hv. 1. þm. Vestf. hafi haft tækifæri til að tala við ríkisstj. í millibilinu og tjá henni þetta og koma henni í skilning um, hvað henni beri að gera. Þess vegna er nauðsynlegt, að hæstv. ríkisstj. geri nú þegar ráðstafanir til þess að binda endi á, að slúðursögur um gengislækkun ísl. krónunnar séu raktar til sérfræðinga ríkisstj. Ef slíkt kæmi fyrir einhvers staðar erlendis, þá mundi slíkum sérfræðingum, ef það sannaðist á þá, er hefðu slíkt mælt, vera vikið frá samstundis og ríkisstj. gæfi yfirlýsingar á Alþ. um, að henni hafi ekki dottið í hug að ætla að lækka gengi ísl. krónunnar.

Má ég benda hæstv. ríkisstj. á, hve allar aðstæður eru slæmar fyrir hana, hvílíkar grunsemdir það hlýtur að vekja, þegar svona sögur eru í gangi, einmitt að hún skuli, á sama tíma og þetta ástand er að skapast í þjóðfélaginu, að menn eru farnir að efast um, hvernig eigi að viðhalda gengi ísl. krónunnar, að þá skuli ríkisstj. fara að leggja til að senda Alþingi heim? Er ekki hæstv. ríkisstj., sem á að standa á verði um ísl. krónuna, er hún ekki að gefa slíkum slúðursögum undir fótinn með því? Ég tala nú ekki um, ef svo skyldi fara, að búið væri að vekja athygli hennar á þessu hér á Alþ. Ég skal fyrirgefa kannske, að hún hafi ekki verið hér á laugardaginn, fyrst hv. 1. þm. Vestf. var að tala um það, að henni hafi verið sagt þetta áður. En nú er henni sagt þetta á venjulegum þingfundatíma, hvað það snertir, að það er fundur á mánudegi, þó að það sé valinn mjög óheppilegur tími seinni hluta dagsins fyrir þann fund. Síðasti fundur var á laugardag, og maður gat kannske haldið, að hæstv. ríkisstj. væri ekki búin að venja sig enn þá við að mæta á laugardögum hérna. Þess vegna ætti hún nú að fara að hafa hugmynd um það, að svona sögur eru að ganga í bænum, og það er skylda hæstv. ríkisstj. að taka í taumana og sjá um, að svona sé ekki haldið áfram og það af mönnum úr hennar eigin herbúðum að bera slíkt út.

Ef hæstv. ríkisstj. ekki nú þegar gefur yfirlýsingu hér á Alþ. um það, að hún hafi ekki í hyggju að lækka gengi ísl. krónunnar, þá er ég hræddur um, að allur almenningur í landinu, sem kann að leggja saman tvo og tvo, hugsi sem svo: Nú, ríkisstj. fæst ekki til að gefa yfirlýsingu um, að það sé ekki hennar fyrirætlun að lækka gengi ísl. krónunnar. Hún fæst ekki til að gefa slíka yfirlýsingu, þó að slúðursögur séu í gangi í bænum um það. Hún fæst ekki til að gefa slíka yfirlýsingu, þó að slúðursögur um það séu raktar til hennar eigin efnahagssérfræðinga. Hún fæst ekki til að gefa slíka yfirlýsingu, þó að hún sé spurð einu sinni þó að hún sé spurð tvisvar á Alþ. um þetta. En á sama tíma vill hún senda Alþ. heim. Hvað fara menn að halda, þegar svona er farið að? Menn fara að halda, að ríkisstj. sé búin að ákveða að gera þennan hlut, að þó að hún kunni að vera ósammála um allt mögulegt, ósammála um verð á landbúnaðarvöru, ósammála um allt milli himins og jarðar, þá kunni það eina, sem hún sé sammála um, að vera að reyna að skaða íslenzku þjóðina með því að eyðileggja hennar efnahag, með því að lækka gengið á hennar krónu.

Það veit hver hv. þm., að það er eitt það fjandsamlegasta, sem hægt er að gera gagnvart gjaldeyri einnar þjóðar, að veikja traustið á honum, grafa undan traustinu á honum, og það er það, sem er fyrst og fremst skylda Alþ. og ríkisstj. að varast. Ég vil minna hv. alþm. á, að það hefur oftar en einu sinni komið fram sú grunsemd hér á Alþ., að það væru sérstakir aðilar, voldugir aðilar, sem hefðu hagsmuni af því að fella gengi íslenzku krónunnar og skapa þannig verðbólgu í landinu. Það hefur verið vakin athygli á því, að það eru voldugir aðilar, sem eiga ítök í voldugum flokkum, sem hafa haft þann hátt á á undanförnum áratugum að lána fyrirtækjum hinna voldugu flokka mikið fé, sem er í almenningseign og eigu ríkisbankans. Og það hafa komið upp þær grunsemdir, að það væru allríkir hagsmunir að verki um það, að eftir að slík stórlán hefðu verið veitt, þá væri smátt og smátt á næstu áratugum grafið undan gjaldeyri þjóðarinnar, gengi lækkað, verðbólga aukin til þess að lækka þannig lánin í verði og gera þessum voldugu bakhjörlum hinna voldugu flokka þægilegra að borga, ef þau eru nokkurn tíma borguð. Það hefur verið uppi sú grunsemd, að það væri svikamylla í gangi í þjóðfélaginu sérréttindastétt þjóðfélagsins í hag, þeirri sérréttindastétt, sem með aðstoð sinna flokka gengur í bönkunum og skammtar sér sjálfri þar lán og lætur sömu sérréttindaflokka sína á Alþ. fella gengið hvað eftir annað til þess að strika þannig þau lán raunverulega út. Og ég vil vekja athygli á því, að þegar það virðist yfirvofandi, að gengislækkun sé sett í gegn nú aftur eftir tæp 10 ár, þá er þar með einvörðungu verið að gera nýja, stórfellda verðbólguráðstöfun og ekkert annað, ráðstöfun, sem engum öðrum kemur að gagni en þeim stórlöxum, sem hafa getað ráðið, hvert lánum bankanna væri beint á undanförnum áratugum.

Gengislækkun er ráðstöfun, sem einvörðungu mundi verða til þess að hjálpa slíkum stórlöxum. Og það nær þess vegna ekki nokkurri átt af einni ríkisstj. að ætla sér að undirbúa þess háttar ráðstöfun, jafnvel skella henni á svo að segja fyrirvaralaust. Það á að þaulræða slík mál á Alþ. áður en mönnum dettur í hug að framkvæma þau, kannske jafnvel á lokuðum fundum á Alþ. stundum að tala um slík mál, áður en farið er að láta kvisast út eða hafa það í flimtingum, eins og hér hefur verið gert. Hér er þess vegna stórkostleg hætta á ferðum, hætta, sem er aukin og margfölduð með þeirri ráðstöfun, sem nú er verið að gera, að reyna að brjóta allar venjur Alþ. á bak aftur, að óvirða Alþ. með því, að ríkisstj. tali ekki við það um þau vandamál, sem fyrir liggja. Það eru þess vegna tilmæli mín til hæstv. ríkisstj., að hún hætti við þann hátt, sem hér hefur verið upp tekinn, að hún reyni ekki að brjóta allar venjur, sem skapazt hafa á Alþingi Íslendinga, að hún sjái, að til þess að koma málum fram með eðlilegum hætti, þá sé ekki ofríki og valdbeiting leiðin, heldur samkomulag um, hvernig þingmálin gangi fyrir sig. Ég vil segja, að ég harma það alveg sérstaklega, að þessu þingi, fyrsta þingi, sem kemur saman eftir stjskrbreyt., skuli vera sýnd sú óvirðing að byrja á þennan hátt, og það mundi ekki spá góðu um áframhaldið, ef þetta væri látið viðgangast.

Þess vegna hef ég hér, bæði í þessari ræðu og utan d. í samtölum við hæstv. forseta og ráðherra, lagt áherzlu á, að horfið verði frá þessum hætti. Þetta vildi ég segja vegna þess, á hverjum tíma þessi fundur var boðaður þrátt fyrir mótmæli mín. Og ef meiningin er að hörfa ekki frá því að halda fund á þessum óvenjulega tíma, þá mun ég nú hverfa nokkuð, að því máli, sem hér liggur fyrir, og byrja þá með því að spyrja, hvort hæstv. ríkisstj., þeir hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., sem gátu ekki gefið sér tíma til þess að vera hér við rétt fyrir kl. 4, hvort þessir tveir hæstv. ráðh. hafi nú tíma til þess að mæta hér í Nd. eða hvort á að taka þann hátt upp á Alþ.,hæstv. ráðh, geti í fyrstu viku þings ekki sýnt sig frammi fyrir 2/3 á hlutum þingmanna.

Ég mun doka við og sjá, hvern hátt á að hafa um það, hvort ráðh. geti talað við Alþ. eða ekki eða hvort það eigi að fara að taka upp siði danskra stjórnarvalda hér fyrr á tímum. Máske ráðh. ætli líka að fara til Hafnar? Og kannske við eigum að fara að senda sendinefnd til þeirra þangað, kannske bænarskjöl? Maður fer að halda ýmislegt, ef svona á að haga sér. (Forseti: Má ég benda ræðumanni á, að óskum hans um, að ráðherrar yrðu viðstaddir, hefur verið komið til þeirra, en nú sem stendur er fjmrh. bundinn við umræður í Ed., en menntmrh. er ekki í húsinu.) Þá held ég, ef hæstv. forseti vill halda uppi virðingu þessarar d. gagnvart ráðh. og gagnvart ríkisstj., þá beri honum að fresta fundi, þar til ráðh., sem tvisvar sinnum er búið að auglýsa eftir, geti gefið sér tíma til þess að sitja fund í Nd. Alþ. Ég vil mælast til þess, að hæstv. forseti fresti nú þessum fundi og ég fái að fresta minni ræðu, þar til þessir tveir hæstv. ráðh. geta verið viðstaddir. (Forseti: Þar sem það eru fleiri á mælendaskrá, þá æski ég þess að geta haldið fundinum áfram. Ef hv. þm. óskar eftir að fresta ræðu sinni, þangað til ráðh. eru hér viðstaddir, þá er það mögulegt.) Ég gæti nú trúað, að það væri svo, að það væru ýmsir þm. í Nd. Alþ., sem vilji tala við ráðh. Það er satt að segja ekki óvenjulegt, þegar sérstaklega þm. stjórnarandstöðunnar standa upp og flytja ræður og ekki hvað sízt í byrjun þings, að þeir vilji gjarnan ræða við ráðh., sem séu viðstaddir. Mér er ekki kunnugt um, að það séu svo sérstaklega margir af fylgjendum stjórnarinnar á mælendaskrá, að mér þætti ekki óeðlilegt, að fleiri en ég mundu vilja tala við hæstv. ráðh. Ég er í fjhn. þessarar hv. d. Þetta mál er komið frá fjhn., það er brtt. frá fjhn. við frv. ríkisstj., sem liggur fyrir til umr. Mér finnst, af því að það er ekki alveg venjulegt, að stjfrv. sé breytt, að þá sé ekkert óeðlilegt, þó að menn úr fjhn. þessarar hv. d. óski eftir því, að ráðh., a.m.k. þeir, sem hafa með málið að gera, séu viðstaddir og skýri og skilji, hvers vegna verið er að breyta þeirra stjfrv.

Ég verð að segja það, að ef það er meiningin af hæstv. ráðh. þessarar nýskipuðu ríkisstj. að fara að taka þann hátt upp að vera fjarverandi, þegar verið er að ræða þeirra mál í deildinni, þá skil ég satt að segja ekki, af hverju slík ríkisstj. er að fara fram á það, að Alþ. sé frestað. Ef það á að vera síður ráðh. að vera yfirleitt fjarverandi, þegar verið er að ræða hér málin, hví í ósköpunum geta þeir þá ekki verið fjarverandi, þó að þingið haldi áfram? Það sitja menn á Alþingi Íslendinga, sem hafa áhuga fyrir ýmsum af þeim málum, sem þjóðin hefur kosið þá til þess að reyna að koma hér í gegn. Og ef ein ríkisstj. hefur engan áhuga fyrir neinu máli, sem þjóðin hefur áhuga fyrir, þá náttúrlega þarf hún ekki að vera hér viðstödd, þegar þingmenn eru að ræða slík mál. Við þm. getum rætt þessi mál, afgreitt þau, og ríkisstj. ætti þá ekki heldur að sýna sig í atkvgr. Sú ríkisstj., sem getur ekki setið hér í sínum ráðherrastólum, þegar verið er að ræða málin, ætti ekki heldur að sýna sig hér, þegar greidd eru atkv. um mál. Og ég vil benda á það, að um leið og ein ríkisstj. tekur upp þann hátt, sérstaklega 7 manna ríkisstjórn, í fyrsta skipti sem við höfum fengið 7 manna ríkisstj., að sýna sig ekki á Alþ., þegar verið er að útkljá hér mál, þá er ég hræddur um, að ríkisstj. sé komin í minni hl. á Alþ. Það hafa aldrei verið svona margir ráðh. áður, sem eftir að þeir hafa verið skipaðir hafa verið utan þingsalanna og ætla má þess vegna að haldi áfram uppteknum hætti að koma ekki á Alþ., hvorki til að greiða atkv. né annað. Þeir eru 7, stjórnarfylgið hefur alls 33 þm., stjórnarandstaðan hefur 27. Menn sjá þess vegna, að stjórnin er fallin, þegar ráðh. eru svona í burtu. Hún hefði kannske sloppið, ef þeir hefðu verið 6, en þegar ein ríkisstj. fer að haga sér þannig, að hún má yfirleitt alls ekki vera að því að vera við á Alþ., þá vil ég benda hæstv. ríkisstj. á, að það kann ekki góðri lukku að stýra, ef hún tekur þann hátt upp, meðan verið er að ræða málin. Þá er viðbúið, að hún haldi þessum slæma vana, þegar kemur til þess að greiða atkv., og gleymi alveg, að hún á 7 stóla hér.

Ég vil þess vegna enn einu sinni mælast til þess, að gangskör sé að því gerð að reyna að fá þessa tvo hæstv. ráðh. til þess að mæta. Það er alveg ófært, sérstaklega í byrjun þings, að hæstv. ráðh. komist upp með það að mæta ekki á þingfundum, þegar mál, sem frá þeim eru komin, eru til umr., þegar n, og nm., sem um þau hafa fjallað, óska eftir nærveru þeirra. Þegar n. eins og fjhn. hefur gert breyt. á þeirra stjfrv., þá er það mjög slæmt, að ráðh. skuli ekki fást til þess að koma og gefa þær upplýsingar, sem farið er fram á við þá.

Út af því, að hæstv. fjmrh. skuli vera við umr. í Ed., þá vil ég segja, að mér finnst það spá illu um áframhald þingsins, ef það á að byrja með því, að nýskipaður fjmrh. álíti sig frekar skuldbundinn til þess að sinna málum hjá hæstv. Ed. en Nd. Ég fæ ekki séð annað en hæstv. fjmrh., þótt hann eigi sjálfur sæti í Ed., eigi að muna jafnt eftir því, að hann ber líka ábyrgð á málunum og á að standa til andsvara fyrir þeim málum, sem hann er spurður að hér í Nd. Alþ., og ég held, að við hér í Nd. megum ekki koma honum upp á það, þó að hann sé eini ráðh., sem eigi sæti í Ed., að hann hangi þar og hími allan tímann, ef Ed. er að ræða einhver mál, en sýnir sig ekki hér í Nd., þegar óskað er eftir honum. Hins vegar er það nokkur bót í máli, að nú er auðséð, að hæstv. menntmrh. er kominn í d., og líklega verðum við að þakka fyrir það, að ráðh. hinnar nýsköpuðu stj. skuli sýna d, þá virðingu að mæta hér. Við höfum árangurslaust beðið um, að fjmrh. sýndi sig hér, en hann virðist svo upptekinn í smærri d., að hann getur ekki komið hingað, og þess vegna er það mjög ánægjulegt, að hæstv. menntmrh. skuli nú vera kominn hér og við þess vegna geta byrjað að ræða við hann.

Það er þá fyrst frá að segja, að í því frv., sem hér liggur fyrir, hafði verið gerð sú breyt. frá því, sem frv. höfðu verið áður, í 1. gr., að þar sem frv. áður hafa verið framlengd ár eftir ár, framlengd fyrir eitt ár í senn, þá var nú ákveðið að hafa þetta frv. með þeim hætti af hálfu ríkisstj., að það skyldi gilda héðan af og þyrfti ekki á hverju þingi að framlengja það. Oss varð þess vegna á, fjhn. mönnum, að hugsa: Hvernig stendur á þessu? Að hverju er stefnt með þessari breyt.? Hvernig stendur á því, að einmitt um framlengingu skemmtanaskattsins skuli ekki vera hafður sá háttur á, eins og verið hefur undanfarna áratugi, að þessi lög, sem hafa á sér allt yfirbragð brbl. eða laga, sem aðeins eiga að gilda í stuttan tíma, skuli ekki að þessu sinni einnig vera hugsuð að gilda aðeins næsta ár.

Nú vildi svo til, að á sama tíma og stjórnarráðið, starfsmenn þess eða ríkisstj., gerir þessa breyt. á frv. til l. viðkomandi skemmtanaskatti, þá leggur hæstv. ríkisstj. fram þáltill. um, að senda skuli þingið heim, 30. nóv. eða síðar, þ.e.a.s. þáltill., sem aldrei hefur tíðkazt áður að nýkjörnu Alþ. væri boðin, ég tala nú ekki um í fyrstu viku, ekki einu sinni á fyrstu mánuðum þess setu. Það væri eðlilegt, að sumum okkar yrði að hugsa: Var meiningin að fara að taka þann hátt upp á næstu þingum að fara að senda Alþ. svona heim, jafnvel í fyrstu viku, og gefa þm. ekkert tækifæri til þess að ræða þau vandamál, sem fyrir þinginu liggja? Það var vitanlegt, að einmitt frv. af þessu tagi hafa alltaf verið á ferðinni, þannig að hefði einhver ríkisstj. tilhneigingu til þess að beita Alþ. einhverju ofríki, dylja Alþ. einhverra fyrirætlana, sem hún væri með, þá gafst alltaf alþm. einmitt í sambandi við svona frv. tækifæri til þess að láta sínar skoðanir í ljós, koma fram með ýmsar aths. viðvíkjandi fjárhagsmálunum og jafnvel knýja ríkisstj. til þess að ræða þau. Okkur varð þess vegna að hugsa: Var meiningin, að fyrst ætti að prófa þetta með þessum l. um skemmtanaskattinn og svo kannske í fleiri lögum og koma því þannig fyrir, að upp frá þessu væri ríkisstj. ekki upp á það komin að láta Alþ. vera að spyrja sig allt of mikið út úr í sambandi við afgreiðslu mála, sem hún þyrfti endilega að fá fram. Það er engu líkara en sú hugsun hafi komið upp hjá hæstv. ríkisstj., að það sé dálítið óþægilegt að eiga svona mál undir Alþ., sem hún þurfi að ræða í nokkrum umr. í þinginu, það væri heppilegra að geta verið laus við slíkt.

Ég vildi gjarnan fá að vita, hvort það væri eitthvað slíkt, sem hefði vakað fyrir, af því að svona undarlega vildi til, að þetta tvennt skyldi verða svo að segja samferða, þessi breyting á skemmtanaskattsviðaukanum og þessi þáltill. hæstv. ríkisstj. um að senda Alþ. heim. Það er náttúrlega ekki fallegt að segja það, en það er næstum því eins og það komi upp sú hugsun hjá manni, að hæstv. ríkisstj. þyki eiginlega ekkert gott að eiga Alþingi yfir höfði sér, og upphaflega hélt maður þó einmitt, að Alþingi væri ríkisstj. stoð og stytta, sem hún ætti að vera fegin að geta leitað til og rætt við, þar væru saman komnir þeir menn, sem þjóðin hefði kjörið til þess að reyna að ráða ráðum þjóðarinnar. Það hefur ekki enn þá setið sú ríkisstj. að völdum á Íslandi, sem hefur ekki eitthvað getað lært af þeim ráðum, sem stjórnarandstaðan hefur gefið henni. Og ég býst ekki við, að sú hæstv. ríkisstj., sem nú er rétt nýborin í heiminn og ekki nema vikugömul og óreynd að öllu leyti, ætli sig svo miklu vitrari en allar aðrar ríkisstjórnir, að hún þurfi ekki á því að halda að geta rætt mál við Alþingi, alveg eins og aðrar ríkisstj. hafa gert. Hafi það hins vegar verið svo, eð það hafi verið meining ríkisstj. að vera laus við þetta í framtíðinni, að þurfa að vera alltaf að leggja þessa viðauka fyrir þingið og fá þá samþykkta, þá vil ég fyrir utan þá gagnrýni, sem ég hef sett fram í sambandi við þá leiðu þáltill., sem var samferða þessu inn í þingið, benda hæstv. ríkisstj. á og þeim hæstv. ráðherrum, sem um þessi mál fjalla, að hugsi þeir sér að gera eitthvað slíkt, þá eiga þeir a.m.k. að láta vinna það betur.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 2, umr., er frv. um, að það megi innheimta skemmtanaskattinn með viðauka, með frá 20 til 200% álagi. Þetta eru sem sé ný lög, sem framlengja lög, sem áður hafa verið í gildi, en er ekki breyting á sjálfum lögunum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús. Mig hefur oft furðað á því og furðar alveg sérstaklega á því, ef það á að fara að koma þessu á það stig, að það færi að verða fast lagafrv., að það ráðuneyti, sem útbýr svona frv., skuli ekki ganga þannig frá þessu, að þetta sé sett inn í lögin um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, þetta sé fellt inn í þau lög. Núna er það þannig, að það eru ein lög um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, lög alla leið frá 1927 með ýmsum breytingum. Svo eru önnur lög um að innheimta skemmtanaskattinn með viðauka. Og svo eru í 3. gr. laganna um skemmtanaskatt og þjóðleikhús sérstakar ákvarðanir um, að innheimta skuli skemmtanaskattinn skv. 2. gr. og samkvæmt viðauka við þessi lög með 10% álagi. M.ö.o.: það er skipt á milli tveggja laga og margra lagagreina öllum þessum viðaukum, og kemur þar fram sú tilhneiging, sem maður að vísu verður oft var við í stjórnarráðinu, hvort sem það er vegna þess, að menn, sem sjálfir eru orðnir vanir lagaflækjum, kunni bezt við að halda þeim, eða þá af hinu, að menn geta aldrei hreinsað til á skrifborðinu sínu, að menn kunna ekki að laga frv. þannig og móta lög þannig, að þau séu skýr, að þau séu ótvíræð og að það sé saman í einum lögum, sem saman á að heyra.

Ég hef oft áður fundið að svona vinnubrögðum í stjórnarráðinu, og ef hér hefur átt að vera með þessu frv., eins og það var lagt fyrir, að því stefnt að gera þetta að föstum lögum, sem sé viðaukafrv., þá hefði verið miklu viðkunnanlegra og lögulegra að hafa þann hátt á að fella þetta saman í ein lög, gömlu lögin um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, og láta þá þau lög ein duga. Hins vegar áleit fjhn. enga ástæðu til þess, a.m.k. á meðan viðkomandi ráðuneyti hefði ekki sjálft gert þá breytingu að gera gömlu lögin þannig úr garði, að Alþingi gæti verið þekkt fyrir að láta þau standa sem föst lög, sem ættu að haldast, — þá sá fjhn. ekki neina ástæðu til þess að fara að fallast á þessa breytingu, sem viðkomandi ráðuneyti hafði gert, og leggur þess vegna einróma til að breyta þessu frv. aftur í sitt gamla horf.

Hins vegar er það eðlilegt, þegar þetta mál er hér til umræðu og hafði á vissan hátt borið að með þessum óeðlilega hætti, sem ég hef þegar gert að umtalsefni, að maður óski eftir að fá nokkrar frekari upplýsingar í sambandi við þá skattheimtu á almenningi, sem verið er að heimila með þessum lögum. Í fyrsta lagi er það eitt, sem ég vildi spyrja að í því sambandi, af því að vitað er, að ríkisstj. og Alþingi stefna að því með samþykkt þessara laga að styðja ýmiss konar menningarstarfsemi í landinu, — þá vildi ég spyrja hæstv. menntmrh., fyrst hann sýnir okkur þann heiður að vera hér viðstaddur: Þarf Alþingi að óttast, að þær ráðstafanir, sem verið er að gera til þess að efla menninguna í landinu með þeim skatti, sem hér á að framlengja, verði rýrðar með nokkrum öðrum ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar? Má Alþingi ekki treysta því, að það fé, sem nú öll fjhn. hefur orðið sammála um að leggja til að hæstv. ríkisstj. fái að njóta áfram, að sá skattur, sem hún eigi að fá innheimtan af almenningi og skemmtunum fólksins framvegis eins og hingað til, — má Alþingi ekki treysta því, að það fé verði á engan hátt rýrt í meðförum hæstv. ríkisstj.? Ég meina: er það ekki alveg öruggt, að hæstv. ríkisstj. hafi engar fyrirætlanir um að minnka í gildi þá fjárupphæð, sem verið er að ráðstafa af hálfu Alþingis með því að samþykkja nú þessi lög? Megum við ekki treysta því, að t.d. gengislækkun eða aðrar slíkar ráðstafanir séu alls fjarri hæstv. ríkisstj., þannig að þeir peningar, sem Alþingi með því að samþykkja þetta lagafrumvarp, sem hér liggur fyrir, heimilar að taka af tekjum almennings í landinu, fari óskertir til þeirra nota, sem ætlað er, til að standa undir rekstri þjóðleikhússins, standa undir byggingu félagsheimila og annars slíks. Svo fremi það væri t.d. ætlun ríkisstj. að fella — við skulum segja bara jafnvel nú þegar á næsta ári, máske næstu mánuðum — íslenzku krónuna í gildi, til hvers er þá verið að biðja okkur um að samþykkja þessar tekjuaflanir, ef á að stórminnka þessar tekjur hvað raungildi snertir strax í byrjun næsta árs? Megum við ekki treysta því, að með þeim ráðstöfunum, sem við nú allir nm. í fjhn, leggjum til að gerðar séu, sé verið að stuðla að því, að hægt sé að halda uppi þeirri starfsemi, sem þessar tekjur eiga að renna til?

Ég vil t.d. sem þm. Reykvíkinga mega spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað mikill hluti af öllum skemmtanaskattinum kemur einmitt héðan úr Reykjavík? Ef ég man rétt, þá var það a.m.k. fyrir nokkrum árum mjög há upphæð, jafnvel allmikill meiri hluti af öllum þeim tekjum, sem af þessum lögum koma. Ef fara á að taka þennan skatt áfram af mínum umbjóðendum, þá vildi ég gjarnan mega vita það fyrir víst, þegar verið væri að samþykkja svona skatt, að það væri ekki meiningin annars vegar að fara að fella í gildi það fé, sem af þeim væri tekið, og gera þeim menningarstofnunum, sem eiga að lifa af því., erfiðara fyrir. Og svo vil ég hins vegar gjarnan vita, hvort eigi að gera mínum umbjóðendum erfiðara fyrir um að greiða þessi gjöld. Það hefur verið lagt allmikið á skemmtanir þær, sem almenningur nýtur, á undanförnum árum, venjulega í góðu skyni, venjulega í menningarskyni. En af hverju hefur verið hægt að leggja slíkan skatt á skemmtanir almennings og láta slíkar skemmtanir standa undir þjóðleikhúsi, félagsheimilum, jafnvel vísindasjóðum, af hverju hefur það verið hægt? Það hefur verið hægt vegna þess, að almenningur hefur haft það góða afkomu, að slíkur skattur hefur ekki minnkað það mikið sókn slíkra skemmtana, að fjárhagsgrundvöllur slíkra fyrirtækja eins og þjóðleikhússins, félagsheimilanna, vísindasjóðs eða slíkra hafi brostið þess vegna.

Ef við alþm. ættum það nú á hættu, að t.d. hæstv. ríkisstj. hygði á að lækka gengi íslenzku krónunnar, eins og ég hef jafnvel áður spurt hérna að og því miður enn ekki fengið svar við, þá er það alveg gefið mái, að slíkri ráðstöfun væri, ef um hana væri búið eins og mér er kunnugt um að vissir efnahagssérfræðingar ríkisstj. vilja láta um búa, fyrst og fremst ætlað að rýra kjör almennings í landinu, en ekki að láta hækka kaup hans að sama skapi sem gengislækkuninni næmi, ekki a.m.k. að ríkisstj. gerði ráðstafanir til þess um leið. Ég er þess vegna hræddur um, að ef eitthvað slíkt skyldi vera fyrirhugað, þá geti svo farið, að tekjur þessa almennings, sem fyrst og fremst sækir skemmtanir, og þá fyrst og fremst almennings hér í Reykjavík, sem ég held að standi að mestu leyti undir öllum þessum tekjum, — ég er hræddur um, að ef slíkar ráðstafanir væru fyrirhugaðar af hálfu hæstv. ríkisstj., eins og gengislækkun eða slíkt, þá mundi það rýra þannig kjör almennings, á meðan aðrar ráðstafanir væru ekki gerðar, sem bættu þar úr, að slíkur fjárhagsgrundvöllur eins og skemmtanaskatturinn er fyrir þjóðleikhús, félagsheimili, vísindasjóð og annað slíkt, geti brostið. Það er þess vegna gefið mál, að þegar við hér á Alþingi erum að ræða lög eins og þessi, þá viljum við vita fótum okkar forráð. Við erum að gera ráðstafanir til þess, að þjóðleikhúsið geti starfað áfram. Við erum að gera ráðstafanir til þess, að það sé hægt að halda áfram að byggja félagsheimill í landinu. Og við göngum út frá því, þegar við samþykkjum lög um þetta, eins og við leggjum nú til, t.d. allir sammála um það í fjhn., — við göngum út frá því að geta reiknað með sama grundvelli og verið hefur fram að þessu, sömu möguleikum hjá almenningi til þess að geta borgað þennan skatt. Ef það ætti að breyta þessum forsendum, þá er ég hræddur um að verði líka að breyta þessum lögum, annaðhvort að skapa nýja skattstofna, hækka skemmtanaskattinn eða annað þess háttar. Það er þess vegna eðlilegt, um leið og Alþingi afgreiðir svona lög, að því séu gefnar upplýsingar um, hvort nokkuð sé fyrirhugað, sem þessu geti breytt. Og einmitt þess vegna vil ég sérstaklega óska eftir því sem þm. Reykv. að fá upplýsingar um, hve miklu nemur það, sem tekið er af Reykvíkingum með þessum skatti, og upplýsingar um það, hvort nokkrar þær breytingar á efnahagsmálum landsins séu fyrirhugaðar, sem geti rýrt þennan tekjustofn.

Þá vildi ég enn fremur, sökum þess hve mikið af þessu fer til byggingar félagsheimila, spyrja hæstv. menntmrh., hvort fyrirhugaðar séu nokkrar breytingar viðvíkjandi þeim lögum, sem um félagsheimilin gilda. Ég held, að það sé dálítið óheppilegur háttur, sem hafður hefur verið á undanfarið um byggingu félagsheimilanna. Mér er kunnugt um það sums staðar úti á landi, að það hafa verið byggð í námunda við allstóra bæi jafnvel allt að þremur félagsheimilum í hreppum, sem liggja þar að, og að því er virðist sérstaklega treyst á, að þessi félagsheimili yrðu rekin með tekjum, sem hlytust af því, að fólkið í viðkomandi bæjum sækti félagsheimilin og skemmtanir, sem þar væru háðar. Og þetta hefur leitt til þess, veit ég, að það hefur verið eins konar verkaskipting á milli slíkra félagsheimila um laugardagsskemmtanir og slíkt. Þegar skattar eru lagðir á eins og þeir, sem við hér erum að ræða, þá er það eðlilegt, að það sé höfð nokkur fyrirhyggja um, hvernig slíku fé er varið. Ég er hræddur um, að þetta hafi ekki verið hugsað nógu vel frá upphafi. Það er ekki nóg að byggja félagsheimili og láta byggja þau hér og þar á landinu, það þarf að vera rekstrargrundvöllur fyrir þau og það þarf að vera hægt að halda þessum félagsheimilum uppi sem raunverulegum félagsheimilum, sem félagsheimilum, sem fyrst og fremst séu menningaraukandi. Og við þurfum að varast það, ekki sízt með tilliti til þess, hver stoð sveitirnar hafa verið okkar þjóðmenningu frá upphafi vega, að jafnvel félagsheimilin sums staðar yrðu til þess að koma þeirra skemmtunum niður á lægra stig en ella hefði verið. Það á einmitt að vera þveröfugt. Ég held, að þegar við ræðum um tekjustofnana til félagsheimila, þjóðleikhúss og annars slíks, þá sé okkur nauðsynlegt að athuga þessi mál, og það væri ákaflega æskilegt að fá frá hæstv. ráðh. einmitt yfirlit yfir, hvernig þessi mál standa.

Það er ekki ofmælt, að ég held, að það sé orðið nokkurt vandamál víða um félagsheimili og þess vegna sé það ekkert óeðlilegt í sambandi við þeirra tekjuöflunarmál, að það vandamál væri nokkuð rætt.

Þá vildi ég enn fremur, sökum þess að nokkru af þessum tekjum er ætlað að renna til þjóðleikhússins, leyfa mér að spyrjast fyrir um, hvernig standi um þess rekstur nú sem stendur, hvernig háttað sé annars vegar um hinar gömlu skuldir, hvers vegna þær séu ekki greiddar að fullu, og hvernig rekstrarafkoman að öðru leyti sé. Þjóðleikhúsið er eitt af þýðingarmestu menningarstofnunum okkar, og það hefur alltaf verið velvilji og skilningur hér á Alþingi viðvíkjandi því, að af hálfu Alþingis væru gerðar ráðstafanir til þess að standa undir kostnaðinum við það. Svo fremi sem fyrirhugaðar væru einhverjar þær breytingar, sem ég minntist á áðan, í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá kynni slíkt að koma allþungt niður á rekstri þjóðleikhússins. Það er vitanlegt, að aðgöngumiðar hafa þar verið alldýrir og oft ekki við almenningshæfi, en þó verið sótt nokkru meira en menn gætu búizt við víða í löndum um svo dýrar skemmtanir, sökum þess að almenningur hefur haft allmiklar tekjur úr að spila. Ef fyrirhugaðar væru árásir á lífskjör almennings í landinu, ef dregið væri ekki hvað sízt úr tekjum almennings hér í Reykjavík, t.d. með gengislækkun eða einhverjum slíkum ráðstöfunum, þá mundi slíkt ganga út yfir rekstur þjóðleikhússins. Það er því miður — eða máske eðlilega svo, að þegar tekjur manna minnka, byrja menn oft á því að spara við sig það, sem þeim finnst þeir gætu helzt verið án, og er það þó mikill misskilningur oft á tíðum að neita sér þess vegna um svo hollar menningarlegar skemmtanir sem mörg leikrit, sem í þjóðleikhúsinu eru sýnd, eru. En svona er það samt sem áður. Ég veit, að það hefur víða verið svona í ýmsum löndum, þar sem fátækt hefur verið ríkjandi, að af hálfu þjóðleikhúsa hafa verið gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að gefa mönnum kost á að sækja þjóðleikhús án tillits til þess, hvernig þeirra efnahagur væri. Það var jafnvel um skeið, meðan gengislækkunarráðstafanir og aðrar slíkar ráðstafanir voru allerfiðar fyrir almenning hér, að þá voru gerðar ráðstafanir til slíks hérna, þó að þær hafi, eftir að slíkri hættu var bægt frá almenningi um skeið, lagzt niður. Ég held þess vegna, ef það væri fyrirhugað að hefja nú að nýju einhverjar slíkar árásir á lífskjör almennings eins og gert var fyrir 10 árum, — ég á við gengislækkunina í marz 1950, — með þeim afleiðingum, sem þá hlutust af, að hundruð manna, jafnvel svo að þúsundum skipti, gengu atvinnulausir í Reykjavík einni saman, að það verði líka að endurskoða hluti eins og rekstur þjóðleikhússins, nema það sé ætlunin, þótt sverfi að almenningi, að burgeisastétt Reykjavíkur skuli ein sjá um að fylla þjóðleikhúsið og svo lítið af henni tekið, að þar sjái ekki högg á vatni.

Ég er hræddur um, að öll þau mál, sem varða menningarstarfsemina í landinu, tekjuöflunina til hennar og annað slíkt, hljóti að byggjast á því, að almenningi sé gert kleift að lifa a.m.k. við jafngóð kjör og hann hefur haft fram að þessu og þau séu í engu rýrð. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Ég á nú ekki mikið eftir. En það er kannske eins gott að fresta henni, herra forseti.