07.12.1959
Neðri deild: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (2192)

37. mál, verð landbúnaðarafurða

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Enda þótt þetta frv. hafi ekki verið á dagskrá fyrr en í dag, hefur það eigi að síður verið allmikið rætt hér í hv. deild, ýmist utan dagskrár eða í sambandi við önnur óskyld mál. Þessi lög, brbl. fyrrverandi ríkisstj., eru alkunn bæði hv. alþm. og öðru fólki, sem fylgist með lagasetningu og því, sem gerist á stjórnmálasviðinu.

Það þarf ekki að taka það fram, að Sjálfstfl. er andvígur þessum lögum, sbr. yfirlýsingar flokksins og miðstjórnar hans á s.l. hausti. Afstaða flokksins til laganna er óbreytt frá því, sem þá var. Þrátt fyrir þetta þykir eðlilegt, að frv. sé lagt fram, það fái þinglega meðferð og því verði vísað til nefndar.

Það er rétt í sambandi við það deilumál, sem upp kom á s.l. sumri í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara, að taka það fram, að ríkisstj. hefur unnið að því að leysa þessa deilu með því að fá samkomulag á milli Stéttarsambands bænda og framleiðsluráðs landbúnaðarins annars vegar og fulltrúa neytenda hins vegar. Samkomulagsumleitanir um þetta mál standa yfir, og er vonandi, að svo giftusamlega fari, að þær samkomulagsumleitanir leiði til þess, að sex manna nefndin verði aftur skipuð og taki til starfa, svo og að gerðar verði ráðstafanir til eða samkomulag fáist um, að skipun yfirdómsins eigi sér einnig stað, ef svo skyldi fara, að sex manna nefndin kæmi sér ekki saman. Það er áreiðanlega hollast og bezt fyrir báða aðila, að samkomulag náist um þetta mál, og það er nauðsynlegt og það er skylt að því að vinna.

Ég læt svo máli mínu lokið að þessu sinni, en tek það fram, að það er eðlilegt, að málið sé hér flutt og því verði vísað til nefndar.