30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2234)

7. mál, gjaldaviðauki 1960

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld 1960 með viðauka. Í umr. um frv. þetta hér í hv. d. á laugardaginn kenndi margra grasa. Var þar mest talað af hálfu stjórnarandstöðunnar, en minnst um frv. sjálft og efni þess ræður hv. stjórnarandstæðinga snerust fyrst og fremst um óskylt mál, væntanlega þingfrestun, en að öðrum þræði urðu þetta almennar stjórnmálaumræður af þeirra hálfu ásamt nokkrum upplestri úr Morgunblaðinu. Og eftir því, sem er að heyra á þeim hv. þm., er hér talaði á undan mér, á nú að fara að leika sama leikinn. Ég vildi þó beina því til hv. stjórnarandstæðinga, ef þeir byrja enn á ný að lesa hér upp úr Morgunblaðinu yfir okkur dm., að þeir læsu þá helzt framhaldssöguna, af því að hún er skemmtilegust af því efni, sem blaðið flytur.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. endursagði til dæmis hluta úr framboðsræðum sínum frá því í kosningabaráttunni í haust. Hann sagði m.a., að Sjálfstfl. hefði húsbóndavald yfir Alþfl., og rökstuddi það með því einu að vitna til lausafregnar í Morgunbl. um embættisveitingu, sem síðar hefði svo komið á daginn að reyndist vera rétt. Þessi hv. þm. veit það, eins og allir aðrir vita, að enginn stjórnmálaflokkur hefur nokkru sinni haft eða mun nokkru sinni hafa húsbóndavald yfir Alþfl. Hins vegar hefur það skeð, að einn stjórnmálaflokkur í landinu, Framsfl., hefur reynt að öðlast slíkt húsbóndavald, en mistókst það herfilega, og síðan hefur hann aldrei getað litið Alþfl. réttu auga eða unnað honum sannmælis.

Hv. 1. þm. Vesturl. sagði við þessa sömu umr., að Alþfl. hefði óvirt bændastéttina og brotið lög á henni. Það getur vel verið, að svona ummæli gangi vel á sveitafundum, þar sem áheyrendur eru fólk, sem les ekki önnur blöð en Tímann, en hér í sölum Alþ. ætti þessi hv. þm. ekki að láta sér slíka fjarstæðu um munn fara og það eins þótt þessi ummæli og önnur slík séu eingöngu höfð uppi til þess að halda uppi málþófi og tefja tímann. Ef nokkuð er óvirðing við bændastéttina, þá er það að álíta, að bændur hafi ekki skilið, að setning brbl. var nauðsynleg til þess að forðast nýja verðbólguskriðu, til þess að komast hjá hækkunum á milliliðakostnaði og sölukostnaði á landbúnaðarvörum og til þess að gefa ekki ábyrgðarlitlum öflum innan verkalýðshreyfingarinnar færi á nýjum kauphækkunarkröfum.

Þessi sami hv. þm. sagði, að í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. væru boðaðar nýjar og róttækar og mjög varhugaverðar aðgerðir í efnahagsmálum, sem hann vildi á ýmsan hátt hallmæla. Þegar hæstv. formaður þingflokks Framsfl. heyrði stefnuyfirlýsinguna lesna í Sþ., stóð hann upp og hélt þar ræðu, þar sem hann sagði, að stefnuyfirlýsingin væri svo almennt orðuð, að af henni yrði nær ekkert ráðið, til hverra úrræða ríkisstj. og flokkar hennar ætluðu að grípa. Það væri því ekki vanþörf á því, að þingflokkur Framsfl. héldi með sér fund, svo að þm. flokksins gætu samræmt túlkun sína á stefnuyfirlýsingu hæstv, ríkisstj. og þyrftu ekki að segja eitt í Sþ. og svo allt annað hér í þessari hv. deild.

Þar sem ég á sæti í fjhn. þessarar hv. d. og er einn þeirra manna, sem skrifuðu undir nál. meiri hl., er mér vel kunnugt um afgreiðslu þessa frv. innan n., sem hér er um rætt, svo og annarra þeirra fjáraflafrumvarpa, er í kjölfar þess fara. Minni hl. n., hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. sama kjördæmis, hefur, eins og kunnugt er, ekki skilað neinu áliti. Á fundi fjhn. á föstudaginn töldu þeir sig ekki geta tekið afstöðu að svo komnu og óskuðu eftir, að málinu yrði frestað þar til morguninn eftir. En frestbeiðni þessari var synjað, þar sem hún var af annarlegum toga spunnin. Fæ ég ekki heldur skilið, hvers vegna þessir hv. þm. þyrftu nú sérstaklega frest til þess að taka afstöðu til sams konar frumvarpa og þeir hafa ár eftir ár undanfarið samþykkt athugasemdalaust og talið alveg sjálfsagt. Daginn eftir kom svo í ljós í ræðum þessara tveggja hv. þm. hér í d., að þeir voru alveg jafnálitslausir og á nefndarfundinum. Annar þeirra, hv. 5. þm. Norðurl. e., drap á það í ræðu sinni, hvort ekki væri nægjanlegt að framlengja þessi tekjuöflunarfrv. um tvo mánuði eins og bráðabirgðafjárgreiðsluheimildina í staðinn fyrir eitt ár, eins og venja væri og hér er gert ráð fyrir. Að stytta þennan tíma væri að sjálfsögðu spor aftur á bak. Ef breyta ætti gildistíma þessara frv., ætti frekar að lengja hann en stytta og helzt að láta þau gilda ótímabundið, svo að hv. alþingismenn þurfi ekki ár eftir ár að vera að setja sömu lögin, enda er vitanlega jafnauðvelt með nýjum lögum að fella niður eða breyta þessum tekjustofnum, þó að slíkur háttur sé á hafður. En ég teldi alveg fráleitt af Alþ. að viðhafa þau vinnubrögð að eiga það á hættu að þurfa að endurtaka sömu lagasmiðina á tveggja mánaða fresti.

Hv. 1. þm. Norðurl. e., sem er annar þeirra manna, er skipa minni hl. fjhn. í þessu máli, sagði í ræðu sinni hér í hv. d. á laugardaginn, að hann hefði efnislega lítið sem ekkert út á frv. að setja. Hins vegar líkti hann þessum fimm frumvörpum við fimmbura og sagði, að eini gallinn væri bara sá, að þeir væru fæddir fyrir tímann. En ég vildi nú spyrja: Hvaða máli getur meðgöngutíminn skipt, ef börn eru fullburða? Hv. þm. hefur hér hagað sér eins og ljósmóðir, sem neitar að taka á móti börnum, ef þau fæðast ekki nákvæmlega á þeim tíma, sem þeirra er vænzt.

Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa nokkuð haldið því á lofti sem rökum gegn því að samþykkja þetta frv. nú, að 1. umr. um fjárlögin hafi enn ekki farið fram, og væri það einsdæmi að bíða ekki eftir því, þm. þyrftu fyrst að heyra hæstv. fjmrh. fylgja fjárlagafrv. úr hlaði og gera grein fyrir afkomu ríkissjóðs árið 1959, áður en þeir gætu lagt blessun sína yfir þetta frv., sem hér er til umr. Þar sem ég er nýliði hér á þessu þingi og þessum málum alls ekki nægilega kunnugur, vildi ég leyfa mér að spyrja þá hv. þm., sem mér eru eldri og reyndari, hvernig þessu hefur verið hagað til á undanförnum árum. Þegar þessi fjáraflafrv. hafa verið samþ. á síðustu árum, hefur það þá aldrei verið gert fyrr en að lokinni 1. umr. um fjárlögin? Hafa fjhn. beggja þingdeilda ekki einróma mælt með samþykkt þessara frv., áður en fjárlagaumr. fór fram? Hvaða upplýsingar geta það verið, sem komið hafa fram við 1. umr. um fjárlögin, er hafa leitt til þess, að tekjuöflunarfrv. hafa ætíð verið samþ. ágreiningslaust þrátt fyrir ærna óvissu og mjög mismunandi horfur í efnahagsmálum á þessum árum? Þessum spurningum vildi ég gjarnan fá svarað.

Frv. til fjárl. fyrir árið 1960 hefur þegar verið útbýtt hér á Alþ., þó að umr. um það hafi ekki enn þá farið fram og eigi sér væntanlega ekki stað fyrr en eftir áramót. Í aths. við þetta frv. er að finna þær þýðingarmiklu upplýsingar, að tekjur og gjöld ríkissjóðs árið 1959 muni þrátt fyrir hrakspár framsóknarmanna um hið gagnstæða nokkurn veginn standast á. Það ætti því að vera ljóst, að ríkissjóður hefur þörf fyrir sömu tekjustofna árið 1960 og á undanförnum árum, enda gera menn sjálfsagt ekki ráð fyrir, að útgjöld ríkissjóðs fari lækkandi á næsta ári. Situr a.m.k. sízt á framsóknarmönnum, sem í kosningabaráttunni töluðu sífellt um óreiðuskuldir og vanskilavíxla, að gerast þrándur í götu eðlilegra og venjubundinna fjáröflunarleiða. Með þeim tekjuöflunum, sem í frumvörpunum felast, er ekki á nokkurn hátt farið dýpra í vasa almennings en áður. Að unnt var að komast hjá því, er fyrst og fremst því að þakka, að minnihlutaríkisstj. Alþfl. tókst að lægja þá háskalegu verðbólguöldu, sem reis fyrir ári og olli því, að hæstv. forsrh. vinstri stjórnarinnar hljóp frá stýrinu á þjóðarskútunni í ofboði og lét aðra um að leysa þann vanda, sem að steðjaði.

Svo að ég víki máli mínu aftur að fundi fjhn. hv. Ed., sem haldinn var s.l. föstudag, er rétt að greina frá því, að hæstv. fjmrh. var mættur á þessum fundi eftir sérstakri ósk frá nefndarfulltrúum Alþb. og Framsfl. Ekki spurðu þessir fulltrúar hæstv. fjmrh. nema að mjög litlu leyti um fjárhagsmálefni og fengu greið svör við því. Fsp. þeirra snerust fyrst og fremst um væntanlega þingfrestun. Þessir fulltrúar nefndu ekki einu orði, að þeir teldu sig ekki geta tekið afstöðu til frv., sem hér er á dagskrá, og annarra, sem eins stendur á um, fyrr en umr, um fjárlögin hefðu farið fram. Þvert á móti, það var alveg ljóst, að þeir höfðu ekkert á móti því, að frv. þessi yrðu samþ. þegar í stað, aðeins ef þinginu yrði ekki frestað. Væri hins vegar staðið fast á frestun, mundu þeir tefja fyrir framgangi þessara frv. eftir föngum, þó að þeir hefðu engin málefnaleg rök fram að færa gegn þeim, og er það nú líka komið á daginn. Ég vil mælast til þess við hv. þm. stjórnarandstöðunnar, að þeir hætti nú málþófi sínu gegn nauðsynlegum og sjálfsögðum málum og hætti leit sinni að tylliástæðum til þess að mæla þeim í móti. Skeleggar ræður þeirra og rök gegn þingfrestuninni eiga þeir hins vegar eingöngu að flytja á réttri stundu og réttum stað, þegar það mál verður tekið fyrir í sameinuðu þingi.