09.02.1960
Efri deild: 17. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

51. mál, kornrækt

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta mál, kornræktarmálið, hefur verið lagt nokkrum sinnum fram hér á hv. Alþ. án þess þó að hljóta afgreiðslu. Og það frv., sem hér liggur fyrir, er efnislega nákvæmlega eins og það frv., sem var lagt fyrir Nd. Alþingis í fyrra og hlaut afgreiðslu þaðan til Ed., en var ekki afgreitt þaðan. Og ég vil gera nokkra grein fyrir þessu máli, líkt og ég gerði í fyrra, því að mér finnst að sömu rök hljóti að vera fyrir þessu máli nú og voru þá í öllum aðalatriðum. Og vil ég þá gera nokkra grein fyrir því, hvort nokkur möguleiki er á því eða hvort það er tómt mál að tala um, að kornrækt skuli almennt upp tekin hér á landi.

Það er talið, að fróðir menn segi, að hér muni auðvelt að rækta korn, a.m.k. í öllum hinum veðursælli sveitum og þá einkum sunnanlands. En lágmarkshitinn, sem þarf til þess, að korn nái fullum þroska, er 1150–1250 stig samanlagt um sprettutímann. En þessi tími má þó helzt ekki vera lengri en sem svarar 100–115 dögum. Og úrkomumagn á sama tíma þarf að vera sem næst 200–250 mm. Hafrar, hveiti og rúgur þurfa meiri hita og regn en byggið. Vegna þurrkunarefnainnihalds kornsins er æskilegast, að regnið sé mest fyrri hlutann af vaxtartímanum, en sólríkt aftur síðari hluta vaxtartímans eða rétt fyrir uppskeru kornsins.

Þetta eru talin þau höfuðskilyrði, sem þurfi að vera til staðar, ef góðs árangurs eigi að vænta til kornuppskeru hér og annars staðar. En hvernig eru þá þessi skilyrði hér á landi? Eftir því sem tilraunastjórinn Klemens á Sámsstöðum segir, þá álítur hann eftir áratuga tilraunir og margra ára reynslu, að hér sé vel hægt að rækta korn í allflestum árum eða sem næst 9 af hverjum 10 sumrum, og telur hann þetta ekki lakara en tíðkast t.d. í norðanverðum Noregi, en þar rækta bændur korn, þótt þeir búi við mun lakari skilyrði en þegar sunnar dregur í land Noregs. Það er vitað mál, að okkar frumbyggjar ræktuðu korn, og alltaf hefur kornræktin tíðkazt hér nokkuð, þótt oft hafi liðið áratugir þess í milli. En menn hafa haft misjafnan áhuga á kornrækt, enda hefur hún ekki unnið sér almennan sess í búrekstri okkar nema hjá sárafáum bændum, enda er veðurfar talsvert misjafnt hér á landi og því ekki þess að vænta, að bændur um allt land geti ræktað korn með jafnríkum árangri.

Það hlýtur að vera hvort tveggja í senn metnaðarmál og menningarmál hverrar þjóðar að vera sjálfri sér nóg á sem flestum sviðum, ef landsgæði og aðrir möguleikar leyfa slíkt. Hingað til hefur landbúnaður okkar Íslendinga byggzt á því, að við höfum stundað aðallega búfjárrækt, og er það vegna þess, að búféð hefur notað okkar jarðgróður, þ.e.a.s. þann gróður, sem er frá náttúrunnar hálfu, og þar með hefur því tekizt að nota okkar víðlendu graslendur, sem eru víðs vegar um landið. Á því hefur eiginlega búskapurinn hér byggzt frá upphafi, þótt síðar hafi verið horfið verulega til ræktunarbúskapar. En sá jarðargróður hér, sem fer beint til manneldis, fyrir utan kartöflur, er að mestu leyti fenginn með hjálp jarðhitans.

Okkur skortir ekki lönd til ræktunar, — það er öðru nær, — og eingöngu með því að þurrka landið er hægt að auka verulega gróður þess, því að við þurrkun eykst jarðvegshitinn til muna. Hið nýja landnám okkar Íslendinga er ungt eins og sjálfstæði landsins. En þetta landnám hefur sýnt það, að við getum ræktað þau grös, sem áður þrifust ekki. Þekking bóndans á viðfangsefnum sínum hefur batnað. Ný tækni hefur komið til sögunnar, sem gerir það mögulegt, sem áður reyndist illfært, og þannig mætti lengi telja. En þetta sýnir okkur líka inn í þá heima, sem marga hefur dreymt um á undanförnum árum, að hér megi auka til muna fjölbreytni í ræktun nytsamra jurta. Ræktun skjólbelta og nytjaskóga hefur ómetanlegt gildi fyrir annan gróður og ekki sízt kornræktina, sem þarfnast bæði skjóls og mikils yls. Þá mun ný og betri tækni gera auðveldara með þreskingu korns og þurrkun en áður tíðkaðist, því að til eru vélar, sem gera allt í senn, að slá akurinn, þreskja kornið og koma því í sekki jafnharðan. Og vel þekkt er súgþurrkun orðin hér á landi, og auðveldar hún til muna þurrkun korns frá því, sem áður vari, enda var það oft mikið vandamál í votviðrasveitum, því að oft eru rigningar hér á landi um það leyti, sem uppskerutími kornsins er.

Við Íslendingar eyðum árlega nokkrum millj. kr. í innflutning á kolvetnisfóðurbæti, auk þess sem við flytjum inn í landið allt korn til manneldis. Kornrækt hér á landi mun vafalaust geta sparað okkur þennan innflutning að miklu eða öllu leyti, þegar tímar líða. Tilraunir þær, sem staðið hafa yfir í áratugi, sýna, að korn nær hér fullum þroska í allflestum árum og að uppskerumagnið er sem næst 20 tunnur á hektara. Við höfum því tæplega efni á að notfæra okkur ekki þessa möguleika, sem tíðarfarið og jarðvegurinn sýna að okkur er í alla staði hagstætt.

Það frv., sem hér er til umr., miðar að því að glæða áhuga þeirra manna, sem vilja rækta korn, en treysta sér ekki til að hefjast handa nema með einhverjum fjárhagslegum stuðningi þess opinbera, enda gerir frv. ráð fyrir, að svo verði gert á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er framlag til vélakaupa, og í öðru lagi er framlag til jarðvinnslu líkt og við aðra ræktun, í þriðja lagi að nokkru leyti til verðlauna til þeirra, sem ná mjög ríkum árangri í kornrækt. En skilyrði fyrir því, að framlag sé veitt til kornræktar, eru í 3. gr. frv., og eru þau í aðalatriðum þessi.

Það er það fyrsta, að akurlendi sé þar svo í sveit sett, að vænta megi í öllu venjulegu árferði, að korn nái fullum þroska, og í öðru lagi, að aðilar myndi með sér félagsleg samtök, kornræktarfélög, er skuldbindi sig til um 10 ára tímabil að framkvæma bygg- og hafrarækt til þroskunar á minnst 10 hektara landi. Búnaðarsambönd, ræktunarsambönd eða búnaðarfélög geta gerzt aðilar að vélakaupum og leigt vélarnar kornræktunarfélögum eða einstaklingum. Að frágengnum þessum aðilum er einstaklingi heimil aðild að stuðningi þeim, er lög þessi veita, enda uppfylli hann þá kröfu, sem gerð er til einnar félagsheildar. Í þriðja lagi hafi hlutaðeigandi félag eða einstaklingur yfirráð yfir landi, er sé minnst tvöföld stærð þess lands, er hann semur um kornræktina á, og sé allt landið í því þurrkunarástandi, að fullnægjandi geti talizt til kornræktar. Í fjórða lagi skuldbindi aðilar sig til að hlíta þeim reglum, er settar verða um vinnslu landsins, áburðarnotkun, tegundaval sáðkorns, uppskeru þess og meðferð alla til tryggingar því, að framleiðslan verði sem bezt vara. Og í fimmta lagi haldi þeir þær skýrslur, sem fyrirskipaðar verða, um allt, er varðar tilkostnað og tekjur rekstrarins, enn fremur uppskeruskýrslur og nákvæmt yfirlit um alla framkvæmd ræktunarinnar, svo að séð verði, á hvaða tíma hvert verk er unnið af framleiðslunni. Og í sjötta lagi ber samningsaðilum að skila aftur til þess aðila, er annast framkvæmd laga þessara, þeim vélum og tækjum, sem stofnstyrkur hefur verið greiddur til, ef kornrækt fellur niður, og skulu þá dómkvaddir menn meta þá endurgreiðslu, sem hlutaðeiganda ber.

Ég tel, að frv. þetta miði í senn að því að gera einstaklingum og félögum þeirra fjárhagslega mögulegt að hefja kornrækt, þótt í smáum stíl sé til að byrja með, jafnframt því sem mjög hóflega er farið í sakirnar gagnvart því opinbera með fjárstuðning. Ég vænti því þess, að þetta mál, sem er margundirbúið og endurskoðað af svo vel bændum sem þeirra höfuðfélögum og fagmönnum, sé nú lagt fram í þeim búningi, að Alþ. megi vera stolt yfir því að greiða götu þess með því að samþykkja það nú á þessu þingi. Ég fer ekki hér út í neina útreikninga varðandi kostnað í sambandi við þessa löggjöf fyrir ríkið, enda horfa þau málefni þannig við nú, að það er tæplega um það hægt að segja. En ég vænti þess, að þegar n. hefur athugað þetta mál, geti þær upplýsingar kannske legið skýrar fyrir, og ég legg til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til landbn, og 2. umr.