31.03.1960
Efri deild: 52. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (2462)

51. mál, kornrækt

Fram. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um kornrækt, mun vera orðið allgamall kunningi hér á Alþ. á undanförnum árum, því að það mun hafa komið fyrir þingið oftar en einu sinni, en strandað í nefndum.

Eins og kunnugt er, var á fyrstu tímum Íslandsbyggðar talsvert mikið um kornrækt hér á landi, en síðar lagðist hún niður með öllu, svo að öldum skiptir, eða a.m.k. svo að segja öllu. Menn halda, að á fyrstu tímum landsbyggðarinnar hafi verið hlýrra tíðarfar en síðar og að þetta sé eitt með öðru, sem hafi valdið því, að þessi atvinnugrein lagðist niður. Af og til hafa þó verið til menn, sem hafa verið að reyna að stunda kornrækt, og einkum nú á síðustu árum eða áratugum eftir 1930 og fram á þennan dag, og nú hefur reynsla þessara manna hina síðustu áratugi orðið sú, að korn muni geta þrifizt hér á landi í sumum byggðarlögum allt að því eins vel eða jafnvel engu lakar en í nágrannalöndum okkar. Mun það kannske stafa af því, að nú hin síðustu ár sé tíðarfar hlýnandi frá því, sem áður var, og bendir raunar margt til þess, bæði veðurathuganir, hitamælingar og kannske þó einna áþreifanlegast það, að nú er hafísinn, „landsins forni fjandi,“ ekki lengur þekktur hér á landi síðan 1918.

Það mun hafa verið um 1952, sem skipuð var nefnd til að athuga um þessi mál og gera tillögur um það, hvort hægt mundi vera eða ráðlegt að reyna að hefja þennan atvinnuveg aftur til vegs hér á landi. Þessi nefnd mun hafa unnið verk sitt vel og vandað til að því leyti, að hún safnaði að sér ýmiss konar gögnum og skýrslum frá þeim mönnum, sem við þetta mál höfðu fengizt þá að undanförnu, og vann úr þeim. Það kom í ljós, að margir menn á landinu höfðu reynt kornrækt og sumir náð býsna góðum árangri. En allt var þetta þó í smáum stíl og kostnaður við þetta hjá þessum mönnum svo mikill, að margir af þeim hættu fljótlega, þrátt fyrir það þó að þeir fengju sæmilega uppskeru. Ég hef talað við tvo menn úr þeirri nefnd, sem þetta hafði til undirbúnings og samdi fyrstu drög að því frv., sem hér liggur fyrir, Pálma Einarsson landnámsstjóra og Jón á Reynistað, og eftir þeirri skýrslu, sem fyrir lá hjá Pálma Einarssyni um þessar athuganir, virtist sem svo, að í fjórum árum af hverjum fimm, sem athuganirnar náðu til, hefði korn, bygg og hafrar, sprottið það vel, að kornið hefði náð fullum þroska, og miðað við landsstærð varð útkoma ekkert lakari en t.d. í Noregi. Ég hef einnig talað við tvo þá menn hér á landi töluvert mikið um þetta, sem mest hafa fengizt við kornrækt nú hin síðustu ár, Klemenz á Sámsstöðum og Svein á Egilsstöðum, og þeir eru báðir algerlega sannfærðir um, að það megi rækta í þeirra byggðarlögum, á Fljótsdalshéraði og í Fljótshlíða.m.k. korn í stórkostlegum mæli, þannig að það gefi fulla uppskeru og raunar ágæta uppskeru miðað við það, sem er í nágrannalöndum okkar. En það, sem á hefur strandað alltaf hjá þessum mönnum, sem hafa verið að fást við þetta, er það, að undirbúningur er svo dýr, einkum að því er vélar snertir, að einstakir menn hafa flestir eða allir gefizt upp við þetta fljótlega eftir að hafa byrjað á því. Þó mun einn maður rækta korn núna þessi árin í talsvert miklum mæli, a.m.k. einn, Sveinn Jónsson á Egilsstöðum.

Ég býst nú við, að menn vilji fá að vita eitthvað um það, áður en þeir taka afstöðu til þess, hvort ríkið fari að kosta eða styrkja kornyrkju, um hve mikið fé muni vera að ræða og hve mikill kostnaður sé raunverulega fyrir einn bónda að ætla sér að stofna til kornræktar eða þá félagasamtök. Og eftir því sem ég kemst næst, er það minnsta í vélakaupum, til þess að fullkomnar vélar séu fyrir hendi og til þess að hægt sé að stunda þennan atvinnuveg á þann hátt, sem atvinnuvegi verður að stunda nú á dögum með fullkomnum tækjum, þá muni vélar kosta í minnsta lagi um 200 þús. og allt upp í hálfa millj. eftir því, hve fullkomnar vélar eru teknar til þessara starfa.

Ég hef hugsað talsvert mikið um þetta mál, og ég hef litið svo á, að það mundi ekki vera rétt að veita þessu máli öllu lengur fyrir sér en búið er. Það er búið að fara á milli allra helztu framámanna í landbúnaði og fá sínar athuganir og afgreiðslur þar, og allir hafa þeir lagt með því, að ríkið gerði eitthvað til þess að auka áhuga fyrir þessu máli og koma á stað einhverjum verulegum framkvæmdum, sem þá væri hægt að sjá af, hvers mætti vænta í framtíðinni.

Og landbn. hefur orðið sammála um það að leggja til, að þetta frv., sem hér var lagt fram á Alþ. fyrir nokkuð löngu, verði samþ. í öllum aðalatriðum. Við höfum lagt fram á sérstöku þskj. nokkrar brtt., sem að mestöllu leyti lúta að því að breyta ofur lítið um orðalag á gamla frv., sem okkur fannst vera allmikið ábótavant eða a.m.k. það færi mun betur á því að orða þar sumar greinar öðruvísi. Þó eru þar í tvær efnisbreytingar. Önnur er um það, ef frv. verður að lögum og til styrkveitinga kemur fyrir kornrækt, að binda það ekki einungis við bygg og hafra, heldur fleiri korntegundir, ef það þætti sýna sig, meðan l. eru í gildi, að um fleiri korntegundir gæti verið að ræða að rækta hér á viðlíka arðvænlegan hátt. Annað er það, sem snertir kostnaðarhliðina. Það er 8. gr. í frv., eins og það liggur hér fyrir. Þar er gert ráð fyrir, að hámarksstyrkur til vélakaupa geti verið 50 þús. kr., en eins og nú horfir allt með verðlag og eins það, að vélar gerast alltaf fullkomnari og fullkomnari til þessarar vinnslu eins og annarrar, þá teljum við, að það muni ekki geta gengið, að þetta sé minna en 100 þús. kr. til félags, sem stundar kornyrkju á 10–20 hektörum lands eða meira. Að öðru leyti held ég að málið liggi nú þannig fyrir, að þess sé ekki að vænta, a.m.k. í byrjuninni, að það verði mörg félög eða mörg samtök mynduð til að biðja um styrk til vélakaupa, enda gerir lagafrv. ráð fyrir því, að það sé aðeins til fimm félaga á ári greiddur styrkur. Samkv. því ætti þetta að geta kostað ríkissjóð, ef það væri greitt í hámark, — sem yrði þá á hverjum tíma á valdi landbrh., — í kringum hálfa milljón.

Ég sé ekki ástæðu til að vera að halda hér langa framsöguræðu um þetta. Ég tel málið það mikilsvert, að það sé raunar ekki sæmilegt annað en að sinna því og reyna að koma á tilraunum í þessa átt í nokkuð stórum mæli, því að ef reynslan sýndi það, að hér væri hægt að rækta korn svo ódýrt, að það þyldi samkeppni við aðra atvinnuvegi í landinu, þá er auðvitað alveg einboðið að gera það í miklum mæli í þessu landi eins og öðrum.

Mér var bent á það hér áðan mjög vinsamlega, að þar sem við höfðum verið að lagfæra málfar á frv. í n., þá mundi þó enn vera hægt að bæta um málfar þess, og er rétt að athuga það. Hér má lengi um bæta. En ég held nú samt, að orðalag á frv. í heild hafi batnað í meðförum nefndarinnar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa lengri framsögu í þessu máli. Ég tel málið fyllilega þess vert, að því sé gaumur gefinn, og legg til, að frv. verði samþ., með þeim breytingum, sem hér eru fram komnar.