07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (2494)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hvað er það, sem gerir þingfrestun þá, sem ríkisstj, er nú að berja í gegnum þingið, sérstæða og dæmalausa með öllu í þingsögu Íslendinga? Það er þetta: Alþingismenn fá fyrst að heyra um þingfrestunina í blöðum stjórnarflokkanna, og þar er sagt frá því sem gerðum hlut, að Alþ. verði sent heim, áður en málið er tilkynnt á sjálfu Alþingi. Nýkjörið Alþingi er leyst upp og sent heim á fyrstu starfsdögum þingsins, og munu engin dæmi um slíkt í allri þingsögunni. Þingfrestunin er knúin í gegn án samráðs við stjórnarandstöðuna, og slíkt er alveg óvenjulegt. Alþ. á að senda heim, án þess að því hafi gefizt tími til að ljúka beinum og ótvíræðum skyldustörfum sínum. Þannig átti að senda þingið heim, áður en ríkisstj. legði fyrir þingið brbl. um verðlagningu landbúnaðarvara, þó að bein fyrirmæli séu í stjórnarskrá landsins um að skylt sé að leggja brbl. þegar fyrir næsta þing, sem saman kemur, eftir að brbl. hafa verið gefin út, — og þannig á að senda þingið heim, áður en 1. umr, fjárlaga hefur farið fram og áður en fjmrh. gefur þá skýrslu um fjármál ríkissjóðs, sem undantekningarlaus venja hefur verið, að gefin væri í byrjun hvers fjárlagaþings.

Strax í þingbyrjun er reynt að keyra mál í gegn á næturfundum og svo langt gengið um óvenjulegan fundartíma, að þingfundur er haldinn á þeim tíma, sem fullveldisfagnaður fer almennt fram í höfuðborginni, og 1. desember þannig gerður að fundardegi á Alþingi.

Umræður um þingmál eru skornar niður á algerlega fordæmalausan hátt. Í ofurkappi ríkisstj. að knýja fram þingfrestun í upphafi þings er gengið svo langt, að ráðherrar kasta fram frumvörpum og krefjast þess, að þau séu afgreidd á næturfundum, en sömu ráðherrar óvirða þingið með því að mæta ekki á þingfundum til þess að svara fyrirspurnum, sem þeim þó ber ótvíræð skylda til að gera.

Þingfrestunina ber því að með næsta einkennilegum hætti að þessu sinni.

Það er algerlega rangt, sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa haldið fram hér í kvöld, að stjórnarandstaðan hafi ekki viljað samþykkja þingfrestun og veita ríkisstj. vinnufrið. Um það hefur engin deila staðið, heldur hitt, að ríkisstj. ætlar að knýja fram þingfrestun, án þess að þingið fyrst ljúki skyldustörfum sínum. Hér hafa viðurkenndar þingræðisreglur verið þverbrotnar, gamlar þingvenjur fótum troðnar og minni hl. á Alþingi beittur grímulausu ofbeldi. Þessar vinnuaðferðir ríkisstj. bera vott um lítilsvirðingu á Alþingi Íslendinga, þingsköpum þess og gömlum þingreglum. Þær sýna hættulega ofbeldishneigð, sem gjalda verður varhug við, ef ekki á í algert óefni að reka.

En hvers vegna grípa stjórnarflokkarnir til þessara dæmalausu vinnubragða? Hvað rak þá út í þessar ógöngur? Það er skoðun mín, að tvennt ráði hér mestu um. Annað er það, að flokkar ríkisstj. hafa leikið sig inn í pólitíska sjálfheldu með setningu brbl. um verðlagningu landbúnaðarvara. Annar flokkurinn hefur hátíðlega lýst yfir því, að hann sé á móti brbl. og muni fella þau á Alþingi. Hinn flokkurinn gaf lögin út og segist standa og falla með lögunum. Annar stjórnarflokkurinn hefur lofað bændum að greiða þeim 3.18% verðhækkun á afurðir, en hinn hefur látið ýmsa framámenn sína lýsa því yfir, að þeir fallist aldrei á að greiða bændum þessar uppbætur. Greinilegt er, að stjórnarflokkarnir hafa ekki fremur samið um þetta vandamál sín á milli en önnur, og því standa þeir nú ráðalausir frammi fyrir brbl. Bráðabirgðalögin ganga úr gildi 15. des. n.k., og fyrir þann tíma verður eitthvað að gerast í verðlagsmálum landbúnaðarins. Ráðleysi ríkisstj. í þessum efnum brýzt svo fram í því að reyna að losa sig við þingið fyrir 15. des. og skapa sér þannig aðstöðu til þess að klóra yfir vandann, væntanlega með nýjum brbl.brbl., sem sett væru rétt eftir að löglega kosið Alþingi væri þannig rekið þeim, væri auðvitað hið freklegasta þingræðisbrot.

Hin ástæðan til þessa ofurkapps, að reka þingið heim strax í þingbyrjun, er eflaust úrræðaleysi ríkisstj. í efnahagsmálunum og stórháskalegar till. nokkurra stuðningsmanna hennar í þeim málum. Það hefur að vísu orðið ljóst, að stjórnarflokkarnir hafa hvorki í efnahagsmálunum né öðrum málum samið um neina fasta stefnu. Þeir hafa aðeins komið sér saman um, að þjóðin lifi um efni fram og því sé nauðsynlegt að skerða lífskjör almennings í landinu. Sú yfirlýsing gefur út af fyrir sig glögga hugmynd um, í hvaða átt stefna á.

Af orðum og yfirlýsingum hæstv. ráðherra er erfitt að henda reiður á, hvernig ástatt er í efnahagsmálum landsins. Allir landsmenn kannast við, að fyrir nokkrum mánuðum lýsti þáv. forsrh., Emil Jónsson, yfir því, að hagur útflutningssjóðs væri góður. Menn muna líka, að þáv. fjmrh. lýsti yfir því, að hagur ríkissjóðs væri með bezta móti. Þessir hæstv. ráðherrar neituðu því báðir þá, að um nokkra óreiðuvíxla dregna á framtíðina væri að ræða varðandi fjármálalegar skuldbindingar ríkissjóðs og útflutningssjóðs. En svo skiptu þessir ráðherrar lítillega um ráðherratitla án þess þó að ganga út úr stjórnarráðinu. Á samri stundu virtist allt snúast við. Hinn nýi forsrh., Ólafur Thors, gekk daginn eftir stjórnarmyndunina á fund í Varðarfélaginu. og þar tilkynnti hann söfnuði sínum. að ástandið í efnahagsmálunum væri miklu alvarlegra en nokkurn hefði órað fyrir, og bætti því við svona til skýringar, að vanta mundi um 250 millj. kr. í ríkissjóð og útflutningssjóð.

Núv. hæstv. fjmrh., ráðherrann, sem týndist á Alþingi núna í jólaönnunum. hefur staðfest ummæli Ólafs Thors og segir að vanta muni 200–300 millj. kr. Til frekari áherzlu á hinum gífurlega vanda lýsti hann því yfir, að stjórnin mundi taka upp nýtt fjármála- og fjárhagskerfi í stað þess, sem notazt hefur verið við að undanförnu. Allir hafa skilið yfirlýsingu fjármálaráðherrans svo, að afnema eigi núverandi uppbóta- og millifærslukerfi, en jafna eigi þess í stað reikningana með stórkostlegri gengislækkun.

Yfirlýsingar ráðherranna eru harla ósamhljóða, eins og þessi dæmi sýna. þar er hver á flótta undan öðrum, og allir eru ráðherrarnir á flótta undan almenningsálitinu í landinu. En það, sem gefur öruggasta heimild um það, sem í ráði er að gera í efnahagsmálunum, er prógrammræða sú, sem ráðunautur ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónas Haralz, flutti. sýnilega að tilhlutun stjórnarflokkanna á sjálfan fullveldisdaginn, 1. des. s.l. Efnahagsráðunauturinn lagði í ræðu sinni áherzlu á, að tvö vandamál væri fyrst og fremst við að glíma í íslenzkum efnahagsmálum nú í dag, annað var gjaldeyrisskorturinn eða hallinn í viðskiptunum við útlönd, en hitt var verðbólgan innanlands. Þeir munu vera margir, sem viðurkenna með ráðuneytisstjóranum, að þessi eru einmitt höfuðvandamálin. En hvað um úrræði hans og ríkisstj.? Hver eru úrræðin til þess að bæta úr gjaldeyrisskortinum? Jú, þau eru stórfelld gengislækkun. Gengislækkun, sem jafngildir núverandi uppbótakerfi, mundi leiða til hækkunar á verði meðalfiskibáts um 2 millj. kr. og hækkunar á verði venjulegs togara um 10 millj. kr. Hliðstæð verðhækkun yrði á öllum öðrum framleiðslutækjum. Afleiðingarnar yrðu þær sömu nú og þær urðu af gengislækkuninni 1950. Uppbygging sjávarútvegsins mundi stöðvast. Þá stöðvuðust öll fiskiskipakaup í sex ár, og hlutur framleiðslunnar í heildargjaldeyrisöflun þjóðarinnar fór þá minnkandi frá ári til árs. Gengislækkun mundi leiða af sér versnandi kjör sjómanna eins og annars vinnandi fólks. Í kjölfar þess mundu sigla vinnudeilur og truflanir í rekstri framleiðslunnar. Gjaldeyrisskorturinn mundi því ekki minnka, heldur aukast og afkoma atvinnuveganna mundi versna.

Og hvaða úrræði hafði svo ráðunautur ríkisstj. til þess að draga úr verðbólgunni innanlands? Jú, ráðið var hið sama og til lausnar á gjaldeyrisvandamálinu, stórkostleg gengislækkun. Ráðið gegn verðbólgunni er sem sagt að stórhækka allt verðlag innanlands, án þess þó að kaup hækki á móti. Ráðið er að gera eignir stóreignamanna verðmeiri en þær eru nú, skera niður verðgildi sparifjárins, skara eld að köku skuldakónga og braskara. Gengislækkunin mundi fljótlega leiða til kauphækkana vegna ört vaxandi dýrtíðar, og búast mætti þá við áframhaldandi verðhækkunum og stóraukinni verðbólgu. Gengislækkun er engin leið til lausnar á vandamálum íslenzkra efnahagsmála í dag. Hún er þvert á móti háskaleg ráðstöfun, sem mundi stórauka á vandann. Sú stefna, sem í upphafi var boðuð af vinstri stjórninni og framkvæmd þar til á miðju ári 1958, stöðvunarstefnan, þ.e.a.s. að stöðva verðlagshækkanir eins og mögulegt var í nánu samstarfi og samráði við bændur og verkamenn, en leggja jafnhliða höfuðáherzluna á uppbyggingu framleiðslunnar, stöðvunarlausan rekstur framleiðslutækjanna, bætt kjör sjómanna og fyrirframsamninga um markaði, það var rétt stefna. Sú stefna leiddi til þess, að árið 1957 jókst þátttaka báta á vetrarvertíðinni um 20% og á sumarsíldveiðunum um 25%. Sú stefna leiddi til þess, að aukin gjaldeyrisframleiðsla í sjávarútvegi nam 200 millj. kr. árið 1958. Hún leiddi til stórfelldrar aukningar í fiskiskipaflota landsins, sem nú mun fara að segja til sin í aukinni framleiðslu, ef röng stefna í efnahagsmálunum kemur ekki í veg fyrir það.

Möguleikar til aukinnar gjaldeyrisöflunar eru auðsæir öllum þeim, sem eitthvað þekkja til í íslenzku atvinnulífi. Vetrarsíldveiðin á t.d. eftir að færa okkur hundruð millj. í gjaldeyrisverðmæti. Við höfum á undanförnum árum glímt við þann vanda að ná vetrarsíldinni með hóflegum kostnaði. Það gefur auga leið, að síldveiðar að vetrarlagi í reknet eru kostnaðarsamari en sumarveiðar í herpinætur og að verðminni vetrarsíld en úrvals sumarsíld gat því aldrei verið framleidd við sömu fjárhagsaðstæður. Hefðu rétttrúarmenn um gengisskráningu ráðið stefnunni, hefði engin vetrarsíld verið hagnýtt hér á undanförnum árum, og þannig mætti nefna fleiri dæmi úr atvinnulífi þjóðarinnar.

Erlendir bókstafstrúarmenn munu aldrei leysa þann vanda, sem við er að eiga í íslenzkum atvinnumálum. Reynslan af ráðum þeirra er ekki góð. Árið áður en nýsköpunarstjórnin var mynduð sögðu slíkir menn, að efnahagur landsins stæði á brauðfótum. Þá átti þjóðin erlendar innistæður, sem námu 500 millj. kr. Þá var sagt, að það væri fjörráð við íslenzka atvinnuvegi að ráðast í kaup á nýjum framleiðslutækjum án þess að knýja fyrst fram kauplækkun hjá verkafólki. Í samfellt 20 ár hafa sömu menn og nú prédika gengislækkun óskapazt yfir verðbólgu og sagt, að þjóðin væri að ganga fram af brúninni. Þegar þeir hafa komið fram ráðum sínum, hefur það orðið til bölvunar og þjóðhagslegs tjóns. Gengislækkun þeirra 1950 féll um sjálfa sig strax á fyrsta ári og án þess að nokkur kauphækkun væri þó skollin á þá. Strax í ársbyrjun 1951 varð að taka upp bátagjaldeyriskerfið gengislækkunarreikningsmeisturunum til háðungar.

Verðbólgan innanlands hefur verið og er atvinnulífi landsins þung í skauti. En hverjar eru orsakir verðbólgunnar? Enginn vafi er á því, að sérfræðingar ríkisstj. vita það fullvel. En hvers vegna nefna þeir þá ekki orsakirnar? Skýringin er augljós. Orsakir verðbólgunnar er að rekja til þess, sem er nokkurt feimnismál ríkisstjórnarflokkanna. Orsakir verðbólgunnar er að rekja til hernáms landsins. til Marshallpeninga, til stríðsgróða og til flugvallarframkvæmdanna nú síðustu árin. Hernámið hefur truflað eðlilegan atvinnurekstur í landinu, gert nokkra menn ríka á braski og dregið vinnuafl frá gjaldeyrisatvinnuvegum landsins. Þessi verðbólguvaldur er enn í gangi, og það eru hernámsflokkarnir, gengislækkunarflokkarnir, sem bera ábyrgð á því.

Ríkisstj. mun nú takast að reka Alþingi heim. Hún mun beita meirihlutavaldi sínu til þess. Ríkisstj. hefur með yfirlýsingum sínum og frestun Alþingis í byrjun þingtímans skapað ugg og ótta hjá þjóðinni. Gjaldeyrismál landsins hafa komizt í algert öngþveiti nú síðustu dagana, sparifé er rifið út úr bönkunum, og gjaldeyri er ekki skilað til bankanna. Afleiðingarnar eru, að gjaldeyrir til nauðsynlegustu vörukaupa, eins og til kaupa á rekstrarvörum til næstu vetrarvertíðar, fæst enginn. Alþingi er látið hlaupa frá verðlagsmálum landbúnaðarins óleystum. Engir samningar eru hafnir um rekstur bátaútvegsins á næsta ári. Stéttarfélög hafa almennt sagt upp kjarasamningum, og yfirmenn á fiskiskipum búa sig undir verkfall. Það er greinilegt, að vinnubrögð ríkisstj. leiða út í algert öngþveiti. Ríkisstj. getur auðvitað frestað fundum Alþingis í tvo mánuði. en hún getur ekki frestað vandamálum atvinnuveganna. 15. des. kemur á sínum tíma, og þá ganga úr gildi lögin um verðlagningu landbúnaðarvara. Og 1. jan. kemur líka á sínum tíma, og þá á vetrarvertíðin að hefjast og þar með aðalgjaldeyrisöflun þjóðarinnar á næsta ári. Fyrir þennan tíma verður að leysa vanda atvinnuveganna. En hvað ætlar ríkisstj. sér að gera? Ætlar hún að leysa allt með nýjum og nýjum brbl.? Er meiningin að stjórna án þings? Eða er kannske ætlunin að láta allt drasla þangað til 28. janúar? Á kannske að drýgja gjaldeyristekjurnar með því að fresta allri bátaútgerð í janúar, eins og gert var, þegar íhaldið síðast hafði stjórnarforustuna á hendi?

Í dag, daginn, sem Alþingi á að rekast heim, hófst hér í Reykjavík árlegur aðalfundur Landssambands ísl. útvegsmanna. Sá fundur gerir eflaust sams konar kröfu til ríkisvaldsins og jafnan áður, þ.e.a.s. þá að fá fastan samning um rekstrargrundvöll bátaútvegsins á næstu vetrarvertíð. Fáist slíkur samningur ekki, má búast við stöðvun flotans samkvæmt yfirlýstri stefnu samtaka bátaútvegsmanna. Og í gær lauk hér í Reykjavík fundum fullskipaðrar sambandsstjórnar Alþýðusambands Íslands. Þar var m.a. gerð svo hljóðandi samþykkt einróma:

„Með tilliti til þeirrar óvissu. sem nú ríkir um aðgerðir stjórnarvalda í efnahagsmálum þjóðarinnar og kjaramálum verkalýðsstéttarinnar, telur sambandsstjórnin eðlilegt, að félögin hafi lausa samninga sína, þar til framvinda þeirra mála skýrist, jafnframt því sem hún varar alvarlega við öllum fyrirætlunum og aðgerðum, er rýrt gátu raunveruleg launakjör alþýðunnar í landinu.“

Að þessari samþykkt Alþýðusambands Íslands standa jafnt Alþýðubandalagamenn og Alþýðuflokksmenn, jafnt þeir alþingismenn Alþb. sem sá alþingismaður Alþfl. sem sæti á í stjórn Alþýðusambandsins. Alþýðusambandið hefur varað ríkisstj. við að efna til átaka í þjóðfélaginu. Ríkisstj. má vita, að þung alvara er að baki þessari aðvörun. Það er næsta furðulegt, að ríkisstj. skuli velja sér leið ofbeldis og yfirgangs, þegar þannig er ástatt sem raun er á í atvinnu- og fjárhagsmálum landsins.

Hin ofbeldislegu vinnubrögð stjórnarinnar boða ekkert gott. Þau æsa til ófriðar. Hótanir stjórnarinnar um gengislækkun og skerðingu lífskjara hljóta að leiða til vinnudeilna og harðra átaka í þjóðfélaginu. Slík átök yrðu þjóðarheildinni til tjóns. Það er almennings í þessu landi að koma í veg fyrir, að ríkisstj. efni til slíks glapræðis.