18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2588)

23. mál, hagnýting farskipaflotans

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég tel, að það sé varhugavert af alþm. að segja eða tala um, að menn hafi ekki vit á einstökum málum. Ef þeirri kenningu ætti að fylgja út í æsar, þá væri eins gott fyrir okkur alla að pakka saman og fara heim og láta sérfræðinga stjórna landinu.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. vil ég skýra frá því, að það eru til ýmis dæmi þess í þjóðfélaginu. að það gefst prýðilega að fá menn úr öðrum starfsgreinum, sem ekkert vit hafa á hlutunum, til að taka verk að sér. Það eru til dæmi um það, að dugnaðarbændur hafa verið teknir og gerðir að kaupfélagsstjórum og þá staðið sig með mikilli prýði. Það eru líka til dæmi um það, að duglegir kaupfélagsstjórar hafa verið teknir og settir yfir heila skipaflota og hafa dugað þar alveg prýðilega. Ef niðurstaðan yrði nú sú, að annaðhvort hæstv. forsrh. eða hv. 5. þm. Norðurl. v. yrði valinn í n., þá færu að aukast líkur á því, að e.t.v. kynni hún að gera eitthvert gagn. Þar að auki eru ýmsir sérfróðir menn til í þessum greinum, sem mætti fá einn eða fleiri í þetta starf, svo að það þyrfti ekki einu sinni að bæta neinni nefnd við, þó að þessi tillaga yrði samþykkt.