08.04.1960
Sameinað þing: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

93. mál, klak- og eldisstöð fyrir lax og silung

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Till. til þál. um eldisstöð fyrir lax og silung, sem ég hef leyft mér að flytja hér á hv. Alþ. ásamt 5 þm. úr Norðurlandskjördæmi eystra, hefur nú legið hér alllengi fyrir Alþ., og síðan þeirri till. var lýst í þingfréttum, hafa borizt hingað til Alþ. mjög margar áskoranir um að samþykkja þessa till. Auk þess hafði búnaðarþing þetta mál til meðferðar núna ekki alls fyrir löngu og var mjög á sömu línu og fram kemur í þessari till.

Ég hafði hugsað mér að tala dálítið fyrir þessu máli hér, því að ég tel það mikilsvert, en eftir ósk hæstv. forseta vil ég vera ákaflega stuttorður og get þar af leiðandi varla farið út í málið og verð að vísa til þeirrar grg., sem fylgir till. ásamt löngu bréfi og skýringum á þessu máli frá veiðimálastjóranum, sem er prentað með till.

Þetta er að mínu áliti mjög mikilsvert mál, að taka nú til meðferðar það verkefni að ala upp og rækta lax og silung í eldisstöðvum svipað og gert er nú víða erlendis. Bæði Bandaríkjamenn og Danir og margar þjóðir aðrar hafa komizt talsvert langt í því að ala upp fisk, klekja út fiskahrognum og ala fiskinn upp, þar til hann er orðinn nokkuð stálpaður, og sleppa honum þá fyrst í ár og vötn, og þá er fiskurinn kominn yfir það tímabil ævinnar, þegar mest vanhöld verða á ungviðinu. Í öðru lagi er það nú mjög framkvæmt víða erlendis að ala fisk upp beinlínis, þangað til hann er orðinn það vaxinn, að hann er markaðsvara. Þetta er nokkurs konar kvikfjárrækt og á þessu sviði álít ég að mjög miklir möguleikar séu fyrir hendi hér á landi. En eins og ég lofaði hæstv. forseta, þá skal ég ekki ræða málið neitt teljandi hér. Ég held, að það sé víst, að áhugi sé fyrir málinu, og til að sýna það ætla ég að lesa upp lista yfir þær áskoranir, sem borizt hafa hv. Alþ. út af þessu máli, síðan það kom fram.

Það er áskorun frá Veiðifélagi Rangæinga, Veiðifélagi Árnesinga, frá Stangveiðifélaginu Fossum, Reykjavík, frá Veiðifélagi Víðidalsár í Húnavatnssýslu, frá Veiðifélagi Vatnsdalsár í Húnavatnssýslu, frá Sambandi ísl. stangveiðimanna, frá Stönginni h/f, Reykjavík, frá Veiðifélagi Reykdæla, Suður-Þingeyjarsýslu, frá Veiðifélagi Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, frá Stangveiðifélagi Stykkishólms, frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur, frá Stangveiðifélagi Austurlands, frá Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar, frá Sambandi ísl. veiðifélaga, frá Veiðifélagi Norðfjarðar, frá Stangveiðifélagi Bolungavíkur, frá Veiðifélagi Þverár, Síðumúla, frá fiskiræktar- og veiðifélagi Úlfarsár, Blikastöðum, frá Stangveiðifélagi Ísafjarðar, frá Stangveiðifélagi Borgarness, frá Veiðifélaginu Straumum, frá Veiðifélagi Miðfirðinga, frá Veiðifélagi Fnjóskár í Suður-Þingeyjarsýslu, frá Veiðifélagi Hrútafjarðarár, frá Veiðifélagi Flóka, Laugarási, frá Veiðifélagi Akraness.

Þetta eru þær áskoranir, sem ég hef orðið var við hér á hv. Alþ., að borizt hafa um að samþ. þessa þáltill., og geta þær verið fleiri og eiga sennilega eftir að koma fleiri, því að síðast í dag komu fram tvær.

Þá vil ég að lokum vænta þess, að hv. Alþ. sjái sér fært að samþ. þessa áskorun til ríkisstj., sem er þannig vaxin, að það þarf ekki að breyta lögum, því að í lögum frá 1957 um lax- og silungsveiði er heimild til þess að setja upp uppeldisstöð fyrir þessa fiska. Að sjálfsögðu þarf til þess fé, og eftir lauslegri áætlun, sem komið hefur frá veiðimálastjóra um að setja upp slíka stöð hér á landi á hentugum stað, mundi það kosta í kringum 4–5 millj., en eftir áætlun hans er gert ráð fyrir því, að sá kostnaður geti skipzt á fjögur ár,

Ég vil svo óska þess, að þessu máli verði vísað til fjvn., því að ég tel það eðlilegt, að hún fjalli um þetta mál, þar sem það kemur sennilega til hennar kasta að fjalla um það, hvort ætlað verði fé til þessara hluta nú á næstu árum.