27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2672)

100. mál, fiskileit á Breiðafirði

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Sú till. til þál., sem hér liggur fyrir til umr., fjallar um að fela ríkisstj. að láta fram fara rannsókn á humar-, rækju- og smásíldarmagni í Breiðafirði og við Snæfellsnes. Þessi till. gefur mér tilefni til þess að víkja nokkrum orðum að rækjuleit og rækjuveiði.

Leit að rækjum á Breiðafirði mun hafa farið fram a.m.k. tvisvar sinnum. Fyrir fjórum árum var hafin leit að rækjum á Breiðafirði af vélbát frá Ísafirði, og fundust þá rækjumið, og mér er það minnisstætt, að ég spurði þann mann, sem þá annaðist þá leit, hvað hann teldi um rækjumið á Breiðafirði, og hann taldi, að þar mundu vafalítið finnast rækjumið eða væri vafalítið hægt að veiða þar rækju, sem væri vinnsluhæf. Fyrir tveimur árum mun aftur hafa farið fram leit að rækjum á Breiðafirði, og enn fundust þá rækjumið, en rækjan mjög smá, þannig að ekki virtist mundu borga sig að vinna þá rækju.

Þessar leitir gefa vafalítið ekki tilefni til þess að fullyrða, að ekki megi veiða rækju á Breiðafirði, sem vinnsluhæf gæti talizt. En það væri full þörf á því, að þetta yrði rannsakað, eins og till. raunar gerir ráð fyrir, og það um fleiri fisktegundir en bara rækjuna eina.

Rækjuveiði hefur almennt verið stunduð við Ísafjarðardjúp nú um nokkuð langan tíma og einnig í Arnarfirði og hefur gefið þar nokkuð góða raun, verið drjúg atvinnubót í þessum byggðarlögum. Mikil gróska hefur hlaupið í þennan atvinnuveg nú á s.l. ári, og það er kannske það, sem gefur mér sérstaklega tilefni til þess að minnast á þetta lítillega. Í fyrra stunduðu 6 bátar rækjuveiði á Ísafjarðardjúpi, en nú í ár eru bátarnir orðnir 16. Ástæðan fyrir þessu er vafalítið sú, að með stórvirkari tækjum hefur skapazt möguleiki í landi til þess að nýta rækjuna að magni til mun meira en verið hefur undanfarið, því að á s.l. ári voru fluttar til landsins tvær stórar rækjupillunarvélar og settar upp, önnur á Ísafirði og hin í Álftafirði. og taka þær að sjálfsögðu við æðimiklu magni, þar sem um vélpillun er að ræða.

Sú mikla fjölgun báta á þessum veiðum, sem ég drap á, veldur ýmsum mönnum nokkrum áhyggjum fyrir vestan. Þegar svo mikil aukning verður og svo mikil aukin ásókn á rækjumiðin, er hætt við því, að rækjustofninn geti goldið afhroð við þetta, og mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið til fullnustu rannsakað, hvað rækjustofninn kann að þola á þessum slóðum. Að vísu mun Fiskifélagið hafa látið rannsaka þetta fyrir hálfu ári, eða á s.l. hausti, og aftur nú fyrir skömmu, en opinberlega liggur ekkert fyrir um það, hvað rækjustofninn kann að þola, En eins og ég segi, eru menn dálítið uggandi um það, að þessar veiðar séu stundaðar kannske af of miklu kappi. Þessi rækjuvinnsla á Ísafirði hefur verið, eins og ég gat um, æðimikil búbót fyrir fjölda manna, og þó að hún ein sé ekki orsök þess, að þar hefur mjög birt yfir öllu atvinnulífi og fjárhagsafkomu fjölda manna, þá er hún þó styrkur grundvöllur undir það að hafa bætt afkomu manna þar á undanförnum árum. Ég get aðeins sem dæmi nefnt, að vinnulaun við rækjuvinnslu á Ísafirði nema tugþúsundum króna vikulega þann tíma, sem rækjan er unnin. Vinnan er auk þess þannig framkvæmd, að þetta er ákvæðisvinna, og það eru húsmæður, sem geta hlaupið í þessa vinnu, ef svo mætti segja, á milli máltíða, og þarna skapast og nýtist vinnuafl, sem trauðla kæmi annars til nota í útflutningsframleiðslunni.

Ég hef minnzt lítillega á þetta, rækjuna við Ísafjarðardjúp, vegna þess að sá ágangur, sem á miðin er núna, er talinn, eins og ég gat um áðan, af sumum vera fullmikill. Og þó að það sé dálítið frávik frá þeirri till., sem hér liggur fyrir, vildi ég þó ekki sleppa því tækifæri og beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að þetta yrði athugað.

Rækjan veiðist á vissu tímabili, þ.e.a.s. hún veiðist í níu mánuði ársins, frá því í byrjun ágústmánaðar og þangað til í endaðan apríl eða byrjun maí, fer nokkuð eftir árstíðum og nokkuð eftir því, hvernig veðurfar er, að því er virðist, t.d. virðist rækjuveiðinni núna ætla að ljúka mun fyrr en ella vegna hlýinda, sem hafa verið í vetur.

Ástæðan til þess, að menn halda, að ofveiði kunni að vera á rækjumiðunum, er m.a. sú, að á undanförnum árum, þegar bátarnir voru mun færri, tók veiðiförin frá Ísafirði oft ekki nema sex til átta eða níu tíma, en nú tekur þetta a.m.k. tvöfalt lengri tíma en var, og rækjan virðist vera mun smærri en rækjan, sem áður veiddist. Þær áhyggjur, sem menn hafa af þessu, eru, eins og ég sagði, ekki ástæðulausar vegna þess, hvað þetta er þýðingarmikill atvinnuvegur í þeim sjávarplássum, sem þessa hafa notið á Vestfjörðum. Á ég þar við bæði Bíldudal og Ísafjörð og raunar Bolungavík og Hnífsdal líka, því að auk þeirra tveggja stórvirku rækjupillunarvéla, sem eru á Ísafirði og í Súðavík, eru fimm rækjuverksmiðjur aðrar við Djúpið, svo að það er ærið mikið magn, sem þessar verksmiðjur geta afkastað. Þessi atvinnuvegur er, eins og ég sagði mjög þýðingarmikill fyrir þessi byggðarlög, og því ætti að vera verðskuldaður gaumur gefinn að reyna að rannsaka, hvað þessi rækjumið þola. Þetta er styrkur grundvöllur undir fjárhagsafkomu fjölda heimila, og þessi byggðarlög geta bókstaflega ekki án þessarar vinnslu verið. Það ætti því að vera eðlilegt, að það yrði gerð gangskör að því að láta rannsaka þetta og gera samræmda leit, ekki sízt þar sem fyrir hv. Alþingi liggja nú tvær till. um rækjuleit, þó að þessi till., sem hér liggur fyrir nú til umr. á þessu stigi, sé um víðtækari leit, eða bæði að humar- og smásíldarmagni. Önnur till. liggur fyrir hv. Alþingi um rækjuleit fyrir Austfjörðum og brtt. um rækjuleit fyrir Norðurlandi.

Mér er kunnugt um, að rækjuleit hefur farið fram fyrir Norðurlandi, þó ekki á mjög gaumgæfan hátt. Það var leitað að rækju á Húnaflóa, og fannst rækja þar, og það hefur verið leitað að rækju á Skagafirði og einnig fundizt rækja þar, og sömuleiðis norður af Siglufirði mun hafa fundizt rækja, stærri rækja en almennt veiðist innfjarða á Vestfjörðum. Þetta gæti því orðið allverulegur atvinnuvegur, ef skipuleg leit gæfi þær upplýsingar, að rækja fyndist hér víða við land. Sú rækja, sem veiðist á Vestfjörðum, er smærri en sú rækja t.d., sem frændþjóðir okkar veiða, því að það er hin svokallaða úthafsrækja og er stærri. Einnig er mismunur á rækjunni, sem veiðist hér við land. T.d. er Arnarfjarðarrækjan mun stærri en sú rækja, sem veiðist við Ísafjarðardjúp.

En hvað um það, það er mjög þýðingarmikið, að þessu sé fullur gaumur gefinn, og vildi ég mega beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta til athugunar, að það yrði unnt að samræma þær till., sem hér liggja fyrir, þannig að skipuleg leit yrði hafin að rækju og rannsakað yrði, hvað rækjumiðin á þeim slóðum, þar sem rækjur hafa verið veiddar undanfarið, þola.