27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í D-deild Alþingistíðinda. (2695)

74. mál, dvalarheimili í heimavistarskólum

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. og frsm. n. fyrir jákvæða afstöðu til þessarar till. Ég get fellt mig vel við þá orðalagsbreyt., sem nm. leggja til að gerð verði á till.

Út af ummælum síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Vesturl. (HS), sem út af fyrir sig geta verið sönn og réttmæt, vil ég taka það fram, að hér á ekki að bjóða neinni skólanefnd að afhenda sinn skóla til afnota fyrir kaupstaðabörn á sumrum. Skólanefndirnar vega vafalaust og meta þá kosti og galla, sem á þessu eru, ef eftir samningum við þær verður leitað, og tel ég eflaust, að þær muni hafa þá möguleika, sem síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni. mjög í huga.