18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í D-deild Alþingistíðinda. (2714)

124. mál, starfsfræðsla

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir um starfsfræðslu, byggist á vaxandi þörf æskunnar á aukinni fræðslu um störfin, sem hennar bíða í þjóðfélaginu. Þessi þörf fyrir fræðslu um væntanlegt lífsstarf er tiltölulega ný, en engu að síður aðkallandi í okkar landi. Ekki er ýkja langt síðan störfin hér voru svo fábreytt, að lítill vandi var að afla sér þekkingar á þeim. Þau voru mestmegnis tengd landbúnaði og sjósókn, og að hvorugum atvinnuveginum var þá unnið með margbrotnum tækjum. Á þeim tíma skorti þjóðina ekki fyrst og fremst verklega, heldur bóklega menntun og þekkingu.

Með fræðslulögunum frá 1907 og 1946 var gert mikið átak til þess að auka bóklega þekkingu þjóðarinnar. En ekki var mönnum þá nægilega ljóst, hversu aukin þekking á fjölþættari störfum yrði bráðlega aðkallandi. Jafnvel árið 1946 var starfsfræðsla ekki orðin almenn meðal nágrannaþjóða okkar. Fyrsta skipulagða starfsfræðslan, sem mér er kunnugt um, var veitt í Boston árið 1908. Árið 1949 var svo gerð samþykkt um það á alþjóðaráðstefnu í Genf, að Sameinuðu þjóðirnar beindu þeim tilmælum til meðlima sinna, að þær beittu sér fyrir starfsfræðslu, og hafa þær yfirleitt brugðizt mjög vel við þeirri áskorun. T.d. er nú svo komið, að starfsfræðsla er skyldunámsgrein í unglinga- og framhaldsskólum á öllum Norðurlöndum nema Íslandi.

Starfsfræðslan er fyrst og fremst veitt af kennurum, en skipulögð af sérstökum starfsfræðslustjórum, sem auk skipulagningarstarfsins annast hina einstaklingsbundnu starfsfræðslu á starfsfræðsluskrifstofum. Fræðslan í skólunum er mismunandi mikil eftir aldri og þroska unglinganna og því, hversu nærri endanlegt val ævistarfs væntanlega er. Yfirleitt er starfsfræðslan veitt 1–3 síðustu skólaárin og þá jafnan mest síðasta árið. Eru þá dæmi þess, að allt að helmingi námstímans sé varið til starfsfræðslu, ýmist innan veggja skólanna eða úti á vinnustöðum. Annars er erindaflutningur, samtöl, fræðslukvikmyndir, heimsóknir á vinnustaði og störf á vinnustöðum algengustu og eðlilegustu starfsfræðsluleiðirnar.

Hér á landi hófst vísir að starfsfræðslu, þegar Reykjavíkurbær réð Ólaf Gunnarsson sálfræðing til þess að vinna að þessum málum haustið 1951. Hann hefur á þeim árum, sem liðin eru síðan, safnað miklum fróðleik um atvinnulífið, Hann hefur skrifað leiðbeiningakver handa unglingum: „Hvað viltu verða?“ — þar sem í stuttu máli er sagt frá helztu starfsgreinum hérlendis, hvaða menntunar er krafizt til þess að geta unnið hin ýmsu störf, hvaða hæfileika þau útheimti o.s.frv. Þá hafa verið haldin erindi um starfsfræðslu í öllum unglinga- og framhaldsskólum Reykjavíkur og svarað fyrirspurnum unglinga varðandi framhaldsnám og störf. Síðustu fimm árin hafa verið skipulagðir sérstakir starfsfræðsludagar hér í Reykjavík og nú síðustu árin á Akureyri og nú alveg nýlega á Akranesi.

Sívaxandi aðsókn að þessum starfsfræðsludögum sýnir, að þarna er verið á réttri leið. Æskan vill fræðast um atvinnulífið, enda er val ævistarfs í samræmi við áhugaefni og hæfileika hyrningarsteinn að lífshamingju manna og þá um leið að velfarnaði og efnalegri velgengni þjóða.

Það, sem nú þarf að gera, er að gera kennurum kleift að veita unglingum starfsfræðslu. M.a. er hægt að gera þetta með kennaranámskeiðum, starfsfræðslukennslu í Kennaraskóla Íslands og e.t.v. í BA-deild Háskóla Íslands. Síðan verður að hefja starfsfræðsluna í sjálfum skólunum. Hún á að veita unglingunum glöggt yfirlit yfir hina ýmsu þætti atvinnulífsins, atvinnumöguleika og atvinnuöryggi. Þótt fræðslan eigi í eðli sínu að vera hlutlaus, getur hún samt jafnað metin milli þeirra greina atvinnulífsins, sem mest aðsókn er að, og hinna, sem út undan verða og vantar mannafla. Því veldur hlutlaus fræðsla um atvinnumöguleikana.

Starfsfræðslan er þannig bæði frá mannúðarsjónarmiði og hagnýtu sjónarmiði þjóðarnauðsyn. Við Íslendingar erum fámenn þjóð, og okkur er því meira virði en flestum öðrum, að enginn einstaklingur glatist, heldur komist á sem réttasta hillu í lífinu. Að því stuðlar vel skipulögð og samvizkusamlega framkvæmd starfsfræðsla. Þess vegna er það, sem við hv. 6. Þm. Norðurl. e. höfum leyft okkur að flytja þessa till. og væntum þess, að henni,verði vel tekið hér á hv. Alþ. Reynslan, síðan starfsfræðsludagarnir voru teknir upp, sýnir, að mjög mikill áhugi er meðal íslenzkrar æsku fyrir því að hagnýta sér fræðslu, sem á borð er borin í þessu efni, og við vitum það allir hér á hv. Alþ., að brýna nauðsyn ber til þess að gera sérstakar ráðstafanir til að auka áhuga æskunnar á þjóðnýtum störfum og þá fyrst og fremst á störfunum í þágu framleiðslunnar. Það sést bezt á því, að við höfum á undanförnum árum orðið að flytja inn hundruð, ef ekki þúsundir útlendinga til þess að vinna að aðalframleiðslugreinum okkar og höfum orðið að verja ærnu fé í erlendum gjaldeyri til þess að greiða því fólki laun.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.