01.06.1960
Sameinað þing: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í D-deild Alþingistíðinda. (2752)

126. mál, rækjumið

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af aths. hv. 1. þm. Austf. varðandi það, hvenær leita eigi að þessum rækjumiðum og að orðalagi till. hefur verið breytt að þessu leyti.

Það er alveg rétt, að orðalaginu hefur verið breytt á þann veg, að það eru ekki fyrirmæli um það í till., að það skuli gert í sumar, og breyt. er eingöngu við það miðuð, að það verði að sjálfsögðu að fara eftir því, hvort fé sé fyrir hendi til slíkra hluta eða ekki. Og með því er ekki á neinn hátt verið að draga úr því, að þetta verði gert í auknar, ef hæstv. ríkisstj. telur möguleika til þess fjárhags vegna.

Ég vil upplýsa það, að fiskideildin tekur fram 1 sinni umsögn, að hún telji nauðsynlegt, að þessi leiðangur verði farinn í sumar, og ég veit, að það er áreiðanlega sameiginleg skoðun nm., að það sé mjög æskilegt, að það verði gert, ef það verður því ekki til hindrunar, að fé verði ekki fyrir hendi til slíkra hluta. Það er, eins og ég sagði í upphafi, ákveðin fjárupphæð, sem er veitt í fjárlögum til fiskimiðaleitar, og það má að sjálfsögðu eins nota það fé til þessara hluta og annarra, og ég sagði það jafnframt í frumræðu minni, að það kæmi að sjálfsögðu til athugunar hjá hæstv. ríkisstj., ef það fé nægði ekki til þess eða yrði að nota það til annarra hluta, að hve miklu leyti hún sæi sér fært að verja úr ríkissjóði fé til leitar þessarar umfram fjárlög. Það gerir áreiðanlega málinu ekkert sérstakt gagn að gefa nein fyrirmæli um það. Það verður að ráðast í því efni, hvort fjárráð eru til slíkra hluta. Og í sannleika sagt er það ákaflega óeðlilegur háttur, sem því miður hefur allt of oft verið tíðkaður hér á Alþ., að eftir að fjárlög eru afgreidd og eftir að búið er að gera upp sinn hug um það, hvaða útgjöld sé talið fært að leggja á ríkissjóðinn, þá sé verið að samþykkja með þál. alls konar útgjöld. Af þeim sökum get ég ekki efnislega verið sammála hv. þm. um það, að slík vinnubrögð séu eðlileg. En það breytir á engan hátt því, og ég veit, að ég mæli það fyrir n. hönd allrar, að hún telur mjög æskilegt, að þessi leiðangur geti farið á þessu sumri, ef fjárhagsástæður leyfa.