02.03.1960
Sameinað þing: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (2890)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Flm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Við allir þm. úr Norðurlandskjördæmi vestra flytjum í Sþ. á þskj. 55 till. til þál. um öflun lánsfjár vegna Strákavegar, en undir því nafni gengur vegurinn venjulega í daglegu tali. Hljóðar ályktunin þannig:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að athuga möguleika á öflun lánsfjár, allt að 12 millj. kr., til að ljúka lagningu Siglufjarðarvegar ytri, Strákavegar. Verði athugun þessari lokið sem fyrst og eigi síðar en svo, að niðurstaða liggi fyrir 15. marz 1960.“

Í grg. með till. þessari er gerð grein fyrir tilganginum með flutningi hennar, en til viðbótar því, sem þar er tekið fram, vil ég aðeins taka þetta fram:

Frá því á árinu 1956 hefur verið veitt fé til lagningar þessa vegar á fjárlögum, venjulega 500 þús. kr. Eins og kunnugt er, er hér um stórvirki á sviði vegagerðar að ræða, og er fyrirsjáanlegt, að með þessari fjárveitingu aðeins mundi lagning vegarins taka óeðlilega og óhæfilega langan tíma. Hefur því þeirri hugmynd skotið upp, að hagkvæmast mundi verða að reyna að afla lánsfjár, allt að 12 millj. kr., til að ljúka vegargerðinni á þremur árum. Í sambandi við þessa fyrirhuguðu lántöku hefur verið gert ráð fyrir, að afborganir af láninu yrðu greiddar með framlagi til vegarins á fjárlögum, en vexti af því ættu að greiða í sameiningu bæjarsjóðir Siglufjarðar- og Sauðárkrókskaupstaða og sýslusjóður Skagafjarðarsýslu, og fengju þessir aðilar e.t.v. heimild til þess að taka skatt af þeim bifreiðum, sem ækju um hin fyrirhuguðu jarðgöng, sem ætlunin er að leggja í gegnum hið svokallaða Strákafjall fyrir utan og vestan Siglufjörð.

Ég vil taka það fram, að allar þessar áætlanir og ráðagerðir eru gerðar í nánu samráði við vegamálastjóra.

Á þinginu í fyrravetur var flutt frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna lagningar Siglufjarðarvegar ytri. Ekki þótti þó tímabært að afgreiða frv. þetta sem lög á því þingi, og var því vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún, þ.e. ríkisstj., ásamt bæjarstjórnunum á Siglufirði og Sauðárkróki og sýslunefnd Skagafjarðarsýslu tæki til athugunar fyrir næsta reglulegt Alþingi, hvaða möguleikar væru til öflunar lánsfjár til verksins. Ekki er kunnugt um, að þessar athuganir hafi leitt til ákveðinnar niðurstöðu, og er það af þeim sökum, sem þessi þáltill. er flutt.

Ég vil að lokum geta þess, að Siglufjarðarvegur ytri mun vera eitthvert mesta hagsmunamál, sem vitað er um að nokkru sinni hafi verið á döfinni fyrir Siglfirðinga og Út-Skagfirðinga. Með því að gert er ráð fyrir, að vegur þessi yrði fær mestan hluta ársins, mundi hann sennilega breyta búskaparháttum Út-Skagfirðinga að verulegu leyti, um leið og hann ryfi þá einangrun, sem Siglufjörður hefur búið við frá upphafi að vetrarlagi. — Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en legg til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. fjvn.

Magnús Jónsson: Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. hefur hér lýst því mikla hagsmunamáli, sem það er Siglufirði og reyndar fleiri héruðum þar í grennd að ljúka þeirri vegarlagningu, sem byrjað er á fyrir Stráka, og get ég vissulega undir það tekið, að það er mjög veigamikið atriði, ekki hvað sízt fyrir Siglufjörð, að þessi samgöngubót fáist sem fyrst.

Ég vil hins vegar í sambandi við þetta mál koma hér á framfæri annarri ósk, sem er hliðstæð þeirri, sem kemur fram í þáltill. þessari, en það er beiðni um hliðstæða fyrirgreiðslu til þess að ljúka lagningu svokallaðs Múlavegar, sem er svipuð vegaframkvæmd, að vísu ekki jafnstór í sniðum og þessi vegur er, en hefur mjög mikla þýðingu, ekki aðeins fyrir Ólafsfjarðarkaupstað, sem mest hefur beitt sér fyrir þessari vegarlagningu, heldur einnig fyrir byggðarlögin við Eyjafjörð og þá einnig fyrir Siglufjörð. Með þeirri vegarlagningu styttist t.d. leiðin milli Ólafsfjarðar og Akureyrar um nærfellt 170 km, og gefur auga leið, hversu þýðingarmikið það er, að slík vegarbót fáist, því að vitanlega hafa sveitarfélögin og kauptúnin og kaupstaðirnir við Eyjafjörð margvísleg skipti sín á milli, og því er tenging þessara staða við Akureyri og innhéruð Eyjafjarðar mjög þýðingarmikil. Það hafa borizt til Alþ. áskoranir bæði frá bæjarstjórn Ólafsfjarðar og einnig bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Dalvíkurhrepps um það, að lögð verði áherzla á að ljúka þessum vegi sem fyrst, og þá m.a. borin fram ósk um það, að veitt verði fyrirgreiðsla, annaðhvort með lántöku eða með ríkisábyrgð, til þess að taka nokkurt lán, 3–4 millj. kr., til þess að unnt verði að ljúka þessum vegi nú helzt á þessu ári.

Þar sem hér er um hliðstæða fyrirgreiðslu að ræða og um er fjallað í þessari þáltill., vildi ég beina því til þeirrar hv. n., sem fengi þetta til meðferðar, að athuga einnig þá ósk, sem fram hefur komið og send hefur verið Alþ. um þessa fyrirgreiðslu við lagningu Múlavegar.

Það má vafalaust um það deila, hvort rétt sé að fara inn á þá braut að taka lán til þess að ljúka ákveðnum vegaframkvæmdum eða vinda þeim áleiðis. En hins vegar held ég, að það sé nokkurn veginn ljóst mál, að varðandi þá vegi, sem hér er um að ræða, sé þannig ástatt, að það verði ekki að þeim unnið með skynsamlegu móti án þess að gera veruleg átök í einu, miðað við þær stórvirku vinnuvélar, sem þarf að nota við þessar vegarlagningar, og því verði naumast hjá því komizt með einhverju móti að afla lánsfjár til framkvæmdanna. Ég tel, að hvor tveggja þessi mál séu þjóðhagslega mjög mikilvæg, auk þess sem þau hafa grundvallarþýðingu fyrir þessi byggðarlög, sem hér er um að ræða, og tel því sjálfsagt, að bæði þessi till., sem hér um ræðir, og einnig sú ósk, sem fram hefur komið frá þeim aðilum, sem ég greindi, verði tekin til athugunar og íhuguð gaumgæfilega öll hugsanleg úrræði til þess að leysa þann vanda, sem hér er við að glíma.