27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í D-deild Alþingistíðinda. (2900)

35. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Áður en ég ræði um till. á þskj. 55, sem hér er til umr., vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa kafla úr athugasemdum, sem bæjarstjóri og bæjarstjórn Siglufjarðarkaupstaðar hafa gert við álitsgerð vegamálastjóra, dags. 18. marz s.l., um byggingu Siglufjarðarvegar ytri, Strákavegar. Ég vil minna á, sem reyndar kemur fram í aths. bæjarstjórans, að vegamálastjóri hafi með bréfi, dags. 11. marz 1959, birt aðra áætlun um byggingu Siglufjarðarvegar. Sú áætlun var miðuð við 3 ára tímabil, en sú síðari við 6 ár í bréfi bæjarstjórans og bæjarstjórnarinnar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„1. Vegamálastjóri setur fram þá hugmynd að vinna veginn frá Keldnakoti til Siglufjarðar á 6 árum. Vitnar hann í alþm. Siglufjarðar og Skagafjarðar, að þeir hafi á s.l. ári samþ. að vinna fyrir fjárveitingu til þessara vegakafla í einni heild. Út af fyrir sig getur það verið rétt að gera 6 ára áætlun um lagningu Siglufjarðarvegar og Siglufjarðarvegar ytri, en það er algerlega gagnstætt hugmyndum Siglfirðinga, að þessi 6 ára áætlun eigi að fela það í sér að fella niður framlag til Siglufjarðarvegar ytri á fjárl. þessa árs og næstu ára og hætta þar með allri vinnu við þessa vegargerð í næstu 3 ár, meðan verið er að fullgera veg inni í Skagafirði, hinn svonefnda Siglufjarðarveg. Slíkri vegargerð eða áætlun hljóta Siglfirðingar að mótmæla harðlega, því að enda þótt viðurkenna verði, að vegagerð ríkisins hafi vanrækt mjög vegarlagningu um norðanverða Sléttuhlíð og Fljót, þá er það mjög fráleitt að ráðgera, að Siglfirðingar stígi mörg skref til baka í vegarlagningaráformum um Stráka og felli niður framlög á fjárl, og bíði um óákveðinn tíma, meðan verið er að vinna að vegarlagningunni í Skagafirði.

Í álitsgerð vegamálastjóra frá 11. marz 1959 er gert ráð fyrir, að vegarlagningin um Stráka taki 3 ár. Ef farið hefði verið eftir þeirri áætlun og fé fengizt til vegarlagningarinnar skv. frv. til l. um Strákaveginn 1959, þá hefði umferðartíminn um veginn til og frá Siglufirði lengst um 4–5 mánuði á ári, miðað við þá vegi, sem nú eru í Fljótum og Sléttuhlíð.

Það er því fyrst og fremst ósk Siglfirðinga að komast í samband við þjóðvegakerfið um Stráka, eins fljótt og þess er kostur, en ekki að fullgera veginn vestur undan, þó að þess sé vitanlega einnig þörf.

Í þessu sambandi er rétt að leggja áherzlu á að aðskilja framlagið til vegakaflanna á næstu fjárl., svo að Strákavegurinn verði ekki vanræktur algerlega undir því yfirskini, að vegakaflana eigi að vinna í sameiningu.“

Rétt er að geta þess, að enda þótt þm. Siglf. samþ. árið 1959 að lána af vegafé Strákavegar til vegarkaflans frá Stafá að Sandósi, sem er mesta torfæran á þessari leið, þá var alls ekki ætlun þeirra, að vegurinn yrði unninn í einni heild á þann hátt, sem sett er fram í 6 ára áætlun vegamálastjórans.

Svo kemur annar kafli:

„Vegamálastjóri telur, að honum finnist næsta ólíklegt, að ákvæði frv. um innheimtu“ — það er átt við frv., sem þm. fluttu 1959 — „á sérstökum vegartolli til greiðslu vaxta af láni við jarðgangagerðina mundi ná tilgangi sinum. Færir vegamálastjóri þau rök fyrir þessu áliti sínu, að innheimtan verði mjög kostnaðarsöm, 25 þús. kr. á mánuði 4 sumarmánuðina, að farið verði heldur eftir veginum um Siglufjarðarskarð tollfrjálst heldur en að greiða vegargjaldið fyrir umferðina um Strákaveg. Þessu er til að svara, að engin athugun hefur enn farið fram á því, hvernig fyrirkomulagið verður við innheimtu vegartollsins, ef samþ. verður, og ekki er heldur hægt fyllilega að gera sér grein fyrir umferðinni, hvernig hún er, hvað þá heldur hvernig hún mundi verða, þegar Strákavegurinn er fullgerður. Tilgátur vegamálastjóra í þessu efni eru því úr lausu lofti gripnar. Sama er að segja um það, að ferðamenn muni fremur velja Skarðsveg en Strákaveg til þess að forðast vegartollinn. Eins og allir vita, sem þekkja veginn yfir Siglufjarðarskarð, þá opnast sá vegur ekki fyrr en seint á vorin.“ — Það má geta þess t.d. núna í sambandi við þessa till., að vegurinn er alls ekki opnaður enn á þessu vori. „Og dæmi eru til þess, að vegurinn hafi eigi opnazt fyrr en í júlímánuði, eftir að jarðýtur hafa hamazt við snjóruðning vikum saman. Eins má geta þess, að vegurinn vestur í skarðinu er lagður þar, sem á liggur snjófönn, sem ekki hverfur nema í albeztu sumrum. Ef ekki yrði lögð sérstök áherzla á að moka Skarðsveginn og halda þeim vegi við, eftir að Strákavegurinn er kominn, þá er mjög ótrúlegt, að ferðamenn eigi nokkurt val um að fara um þann veg til þess að komast hjá vegartolli. Einnig er þess að geta í sambandi við vegartoll um væntanlegan Strákaveg, að um mörg undanfarin ár hafa bílstjórar á Siglufirði tekið svonefnt Skarðsgjald bæði beint og óbeint fyrir að fara Siglufjarðarskarð. Einnig má telja það vegartoll, sem allir bíleigendur greiða, sú aukna benzíneyðsla og slit á bílum við að fara yfir þennan illa gerða, rúmlega 600 m háa fjallveg. Má því telja líklegt, að þeir, sem fara um Strákaveg, muni eins vilja greiða vegartoll fyrir umferð á þeim vegi. Það mun ekki ástæða til að óttast um það, að mikil umferð yrði um Siglufjarðarskarð, eftir að Strákavegurinn væri kominn í samband við þjóðvegakerfið, og þarf því ekki að trufla tolltekjur af umferð um Strákaveg. Má því gera ráð fyrir, að vegarskattur af umferð um Strákaveg verði mjög mikilsvert atriði við að standa straum af vaxtagreiðslu vegna lántöku til að vinna jarðgöngin.“

Þetta er kafli úr bréfi, sem okkur hefur borizt frá bæjarstjóra og bæjarstjórn sem svar við álitsgerð, sem vegamálastjóri hefur samið og sent okkur til umsagnar.

Ég tel, að í þessari álitsgerð, sem ég hef nú lesið, séu túlkaðar á mjög skýran og ótvíræðan hátt skoðanir og óskir Siglfirðinga í þessu máli og móti þeim verði tæplega gengið, svo framarlega sem það er meiningin að leysa vegaspursmál Siglfirðinga á sem stytztum tíma. Um vegarskattinn, sem rætt er um bæði í bréfi vegamálastjóra frá 18. marz s.l. og í bréfi bæjarstjóra, má að sjálfsögðu deila og aðallega um það, hvort slíkur skattur mundi koma að tilætluðum notum. Úr því getur vitanlega enginn skorið enn sem komið er. Þar verður reynslan að segja sitt álit um.

Þá kem ég að till. okkar á þskj. 55, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að athuga möguleika á öflun lánsfjár, allt að 12 millj. kr., til að ljúka lagningu Siglufjarðarvegar ytri, Strákavegar. Verði athugun þessari lokið sem fyrst og eigi síðar en svo, að niðurstöður liggi fyrir 15. marz 1960. “

Þáltill. þessi var flutt snemma á þessu þingi og þess vænzt af flm. að hægt yrði að fá hana afgreidda sem fyrst. Það næsta, sem gerist í málinu, er það, að hv. þm. Norðurl. e., formaður fjvn., ásamt 2 öðrum þm. flytur brtt. við till. okkar um, að aftan við fyrri málsl. till. bætist: „og allt að 4 millj. kr. til að ljúka lagningu Múlavegar“ og fyrirsögn till. breytist í samræmi við áðurnefnda breyt. Með flutningi þessarar till. var ljóst þá þegar, að allmikill reipdráttur mundi skapast um málið og ýmsir örðugleikar mundu á því verða að fá viðunandi afgreiðslu á till. Ég mun á engan hátt draga úr nauðsyn þess fyrir íbúa Ólafsfjarðarkaupstaðar, að þeir fái vegasamband bætt frá því, sem nú er, enda er að því unnið. Sannarlega er þess mikil þörf, eins og reyndar fyrir alla þá staði, sem einangraðir eru mikinn hluta árs. Hinu verður þó ekki mótmælt, að töluvert erfiðara mun reynast að leysa vegasamband þessara staða beggja samhliða og gæti vel orðið til þess, að málið drægist á langinn um ófyrirsjáanlegan tíma. Hitt er svo á að líta, þar sem þm. Norðurl, e. virðast hafa lagt á það mikla áherzlu að koma Múlaveginum inn í till. okkar, þá hefði mátt búast við, að viðunandi afgreiðsla hefði fengizt á till., sérstaklega þar sem 2 af flm. brtt. eru í fjvn. og hv. 6. þm. Norðurl, e., 1. flm. till., er formaður fjvn. Þrátt fyrir það, sem hér hefur verið bent á, hefur hv. fjvn. ekki séð sér fært að afgreiða till. fyrr en á síðustu stundu og leggur þá fram alveg nýja till, á þskj. 354, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera framkvæmdaáætlun um lagningu vegar fyrir Stráka við Siglufjörð og Ólafsfjarðarmúla með það fyrir augum að ljúka vegagerðum þessum eins fljótt og auðið er.

Fyrirsögn till. verði: Till. til þál. um lagningu vega fyrir Stráka og Ólafsfjarðarmúla.“

Í grg. fyrir till. segir m.a., að það sé skoðun n. að umræddar vegagerðir hafi mikla þýðingu fyrir atvinnulíf viðkomandi staða. Þetta eru ágætar upplýsingar, að fá það út af fyrir sig, en það eru bara upplýsingar, sem allir vissu áður. Þessi ummæli n. eru ágæt, en eins og ég tók fram áðan, þá er bara mjög langt síðan og hefur alltaf svo verið, að menn hafa verið þess fullvissir og vitað það, að vegarlagning til Siglufjarðar, sem yrði opin meiri hluta árs, og sama gildir um Ólafsfjörð, mundi hafa mjög mikla þýðingu fyrir atvinnulíf viðkomandi kaupstaðar. Það er ágætt, að hv. fjvn. skuli hafa komizt að þessari niðurstöðu, og mun hún þá sjáanlega eða vonandi stuðla að því, að bætt verði úr því ófremdarástandi, sem ríkir á þessum báðum stöðum og er lítt viðunandi.

Þá ræðir n. um lánsmöguleika, og gætir þar vægast sagt ekki mikillar bjartsýni. N. vitnar 3 áætlun vegamálastjóra, sem telur, að kostnaður við vegina báða muni verða tæpar 23 millj. kr. Má jafnvel skilja það svo, að n. telji, að sú upphæð muni engan veginn nægja, miðað við núverandi verðlag. Áætlun sú, sem hv. fjvn. mun eiga við, er í bréfi vegamálastjóra, dags. 18. marz 1960. Er það svar við bréfi, dags. 9. júní 1959, frá rn., þar sem það óskar eftir umsögn vegamálastjóra um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku vegna lagningar Siglufjarðarvegar ytri, Strákavegar. Frv. þetta var flutt á þinginu í fyrravetur. Þegar vegamálastjóri gerði sínar áætlanir, var vitað, að allt verðlag í landinu mundi stórlega hækka, enda gerir hann ráð fyrir því í þessari áætlun sinni. Í bréfi vegamálastjóra, á bls. 3, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í ofangreindri álitsgerð frá 11. marz 1959 var áætlað, að kostnaður við byggingu vegarins frá Heljartröð“ — menn taki eftir því, að þar miðar hann við Heljartröð — „til Siglufjarðar um Stráka yrði 11.3 millj, kr. og auk þess 1.2 millj. kr. til byggingar brúa, eða samtals 12½ millj. kr. Unnið var á s.l. ári fyrir um 400 þús. við jarðgöngin, og eru þá eftir af þessari áætlun um 10,9 millj. kr., miðað við verðlag á s.l. ári, og þá eru allar brýr ógerðar.“

Og svo segir áfram:

„Áætlað er, að vegagerðarkostnaðurinn hækki um allt að 25% vegna gengisbreytingarinnar og annarra ráðstafana í efnahagsmálum á þessum vetri, og hækkar þá kostnaðurinn við þennan hluta vegarins úr 10.9 millj. í 12.6 millj., en brúargerðarkostnaður úr 1.2 millj, kr. í 1.5 millj. kr., eða samtals 14.1 millj. kr.“

Eins og sést af því, sem hér hefur verið sagt, gerir vegamálastjóri fyllilega ráð fyrir auknum kostnaði við vegarlagninguna vegna hinna nýju efnahagsráðstafana.

Þegar rætt er um Siglufjarðarveg ytri, öðru nafni Strákaveg, er átt við veg frá Heljartröð, sem er rétt norðan við bæinn Hraun í Fljótum, út Almenninga, Dalaskriður og Dalaland og gegnum fjallið Stráka og síðan inn með Siglufirði að vestan. Rétt er að benda á það, að lokið er við undirbyggingu vegar og byggingu brúa Siglufjarðarmegin. Samkv. áætlun vegamálastjóra kostar hinn nýi vegur frá Heljartröð til Siglufjarðar með núverandi verðlagi rúmar 14 millj. kr. Þegar búið væri með þennan vegarkafla eða þennan veg, væri Siglufjörður kominn í sæmilegt vegasamband, eins og fram kemur mjög skýrt og ákveðið í grg. frá bæjarstjóra og bæjarstjórn Siglufjarðar. Um lagfæringar á veginum vestur er það að segja, að vegurinn frá Haganesvík að Stafá verður fullgerður í vor og sumar. Þá er eftir kaflinn frá Stafá að Keldnakoti, sem er um 5 km á lengd, ásamt brú á Stafá. Þessi kafli er mjög sæmilegur til keyrslu, þar sem hann liggur að mestu um harða mela. Virðist sem það sé ekki sérstaklega aðkallandi að ljúka þeim vegarkafla. Aftur á móti væri mjög æskilegt, að hægt væri að byggja brú á Stafá, en samkv. áætlun vegamálastjóra kostar hún um 300 þús. kr.

Ef hv. fjvn. hefði verið umhugað um, að till. á þskj. 55 næði fram að ganga, hefði n, getað hækkað lántökuheimildina úr 12 millj. kr. í 19 millj. kr. En fjvn. virðist hafa takmarkaðan áhuga á framgangi málsins, eins og stendur. Það er sannleikurinn í málinu. Þá kemst n. að þeirri niðurstöðu, að það verði að teljast mjög vafasamt, þótt lánsfé væri fáanlegt, að viðkomandi sveitarfélög gætu risið undir vaxtagreiðslum af slíku láni, enda segir n., að ekkert liggi fyrir um það, að þau séu tilbúin til að taka á sig slíkar kvaðir. Í þessu sambandi má varpa fram þeirri spurningu til hv. fjvn., hvort hún hafi kynnt sér þessa hlið málsins. Hefur t.d. fjvn, leitað umsagnar ráðamanna viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga um málið, og ef svo hefur verið gert, hvaða svör hafa n. þá borizt? Þetta væri mjög gott að fá upplýst. Ég hef hér við höndina álitsgerð bæjarstjórnar Siglufjarðar, sem ég hef þegar lesið kafla úr, en ég er ekki alveg viss um það, veit það ekki, hvort hv. fjvn. hefur óskað eftir slíkri álitsgerð frá bæjarstjórn Siglufjarðar eða hvort hún hefur óskað eftir álitsgerð frá bæjarstjórn Sauðárkróks eða hreppsnefndum í Skagafirði um málið.

Hv. fjvn. telur sig ekki geta mælt með þáltill. á þskj. 55 eða brtt. á þskj. 208. „N. telur, að á þessu stigi sé ekki auðið að mæla með lántöku vegna vega þessara,“ segir í nál. Ég get nú á engan hátt skilið þá hættu, sem því gæti verið samfara. þótt hæstv. ríkisstj. væri falið að athuga möguleika á lánsfé til þessara vega, heldur alveg hið gagnstæða. Slík afgreiðsla mála sem farið er fram á í þáltill. okkar er mjög algeng hér á Alþ. Aðalatriðið í þessu máli og það, sem allt veltur á, er vitanlega útvegun á lánsfé. Fyrr en það liggur fyrir, hvort hægt muni vera að fá lánsfé til þessara framkvæmda, til þessara vega, verða allar framkvæmdir mjög takmarkaðar og geta jafnvel alveg strandað. Ég er hræddur um, að eins og fjvn. leggur til að þáltill. verði orðuð, sé málinu enn á ný skotið á frest um ófyrirsjáanlegan tíma. Í till. n. felst ekkert annað en fróm ósk um nýja áætlun, sem að mínum dómi liggur að mestu leyti fyrir, eins og bréf vegamálastjóra frá 11. marz 1959 ber með sér og þá líka frá 8. marz, þó að ég hafi margt við þá áætlun að athuga, m.a. það, að þar er tíminn, sem hann telur að þurfi að byggja veginn, lengdur um þrjú ár eða um helming.

Ég geri ráð fyrir, að verði till. n. samþykkt, þá muni hæstv. ríkisstj. fela ráðunaut sínum í vegamálum, sem er vegamálastjóri, að gera þá framkvæmdaáætlun, sem till. fjvn. fjallar um að verði gerð. Slík kostnaðaráætlun er til að mínum dómi fyrir Siglufjarðarveg, eins og þegar hefur verið bent á. Og sömuleiðis geri ég ráð fyrir því, að vegamálastjóri hafi nú þegar gert áætlun um kostnað við byggingu vegarins fyrir Ólafsfjarðarmúla. Ég sé því ekki annað en hér sé bara verið að draga málið óþarflega lengi og skjóta sér undan þeirri ábyrgð, sem hv. n. átti að hafa, og hún átti vitanlega að mínum dómi að taka allt öðruvísi á þessu máli en hér hefur verið gert. Það virðist því liggja nokkurn veginn ljóst fyrir, að kostnaðaráætlanirnar vantar ekki. Það, sem er því mest aðkallandi og hefur afgerandi þýðingu í málinu, er það, hvort og á hvern hátt sé hægt að fá lán til framkvæmdanna. Það er þetta. sem er aðalinnihald þáltill. okkar á þskj. 55, en hv. fjvn. hefur ekki séð sér fært að mæla með, og verður það að teljast að endemum að mínum dómi. Ég tel það miður farið. Þess ber þó að geta, að þm. þessa kjördæmis og aðrir þeir þm. sem vilja leysa þetta mál á sem beztan og hagkvæmastan hátt, geta náð samstöðu um málíð og unnið að framgangi þess í sameiningu.

Siglufjörður og Ólafsfjörður eru þeir staðir á landinu, sem einna verst eru staddir með vegasamband við önnur héruð, þar sem þeir eru vegasambandslausir í 7–8 mánuði árlega. Báðir þessir staðir eru þýðingarmiklir fyrir þjóðarbúið, og íbúar þessara kaupstaða eiga fyllstu kröfu til þess, að ekki sé verr að þeim búið en öðrum þegnum þjóðfélagsins. Ráðamenn þjóðfélagsins verða að skilja það, og þeim mun verða fyrr eða síðar komið í skilning um það, að menn una ekki því til lengdar að vera einangraðir frá öðrum stöðum í átta mánuði ár hvert. Slíkt ástand getur líka verið mjög hættulegt, og sérstaklega getur slíkt ástand orðið hættulegt á Norðurlandi, þegar menn geta alltaf átt það á hættu, að allar samgöngur á sjó teppist vegna ísa í marga mánuði. Það er líka atriði, sem ekki er vert að gleyma í sambandi við þetta mál. Fyrr á árum var það mjög algengt, að hafís lokaði öllum höfnum norðanlands mánuðum saman. Enginn getur neitt um það sagt, hvenær ísinn kemur aftur og lokar öllum siglingaleiðum þangað norður. Það er þetta mikla öryggisleysi, sem íbúar þessara byggðarlaga búa við, sem gerir það alveg óhjákvæmilegt, að allt sé gert, sem hægt er, til að ráða bót á. Þess vegna er það hin mesta nauðsyn og beinlínis ræður úrslitum um framtíð þessara kaupstaða og alla afkomu íbúanna, að komið verði á öruggu vegasambandi við önnur héruð og það sem allra fyrst.

Á það má og benda, að öruggt vegasamband við Siglufjarðarbæ, sem hefur tæpa 3 þús. íbúa, er mjög mikið hagsmunamál fyrir Skagfirðinga. Með því mundu opnast öruggir og góðir markaðir fyrir afurðir bænda í útsveitum Skagafjarðar til mikilla hagsbóta fyrir báða aðila. Daglegt vegasamband við Siglufjörð er máske eina leiðin til þess að hindra það, að heilar sveitir, svo sem Fljót og Sléttuhlíð, leggist í auðn að meira eða minna leyti. Siglufjörður er þannig frá náttúrunnar hendi, að þar er ein bezta og öruggasta höfn landsins, þegar inn er komið, og þangað koma til hafnar fiskiskip í hundraðatali árlega og leggja þar á land afla sinn til vinnslu, enda er Siglufjarðarhöfn ein stærsta útflutningshöfn landsins. En Siglufjörður hefur lítið sem ekkert uppland og er að langmestu leyti háður því að verða að kaupa landbúnaðarafurðir frá öðrum héruðum. Það er því hin mesta nauðsyn á því, að svo stór bær geti haft sem bezt vegasamband við hinar miklu bændabyggðir Skagafjarðarsýslu, enda fullyrði ég, að það er ekki síður áhugamál Skagfirðinga en Siglfirðinga, að komið verði á öruggu vegasambandi á milli þessara héraða og við þjóðvegakerfið. Þetta er það stórmál, að því verður ekki fram komið hér á Alþingi, nema um það geti náðst full samstaða og samvinna allra flokka, og að því ber að stefna. Þrátt fyrir það, að ég sé á engan hátt ánægður með þá breytingu, sem fjvn. leggur til að verði gerð á þáltill. okkar, mun ég samt sem áður greiða till. n. atkv. í trausti þess, að öllum undirbúningi að framkvæmdum verði hraðað sem mest.

Ég vil svo aðeins að lokum benda hv. fjvn. á, að þar sem í till. er talað um lagningu vegar fyrir Stráka, þá er þetta ekki rétt, það er áætlað að leggja veginn í gegnum fjallið Stráka.