03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Efnahagsmálaráðuneytið var stofnað í tíð fyrrverandi stjórnar, og ég geri ráð fyrir, að hún hafi þar stuðzt við gamla hefð og ekki áttað sig á, að það, sem fyrirrennararnir höfðu gert, væri allt lögvillur eða lögleysur, Ég man það 1939, þegar ég tók sæti í stjórn Hermanns Jónassonar, þá tók annar virðulegur þm. sæti í nýju rn., sem þá var stofnað með sama hætti og þetta. Það var hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sem þá varð viðskmrh. Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, annar var forsrh. og hinn settist í hið nýja ráðuneyti, — eru fordæmið, sem menn hafa hnotið um.

Að öðru leyti skal ég ekkert mótmæla þeim rökum, sem hv. fyrirspyrjandi bar fram fyrir því, að það bæri að stofna ráðuneyti með lögum. Ég hafði heldur ekki þann heiður sjálfur að vera þátttakandi í stofnun þessa nýja rn. Það gladdi mig að heyra, að hann viðurkenndi fyllilega óvenjulega hæfni þess manns, sem þar réðst til starfa, og ég geng út frá því, að honum eins og öllum öðrum þm. sé ljóst, að eðli málsins samkv. er nauðsynlegt, að slíkt rn. sé nú starfandi. Efnahagsmálin hafa lengi verið, þau eru í dag og verða væntanlega lengi einn veigamesti þátturinn í þjóðmálunum, og án þess að gera lítið úr nokkrum manni, leyfi ég mér að segja, að ég er ekki alveg viss um, nema okkar efnahagsmálum væri kannske enn þá betur komið en raun ber vitni um, ef þetta rn. hefði verið stofnað fyrr og starfað undir forustu slíks ágætismanns og afburðamanns, svo að ég segi það, sem ég meina, eins og það nú gerir.

Sem sagt, þetta raskar ekki því, að það má sjálfsagt færa mikil rök fyrir, að þetta eigi að vera gert með lögum hverju sinni. En ég vona, að hv. þm. færi þá fyrrv. hæstv. ríkisstj. það til afsökunar, að fordæmin voru svo rík í þessu máli. Það voru hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, og hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sem fyrir 20 árum áttu ríkastan þátt í þessu, án þess að nokkur þá fyndi að eða það hafi til hins verra leitt í einu eða öðru. Að öðru leyti get ég ekki um þetta meira sagt, en það væri sjálfsagt á hans færi sem þm. að reyna að skerpa þessi ákvæði í einu eða öðru formi, þannig að hinu gamla fordæmi verði ekki oftar fylgt.