30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3149)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það hefur verið spurt hér að ákaflega einföldum atriðum. Það hefur verið spurt, hve miklu næmi niðurgreiðsla á hvert kg fóðurbætis og á hvert kg áburðar, og það hefur verið spurt að því, hve miklu næmu þessar niðurgreiðslur í heild. Hæstv. ráðh. hefur verið ákaflega tregur til að svara þessu, og það virðist svo sem honum sé ákaflega illa við að fara með nokkrar beinar tölur. Hins vegar hefur hann gert það, að gamni sínu líklega eða til þess að prófa gáfur þm., að hann hefur sett hér upp eins konar þríliðu fyrir þá og sagt: Nú getið þið reiknað. — Og viti menn. Hér hefur komið upp maður, sem hefur reiknað dæmið. Ég heyrði ekki betur en hv. 3. þm. Vesturl. hefði einmitt leitazt við að reikna þetta dæmi. Hann fór hér með ákveðnar tölur og spurði svo, hvort þetta væru ekki réttar tölur. Nú er það síður, að því er ég til veit, að þegar kennarar gefa nemendum dæmi, þá láta þeir þá að vísu glíma við dæmið, en þegar útkoman er fundin hjá nemanda, þá segir kennarinn honum, hvort rétt sé reiknað eða ekki. Og nú vil ég bara spyrja hæstv. landbrh.: Var dæmið rétt reiknað hjá hv. 3. þm. Vesturl.? Voru þetta réttar tölur, sem hann fór með?