11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (3205)

909. mál, stofnlánasjóðir Búnaðarbankans

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki leggja mikið til þeirra mála, sem rædd hafa verið í sambandi við fsp., en mér skildist, að hæstv. ráðh. svaraði 4. tölul. fsp. á þá leið, að þau lán, sem þar er spurt um, hafi þegar verið veitt. Þessi tölul. fsp. hljóðar svo: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að ræktunarsjóður geti veitt lán út á þær framkvæmdir ársins 1959, sem enn hafa ekki verið veitt lán út á, og út á framkvæmdir ársins 1960?“

Hæstv. ráðh. segist hafa svarað fyrra atriðinu játandi, þannig að hann segir, að lán hafi þegar verið veitt út á þær framkvæmdir, sem unnar voru á árinu 1959.

Ég vildi aðeins vita vissu mína um þetta, að ráðh. hefði svarað þessu á þessa leið, að lán hafi þegar verið veitt út á þær framkvæmdir, sem unnar voru á árinu 1959, því að auðvitað getur verið, að lánin hafi verið veitt, þó að ekki sé búið að afgreiða þau. En mér er kunnugt um lán, sem svona stendur á um, þar sem sótt hefur verið um lán út á framkvæmdir, sem unnar voru á árinu 1959. Þau lán er ekki búíð að afgreiða, en auðvitað getur það verið, og ég vil ganga út frá því, að það sé svo, eins og ráðh. segir, að það sé búið að veita þessi lán, að ekki þurfi annað en ganga eftir þeim. En þannig hefur það verið undanfarin ár um lánveitingar úr ræktunarsjóði, að ég hygg, eftir þeim kynnum, sem ég hef haft af þessu sem umboðsmaður fyrir ýmsa lántakendur, að ræktunarsjóðurinn hefur afgreitt lán út á framkvæmdir, sem búið er að skila skjölum um, fyrir 1. des. En hins vegar hefur það dregizt fram yfir áramót að afgreiða lán út á framkvæmdir, sem að vísu voru unnar á árinu, en það seint, að ekki var búið að skila skjölum um þau fyrir 1. des. Við því er ekkert að segja. Það hefur þá verið vegna anna í bankanum rétt fyrir áramótin. Núna var það einnig að sjálfsögðu svo, að það var nokkuð af slíkum lánum, sem sótt var um út á framkvæmdir, sem búið var að vinna, en skjölum hafði ekki verið skilað um 1. des. Framkvæmdirnar voru unnar á árinu 1959, og ég vænti, að ég hafi fengið glöggt svar um það, að búið sé að veita lán út á þessar framkvæmdir, þó að ekki væri búið að skila skjölunum fyrir 1. des.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi fá upplýst, svo að ekki verði um villzt.