18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (3244)

125. mál, Lögbirtingablað og Stjórnartíðindi

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Tilefni þessarar fsp. er það, að fyrir nokkru var Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri látinn hætta ritstjórn Lögbirtingablaðsins án þess, að nokkrar frekari skýringar væru gefnar, a.m.k. opinberlega, á þeirri ráðstöfun.

Það vill jafnan verða svo, þegar menn eru látnir hætta störfum eða vikið úr störfum, án þess að nokkrar sérstakar skýringar séu á því gefnar, að ýmsar ágizkanir og kviksögur komast á kreik. Ýmsum vill þá koma það fyrst til hugar, að ástæðan til brottvikningarinnar sé sú, að viðkomandi starfsmaður hafi ekki leyst starf sitt nægilega vel af hendi og hann sé látinn fara af þeirri ástæðu, og það má vel vera, vegna þess að engar skýringar voru á þessu gefnar, að ýmsum hafi komið þetta til hugar í sambandi við þessa brottvikningu. Hins vegar má óhætt fullyrða það um alla þá, sem þekkja Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra og störf hans, að þeim kemur ekki slíkt til hugar, vegna þess að hann nýtur alveg sérstakrar viðurkenningar sem samvizkusamur og röskur embættismaður, og það er líka almennt viðurkennt, að hann hefur leyst starf sitt sem ritstjóri Lögbirtingablaðsins mjög vel af hendi um 17 ára skeið og það svo vel, að það mun aldrei hafa verið að því fundið af neinum af yfirboðurum hans. Þess vegna getur þeirri ástæðu ekki verið til að dreifa hér, að viðkomandi starfsmaður hafi leyst starf sitt þannig af hendi að brottrekstur sé eðlilegur af þeirri ástæðu.

Þá getur sú skýring að sjálfsögðu komið til greina, að hér hafi verið um óeðlilegar og og háar launagreiðslur að ræða og þess vegna hafi verið þörf á breyttu fyrirkomulagi. En ég hygg, að reynslan sýni það einnig í sambandi við þetta atriði, að þessi ástæða sé tæplega þarna fyrir hendi, því að ef t.d. er gerður samanburður á ritstjórnarkostnaði við Lögbirtingablaðið og Stjórnartíðindin, þá var þessi kostnaður mörgum sinnum lægri við Lögbirtingablaðið, meðan Birgir Thorlacius var ritstjóri þess, og er þar þó óneitanlega um meira verk að ræða en ritstjórn Stjórnartíðinda. Það mun líka hafa komið fyrir oftar en einu sinni, að af hálfu ríkisendurskoðunarinnar hafi verið á það bent, að ekki væri óeðlilegt að lækka eitthvað kostnaðinn við ritstjórn Stjórnartíðindanna með hliðsjón af því, hve kostnaðurinn við ritstjórn Lögbirtingablaðsins væri lágur. Ég held því, að þessari skýringu sé hér tæpast til að dreifa.

Fleiri skýringar kunna að vera á þessari ráðstöfun eða þessu tiltæki, eins og t.d. þær, sem stundum hafa komið fyrir, að viðkomandi ráðamaður hafi haft einhverja pólitíska óvild á þeim starfsmanni, sem hér var látinn hætta starfi, eða hann hafi þurft að koma einhverjum flokksmanni sínum í embætti og þess vegna gripið til þessa ráðs. Um þetta skal ég ekkert frekar fjölyrða á þessu stigi og engan dóm á það leggja, fyrr en ég hef heyrt svör hæstv. dómsmrh.