18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

125. mál, Lögbirtingablað og Stjórnartíðindi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í 5. gr. laga nr. 64 frá 1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, segir:

„Dómsmrn. gefur Stjórnartíðindi og Lögbirtinga. blað út. Ræður dómsmrh. mann eða menn til útgáfunnar og segir fyrir um tilhögun hennar“ o.s.frv.

Í 6. gr. sömu laga segir:

„Kostnaður af útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs telst til skrifstofukostnaðar dómsmrn., enda kveður dómsmrh. á um gjöld fyrir auglýsingar, er aðilar eiga að greiða. Einnig getur dómsmrh. sett fyrirmæli um annað, er að útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs lýtur.“

Í 4. gr. sömu laga segir:

„Vafamál um það, hvar birta skuli atriði þau, er í 1.–3. gr. segir, eða hvort erindi skuli birt eða eigi, úrskurðar dómsmrh.

Þetta hygg ég þau lagaákvæði vera, sem hér skipta máli. Svo sem sjá má af þessum lagatilvitnunum, er náið lagalegt samhengi milli þessara tveggja rita og til þess ætlazt, að dómsmrh. hafi yfirumsjón með útgáfu þeirra beggja og úrskurðarvald í sambandi við vafaatriði, er upp kunna að rísa hennar vegna. Má og benda á, að við flutning frv. til laga þessara á Alþ. 1943 segir flm., þáverandi dómsmrh. Einar Arnórsson, í Alþt. B. 369, er hann ræðir um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablaðið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þessi tvö útgáfurit eru í raun og veru skyldari en menn skyldu ætla að órannsökuðu máli, því að stundum kann að vera nokkur vafi á um það, í hvoru þessara útgáfurita sumt eigi að birtast“ o.s.frv.

Framkvæmd þessara mála hefur hins vegar orðið sú, að starfsmaður sá, sem á sínum tíma var fengin útgáfa Lögbirtingablaðsins, er nú orðinn ráðuneytisstjóri í öðru ráðuneyti. Hinn, er annast útgáfu Stjórnartíðinda, vann einnig lengi í öðru ráðuneyti, þó að aðalstarf hans hafi síðari ár verið þessi útgáfa og hann hafi nú bækistöð í dómsmrn. Sá maður verður sjötugur á þessu ári. Þykir sjálfsagt. þegar hann lætur af störfum, að sameina útgáfu beggja ritanna í dómsmrn., eins og lög standa til, Ætla má, að með hagkvæmum vinnubrögðum verði hvort tveggja starfið ekki ofætlun einum manni, og mun þess vegna sameiningin í senn hafa í för með sér sparnað og aukin þægindi fyrir alla aðila.

Mér þótti einsætt að hefja nú þegar undirbúning þessara endurbóta og þá eðlilegast að láta þann mann, sem fyrirhugað er að taki við öllu starfinu, fá nú þegar færi á því að setja sig inn í það og taka við nokkrum hluta þess, þar sem unnt var að gera það með þeim sjálfsagða hætti, að dómsmrn. tæki aftur við því starfi, sem því lögum samkvæmt er skylt að inna af hendi.

Með því, sem ég hef nú greint, ætla ég að svarað sé fyrsta lið fsp. og þar með höfuðefni hennar, og mun nú stuttlega skýra frá öðrum atriðum, sem um er spurt.

Það er þá um annan tölulið að segja, að greiðslur fyrir ritstjórn og fjárhald Lögbirtingablaðsins á undanförnum 5 árum hafa verið: 1955 11070 kr.. 1956 10300 kr., 1957 11840 kr., 1958 26200 kr., 1959 35800 kr. Hefur þóknunin vegna ritstjórnarinnar verið 2000 kr. á mánuði nú undanfarið, en þóknunin fyrir fjárhaldið 1000 kr. á mánuði frá ársbyrjun 1958, en þá var þóknunin fyrir ritstjórnina samkvæmt ákvörðun þáverandi dómsmrh., Hermanns Jónassonar, hækkuð úr 11070 kr. á ári í 24000 kr. á ári, en ritstjórinn jafnframt leystur frá störfum við fjárhald blaðsins og það starf fengið öðrum manni, starfsmanni í fjmrn., og launað með 12000 kr. á ári.

Þá er í þriðja lagi spurt um, hvort ráðinn hafi verið starfsmaður eða starfsmenn í stað þeirra, er áður störfuðu við ritstjórnina og fjárhaldið, og þá hver eða hverjir og fyrir hvaða greiðslu. Ráðinn hefur verið dr. phil. Jón Ragnarsson með sömu kjörum og þeir höfðu, þ. e. 3000 kr. á mánuði.

Loks er í fjórða lagi spurt um útgáfu Stjórnartíðinda, hverjir starfi við þau, hverjar greiðslur hafi verið fyrir þau störf og hvort þeim hafi verið sagt upp störfum um leið. Þessu síðasta atriði er raunar svarað með því, sem hér áður var sagt um þessar ráðstafanir.

Um greiðslur fyrir útgáfu Stjórnartíðinda er það að segja, að ráðuneytisstjórar, áður skrifstofustjórar dómsmrn., hafa um marga áratugi, a.m.k. frá því fyrir fyrra stríð, fengið nokkra þóknun fyrir umsjá með útgáfu Stjórnartíðinda. Sú þóknun nemur nú 7200 kr. á ári, og hefur svo verið síðustu árin. Ritstjórn Stjórnartíðinda hefur um langt árabil annazt Jón Gunnlaugsson fulltrúi, sá starfsmaður stjórnarráðsins, sem áður var frá greint. Hefur hann nú, er hann á þessu ári nær aldurshámarki, verið í 40 ár starfsmaður stjórnarráðsins. Hefur hann gegnt ýmsum störfum á þessu tímabili og verið að nokkru leyti starfsmaður atvmrn., síðar félmrn. og dómsmrn. Hafa störf hans því verið nokkuð breytileg, en nú ráman áratug hefur hann aðallega starfað við ritstjórn Stjórnartíðindanna, en launakjör hans markast nokkuð af þessum breytingum á störfum hans. Hann hefur um árabil auk fulltrúalauna haft sérstakar greiðslur fyrir afgreiðslu Stjórnartíðindanna og útsendingu ásamt bifreiðastyrk, en vegna húsnæðisskorts eru Stjórnartíðindi geymd á fjórum stöðum, þar á meðal á lofti Bessastaðakirkju. Greiðslur þessar nema á s.l. 5 árum 16452 kr. hvert árið, og auk þess hefur hann fengið greidd innheimtulaun.

Svo sem áður var sagt, eru nú fyrirhugaðar breytingar í sparnaðarskyni á öllu þessu fyrirkomulagi við sameiningu umræddra starfa.