18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

125. mál, Lögbirtingablað og Stjórnartíðindi

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég er ánægður með svör ráðherrans að vissu marki, vegna þess að hann hefur þar gefið ýmsar upplýsingar, sem ég óskaði eftir, eins og t.d. varðandi kostnaðinn við ritstjórn Lögbirtingablaðsins og Stjórnartíðinda. Ég held, að þær tölur, sem hann nefndi í því sambandi, hafi fullkomlega sýnt, að launagreiðslum í sambandi við ritstjórn og fjárreiður Lögbirtingablaðsins hefur mjög verið í hóf stillt, þar sem tölur hans raunverulega sýndu, að þær hafa verið mörgum sinnum lægri á ári en sambærilegur kostnaður víð Stjórnartíðindin hefur verið.

Hins vegar verð ég að segja það, að ég var ekki jafnánægður með sumt annað í svörum hans, eins og t.d., að það hafi verið sérstök nauðsyn á að gera þessa breytingu vegna þeirra lagaákvæða, sem hann minntist á hér áðan, því að sú skipun, sem verið hefur að undanförnu, er nú búin að standa um 17 ára skeið, án þess að þótt hafi sérstök astæða til þess að fara svo nákvæmlega eftir þeim. Og hvað ritstjórn Lögbirtingablaðsins snertir, þá hefur hún vel reynzt.

Það upplýstist einnig hjá hæstv. ráðh., að sú breyting, sem hann ráðgerir, á ekki að ganga í gildi fyrr en um næstu áramót, og af þeirri ástæðu hefði ekki verið þörf á því að hverfa að henni fyrr en þá, jafnvel þó að hæstv. ráðh. líti svo á, að hún væri nauðsynleg. Þess vegna virðast hafa legið þarna til einhverjar sérstakar ástæður, þannig lagaðar, að ráðh. hafi talið þörf á því að hraða þessum aðgerðum, og aðra skýringu er ekki hægt að fá á því en þá, að hér hafi verið um mann að ræða, sem hafi verið honum nokkuð vandabundinn, a.m.k. pólitískt, og hann hafi þurft að flýta því að koma honum í eitthvert starf og þess vegna hafi þessi ráðstöfun veríð gerð svona fljótt. En það mun áreiðanlega sýna sig í framkvæmdinni. hvað ritstjórn Lögbirtingablaðsins snertir, að það mun ekki verða sparnaður í sambandi við þessa ráðstöfun, vegna þess að hún var ódýr, eins og hér hefur komið fram samkv. upplýsingum sjálfs ráðh.

Hvort ritstjórn Stjórnartíðindanna hafi hins vegar verið óhæfilega kostnaðarsöm og þess vegna kunni að verða einhver sparnaður í sambandi við þessa breytingu, það á eftir að sýna sig, og það er bezt bæði fyrir mig og hæstv. ráðh. að spð ekki neinu um það, reynslan mun leiða í ljós, hver niðurstaðan verður í þeim efnum, og það verður áreiðanlega fylgzt með því, hvernig útkoman verður í því sambandi, og verður þá ástæða til þess að ræða það, þegar þar að kemur. Hinu er hins vegar hægt að slá föstu samkvæmt þeim upplýsingum, sem hæstv. ráðh. hér gaf, að hann hefur ráðizt í þessa ráðstöfun með mikilli skyndingu og látið hana bera þannig að, vegna þess að henni fylgdu engar opinberar skýringar frá hans hálfu á sínum tíma, að það hefur ef til vill í augum ýmissa fallið sá grunur á þann starfsmann, sem látinn var fara, að það hafi verið vegna þess, að hann hafi ekki rækt starf sitt nægilega vel, og að því leyti er rétt að átelja, hvernig þetta hefur verið gert, og eins hitt, sem virðist gægjast fram í og mátti lesa óbeint úr svörum hæstv. ráðh., að hér hefur verið hafður sérstakur hraði á framkvæmdum vegna þess, að ráðh. mun hafa þurft að koma pólitískum vandamanni eða aðstoðarmanni sínum í starf.