16.02.1960
Neðri deild: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv., sem hér liggur fyrir, og leggur einróma til, að það verði samþ. óbreytt.

Eins og hv. þm. er kunnugt, er hér um að ræða staðfestingu á brbl., sem gefin voru út af hæstv. landbrh. 15. des. s.l., en þau voru löggilding á samkomulagi, er gert var milli fulltrúa framleiðenda, þ.e. bænda, annars vegar og fulltrúa neytenda hins vegar um nokkuð breytta skipan á verðlagsmálum landbúnaðarins.

Þessi brbl. má segja að hafi verið grafskrift á leiði hinna eldri brbl. Þessi, sem hér liggja fyrir í frumvarpsformi, upphófu anda og efni hinna fyrri, sem svo mjög höfðu valdið deilum, og það, sem mest er um vert: þetta var gert með samkomulagi á milli þeirra, sem hér eru fyrst og fremst aðilar. Því skal ekki heldur gleymt, að hæstv. landbrh. hafði um þetta samkomulag ötula og farsæla forustu, og ég tel skylt að taka það einnig fram, að eindreginn samkomulagsvilji ríkti hjá flestum þeirra, er að lausn þessa máls unnu.

Ég held, að sú skipan, sem hér er um búvöruverðið, mætti um margt vera til fyrirmyndar. Ég tel sérstaka ástæðu til að vekja athygli á því, að það eru aðrar stéttir, sem ákveða bændunum kaupið. Þeir hafa aldrei frumkvæði um hækkunarkröfur, þeir hafa aðeins tryggt sér rétt til sams konar launa og aðrar hliðstæðar starfsstéttir, sæta bæði hækkun og einnig lækkun að annarra frumkvæði. Ákvæðið um gerð eða hlutlausan úrskurð, ef ekki næst samkomulag, er hið merkilegasta og mætti vera til fyrirmyndar. Er það byggt á virðingu fyrir lögum og rétti og vottur félagslegs skilnings.

Við 1. umr. málsins hér í hv. d. kom fram aths. frá hv. þm. Jóni Skaftasyni um það, að enn væri ekki skýrt tekið fram í frv. um skyldur sexmannanefndarhlutanna til að nefna mann í yfirnefnd. Það er æskilegast að mega nú treysta á þegnskap og skilning, þar sem þessi ákvæði eru beinlínis byggð á samkomulagi, og ég held, að deilan í haust hafi orðið flestum slíkur lærdómur, að naumast þurfi að óttast, að reynt verði að brjóta gegn anda þessara laga, er þau hafa öðlazt fullnaðargildi, a.m.k. ekki í bráð.

Ég vil svo aðeins endurtaka það, að landbn. leggur einróma til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.