17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

42. mál, fjárlög 1960

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja eina brtt, við fjárlögin. Hún er á þskj. 203, VIII, um framlag úr ríkissjóði til byggingar stjórnarráðshúss, 1 millj. kr. Ég viðurkenni fúslega, að mér hefði þótt miklu betur viðeigandi, að þessi upphæð væri allmiklu hærri, en með hliðsjón af kringumstæðunum hef ég þó ekki séð mér fært að leggja til, að hærri upphæð en þetta verði áætluð á fjárlögum þessa árs í þessu skyni.

Ég skal gera mjög stutta grein fyrir, hvernig þetta mál liggur fyrir, ef það skyldi vera hv. þm. úr minni liðið.

Það var á hálfrar aldar afmæli innlendrar ríkisstjórnar eða frá því að stjórnin fluttist inn í landið, 1. febr. 1904, að tekin var ákvörðun um það innan þáverandi ríkisstj. að minnast þess afmælis með því, að ríkisstj. legði til við hæstv. Alþingi, að það samþykkti að byggja stjórnarráðshús á svæðinu milli Amtmannsstígs og Bankastrætis og ef til vill líka norðan Bankastrætis, og ríkisstj. ákvað þá jafnframt að beita sér fyrir, að eitthvert fé væri lagt til hliðar þá þegar í þessu skyni. Fregn um þetta var birt í útvarpi og blöðum, og tveir af ráðh., Ólafur Thors og Steingrímur Steinþórsson, fluttu þáltill. í Sþ. um fjárframlög til stjórnarráðshússins. Till. var samþ. 13. apríl 1954, og varðandi þessa hliðmálsins, — hún fjallaði um Skálholt líka, — var hún á þá leið, að „Alþingi ályktar að heimila ríkisstj. að verja úr ríkissjóði á árinu 1954 eða leggja til hliðar á því ári 2 millj. kr. til þess að reisa nýtt stjórnarráðshús í Reykjavík.“ Þessi till. var samþykkt, mig minnir með shlj. atkv. viðstaddra þm., og ríkisstj. skipaði svo nefnd til þess að hafa þetta mál með höndum. Formaður hennar var húsameistari ríkisins. Að öðru leyti áttu sæti í henni allir ráðuneytisstjórar, og svo hagstofustjóri síðar, en ritari nefndarinnar var deildarstjóri í stjórnarráðinu, Ásgeir Pétursson.

Þessi nefnd ákvað svo að fela 3 arkitektum að vera til aðstoðar húsameistara ríkisins varðandi teikningar að þessu húsi, en húsameistarinn er formaður nefndarinnar og hefur aðalstjórn málanna. Þessir arkitektar voru Halldór H. Jónsson, Gunnlaugur Halldórsson og Skarphéðinn Jóhannsson. Frumteikningar að húsinu liggja nú fyrir, eða a.m.k. er óhætt að segja, að það væri hægt að byrja á verkinu fljótlega, ef mönnum litist svo.

Rétt þykir mér að geta þess, að lóðirnar, sem um er rætt, og eru á kannske einum fegursta stað bæjarins fyrir slíkar byggingar, á milli Amtmannsstígs og Bankastrætis, kunna að vera í það minnsta. En sérstaklega hafa menn nokkrar áhyggjur af, að erfitt verði að koma fyrir nægum bílastæðum þar. Þó hygg ég ekki, að það muni geta skorið úr neitt um framkvæmdir í málinu.

Rétt þykir mér að skýra frá því, að til greina hefur komið að reisa allstórt hús á bak við stjórnarráðshúsið gamla, þ.e.a.s. hvíta húsið við Lækjargötu, sem yrði þá sennilega sex hæða hús, þar sem ætlað væri að leysa bráðabirgðaþörf stjórnarráðsins og annarra opinberra bygginga, og raunar þó að stóra húsið væri byggt hinum megin við Bankastrætið, þá er áreiðanlega full þörf fyrir þetta hús eftir sem áður, enda er það svo, eins og upplýst hefur verið nú við umr, fjárl., að ríkið mun greiða 7–8 millj. kr. árlega í húsaleigu fyrir stofnanir, sem eru ýmist beint tilheyrandi stjórnarráðinu eða á vegum ríkisins, þannig að það er tæplega sæmandi að reyna ekki að bæta úr þessu. Það er of miklu fé á glæ kastað, og allir starfshættir eru óhentugri en þeir þyrftu að vera vegna þeirrar skipanar, sem á þessum málum er. Einnig að þessu húsi eru uppdrættir fyrir hendi, og það mætti þess vegna sennilega líka hefjast bráðlega handa um það. Það hús er ætlað nú eftir gengisbreytinguna að muni kosta 12–15 millj. kr. Að sönnu er þar ekki innifalin dálítil lóðarspilda, sem þarf að kaupa fyrir ofan stjórnarráðshúsblettinn að baki hvíta húsinu, og það er sjálfsagt nokkurt fé, sem yrði að verja í því skyni. Það hafa engir samningar farið fram við eiganda þeirrar lóðar um það mál.

Kostnaðaráætlunin fyrir nýja stjórnarráðshúsið, hið mikla eða stóra stjórnarráðshús að sunnanverðu við Bankastræti, er 50–60 millj. kr. mjög lauslega áætlað eftir gengisbreytinguna.

Til viðbótar þessu liggur svo fyrir að byggja eina hæð ofan á Arnarhvol, eða það hefur a.m.k. mjög komið til greina. Það mundi kosta eitt út af fyrir sig yfir 8 millj. kr. Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um, að það verk skuli framkvæmt, en ég veit ekki nema það væri þó að athuguðu máli skynsamlegt að gera það, hvað sem öðru líður, einnig af því að það þarf að gera við þakið á því húsi, og maður þekkir nú, að þegar slíkar viðgerðir eru á annað borð hafnar, þá draga þær dilk á eftir sér, og ekki kæmi mér á óvart, að það færi fyrsta milljónin í það og raunar meira.

Það, sem fyrir liggur, er þess vegna að bæta hæð ofan á Arnarhvol, sem kostar um 9 millj. kr. lauslega áætlað. Ég tek það fram, að ég fyrir mitt leyti mundi ekki vilja leggja til, að til þeirrar byggingar yrði varið því fé, sem nú kann að vera fyrir hendi til byggingar á stjórnarráðshúsinu. Það yrði að fást með öðrum hætti. Í öðru lagi liggur fyrir að leysa einnig aðkallandi þörf með byggingu þessa sex hæða húss á bak við hvíta húsið, stjórnarráðsbygginguna við Lækjartorg. Og í þriðja lagi, og það er auðvitað aðaltakmarkið, liggur fyrir að byggja varanlegt hús sem aðsetur íslenzkra stjórnarvalda að sunnanverðu við Bankastræti. Allt mundi þetta kosta eftir þeim áætlunum, sem fyrir liggja, minnst 75–85 millj, kr. Ég segi ekki, að það sé nauðsynlegt að gera þetta allt í einu, en það er álitamál, hvar á að byrja, og allt er það þarflegt. Og þó að við hefðum fengið öll þessi hús, þá hygg ég, að við hefðum ekki meira en fullnægt þeirri þörf, sem er fyrir hendi um stofnanir, sem ýmist tilheyra beinlínis stjórnarráðinu eða eru á vegum ríkisins.

Fé fyrir hendi er mjög takmarkað í þessu skyni. Í sjóði eru þær 2 millj., sem samþykktar voru sem fyrsta framlag á árinu 1954, í öðru lagi voru samþ. á fjárl. 1955, 1956 og 1957 2 millj. hvert ár, og loks var veitt á fjárl. 1958 1 millj., þannig að alls hafa verið lagðar fram 9 millj. Á fjárl. 1959 var hins vegar engin fjárveiting til stjórnarráðshússins. Ég viðurkenni fúslega, að þessi eina millj., sem ég er að fara fram á, er bitamunur, en ekki fjár, hvort veitt verður eða ekki, en mér þykir þó rétt að biðja Alþ. um að gera þetta, þannig að við sýnum viljann til þess að halda þessu þarfa verki vakandi, og það er þá hvatning líka til stjórnarvaldanna, að Alþ. standi heils hugar að því, að hafizt verði handa í þessum efnum, og ég segi það hiklaust, að það verður ekki lengi dregið úr þessu. Ég læt útrætt um þetta mál í fullu trausti þess, að um þetta verði ekki mikill ágreiningur.

Ég hefði haft talsverða tilhneigingu til þess að segja nokkur orð almennt út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, viðurkenni þó, að sá málstaður, sem ég hefði viljað halda hér á lofti, hefur verið þannig fluttur við framsöguræðuna hjá hv. formanni fjvn. og raunar í hans svarræðu líka og í ræðu hæstv. fjmrh., að sennilega hefði ég ekki getað mikið þar af mörkum lagt. Það er hin innri þörf, sem hefði þó hvatt mig til þess að segja mínar skoðanir. En ég læt það undir höfuð leggjast. Ég veit, hvað hér er á ferðinni, hér þurfa ýmsir að tala um sínar tillögur, veit, að það hefur verið svo um talað að reyna að ljúka þessum umr. sæmilega tímanlega í dag. Ég tel mig ekki standa við það, sem hefur verið um þetta rætt milli formanna flokkanna, ef ég færi nú að halda hér langa ræðu, og læt þess vegna aðeins nægja að takmarka mig við þessa einu brtt., sem ég hef flutt, og láta í ljós það, að ég tek heils hugar undir bæði það, sem hæstv. fjmrh. og hv. formaður n. hafa sagt um þessi efni, og skal raunar viðurkenna, að hefði ég viljað nokkru við það bæta, þá hefði ég hvatt til enn þá meiri varfærni um afgreiðslu fjárl. heldur en nú er fyrir hendi, þó að ég geri mér fullkomlega ljóst, að það hefur verið mikið átak að geta þó lagt málið nú fyrir hæstv. Alþ., eins og gert er, með nokkurn veginn vissu um það, að hækkanir verði ekki verulega umfram það, sem hv. meiri hl. n. hefur lagt til. En ég tel þó, að menn megi hafa það hugfast, að enda þótt hér hafi verið gætt varfærni, eftir því sem við eigum að venjast hér á þinginu, þá er líka mikið í húfi, og spurningin er ekki sú, hvort við höfum verið of varfærnir, það getur aldrei skaðað. Verði tekjuafgangur eða greiðsluafgangur á árinu, þá nýtur þjóðin góðs af því í skattalækkunum eða öðrum formum á næsta ári. En ef við förum of ógætilega, þá held ég, að af því geti vel leitt, að þær tilraunir, sem nú eru gerðar til þess að komast inn á nýjar og farsælli brautir varðandi efnahagsmál Íslendinga, yrðu með því brotnar niður.