17.03.1960
Sameinað þing: 26. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1633 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

42. mál, fjárlög 1960

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér hefur skilizt, að hæstv. forseti óski eftir því, að menn verði frekar stuttorðir, og skal ég leitast við að verða við því, enda eru hugir manna farnir að snúast að öðru efni en brtt. við fjárlög eftir fundarsókninni að dæma.

Samkv. till. meiri hl. hv. fjvn. er lagt til, að svipaðri upphæð verði varið til nýbyggingar vega í landinu og var á s.l. ári. En við framsóknarmenn getum ekki sætt okkur við þetta, því að auðvitað felst í þessu stórkostleg lækkun fjárveitinga til þessara hluta, þar sem nýtt dýrtíðarflóð er að skella yfir, og mun þetta samsvara því, að í raun og veru sé þetta allt að því þriðjungslækkun á framlögum til þessara opinberu framkvæmda. Við hv. 2. þm. Vestf. (BGuðbj) flytjum nokkrar brtt. við frv., sem eru byggðar á því, að hækkað verði í heild framlag til vega, brúa og hafna, og er sú skipting, sem við höfum gert á þskj. 206, miðuð við það, að hækkunin komi til þeirra framkvæmda, sem við teljum að mest sé þörf á.

Fyrsta till. á þskj. 206, sem við flytjum, II, eru vegir.

1. liður er um Króksfjarðarnesveg og er aðeins 30 þús. kr., nýr liður. Króksfjarðarnes er eini verzlunarstaðurinn við norðanverðan Breiðafjörð, og sækja þangað 3 sveitir alla verzlun, en á þessum stutta vegi er kafli, sem verður ófær í snjóum og lokar öllum samgöngum við verzlunarstaðinn þegar vetrar. Það verður því ekki talið ósanngjarnt, að einum 30 þús. kr. sé varið til þess að bæta úr þessu.

2. liður í þessari till. er Gufudalsvegur í Austur-Barðastrandarsýslu. Til þessa vegar hefur árlega verið varið frá 70–100 þús. kr. En nú bregður svo við, að það á aðeins að veita 10 þús. kr. í veginn. Eins og kunnugt er þeim, sem hafa farið vestur Barðastrandarsýslu eða norður til Ísafjarðardjúps, þá er kafli á þessum vegi í Þorskafirði alveg óviðunandi, hefur aldrei verið lagður varanlega, og þarf að leggja þann kafla að nýju. Við leggjum því til, að fjárveiting til þessa vegar verði hækkuð úr þessum 10 þús., sem ætlað var til þess að borga skuld, upp í 70 þús., og er það þá sama upphæð og var veitt í fyrra í þennan veg, og er það ekki ósanngjörn tillaga.

3. liður er Rauðasandsvegur. Það er vegur milli Rauðasands og Patreksfjarðar. Um þennan veg fara fram mjólkurflutningar vetur og sumar. Þetta er stutt leið, ekki nema 12 km yfir fjall, en kafli á þessum vegi er stórhættulegur. Hann liggur niður snarbratta hlíð í sneiðingum, og vegna þess að aldrei hefur verið gerð vatnsrás meðfram þessum vegi, þá bólgnar vegurinn upp, stórkostlegir klakabunkar leggjast yfir veginn, og verður hann því hættulegur öllum þeim, sem aka um hann. Þannig hefur það viljað til tvisvar sinnum á stuttum tíma, að menn hafa hrapað fram af þessum vegi. annar í bifreið, hinn á dráttarvél. Þótt ekki yrðu stórslys í þau skipti, þá veit enginn, hvenær slíkt kann að gerast að nýju. Til þess að afstýra slíkri hættu eða a.m.k. til að draga úr henni leggjum við til, að fjárveitingin í þennan veg sé hækkuð úr 45 þús. í 75, eða um 30 þús. kr., og er vegurinn með lægri fjárveitingu en hann var í fyrra, þó að þetta yrði samþykkt.

4. liðurinn í till. okkar er Bíldudalsvegur norðan Hálfdáns, en fjallvegurinn Hálfdán er á milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar. Þarna vantar mjög mikið á, að vegurinn sé viðunandi, og var fjárveiting í þennan vegarkafla 90 þús. á s.l. ári, en samkv. till. meiri hl. fjvn. á aðeins að veita til hans 30 þús. Við leggjum til, að þessar 30 þús. hækki upp í 60 þús., og vantar þó mikið á, að þessi vegur fái jafnmikið og í fyrra.

5. liðurinn í þessum till. okkar er Bíldudalsvegur á Mikladal. Þetta er vegurinn milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Upphaflega var þarna ruddur bráðabirgðavegur, og við það hefur setið fram á þennan dag, nema gert hefur verið við allra verstu kaflana einstöku sinnum. En um þennan veg er mikil umferð milli tveggja útgerðarstaða, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. M.a. skal ég geta þess, að öll bein og fiskúrgangur frá útgerðinni í Tálknafirði er flutt til Patreksfjarðar til vinnslu í fiskimjölsverksmiðju þar. Það er mjög mikill einhugur um það að gera átak í þessu:m vegi, og það kemur nú reyndar fram hjá hv. fjvn., því að hún leggur til, að í þennan veg verði varið 200 þús. kr., en við leggjum til vegna þeirra hækkunartill., sem við teljum sjálfsagðar, að sú upphæð hækki í 300 þús. kr.

Þá eru 2 vegir, Suðurfjarðavegur og Dalahreppsvegur í Arnarfirði, sem báðir höfðu á síðustu fjárlögum 50 þús. kr. Við leggjum til, að þeir hafi það sama núna, annar þeirra, Suðurfjarðavegur, hækki úr 20 þús. í 50 þús. frá því, sem er í till. fjvn., en Dalahreppsvegur hækki úr 30 þús. í 50 þús. Verða þá þessir vegir jafnir því, sem þeir höfðu í fyrra, og er það ekki til of mikils mælzt.

8. liðurinn er Ingjaldssandsvegur í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Hann liggur yfir Sandsheiði til Ingjaldssands, er mjög ófullkominn og lokast mjög snemma, eftir að snjóa tekur. En þarna er auk þess mjög varasöm lending og oft algerlega ófær. Þegar vegurinn er ófær og lendingin líka, er þetta fólk innilokað. Af þessum ástæðum er það, sem við leggjum til, að til þessa vegar verði veitt 150 þús. kr. í staðinn fyrir 100 þús. kr.

9. liðurinn er Ísafjarðarvegur, Breiðadalsheiði. Í þennan veg hefur ekki verið fjárveiting nú um nokkurt skeið a.m.k. Breiðadalsheiði er eitt af hæstu fjöllum landsins, sem vegir liggja um, og vegurinn óviðunandi, víða jafnhár landinu í kring og sums staðar niðurgrafinn. Þessi vegur lokast á hverju einasta hausti, jafnvel á sumrin, ef hin minnsta snjókoma á sér stað. Um þennan veg er mikil umferð milli Ísafjarðar og kauptúnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu, en nú mun þessi umferð margfaldast við það, að Vestfjarðavegur hefur verið opnaður og þar með er Ísafjörður kominn í vegasamband við þjóðvegakerfi landsins. Það má því ekki bíða lengur, að hafizt verði handa um að gera viðunandi veg á Breiðadalsheiði, bæði uppi á háheiðinni og í Skógarbrekkunum, sem eru Önundarfjarðarmegin, en þar er vegurinn alveg óviðunandi.

10. liðurinn í þessum till. er Snæfjallastrandarvegur. Snæfjallahreppur er að vísu ekki margmennur nú orðið, það eru aðeins 4 bæir í byggð auk Æðeyjar, en hreppurinn er einangraður hvað vegasamband snertir um Kaldalón. Hins vegar eru engin sérstök vandkvæði á að koma hreppnum í vegasamband við Nauteyrarhrepp, þó að leggja þurfi inn fyrir Kaldalón, og er nokkuð komið áleiðis báðum megin frá að gera þetta. Í fyrra var fjárveiting í þennan veg 140 þús. kr., og leggjum við til, að hún verði 150 þús. kr. nú í stað 100 þús., sem hv. fjvn. leggur til.

11. liðurinn í þessum till. er Ögurvegur. Það er svipað um Ögurhrepp að segja og Snæfjallahrepp, að hann er einangraður hvað vegasamband snertir. Miðkaflinn úr Ögurvegi er ólagður enn þá, svo að Ögurhreppur er ekki í neinu sambandi við þjóðvegakerfið. Á þessum vegi er nú 380 þús. kr. skuld, og þó að veittar verði 575 þús. kr. í þennan veg, eins og hv. fjvn. leggur til, þá verður ekki hægt að vinna fyrir nema tæp 200 þús., en það er algerlega ófullnægjandi til þess að ná endunum saman á næsta sumri, eins og þó er tilætlunin. Við leggjum því til, að í þennan veg verði varið 700 þús. kr.

12. liðurinn í till. er Reykjarfjarðarvegur á Ströndum. Þessi vegur er mjög langur, nær úr Staðardal í Steingrímsfirði norður í Ófeigsfjörð, en langur kafli á þessum vegi er ógerður enn, og er það mikið átak að leggja þann veg. Árneshreppur, sem er einn af stærstu hreppunum, hefur veg innan hreppsins, en er ekki í neinu vegasambandi við þjóðvegakerfið. Nú hefur verið hækkuð fjárveiting skv. till. fjvn. í þennan veg, en með tilliti til þess, að við leggjum til, að heildarupphæð til vega verði hækkuð, eins og ég áður sagði, þá gerum við till. um, að þessi fjárveiting hækki úr 525 þús. í 700 þús. Á þessum vegi er 200 þús. kr. skuld, svo að ekki yrði þá unnið fyrir nema 500 þús., þó að okkar till. yrði samþ., en ekki nema fyrir um rúmar 300 þús., ef till. fjvn. verður samþ.

Selstrandarvegur á að tengja Drangsnes við þjóðvegakerfið um Hólmavík. Hann hefur enga fjárveitingu í till. fjvn. Við leggjum til, að í hann verði varið 100 þús. kr.

Loks er það Strandavegur, en hann nær alla leið frá Hrútafjarðarbrú norður í Staðardal í Steingrímsfirði. Till. fjvn. um framlag í þennan veg er 115 þús. kr., og á hún að ganga til þess að borga 115 þús. kr. skuld, svo að ekkert á að vinna í þeim vegi á næsta sumri. Með tilliti til þess, sem ég hef áður sagt um hækkun á vegafénu í heild, leggjum við til, að til hans verði varið 200 þús. kr.

Á þessu sama þskj. flytjum við, ég og hv. 2. þm. Vestf., brtt. V, það eru brúargerðir.

1. liðurinn er brú á Holtsá á Barðaströnd. Holtsá einangrar 5 bæi í hreppnum frá öðrum bæjum sveitarinnar. Alltaf þegar nokkrir vatnavextir eru og allan veturinn eru þessir bæir einangraðir hvað vegasamband snertir, vegna þess að áin er óbrúuð. Vegamálastjórnin hefur rannsakað brúarstæðið og ákveðið það, framkvæmt mælingar og gert kostnaðaráætlun um brúna, og er það samkv. þeirri áætlun, sem við leggjum til, að til þessarar brúar verði varið 440 þús. kr.

2. liðurinn er Sunndalsá í Trostansfirði. Ég vil benda á, að það er prentvilla þarna í þskj., það á að vera Sunndalsá, en ekki Sunnudalsá. Dalurinn heitir Sunndalur. Trostansfjörður gengur inn úr Arnarfirði, og Suðurfjarðavegur er kominn að þessari á, en ekki lengra. Síðan á vegurinn að liggja upp á Vestfjarðaveg, en það er stutt leið, 5 eða 6 km. Þegar sá vegur kemur, fá Arnfirðingar og reyndar Tálknfirðingar líka miklu styttri leið norður til Ísafjarðar og Arnfirðingar fyrst og fremst miklu styttri leið til Suðurlandsins, þegar þessi stutti vegarkafli er kominn, en til þess þarf að koma á þessari brú. Þarna hefur brúarstæðið verið ákveðið, mælingar gerðar og kostnaðaráætlun, og er það samkvæmt þeirri áætlun, sem við leggjum til að varið sé 480 þús. kr. í þessa brú.

Loks er það brú á Reykjarfjarðará á Ströndum. Sú brú hefur þegar verið ákveðin, og hefur verið veitt til hennar 200 þús. kr. fjárveiting, sem er geymd. Við leggjum til, að seinni hluti fjárveitingarinnar, 335 þús. kr., verði nú tekinn upp í fjárlögin, og er það nýr liður hjá, okkur, því að það er ekki till. um það hjá hv. fjvn.

VIII. till. á þskj. 206, sem við þessir sömu þm. flytjum, er um hafnir og lendingarbætur. 1. liður er Brjánslækur á Barðaströnd. Þetta er ferjubryggja, sem varið hefur verið til nokkurri fjárhæð á undanförnum árum og síðast í fyrra 50 þús. kr. Sú upphæð er geymd. En nú virðist eiga að fella niður að veita fé til þessarar bryggju, þrátt fyrir það að ekki er lokið síðasta áfanga bryggjunnar. Við teljum, að það sé fjarri lagi að fella niður þessa fjárveitingu, og leggjum því til, að 50 þús. verði veittar til bryggjunnar eins og í fyrra, jafnvel þó að ekki verði unnið fyrir það á þessu ári, því að það er skynsamlegra að safna því heldur saman og vinna fyrir það allt í einu, enda verður það að sjálfsögðu gert, þegar um síðasta áfangann á bryggjunni er að ræða.

2. liðurinn er Drangsnes. Þar er aðkallandi nauðsyn að lengja bryggjuna, því að hinn nýi litli togari, Steingrímur trölli, sem á að leggja upp fisk í Drangsnesi, getur það ekki, nema bryggjan verði lengd. Er það því skiljanlegt, að heimamenn óski eftir því að fá nokkra fjárveitingu í þessa bryggju, og í samræmi við það leggjum við til, að til hennar verði varið 100 þús. kr., og getur það varla talizt há upphæð, fyrst á annað borð á að leggja fram eitthvað til þessara hluta.

XI. liður á þskj. 206 frá okkur þessum tveimur sömu þm. er um Króksfjarðarnes. Þar vantar síðasta áfangann og hann ekki stóran til að ljúka þeirri stækkun á bryggjunni, sem staðið hefur yfir á undanförnum árum. Það eru 30 þús. kr., og þarf varla að hafa um það fleiri orð. Við leggjum því til, að orðið sé við þeirri beiðni að veita þessa upphæð.

Þá er það Patreksfjörður. Þessi höfn er dýrt og mikið mannvirki, sem búið er að standa lengi yfir, og langt frá því, að sjáist fyrir endann á þeirri framkvæmd. Í till. hv. fjvn. er ætlazt til, að 100 þús. kr. verði varið til þessarar hafnar. Ég verð að segja, að það er vægast sagt broslegt að veita 100 þús. kr. til þessarar hafnar, sem þarf á milljónum að halda. Við leggjum til, að þetta sé hækkað upp í 200 þús., og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

B-liður er um Reykjanes í Reykhólasveit. Í fyrra var fjárveiting til lendingarbóta þar 150 þús., og er sú fjárveiting geymd. Samkvæmt þessari till. er farið fram á það, að þessari væntanlegu bryggju verði breytt í ferjubryggju, þ.e. að ekki sé krafizt mótframlags frá heimahéraði. Er það vegna þess, að litlar líkur eru til þess, að sveitarfélag þetta geti lagt fram helming kostnaðar við þessa bryggjugerð. Það er eina efni þessarar till. að fá henni breytt í ferjubryggju, en fjárveitingin, 150 þús., er aðeins endurveiting. Það er upphæðin, sem er geymd, og er því hér ekki um neina hækkun að ræða.

Þá er það 3. liður í XI. till. á sama þskj., Suðureyri í Súgandafirði. Þar standa til miklar endurbætur á hafnargerðinni, enda gersamlega óviðunandi ástand hjá útgerðinni þar að búa við það, sem nú er. Þeir hafa í raun og veru enga höfn heima hjá sér, heldur þó nokkuð utan við kauptúnið í skjóli við brimbrjót. En ætlunin er að hefjast handa um að endurbæta svo höfnina heima fyrir, að hún verði nothæf bátaútgerðinni á Suðureyri. Samkvæmt till. fjvn. á að veita í þetta 200 þús., en við leggjum til, að það hækki upp í 300 þús., og þarf ekki fleiri orð um það að hafa.

Loks er það till. um, að fjárveiting til Tálknafjarðar, 100 þús., hækki upp í 200 þús. Er mjög svipað um það að segja og Patreksfjörð og Suðureyri. Á öllum þessum stöðum er vaxandi útgerð, sérstaklega á Patreksfirði og Tálknafirði, og er ekki unnt fyrir útgerðarmenn að búa við þau skilyrði, sem nú eru, og því full þörf á að bæta úr þessu ástandi. Viljum við sýna nokkurn lít á því með því að leggja til, að nokkru meira fé verði varið til þessara hafna en ætlazt er til í till. hv. fjvn.

Á þessu sama þingskjali flyt ég brtt. við 20. gr. fjárlaganna, að liðurinn orðist svo: Til bygginga á prestssetrum 2115 þús., þar af 500 þús. til prestsseturshúss á Brjánslæk. Ég legg til, að liðurinn hækki um 500 þús. og það fari til prestshúss á Brjánslæk. Ástæðan til þessa er sú, að á Brjánslæk hefur verið prestlaust um langan tíma þar til nú í vetur, að vígður var prestur til Brjánslækjar. Hann fluttist vestur og fékk þar bráðabirgðahúsnæði á einum bænum handa sjálfum sér, en hann er fjölskyldumaður og hefur ekki að neinu íbúðarhúsi að koma þarna á Brjánslæk. Hins vegar mun vera full þörf fyrir þá fjárveitingu, sem fjvn. gerir ráð fyrir í sínum till., annars staðar en þarna, og verði þessi fjárveiting ekki hækkuð og á þennan hátt, þá mun ekki verða á næstunni vaxið neinu fé til að byggja yfir prestinn á Brjánslæk. Söfnuðirnir þarna hafa skrifað fjvn. og skorað á Alþ. að veita eitthvert fé til byggingar á prestshúsi þarna. Presturinn hefur komið að máli bæði við mig og aðra þm. Vestf. og skýrt frá sinni aðstöðu. Næstkomandi vor stendur til, að prestskosning fari þarna fram, en komi ekki nein fjárveiting nú til þessa prestshúss, þá flyzt presturinn í burt í vor og sækir ekki um brauðið og engin kosning fer fram, því að honum er ómögulegt að flytjast þangað, þegar hann getur hvergi verið inni með sig og sitt fólk. Fari svo, að þessi prestur verði mót vilja safnaðanna að flytast burt strax í vor, þá eru litlar líkur til þess, að kandídatar eða prestar sæki um Brjánslækjarprestakall, ef þeir mæta ekki meiri skilningi en þetta hjá hæstv. Alþingi um fjárveitingu til þess að byggja yfir prestinn. Þá eru miklar líkur til þess, að Brjánslækur fái að vera prestslaus fyrst um sinn. Það er því ekki hægt að líta öðruvísi á en svo, að verði synjað þessari till. eða einhverri annarri till., sem gerir sama gagn, þá er það yfirlýsing Alþingis um það, að engin þörf sé á presti á Brjánslæk, eða þannig lít ég á hlutina.

Síðasta till. á þessu þskj., XXI er frá mér, hv. 2. þm. Vestf. og hv. 5. þm. Austf. Þann 30. nóv. s.l.. fluttum við, þessir sömu þm., frv. í hv. Ed. um heimildir ríkisstj. til að taka innlent lán, 6 millj. kr. á ári, til að bæta úr því misrétti, sem sumir landshlutar hafa orðið að búa við um langa hríð í vegamálum, og yrði slíku láni varið til nýbyggingar vega í þessum landshlutum, sem verst eru settir. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, af því að ég vil verða við tilmælum hæstv. forseta að stytta mál mitt sem mest. Ég vil aðeins geta þess, að svo miklu verr eru þessir tveir landshlutar settir í vegamálum en aðrir landshlutar, að það er með ólíkindum. Ég skal aðeins nefna sem dæmi, að af óbyggðum þjóðvegum í landinu eru 2/3 hlutar þeirra í Vestfjarða- og Austurlandskjördæmum tveimur, en aðeins 1/3 þessara óbyggðu þjóðvega er í hinum fimm kjördæmunum utan Reykjavíkur samtals. 2/3 hlutar af óbyggðum þjóðvegum í landinu eru aðeins í þessum tveimur landshlutum. Þetta segir sannarlega sína sögu. Og meira en helmingur af ruddum þjóðvegum í landinu er líka í þessum tveimur sömu landshlutum, tæpur helmingur er í hinum fimm kjördæmunum til samans. Ég held, að þessar tvær tölur tali sínu máli um það, hvernig þessir tveir landshlutar hafa verið settir og eru settir enn í vegamálum. Það hefur verið sá siður á hæstv. Alþingi og er það líklega enn að láta nokkurn veginn svipaða upphæð fara í kjördæmin og áður var, og það er hætt við, að þessum sið verði haldið áfram. En misréttið milli landshlutanna verður aldrei leiðrétt, ef þessum sið verður haldið, og ég er ekki trúaður á, að með beinum fjárveitingum á fjárl. fáist þetta leiðrétt. Þess vegna höfum við flutt frv., sem ég nefndi, um heimild fyrir ríkisstj. til þess að taka lán í þessu skyni, og það ætti sannarlega að vera fær leið og tiltölulega auðveld leið að leysa þessi mál á þennan hátt. Sem dæmi um þetta vil ég nefna það, að þegar verið var að leggja síðasta og erfiðasta kaflann á Vestfjarðavegi í fyrra, til þess að hægt yrði að opna hann s.l. haust, þá lánuðu heimamenn þó nokkuð á aðra millj. kr. í þennan veg, til þess að hann kæmist á. Ég er því ekki í nokkrum vafa um það, að ef hæstv. ríkisstj. yrði veitt slík heimild og hún notuð, þá mundu heimamenn í héruðunum lána fé til vega til þess að koma þeim áfram, og það borgar sig fyrir ríkissjóð að fara þá leið og vinna stórátök í einu á víssum stöðum með þessum hætti. En þetta frv. okkar er nú búið að bíða í hv. fjvn. Ed. í 31/2 mánuð, og eru litlar líkur til, að það fáist samþ. á yfirstandandi Alþingi. A.m.k. eru ekki horfur á, að svo verði. Við flm. þessa frv. töldum því sjálfsagt, að þingviljinn kæmi fram um þetta mál, með því að flytja þessa till., sem ég nú hef lýst, og ég á bágt með að trúa því, að þessi hugmynd eigi ekki fylgi að fagna hjá hæstv. Alþingi. Vegna þessa er það, sem við flytjum till. við fjárl., til að fá sjálfan þingviljann fram um það, hvort þetta þyki ekki viðunandi leið til þess að bæta úr langvarandi misrétti milli landshluta. Við munum sannarlega taka til greina hvers konar óskir í þessa átt, þótt ekki náist það mark, sem við höfum sett. Við viljum heldur hálfan sigur en engan. Og ég geri ráð fyrir, að við tökum þessa till. aftur til 3. umr., ef hv. fjvn. vildi athuga hana milli umr.