30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Ásgeir Bjarnason [frh.]:

Herra forseti. Ég var hér áðan að lýsa úrskurði hæstaréttar út af því máli, sem fram fór á milli neytendasamtakanna og framleiðsluráðs landbúnaðarins, þ.e.a.s., ég var að lýsa hér hæstaréttarúrskurðinum, sem féll 30. okt. í haust:

„Framleiðsluráð hefur gert þá grein fyrir verðlagningunni, að bóndinn fái því aðeins þær tekjur, sem honum eru ákveðnar af verðlagsnefnd, að til hans renni kr. 22.20 pr. kg af öllu því kjötmagni (1. og 2. fl.), sem við er miðað í verðlagsgrundvellinum. Nú þurfi hins vegar að selja á erlendum markaði allmikið magn af kjöti, og nægi útflutningsbætur samkv. 19. gr. laga nr. 33/1958 ekki til þess, að bóndinn geti fengið kr. 22.20 pr. kg fyrir hið útflutta kjöt. Hafi því verið nauðsynlegt að ákveða heildsöluverðið svo sem gert var, til þess að bændur fengju þær heildartekjur, sem þeim voru mæltar í verðlagsgrundvellinum.

Í kröfugerð aðaláfrýjanda er við það miðað, að nefnd álagning, kr. 0.85 pr. kg í heildsölu, brjóti í bága við þann verðlagsgrundvöll, sem verðlagsnefnd hafði samþ., en eins og áður greinir, hafði hún ekki ákveðið neitt tiltekið verð á hverju kg kindakjöts. Í 4. gr. l. nr. 94 1947 er mælt, að haga beri verðlagningu þannig, að tekjur bænda verði í sem nánustu samræmi við heildartekjur annarra vinnandi stétta. Í máli þessu hafa ekki verið leidd rök að því, að heildsöluverð kjötsins, eins og það var ákveðið af framleiðsluráði, fari í bága við greint lagaákvæði né auki tekjur bóndans fram úr því, sem ákveðið var í verðlagsgrundvellinum. Þykir því bera að staðfesta hinn áfrýjaða dóm, en eftir atvikum á málskostnaður fyrir hæstarétti að falla niður.

Dómsorð: Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður. Málskostnaður fyrir hæstarétti falli niður.“

Framleiðsluráð landbúnaðarins vann því umrætt mál, bæði í undirrétti og hæstarétti, og virðist því ótvíræður lagabókstafurinn í þessum efnum. En ekki endurskoðuðu fulltrúar neytenda sína afstöðu þrátt fyrir þetta, heldur afsöluðu þeir sér algerlega samningsrétti þeim, sem þeir áttu ótvíræðan samkv. framleiðsluráðslögunum, því að ég hygg, þótt mánuður sé liðinn, frá því að þessi dómsorð féllu, að þá hafi fulltrúar neytenda ekki endurskoðað afstöðu sína um það að ræða ekki um verðlagsmálin, svo að mér sé vitanlegt, en þeir létu í það skína í því bréfi, sem þeir sendu til landbrn., þegar þeir sögðu sig úr verðlagsnefndinni.

Nokkru eftir að þetta gerðist kom bréf frá hæstv. forsrh., Emil Jónssyni, til stjórnar Stéttarsambands bænda, og hljóðar það bréf, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið; þetta bréf er dags. 9. okt.:

„Ég hef móttekið bréf stjórnar Stéttarsambands bænda, dags. 1. þ.m., þar sem þess er krafizt, að ríkisstj. hlutist til um, að yfirnefnd sú, sem um ræðir í 5. gr. laga um framleiðsluráð landbúnaðarins, verði nú þegar gerð starfhæf, svo að fundinn verði nýr grundvöllur til að byggja verðlagningu á. Jafnframt er frá því skýrt, að fundur Stéttarsambandsins 30. sept. s.l. hafi eftir atvikum getað fallizt á, að frestað verði til 15. des. n.k. að láta koma til framkvæmda þá hækkun á verði landbúnaðarafurða, sem bændum berí. Út af þessu skal ég leyfa mér að taka fram eftirfarandi:

Með brottför neytendafulltrúanna úr verðlagsnefndinni og neitun þeirra á því að tilnefna mann í yfirnefndina hefur skapazt ástand, sem er ekki gert ráð fyrir í lögunum um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. og nokkuð virðist geta orkað tvímælis um, hvernig við skuli bregðast. Ríkisstj. hefur talið, að eðlilegast sé að bíða með endanlega afgreiðslu málsins, þangað til hið nýkjörna þing kemur saman, og láta það skera úr. Þetta er þeim mun eðlilegra, þar sem upplýst er, að þetta muni ekki valda neinum töfum að ráði á greiðslu bóta, ef samþ. verða, enda nú á það fallizt á fundi Stéttarsambandsins að fresta framkvæmdum til 15. des. Ótímabærar ákvarðanir í þessu máli nú gætu einnig valdið óheppilegu kapphlaupi við launþegasamtökin, sem ríkisstj. telur höfuðnauðsyn að koma í veg fyrir. Að því hlýtur því að verða stefnt að leysa þessi mál öll með samkomulagi, þegar hið nýkjörna þing kemur saman, og einn þátturinn í því samkomulagi mun sjálfsagt verða að koma á þeirri skipan verðlagamála landbúnaðarins, sem báðir aðilar, framleiðendur og neytendur, geta staðið saman að, eins og verið hefur. Virðist því eðlilegt að bíða aðgerða Alþingis.

Virðingarfyllst,

Emil Jónsson.“

Við þetta bréf birtir síðan ritstjóri Freys í samráði við stjórn Stéttarsambandsins nokkra athugasemd, og hljóðar hún þannig:

„Það er athugavert við ofanritað bréf forsrh., að hann tvítekur í bréfinu, að fulltrúar Stéttarsambandsins hafi fallizt á eftir atvikum, að frestað verði til 15. des. n.k. að láta koma til framkvæmda þá hækkun á verði landbúnaðarafurða, sem bændum beri, en getur ekki um kröfur þær, sem fundurinn setti sem skilyrði fyrir þessari frestun. Því sleppir hæstv. ráðherra. Krafan var, að ríkisstj. hlutaðist til um, að yfirnefnd sú, sem um ræðir í 5. gr. l. um framleiðsluráð, yrði þegar gerð starfhæf, svo að fundinn verði nýr grundvöllur til að byggja verðlagninguna á,“ sbr. ályktun Stéttarsambandsins, dags. 30. sept., sem ég hef hér áður gert grein fyrir.

Láta þessir aðilar eða ritstjórinn þau orð falla, að þetta sé vægast sagt blekkjandi málsmeðferð hjá hæstv. ráðh. og full ástæða því til að vekja athygli á þeirri meðferð málsins.

En það, sem er eftirtektarvert í þessu bréfi, er það, að ráðh. tvítekur í bréfinu, að það skuli einmitt bíða aðgerða Alþ. að fjalla um þessi mál. En hvers vegna hefur þessi sami hæstv. ráðh., sem enn þá er í ríkisstj., þótt hann sé ekki forsrh., ekki stuðlað að því, að lögin, brbl., væru lögð fyrir Alþ., úr því að hann telur, að Alþ. berí fyrst og fremst að fjalla um þessi mál? Hver er ástæðan? Það væri verulega gott, ef þeir hæstv. ráðh., sem hér eru, vildu svara þessu. Hæstv. landbrh. hefur ekki meiri áhuga á landbúnaðarmálum en það, að hann er ekki viðlátinn, þegar verið er að ræða þessi mál, enda hugsar hann kannske sem svo, að sig varði það ekki mikið, þar sem hann er ekki bóndi sjálfur og getur haldið jafngóðum kjörum, hvernig svo sem með bændastéttina fer að öðru leyti.

Eftir að stjórn Stéttarsambandsins fann, að svar ráðh. var algerlega neikvætt, sá hún, að ekki varð hjá því komizt að undirbúa sölustöðvun, svo sem aukafulltrúafundurinn hafði falið henni. Atkvgr. mun nú lokið um heimild fyrir sölustöðvun, og verða atkv. talin innan skamms. Geri Alþ. og ríkisstj. ekki neitt jákvætt í málinu, má búast við, að mjólkursala verði stöðvuð á fyrsta verðlagssvæði, og er það nokkuð hastarlegt, að bændur landsins skuli tilneyddir að stöðva sölu á afurðum sínum til þess að freista á þann hátt að ná löglegum rétti sínum í verðlagsmálum.

Það er athyglisvert, og ég vil geta þess í þessu sambandi, að í haust fóru framsóknarmenn fram á það, að Alþ. yrði kvatt saman til að lýsa afstöðu sinni um brbl. og prófa það, hvort meiri hluti væri til fyrir þessum lögum. En því svaraði hæstv. forsrh. neitandi, hann teldi ekki ástæðu til þess að kveðja Alþ. saman til þeirra funda. Það er í fyrsta sinn á 12 árum, síðan Stéttarsamband bænda var stofnað, sem misvirtur er samningsréttur bændastéttarinnar í landinu með brbl., svo að bændur sjá sig knúða til að berjast af hörku fyrir rétti sínum. Sölustöðvun er óþekkt hér á landi. En það hefur fyrir komið, að mjólkurflutningar hafa verið bannaðir, þegar verkföll hafa staðið yfir og aðrir hafa barizt fyrir sínum rétti. En það er önnur saga.

Fordæmi brbl. er öllum félagssamtökum hættulegt, þar sem hægt er að beita hvern sem er svipuðum vinnubrögðum, ef tilefni gefst til og Alþ. er ekki starfandi. Það munu fáir líta þannig á, að bændum beri ekki sú kauphækkun, sem um er deilt og farið er fram á að þeir fái greidda nú þegar, þar sem þetta er innstæða, sem bændur eru búnir að eiga inni á annað ár. Þeim bar þetta strax í fyrra, eftir að þær kauphækkanir fóru fram, sem þá voru, þeim var lofað þessu í vetur, og því var yfir lýst í haust, að þeir skyldu fá þetta. Þess vegna sætir það furðu, að ekki skuli þegar vera hafizt handa af þeirri stjórn, er nú situr, að standa við gefin fyrirheit í þessum efnum.

Ég ætla, að það muni hér á hv. Alþ. nægjanlegt þingfylgi fyrir þeirri brtt., sem ég hef hér fram borið, vegna þess að stærsti þingflokkurinn, Sjálfstfl., og miðstjórn þess flokks hefur greinilega lýst því yfir, að þingflokkur sjálfstæðismanna mundi beita sér fyrir því, þegar Alþingi kæmi saman, að bændur fengju það, sem vantaði á þeirra kaup fyrir það ár, sem verðlagsgrundvöllur gildir nú fyrir. Því ætla ég, að sú brtt., sem er á þskj. 32, verði samþ., ef hver og einn stendur við sitt, og brbl. frá 19. sept. s.l. verði úr gildi felld ásamt ósæmilegum vinnubrögðum þeirrar hæstv. ríkisstj., sem kom þeim á, — að þessum lögum verði þá um leið varpað fyrir borð. Það mun líka einsdæmi, að nokkur ríkisstj. skuli ætla sér að leysa jafnmikið stórmál og dýrtíðarmálin eru á kostnað einnar einustu stéttar í landinu, bændastéttarinnar. Þetta er hál braut, sem farið er inn á, og sýnir, að þessir menn elska auðn og óbyggðir, en eru hatursmenn gróandi lands og þeirra auðæfa, sem gróðurmoldin geymir í skauti sínu.

Ég vænti því þess og trúi ekki öðru, fyrr en ég sé annað, en að sú brtt., sem ég hef hér lagt fram ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v., verði samþ. og þar með verði leiðréttur sá misréttur, sem á hefur verið hafður varðandi verðlagsmál bændastéttarinnar í landinu.