28.03.1960
Sameinað þing: 30. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

42. mál, fjárlög 1960

Frsm. samvn. samgm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Samvn. samgm. hefur lagt fram nál. sitt á þskj. 227 svo og brtt. við fjárlagafrv. á þskj. 242; III, sem bera með sér töluverða hækkun á framlögum ríkissjóðs til flóabáta og vöruflutninga frá heildarupphæð þeirri, sem greidd var á fjárl. síðasta árs. Var það sameiginlegt álit samvn. samgm., að ekki yrði hjá því komizt að hækka framlögin að nokkru vegna óhjákvæmilegrar hækkunar á rekstrarútgöldum þeirra aðila, sem þessa þjónustu hafa með höndum. N. er þó ljóst, að hækkanir þær, sem lagt er til að aðilar þeir njóti, sem flutninga annast, muni engan veginn vera nægilegar til að standa undir aukningu á rekstrarútgjöldum, þar sem vitað er, að olíur, vélahlutir, vátryggingar og fleira muni hækka verulega á þessu ári. Mun því vera nauðsynlegt fyrir eigendur flóabátanna að hækka að einhverju leyti far- og farmgjöld til að firrast taprekstur á þessari þjónustu, sem vissulega er áríðandi að fari sem bezt úr hendi og komi þeim aðilum, sem mest þurfa á henni að halda, að sem beztum notum.

Ég vil með nokkrum orðum ræða fjárframlög til hinna ýmsu flóabáta og vöruflutninga, sem n. er sammála um að mæla með að verði samþ. á hinu háa Alþingi.

Í sambandi við Norðurlandssamgöngur eru tillögur n, þessar: Til flóabátsins Drangs, sem er nýtt og vandað skip, er mælt með, að framlagið hækki úr 450 þús. kr. í 660 þús. kr. Verður að telja, að þetta sé eðlileg hækkun, þar sem eigandi bátsins mun á þessu ári og næstu árum þurfa á miklum fjárhæðum að halda til þess að geta staðið straum af afborgunum og vaxtagreiðslum svo og af rekstrarútgjöldum bátsins. — Til Strandabáts mælir n. með, að framlagið verði 160 þús. kr. í stað 100 þús. kr. áður, á þeim forsendum, að útgerðartímabil bátsins á nú að verða allt að 8 mánuðir í stað þess, að það hefur aðeins verið 4 mánuðir á undanförnum árum. — Til Haganesvíkurbáts hækki framlagið úr 7000 kr. í 8500 kr. og framlag til Hríseyjarbáts og Flateyjarbáts á Skjálfanda hækki um 20%.

Til Austfjarðasamgangna eru tillögur þessar: Lagt er til, að framlag til Loðmundarfjarðarbáts verði hækkað úr 35 þús. kr. í 42 þús. kr. og framlag til Mjóafjarðarbáts úr 87 þús. í 90 þús. kr. og þá er ráð fyrir gert, að báturinn haldi uppi ferðum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar með líkum hætti og á s.l. ári.

Til Suðurlands- og Vestmannaeyjasamgangna eru tillögur n. þessar: Að framlög vegna vöruflutninga í Vestur-Skaftafellssýslu verði hækkuð úr 225 þús. í 270 þús. kr. og framlög vegna vöruflutninga til Öræfa og bátaferða í Austur-Skaftafellssýslu hækki úr 100 þús. kr. í 120 þús. kr. Á. síðasta árs fjárl. var veitt til Vestmannaeyja- og Þorlákshafnarbáts 400 þús. kr. framlag úr ríkissjóði, sem aðallega byggðist á þörfinni á mjólkurflutningum til Vestmannaeyja. Skipaútgerð ríkisins hefur frá því í desember s.l. tekið að sér flutninga milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur með hinu nýja skipi sínu Herjólfi og annast jafnframt allan mjólkurflutning fyrir Vestmanneyinga. Nefndin hefur þó fallizt á að mæla með því, að veittar verði 150 þús. kr. á þessu ári til Vestmannaeyjabáts vegna mjólkurflutninga.

Um Faxaflóasamgöngur eru till. n. þessar: Framlag til Skallagríms h/f, sem naut framlags úr ríkissjóði á s.l. ári að fjárhæð 650 þús. kr. vegna ferða Akraborgar, verði hækkað á þessu ári upp í 850 þús. kr. — Þá leggur n. til, að Mýrabát verði veitt framlag á þessu ári að fjárhæð 4500 kr. í stað 3600 kr., sem báturinn fékk á s.l. ári.

Þá eru Breiðafjarðarsamgöngur. Flateyjarbátur fékk á s.l. ári rekstrarframlag að fjárhæð 170 þús. kr. og auk þess 65 þús. kr. vegna viðgerða á bátnum, fyrri greiðsluna. N. leggur til, að rekstrarframlagið verði hækkað í 200 þús. kr.; en af upphæðinni sé varið 20 þús. kr. til snjóbílsferða milli Fjarðar í Austur-Barðastrandarsýslu og Patreksfjarðar. Þá verði seinni greiðslan, 65 þús. kr. vegna viðgerðar á bátnum, einnig innt af hendi á þessu ári. — Stykkishólmsbátur naut á s.l. ári 500 þús. kr. rekstrarframlags og auk þess 75 þús. kr. upp í viðgerðarkostnað á bátnum. N. leggur til, að rekstrarframlag bátsins á þessu ári verði ákveðið 660 þús. kr. Það var töluvert rætt um þennan bát, sérstaklega með það í huga að reyna að fá stærri og betri bát fyrir Breiðafjarðarsamgöngur. Þessi bátur getur í raun og veru hvergi nærri fullnægt flutningaþörf Breiðafjarðar, og það er sameiginlegt álit samgmn. og forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, að það sé mikil þörf á því að fá annað betra og stærra skip í þessar ferðir, og ég held einnig, að eigendur mótorbátsins Baldurs séu á sömu skoðun. Forstjóri Skipaútgerðarinnar hefur sérstaklega í huga, að ef hægt væri að koma þessu til leiðar, mundi Skipaútgerðin einnig losna við að láta Skjaldbreið ganga á Breiðafjörð. Þá gæti þetta nýja skip, stærra og betra skip, sinnt algerlega flutningaþörf Breiðfirðinga. Þetta er mál, sem verður ábyggilega rætt mikið á þessu og næsta ári, og geri ég mér vonir um, að einhver árangur náist um framkvæmd þess.

Þá leggur n. til, að framlag til Langeyjarnesbáts verði hækkað úr 25 þús. kr. í 30 þús. kr. og auk þess verði eiganda bátsins veitt 20 þús. kr. framlag vegna vélakaupa og til endurbyggingar á bátnum.

Til Vestfjarðasamgangna eru till. n. þessar: Veitt var til Djúpbátsins 560 þús. kr. framlag á fjárl. s.l. árs. Leggur n. til, að framlagið verði hækkað upp í 660 þús. kr. á þessu ári. — Þá leggur n. til, að sama framlag og greitt var á s.l. ári, 10 þús. kr., verði greitt á þessu ári til Arnarfjarðarbáts og Dýrafjarðarbáts. Framlag til Patreksfjarðarbáts hækki úr 3000 kr. í 3500 kr. — Þetta eru till. n. í sambandi við framlög til flóabáta og til vöruflutninga.

Þá segir loks í nál.: „N. leggur til, að þeir aðilar, sem hljóta véla-, viðgerða- eða byggingarstyrki, skuli skuldbinda sig til að taka ekki viðkomandi skip úr siglingum þeim, sem það er styrkt til, næstu fimm ár, nema styrkurinn verði endurgreiddur.“ Þetta virðist vera eðlileg till. og hlýtur að sjálfsögðu samþykki Alþingis. Það eru nokkuð mörg dæmi þess, að ríkissjóður hefur lagt allmikið fé fram til viðgerðar á bátum og til vélakaupa og svo kannske næsta ár, eftir að ríkissjóður hefur lagt fram í 2–3 ár allverulegar upphæðir, er viðkomandi bát ráðstafað eða hann seldur og ríkissjóður hefur ekki haft neina möguleika á að endurkrefja þau fjárframlög, sem hann þannig hefur lagt fram. Ég tel því sjálfsagt, að þessi till. verði samþykkt.

Samkv. framangreindum till. samvn. samgm. nema framlög til flóabáta og vöruflutninga í heild 4091500 kr. Er það 485900 kr. hærri upphæð en greidd var í þessu skyni á fjárlögum s.l. árs.

Ég hef hér á vegum samvn. samgm. rætt að nokkru till. n. varðandi framlög ríkissjóðs til rekstrar flóabáta og til vöruflutninga á yfirstandandi ári. Væntir n. þess, að hv. alþm. geti veitt stuðning sinn við þessar till. n. og greiði þeim atkv., er þær verða bornar upp hér til samþykktar á hinu háa Alþingi.