30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Fjmrh. ( Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í ræðum hv. framsóknarmanna hér í dag hefur margt fróðlegt komið fram. Einn þeirra las í nærri klukkustund úr búnaðarritinu Frey ýmsan fróðleik, annar þeirra lýsti því, að það mundi æðsta ósk stjórnarliðsins að senda spútnik til tunglsins með allan þingheim, og síðasti ræðumaðurinn hér ræddi allýtarlega um mataruppskriftir úr Morgunblaðinu fyrir aldarfjórðungi. Þegar menn hlusta á þetta allt saman, þá kynnu kannske einhverjir að spyrja: Hvaða mál er hér á dagskrá? Ég vil fyrir þá, sem virðast ekki hafa fylgzt nákvæmlega með því, taka það fram, að hér er á dagskrá frv. til laga um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1960.

Inn í umr, um þetta mál hefur þó fleira spunnizt en þessi þrjú atriði, sem ég nefndi. En það má segja, að meginuppistaðan í ræðum stjórnarandstæðinga hafi verið það reginhneyksli og þingræðis- og lýðræðisbrot að þeirra dómi, að til standi að hafa þinghlé um skeið, og ríkisstj. er lýst sem einhverjum einræðissegg í fornum stíl, sem ætli að reka þingið heim, eins og hver þm. segir eftir annan: Ríkisstj. sýnir það einræðisbrölt að ætla að reka þingmennina heim.

Hvað er það, sem hér er um að ræða? Það, sem um er að ræða, er það, að hæstv. forsrh. hefur borið fram till. um það, að Alþingi fallist á að fresta fundum Alþingis fram í janúarmánuð. Ríkisstj. sendir ekki þingið heim upp á sitt eindæmi, og það er furðulegt, að hv. þm. skuli flytja hér slíkar fjarstæður. Það verður ekkert hlé gert á fundum Alþingis, nema meiri hluti Alþingis ákveði það sjálfur. Meiri hl. Alþingis telur, að það séu heppileg og skynsamleg vinnubrögð að taka þinghlé fram yfir áramót. Og hvers vegna? Vegna þess, að ný ríkisstjórn var ekki mynduð fyrr en sama daginn og þingið kom saman, og henni hefur af eðlilegum ástæðum ekki unnizt tími til þess að ganga frá þeim víðtæku till. og frv. um efnahagsráðstafanir, sem nú þarf að leggja fyrir þingið. Þau frv. geta ekki verið tilbúin fyrr en eftir áramót. Af þeim ástæðum hefur bæði ríkisstj. og þeir þm., sem styðja hana og eru meiri hl. þings, verið á einu máli um, að það séu æskilegri vinnubrögð að hafa nú hlé, fresta fundum þingsins um skeið, meðan ríkisstj. er að undirbúa þessar till.

Mig furðar satt að segja á málflutningi hv. stjórnarandstæðinga, þegar þeir halda hér ræðu eftir ræðu og vilja slá því föstu, að ríkisstj., þessi einræðisstjórn, ætli að reka þingið heim gegn vilja þess. Þegar málið liggur þannig fyrir, að ekki aðeins ríkisstj., heldur og meiri hl. Alþingis óskar þess að viðhafa þessi vinnubrögð og fresta fundum Alþ., er það þá lýðræði og þingræði, að minni hl. eigi að ráða, hvar og hvenær Alþ. starfar? Er það lýðræði, að minni hl. Alþingis eigi að segja til um það, hvort þingfrestun verði eða ekki og hversu lengi hún eigi að standa? Mér finnst þessar lýðræðishugmyndir orðnar svo brenglaðar hjá hv. stjórnarandstæðingum, að maður fær varla skilið, að þeir skuli finna köllun hjá sér til þess dag eftir dag og jafnvel fram á nætur að flytja slíkar ræður eins og þessar. Hér er aðeins spurt um það eitt, hver séu heppilegust vinnubrögð.

Í beinu framhaldi af þessu hefur það einnig verið talið rétt og nauðsynlegt að fresta afgreiðslu fjárlaga fram yfir áramót, og þess vegna er þetta frv, fram borið. Fjárlög er að sjálfsögðu ekki hægt að afgreiða á svona skömmum tíma, og sérstaklega vil ég taka það fram aftur, sem ég hef gert raunar hér áður í umr., að efnahagsráðstafanirnar og fjárlögin eru svo nátengd, að þetta hvort tveggja verður auðvitað að vinnast saman. Hér er því um skynsamleg og eðlileg vinnubrögð að ræða og í fullu samræmi við venjur og lýðræði.

Því hefur einnig verið haldið hér fram, að ríkisstj. ætli einnig að fremja allt að því stjórnarskrárbrot, eins og sumir hafa sagt, eða a.m.k. þingræðisbrot að leggja ekki fyrir Alþingi fyrir hléið brbl. um verð landbúnaðarvaranna. Nú er að vísu ekki skylt að leggja brbl. fyrir Alþ., strax og það kemur saman, og oft og tíðum hafa brbl. ekki verið lögð fyrir þing, fyrr en allmikið var liðið á þingtímann og jafnvel undir þinglok. Það er ekki heldur skylt að leggja brbl. fyrir þingið fyrir þinghlé. Engu að síður vil ég taka það fram alveg skýrt, að brbl. um verð landbúnaðarvara verða lögð fyrir Alþ., áður en fundum þess verður frestað.

Hér liggur fyrir ein brtt., sem skýrð hefur verið, um það, að ríkisstj. skuli heimilt að greiða 3.18% verðhækkun á afurðaverð landbúnaðarins o.s.frv., brtt. á þskj. 32. Nú er það svo, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er frá orði til orðs samhljóða lögum, sem sett hafa verið oft á undanförnum árum um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, þegar ekki hefur verið unnt að afgreiða fjárlög fyrir áramót. Mér vitanlega hefur það aldrei komið fyrir, að í slík lög hafi verið teknar upp einstakar fjárveitingar. Þegar af þeirri ástæðu tel ég ekki rétt að fara að samþykkja inn í þessi lög, sem eru raunar alveg hefðbundin og eru orði til orðs shlj. þeim, sem áður hafa verið samþykkt, að taka inn í þau einstakar fjárveitingar og því ekki unnt að samþykkja þessa till.

Sérstaklega vil ég benda á það, að hv. framsóknarmönnum hefur orðið hér í þessum umr. ákaflega tíðrætt um þingvenjur, og það virðist vera þeim mjög hjartfólgið mál, að þær séu virtar. Ég held, að þeir ættu þá í þessu efni líka að halda sér við þá föstu þingvenju að samþ. það frv., sem hér liggur fyrir, óbreytt.