25.02.1960
Neðri deild: 36. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

65. mál, almannatryggingar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Við höfum oft fengið að heyra það í sambandi við meðferð frv. um efnahagsmál, að miklar sárabætur ættu að koma til þess að draga úr þeim þungu búsifjum, sem sjálf efnahagslöggjöfin bakaði mönnum, og hefur þá sérstaklega verið vitnað til, að ellistyrkur ætti að hækka um 44% og örorkulífeyrir þar með og að miklar bætur ættu að koma til barnmargra fjölskyldna í formi fjölskyldubóta.

Nú höfum við fengið að sjá þetta í þessu frv., og það er vissulega rétt, að ellilífeyririnn hækkar, eins og frá hefur verið skýrt, um 44%, og örorkulífeyririnn einnig og breytingarnar á fjölskyldubótunum eru einn stærsti útgjaldaliðurinn við þetta frv.

Hins vegar er það nú svo, eins og hæstv. félmrh. tók hér fram áðan, að breytingarnar á lífeyristryggingunum samkvæmt þessu frv. eru að mestu leyti undirbyggðar af milliþn., sem fjallaði um þá þætti tryggingamálanna, og breyt. á slysatryggingunum að mestu leyti í samræmi við niðurstöður milliþn. einnig, sem starfaði að endurskoðun þess þáttar af almannatryggingunum.

Hvorar tveggja breytingarnar eru til stórbóta, og það má því segja, eins og hv. 1. þm. Vestf. nefndi það hér áðan, að hér sé um heildarendurskoðun að ræða á tryggingalöggjöfinni.

Ég verð að segja það, að þótt ég fagni þeim hækkunum, sem hér verða, þá óttast ég það, að þær afleiðingar efnahagsmálalöggjafarinnar, sem koma til með að skella á hverjum þjóðareinstaklingi nú eftir nokkrar vikur, muni að miklu leyti éta upp þær kjarabætur, sem í þessu frv. felast, og er það mjög miður. Þarna hefðu þurft að verða á verulegar og varanlegar kjarabætur til handa gamalmennum, öryrkjum og hinum barnmörgu fjölskyldum í landinu og þeim, sem verða fyrir slysum og á annan hátt eru hjálparþurfi í þjóðfélaginu. En ég er sem sagt því miður hræddur um, að þessi aðstoð verði skammvinn, þ.e.a.s. að hún étist fljótt upp að mestu leyti af hinum þungu búsifjum gengislækkunarinnar og efnahagsmálalöggjafarinnar nýju yfirleitt.

Ég vil taka undir það með hv. 1. þm. Vestf., að ég hefði vænzt þess, að með þessari heildarendurskoðun tryggingalöggjafarinnar yrði landið gert að einu verðlagssvæði. Ég hef margsinnis flutt tillögur um það, að hætt væri við að skipta landinu í tvö verðlagssvæði, og hef talið, að það séu mjög mörg ár síðan þær breytingar hefðu gerzt í okkar þjóðfélagi, að gild rök væru fallin burt fyrir því að skipta landinu í tvö verðlagssvæði með 20–25% mismun á bótum og iðgjöldum. Ég veit að vísu, að það var leitað til sveitarstjórnanna í landinu, þegar seinasta endurskoðun fór fram, og meiri hluti sveitarstjórnanna mun hafa mælt með því, að haldið væri áfram að skipta landinu í tvö verðlagssvæði. En það var líka mikill hluti af sveitarstjórnunum, sem engu svaraði, og svörin voru þess vegna ekki mjög sannfærandi, þó að naumur meiri hl. þeirra sveitarstjórna, sem svöruðu, væri með því að skipta landinu í tvö svæði. Rökin fyrir því að skipta landinu í tvö verðlagssvæði hljóta að hafa verið tvenns konar:

Í fyrsta lagi, að það væri dýrara að lifa í hinum stærri kaupstöðum, og þess vegna ættu þeir að fá hærri bætur, þeir sem þar byggju. Rök þau, sem hv. 1. þm. Vestf. færði hér fram áðan um það, að það væri eins dýrt að lifa úti á landsbyggðinni og hér, eru fullgild. Það veit hver maður, að vara, sem flutt er inn til Reykjavíkur og siðan á að flytjast þaðan út um landið, hleður á sig auknum kostnaði og verður dýrari. Það er t.d. vitað, að kolatonnið, þegar það er komið hér austur á Suðurlandsundirlendið frá Reykjavík, það er orðið nokkrum hundruðum króna dýrara en það er hér, og eldsneytið er nokkuð stór liður í framfærslukostnaðinum. Allar matvörur bæta á sig auknum kostnaði við það að vera fluttar yfirleitt hér til Reykjavíkur fyrst og síðan fluttar út um landið. Það, að húsnæðið sé ódýrara úti á landi, þau rök standast ekki, nema því aðeins að miðað sé við fullkomið húsnæði hér og lélegt húsnæði úti á landsbyggðinni. En það eru að öllu leyti fyllstu rök fyrir því, að það sé eins dýrt að byggja hús úti á landsbyggðinni og hér, og öll rök mæla raunar fyrir því, að það hljóti að vera dýrara, bæði verður öll þungavara til bygginga dýrari, þegar hún er komin út á landið, og svo mætti ætla, að tæknin væri fullkomnari hér í Reykjavík heldur en víða úti um landið og vinnubrögðin þannig, að þau gætu dregið úr kostnaði við byggingarnar í fjölmenninu.

En hin rökin eru þau, að þegar ákvæðin voru sett um tvö verðlagssvæði, þá var það algild regla, að kaupgjald var hæst í Reykjavík, nokkru lægra í kaupstöðunum úti um land og lægst í þorpunum úti um land. En nú eru nokkur ár liðin síðan kaupgjald er nákvæmlega það sama í hinum smæstu þorpum úti um landið og í kaupstöðunum úti um landið eins og í Reykjavík, og það ætti að sýna, að menn hafa yfirleitt sams konar tekjur. Ef atvinnulífið stendur ekki veikari fótum þar en hér, þá hafa menn alveg sams konar möguleika til þess að greiða jafnhá iðgjöld í þeim hluta landsins, sem nú er látinn heita annað verðlagssvæði og er með lægri iðgjöldum, en kemur líka fram í því, að allar bætur verða þar 20 eða 25% lægri en á hinu svokallaða fyrsta verðlagssvæði.

Þegar þess vegna litið er á hvor tveggja rökin, kaupgjaldið og þar með getu manna til þess að greiða sömu iðgjöld og greiða skuli í þéttbýlinu og vöruverðið hins vegar, kostnaðinn við að lifa, og komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé sízt minni kostnaður úti um landið, þá er þetta orðin endileysa, og ég furða mig á því, að þetta skuli ekki lagað, þegar löggjöfin er nú endurskoðuð gagngert, rækilega.

Þá eru það, eins og hv. 1. þm. Vestf. minntist á áðan, skerðingarákvæðin. Þau eru orðin svo hvimleið og viðurkennd sem svo tilfinnanlegt ranglæti, að það er leitun á manni, sem vill mæla skerðingarákvæðunum bót. Svo kemur hér frv., þar sem er um gagngera endurskoðun á tryggingalöggjöfinni að ræða, og ekkert ákvæði um það að afnema skerðingarákvæðin. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi talað um, að það þyrfti að taka það atriði sérstaklega til athugunar síðar á þessu ári, rétt ofan í allsherjar endurskoðunina. Það er vissulega rétt, að það eru nú í gildi ákvæði um það, að í árslok 1960, held ég, skuli skerðingarákvæðin falla burt, ef ekki komi sérstök ákvæði til. Það er þannig að vísu rétt, að sá tími styttist, þangað til þau eiga að falla niður, skerðingarákvæðin. En það er búið að framlengja þessi skerðingarákvæði hvað eftir annað, eins og hér var minnt á áðan, og þetta sýnist vera hið lífseigasta kvikindi af öllum kvikindum í okkar landi. Mér finnst því bóla á því, og ég óttast það, að það sé ætlunin að framlengja skerðingarákvæðin með einhverjum sérstökum aðgerðum, eftir að allsherjar- og heildarendurskoðunin hefur farið fram. Ég mun því freista þess að fá skerðingarákvæðin afnumin nú við afgreiðslu málsins hér á þingi í sambandi við þessa heildarendurskoðun. Ég tel það sóma þingsins, en ekki vansæmd, að ganga nú endanlega af skerðingarákvæðunum dauðum og því ranglæti, sem í þeim felst, en eiga ekkert á hættu með það, að þau verði kannske framlengd undir árslokin.

Ég held, að um þau fjárhagsútgjöld, sem óneitanlega fylgja því að afnema skerðingarákvæðin, sé langbezt, að Alþ. það, sem nú situr og fjallar um tryggingalöggjöfina í heild, stórkostlegar breytingar á tekjum og gjöldum trygginganna, horfist í augu við þann vanda nú líka og reyni að sjá fram úr því, hvernig það getur staðið af sér að taka á sig þau auknu útgjöld, sem fylgja afnámi skerðingarákvæðanna. Mér þætti líka heldur syrta í álinn með afnám skerðingarákvæðanna, ef tillögur, sem kæmu nú fram í sambandi við þessa heildarendurskoðun um afnám skerðingarákvæðanna, yrðu felldar, þá mætti þegar sjá, að það væri ráðið að afnema þau ekki síðar á árinu.

Ég tók eftir því, að hæstv. félmrh. sagði hér áðan, og virtist mér hann þar vera að túlka sína persónulegu skoðun, að hann teldi, að það væri mjög vafasamt, að skipting landsins í tvö verðlagssvæði ætti lengur rétt á sér, og heyrði ekki betur en hann væri miklu fremur inni á því, að landið ætti, eins og nú stæðu sakir; að vera eitt verðlagssvæði með jöfnum iðgjöldum og jöfnum bótagreiðslum, hvar sem menn eru búsettir á landinu, og ég vænti þess vegna, að frá hans hendi komi stuðningur við þá skoðun mína og hv. 1. þm. Vestf., að landið eigi nú að vera eitt verðlagssvæði, hvort sem litið er á kostnaðinn við að lifa á hinum ýmsu stöðum í landinu eða getuna til þess að greiða hin sömu iðgjöld, og önnur rök geta þar varla komið til greina. Um skerðingarákvæðin, um afstöðu hans til þeirra, heyrði ég ekki neitt á honum, en það er sem sé rétt, að um það, hvort þau eiga að halda áfram eða afnemast verður að taka ákvörðun, áður en þetta ár er liðið, — eða réttara sagt, ég tel sjálfsagt að ganga svo frá löggjöfinni nú, að þau verði afnumin, enda held ég, að frambjóðendur allra flokka hafi mjög lýst því yfir fyrir kosningarnar í haust, að þeir væru því efnislega fylgjandi, að skerðingarákvæðin yrðu afnumin. Og þá skýtur skökku við, þegar heildarendurskoðun á tryggingalöggjöfinni fer fram nokkrum vikum síðar, ef þm. sömu flokka stæðu ekki við þessar yfirlýsingar, sem hafa verið gefnar mjög víða um land fyrir kosningarnar, og einmitt þá með tilliti til þess, að gamla fólkið skyldi vita, hver afstaða þeirra væri til þessa viðkvæma máls.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að fjölskyldubæturnar eru stærsti útgjaldaliðurinn eða hækka mest allra gjaldaliða trygginganna, og það gerist aðallega við þessa breyt., að nú er ætlunin að borga 2600 kr. með öllum börnum, fyrsta barni hjá hjónum jafnt og með því tíunda, og það má vissulega deila um réttlætið í því. Það má líka deila um, hvort það er nokkurt vit í því sem félagsmálalegri aðgerð að haga þessu svo, og mér er nær að halda, að fólk yfirleitt segi sem svo: Það var engin brýn þörf á því að fara að greiða með fyrsta og öðru barni. — Þetta hefur verið gert áður, að greiða með öðru barni, og það naut lítilla vinsælda. Fólk var heldur hneykslað á því að vera að hlaupa undir bagga af þjóðfélagsins hendi með hjónum, sem ættu tvö börn. Og ég er þeirrar skoðunar, að félagsmálalega þýðingu, sósíala þýðingu hafi þetta ekki, en þetta veldur náttúrlega gífurlegum útgjöldum. Meginhlutinn af þeirri svimháu upphæð, sem fer til fjölskyldubótanna, fer til þessara fjölskyldna, því að þau hjón eru náttúrlega lang-langflest í landinu, sem eru með 1, 2 og 3 börn. Hinar fjölskyldurnar eru miklu færri, sem eru með 7, 8, 9 og 10 börn, en það eru þær fjölskyldur, sem hefðu þurft að fá hinar meiri háttar hækkanir á fjölskyldubótunum. En eins og lögin eru núna, eru fullkomnar fjölskyldubætur ekki komnar fyrr en með fjórða barni og svo upp úr, eftir því sem þeim fjölgar, en hækkanirnar, sem nú verða á 4., 5. og 6. barn o.s.frv., eru sáralitlar. Ég held, að þær séu eitthvað á þriðja hundraði króna eða eitthvað svoleiðis, miðað við það, sem nú er, sáralítil upphæð, sem hækkar með 4., 5. og 6. barni og hvað sem börnunum fjölgar eftir það. Meginhlutinn af þessari háu upphæð, sem fjölskyldubæturnar hækka, en þær hækka upp í 153 millj, úr 27, fer til hjóna með fá börn, en hækkanirnar eru minnstar hjá hjónunum með stóra barnahópinn, og þar að auki eru þær fjölskyldur mjög fáar, samanborið við hinar, og fá þannig mjög lítinn hluta af þessari gífurlegu gjaldahækkun hjá tryggingunum.

Ég hefði haldið, að þarna væri ástæða til þess að breyta um prinsip, — ef ekki hætta alveg við þá tilhugsun að greiða með fyrsta og öðru barni, þá a.m.k. að setja þar inn ákvæði um það, að menn yfir ákveðið tekjumark fengju ekki greiðslur með fyrsta, öðru eða jafnvel þriðja barni, og það væri þá eingöngu fólk með mjög lágar tekjur, sem fengi greiðslu með fyrsta, öðru og þriðja barni. Ég held, að það sé ekki brot á neinum meginreglum hjá tryggingunum, þó að þessu væri hagað svo, því að í öðrum greinum trygginganna hafa verið reglur, þar sem sett hefur verið mark miðað við tekjur, og það meira að segja er svo samkv. skerðingarákvæðunum gagnvart gamalmennum. Ef gamalmennin höfðu víssa tekjuupphæð, misstu þau niður rétt sinn til greiðslna frá tryggingunum, og þá held ég, að það væri öllu réttlætanlegra að láta einhver slík skerðingarmörk vera í gildi gagnvart auðmönnum, sem ættu tvö eða þrjú börn. Það verður því ekki borið fyrir sig með fullgildum rökum, að slik skerðingarákvæði, sem koma í veg fyrir það, að eitt gangi yfir alla, sem til trygginganna greiði, séu slíkt brot á meginreglum trygginganna, að þau séu óframkvæmanleg, því að þá þarf ekki annað en vitna til skerðingarákvæðanna gagnvart gamalmennum og öryrkjum, sem hefði verið miklu nær að hafa sem takmörkun gagnvart hátekjumönnum eða stóreignamönnum.

Ég játa það hins vegar, að þetta frv. færir okkur sjálfsagt miklu nær þeim þjóðum, sem hafa tryggingamál sín í góðu lagi, eins og t. d. Danmörk og Svíþjóð, en þó virðist mér, að það sé það knappasta, að við náum þeirra stöðu eftir breytingarnar, sem hér eru lagðar til. En við vorum komin langt, langt aftur úr, eins og sést hér í grg. með frv., að við höfðum aðeins 17% í bótagreiðslum hjá tryggingunum miðað við laun verkamanna, þegar Danmörk hafði 30.2% og Svíþjóð 35%, og varðandi hjón vorum við með 27.3% , þegar Danmörk hafði 45.4% og Svíþjóð 46.7%. En við færumst þarna mjög nálægt þessum þjóðum, og hefði sjálfsagt verið talsvert til þess að stæra sig af að geta náð þessum þjóðum eða því sem næst, að því er snertir að gera vel til gamalmenna, öryrkja og þeirra, sem slasast, greiðslur dánarbóta o.s.frv., ef sú geigvænlega dýrtíðarflóðalda, sem nú er verið að velta yfir þjóðina, væri ekki að skella yfir eiginlega á sömu stundu og við gerum þessar breytingar á okkar tryggingalöggjöf og skola þannig mjög miklu af þessum endurbótum í burt, eins og flóðalda væri þar að verki.

Ég skal svo láta máli mínu lokið. Ég mun freista þess í n. og síðar hér í þinginu, ef n. fengist ekki til þess að fallast á mín sjónarmið, — ég mun í fyrsta lagi beita mér fyrir því, að landið verði eitt, en ekki tvö verðlagssvæði, og ég mun ákveðið freista þess að koma inn ákvæði um það, að skerðingarákvæðin gagnvart gamalmennum og öryrkjum verði felld í burtu í sambandi við þessa endurskoðun l. og alls ekki tekin fyrir sem neitt sérstakt mál, þegar búið er að endurskoða lögin, og teldi það til bóta, að þau féllu niður nú með afgreiðslu þessa frv., jafnvel þótt maður ætti það víst, að þau féllu niður annars í árslokin, sem er þó engan veginn víst, þegar það væri hummað fram af sér nú í sambandi við þessa lagasetningu. Í þriðja lagi mun ég beita mér fyrir því, að það verði a.m.k. sett tekjuhámark hjá því fólki, sem eigi að fá fjölskyldubætur með fyrsta og öðru barni, en jafnvel láta athuga það rækilega, hvort ekki sé réttara að fella niður algerlega bætur með fyrsta og öðru barni og hækka eitthvað bæturnar til þeirra hjóna, sem hafa fjögur börn eða fleiri.