25.03.1960
Neðri deild: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1827 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

65. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Vegna tilmæla, sem mér bárust í gær við 2. umr., tók ég aftur til þessarar umr. brtt., sem ég hef flutt á þskj. 231. Tilmælin voru fram borin eingöngu vegna þess, að ég hygg, að menn hafi ekki fyllilega áttað sig á, hvað þarna væri um að ræða, og. skal ég þess vegna aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir því.

Ef menn fletta upp í aths. við 23. gr. frv., sjá menn, hvað þarna er um að ræða, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú, þegar fyrirhuguð er gagngerð breyt. á skattakerfi ríkisins, sem m.a. gerir ráð fyrir því, að allir verði undanþegnir greiðslu tekjuskatts, sem ekki hafi meiri laun en almennar launatekjur, svo að skattleysingjum fjölgar um tugi þúsunda, þykir ekki rétt að veita öllum þeim iðgjaldagreiðendum, sem verða nú skattleysingjar, skilyrðislausan rétt til þess, að sveitarsjóðir greiði fyrir þá iðgjöld. Slíkt væri mikil ofrausn. T.d. verða hjón með fjögur börn nú tekjuskattslaus, þó að þau hafi 110 þús. kr. hreinar tekjur á ári. Lagt er til, að viðmiðunin verði hin sama og hún var s.l. ár, þ.e. þeir, sem væru skattleysingjar nú að óbreyttum lögum, eigi rétt til þess, að sveitarsjóður greiði iðgjöld fyrir þá nú eins og áður. Má því segja, að efnahagsviðmiðun frvgr. sé hin sama að efni til og gilt hefur til þessa.“

Tölurnar í frv., sem ég legg til að verði breytt, eru 7000 kr., í stað þess á að koma 11150 kr., og í stað 15400 kr. á að koma 20350 kr. Þessi breyt. er gerð samkv. upplýsingum skattstofunnar, sem þeir hafa báðir kynnt sér, að séu réttar, ráðuneytisstjórinn í félmrn. og forstjóri almannatrygginga. Til þess að gr. nái þeim tilgangi, að þarna sé miðað við óbreytt ástand frá síðasta ári, er þessi breyt. nauðsynleg og nánast aðeins leiðrétting.