30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera hér stutta aths. út af ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) hér áðan. Þessi hv. þm. var að ásaka okkur Alþýðuflokksmenn fyrir það, að við læsum aðeins framhaldssögur í Morgunblaðinu. Þarna sneri þessi hv. þm. sannleikanum alveg við. Ég óskaði eftir því í ræðu minni í dag, að ef lesið væri hér meira úr Morgunbl., þá læsu þeir framhaldssöguna, af þeim ástæðum vitanlega tvennum, að við höfum ekki heyrt hana og okkur langar ekkert til þess, að það sé lesið aftur, sem við höfum áður kynnt okkur og lesið, og svo jafnframt vegna þess, að framhaldssagan er miklu skemmtilegri en margt annað, sem í blaðinu stendur, þannig að við óskuðum einmitt eftir því af því að heyra framhaldssöguna, að hún er ólesin af okkar hálfu, en ekki híð gagnstæða, eins og hver maður hlýtur að skilja.

Þá sagði þessi sami hv. þm., að Alþfl. hefði verið búinn að týna sínum gömlu hugsjónum og þá hefði Framsfl. komið 1956 eins og einhver miskunnsamur Samverji til þess að hjálpa honum. Ég vil nú minna á, að ein af þessum gömlu hugsjónum Alþfl. var að réttlæta kjördæmaskipunina og jafna kosningarréttinn. Finnst nú þessum hv. þm. Framsfl., að Alþfl. hafi týnt þessari hugsjón, og hefur kannske Framsfl. hjálpað Alþfl. til þess að finna þessa hugsjón á nýjan leik? Það er mjög undarlegt að heyra þessa kenningu. Það vita allir, að 1956, þegar Framsfl. og Alþfl. gengu í kosningabandalag, þá var það af hálfu þessara flokka beggja hugsað sem sigurbandalag. En nú kemur hv. þm. framsóknarmanna og segir, að þetta hafi bara átt að vera einhver aðstoð við dauðvona flokk. Það var ekki aldeilis að heyra á Tímanum fyrir kosningarnar 1956, að þetta væri dauðvona flokkur, sem þeir framsóknarmenn væru búnir að slá sér saman við.

Það þýðir ekkert fyrir þennan hv. þm. og aðra fleiri að vera sífellt að tönnlast á því, að Sjálfstfl. hafi húsbóndavaldið yfir Alþfl. Þeir verða að nefna einhver dæmi, svo að hægt sé að rökræða þetta alveg út í æsar og nákvæmlega. En hins vegar er þetta nokkuð skiljanlegt. Framsóknarmönnum sárnar nefnilega, að Alþfl., þessum litla flokki og þessum dauðvona flokki, sem þeir nú eru farnir að kalla, og þessum flokki, sem hefur týnt hugsjónum sínum, skyldi takast það, sem vinstri stjórninni undir forustu Framsfl. mistókst. Þetta sárnar þeim, og þess vegna gera þeir hróp að okkur Alþýðuflokksmönnum og segja, að við séum bara þjónar íhaldsins og séum undir húsbóndavaldi þess.

Fyrir um það bil ári, skömmu áður en vinstri stjórnin fór frá og þegar mikil verðbólguskriða var komin af stað á nýjan leik, höfðu allir þessir þrír flokkar, sem að vinstri stjórninni stóðu, lagt fram í ríkisstj. sínar efnahagsmálatillögur. Það var í raun og veru tiltölulega litill munur á efnahagsmálatill. Alþfl. og Framsfl. Kommúnistar vildu hins vegar ekki viðurkenna staðreyndir og voru með nokkuð ólíkar og óraunhæfar tillögur. Alþfl, vildi, að Framsfl. og Alþfl. reyndu að samræma sín sjónarmið, sem hefði vissulega ekki átt að vera erfitt, og svo væru þær till. lagðar fyrir Alþingi og það þá látið ráðast, hvort kommúnistar gengju í lið með Sjálfstfl. og felldu vinstri stjórnina. Nei, þetta vildu forustumenn Framsfl. ekki. Þeir virtust meta meira vínáttuna við kommúnista en lif vinstri stjórnarinnar, og það er, held ég, sú óþreyja hjartans, sem þessi hv. þm. var að lýsa, það er ást framsóknarmanna á kommúnistum.

Ég verð líka að hryggja þennan hv. þm. með því, að fimmburarnir eru ekki dánir. hvert á móti, þessir fimmburar eru aðeins komnir í eina vöggu, og þeir lifa góðu lífi. Og í staðinn fyrir, að þeir hefðu kannske, eins og hér var málum háttað áður, verið brautskráðir einn og einn, þá verða þeir nú eftir góðri ósk foreldranna brautskráðir allir í einu úr þessari fæðingardeild þrátt fyrir bágborin ljósmóðurstörf hv. 1. þm. Norðurl. e. og hans líka.