26.03.1960
Efri deild: 47. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

65. mál, almannatryggingar

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni þess, sem hæstv. félmrh, beindi til mín áðan. E.t.v. fór hann nú ekki alveg rétt með mín ummæli. Ég sagði, að slík launakjör væru auðvitað fyrir neðan virðingu siðaðs þjóðfélags, en talaði ekki um tryggingar eða stefnu í tryggingamálum. Það má um það deila, hvort tryggingastarfsemi eigi að ná svo langt, að greiddar séu fjölskyldubætur með fyrsta barni. Það má líka taka upp það nýmæli að greiða fjölskyldubætur með fyrsta barni af fleiri en einni ástæðu. Það má t.d. og mun gert í sumum löndum að greiða fjölskyldubætur með fyrsta barni þegar í því skyni einu að örva til fólksfjölgunar í landinu. Þá er það gert af þeirri ákveðnu ástæðu. Svo má líka gera það, þegar þannig stendur á í landinu, að launakjörin séu svo aum almennt í þjóðfélaginu, að það sé litið á, að láglaunamaður geti ekki lifað með konu og eitt barn á framfæri án þess að fá sérstakan styrk, og þegar það verður að gerast, tel ég, að launakjörin í því landi, hvort sem það er hér eða annars staðar, séu fyrir neðan virðingu siðaðs þjóðfélags. Þetta var það, sem ég sagði, og þetta var það, sem ég meinti.

En úr því að ég er staðinn upp, langar mig til þess að beina fsp. til hæstv. félmrh. í tilefni af því, sem ég sagði áðan um sjúkradagpeninga. Ég efast ekki um, að þær upplýsingar, sem ég hafði fengið hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur nú í þessari viku, séu réttar. En samkv. þeim eru þær lágmarksupphæðir, sem nú eru greiddar, sjúkradagpeningar, örlitið hærri en þær, sem greiða á, þegar þetta frv. er orðið að lögum. Ég vil meina, að hér sé um einhverja glompu að ræða, sem hafi orðið óviljandi og beri því að athuga og leiðrétta. En hitt tekur auðvitað engu tali, að fara að lækka sjúkradagpeninga þeirra fjölskyldna, sem missa fyrirvinnuna frá vinnu um lengri eða skemmri tíma. Það er einnig mjög áberandi í þessu frv., hversu munurinn eykst á dagpeningum eftir því, hvort um sjúkradagpeninga eða slysadagpeninga er að ræða. Hvers vegna eiga slysadagpeningar að vera þrisvar sinnum meiri en sjúkradagpeningar? Ég vildi meina, að hér ætti að vera alveg jafnt, það ætti að greiða fjölskyldu jafnmikið, hvort sem um slys væri að ræða eða sjúkdóm. En munurinn hefur alltaf verið í þessu efni hér hjá okkur, en nú verður hann hálfu meiri en nokkru sinni, ef þessu ákvæði verður haldið um þá upphæð sjúkrapeninga, sem í frv. er tilgreind.