01.04.1960
Neðri deild: 60. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1896 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

60. mál, skipun prestakalla

Frsm. meiri hl. (Alfreð Gíslason bæjarfógeti):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hæstv. dóms- og kirkjumálarh. flytur að tilhlutan biskups og að beiðni hans, hefur menntmn. haft til meðferðar. Enginn ágreiningur hefur verið innan n. um meginefni frv., þ.e. heimild handa biskupi að ráða prestvígðan mann sem æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar. Um réttmæti og knýjandi þörf þessarar ráðstöfunar skal ég ekki fjölyrða, en læt mér nægja í því efni að vísa til framsöguræðu hæstv. dómsmrh. Æskulýðssamband Íslands og Æskulýðsráð Reykjavíkur hafa eindregið mælt með: samþykkt. frv. í bréfum til n. Við 1. umr. var því, hins vegar hreyft af hv. 1. þm. Vestf., Gísla Jónssyni, n. til athugunar, hvort ekki væri rétt, að prestakallasjóður yrði látinn standa straum af kostnaði við æskulýðsfulltrúa þennan og spara ríkissjóði þannig útgjöld í þessu sambandi.

Prestakallasjóður er stofnaður með lögum nr. 98 1933, og eru tekjur hans, svo sem lögin segja til, það fé, sem sparast, miðað við byrjunarlaun presta, þegar prestakall er prestslaust, svo að eigi komi til greiðslu embættislauna. Samkv.

l. um kirkjuráð, sem varðveitir sjóðinn, skal honum varið til að stuðla að frjálsri starfsemi til eflingar kristnilífi þjóðarinnar, mannúðarog líknarstarfsemi. Tilgangur löggjafarinnar um prestakallasjóð hefur eðlilega verið sá, að fé það, sem annars er ætlað til að standa straum af lögmæltri prestsþjónustu í söfnuðum landsins, en sparaðist að nokkru leyti vegna prestseklu, kæmi störfum þjóðkirkjunnar að notum að verulegu leyti, hvort sem prestsembætti hennar væru skipuð eða ekki á hverjum tíma. En nú má ekki skilja það svo, að byrjunarlaun prests renni óskert í prestakallasjóð, sé prestsembætti óskipað, heldur er reyndin sú, að þegar svo stendur á, er nágrannapresti að jafnaði falin prestsþjónusta gegn hálfum byrjunarlaunum, en hinn helmingur byrjunarlaunanna rennur í prestakallasjóð.

Að gefnu tilefni frá hv. 1. þm. Vestf. sendi menntmn. biskupi til umsagnar þá hugmynd, að prestakallasjóður greiddi laun æskulýðsfulltrúaans og þann kostnað, sem starf hans hefur í för með sér. Um það efni kemst biskup svo að orði m.a. í svarbréfi sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú hugmynd, að prestakallasjóður greiði laun æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar, er fjarstæða. Þjóðfélagslegar aðstæður hafa valdið því, að þessi sjóður hefur orðið til og vaxið nokkuð að tilstuðlan löggjafar, sem byggist á, því heilbrigða sjónarmiði, að tímabundnir skipulagslegir meinbugir á högum kirkjunnar í landinu skyldu ekki lama heildaraðstöðu hennar um skör fram, heldur skyldi henni búin nokkur aðstaða til mótvægis. Sjóðurinn hefur vaxið af orsökum, sem eru allt annað en æskilegar, og stefnan hlýtur að vera sú, að þær orsakir hverfi úr sögunni. En jafnframt hlýtur það að vera stefna kirkjuráðs, sem að lögum hefur umráð yfir þessum sjóði, að hann geti haldizt í horfi sem starfssjóður til nauðsynlegra ígripa. Meðferð kirkjuráðs á þessu fé á undanförnum árum hefur verið varkár, og tel ég, að til þess liggi fyrrgreindar orsakir. En allt um það hefur hann staðið undir ýmissi starfsemi, sem ekki hefði verið unnt að reka án hans. Er vert að hafa það í huga, að þetta eru bókstaflega einu fjármunirnir, sem þjóðkirkjan hefur til frjálsra afnota, þegar frá er talið samskotafé, sem aflað er til tiltekinna þarfa, almennra eða staðbundinna. Sem dæmi um starfsemi, sem kirkjuráð hefur styrkt af þessu fé, skal ég nefna útgáfu blaða og bóka, ferðastarf, heimsóknir í prestaköll og önnur afskekkt. byggðarlög, svo og í skóla, kvikmynda- og skuggamyndavélar til safnaðarstarfs, slysavarnir; sumarskóla óg sumarbúðir fyrir börn og unglinga.“

Margt fleira segir biskup í þessu bréfi sínu til nefndarinnar frumvarpinu til framdráttar og meðmæla, en ég sé ekki ástæðu til að rekja það frekar.

Menntmn. varð hins vegar ekki sammála um þetta atriði. Meiri hl. n. lítur svo á, að prestakallasjóði veiti ekki af því fé, sem hann hefur og aflar til sinna þarfa, til eflingar hins mikilvæga hlutverks, sem honum er ætlað. Enn fremur hlýtur þróunin að verða sú í framtíðinni, að grundvöllur sá, sem tekjuöflunin byggist á, hverfi úr sögunni að meira eða minna leyti, eftir því sem tímar líða. Enn fremur er það skoðun meiri hl. n., að það sé ekki nema sanngjarnt, að prestvígður æskulýðsfulltrúi þjóðkirkjunnar sé launaður á sama hátt og sóknarprestar, ekki sízt með tilliti til þess, að ríkissjóður sparar árlega stórfé á því, að fjöldi prestakalla er vegna fólksfjölgunar í landinu, einkum þó í kaupstöðum, í engu samræmi við það, sem gert er ráð fyrir í lögum. Þannig ætti t.d. hér í Reykjavík að bæta við fimm nýjum prestum, ef farið væri eftir ákvæðum laga í þessum efnum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál. En með skírskotun til þess, sem ég nú hef sagt, leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. óbreytt, og legg ég til, að frv. verði vísað til 3, umr.